Guðni Th. Jóhannesson er ekki einarður verjandi landsréttinda

Guðni Th. Jóhannesson.

Það er ekkert hald í Guðna. Hann er ljúfmenni, en var kjark­laus í Ice­save-mál­inu. Í stað skýrrar höfn­unar ljær hann svo máls á því, að Ísland geti geng­ið í ESB og að því geti fylgt "kostir".

Hann talar um að hann sé ekki [principielt] á móti því að sækja um að Ísland fari inn í Evrópusambandið, ef allar kröfur okkar verði uppfylltar, en þær gætu nú verið harla vægar af hálfu Samfylkingar-stýrðrar ríkisstjórnar!

Í viðtali einn innhringjandann á Útvarpi Sögu síðdegis á mánudag nefndi Guðni það sem einn "kost" við að fara inn í ESB, að við fengjum eitthvað annað en óstyrka krónu með háum vöxtum; en með þessu afhjúpaði hann í senn vanþekkingu sína (því að vel er hægt að setja lög um hámarksvexti hér án þess að fara inn í ESB*) og birti veikleika sinn fyrir Evrópu­sambandinu og að hann kippi sér ekkert upp við, að löggjöf þess yrði á öllum sviðum æðri okkar löggjöf, en okkar eigin lög yrðu víkjandi í hverju einasta tilfelli þar sem íslenzk og ESB-lög rækju hornin hvor í önnur.

Í viðtali Guðna við undirritaðan í sama þætti kom fram, að hann greiddi atkvæði með Buchheit-samningnum um Icesave, samningi sem væri nú búinn að kosta þjóðina 80 milljarða króna útgjöld í vexti, en í erlendum gjaldeyri, auk þess að koma í veg fyrir EFTA-sýknudóminn!

Þetta var ekki bara spurning um atkvæði þessara 40% sem létu blekkjast af áróðri til að trúa að við hefðum ekki réttinn og gætum ekki unnið málið fyrir EFTA-dómstólnum, heldur gerðust þeir þar með þátttakendur í atlögu Breta og Hollendinga og þýja þeirra að ríkissjóði Íslands og orðstír þjóðarinnar. 

Guðni kaus að að ganga ekki gegn straumi þeirra aðila sem voru hér olnboga­frekastir í málinu. En það gerði hins vegar Ólafur Ragnar Grímsson af alkunnri snilld og karlmennsku. Og það gerði reyndar Davíð Oddsson líka með glöggum leiðaraskrifum í Morgunblaðið og það jafnvel þótt mestallur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi greitt atkvæði með Buchheit-lögunum.

Forseti Íslands bjargaði málinu með grasrótinni og atfylgi þeirra 60% kjósenda, sem sýndu meira hugrekki og sjálfstæðishug en Guðni Th. Jóhannesson.

En umfram allt: Maðurinn er veikur fyrir Evrópusambandinu. Það er alger frágangssök fyrir forsetaframbjóðanda. Engin inngönguríki í ESB komast hjá því að framselja þangað æðsta og ráðandi löggjafarvald. Þeir menn eiga virkilega bágt sem skilja þetta ekki og hrikalegar afleiðingar slíks.

Það var þó síður en svo slæmt að fá þetta á hreint frá þessum frambjóðanda - þvert á móti nauðsynlegt að sjá, að við getum ekki kosið slíkan mann, því að forseta kjósum við fyrir hag og heill þjóðar okkar, ekki til að þókknast viðkomandi, þótt vel gefinn sé, eða til þess einfaldlega að svara brosi með brosi aulans.

* Sbr. ennfremur Má Wolfgang Mixa sem bendir á, að gæði lánveitinga á Íslandi hafa verið slök og að því hafi "stöðugt [þurft] að afskrifa allt of stóran hluta útlána. Slíkur kostnaður er dekkaður með því að hækka raunvexti fyrir alla hina." Nánar hér í grein: Hærri raunvextir hér en í nágrannaríkjum hafa ekkert með gjaldmiðil okkar að gera, sem byggist á upplýsingum frá Má Wolfgang Mixa.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Guðni Th. með afgerandi forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-málpípur á Íslandi eru málpípur fortíðar, ekki farsællar framtíðar. En tekst BREXIT þrátt fyrir óhemju-áróður?

Aumt á Halla Tómasdóttir frambjóðandi að vita ekki af því, að Evr­ópusam­bandið heyrir til með fortíð gamalla, íhlut­unar­samra stór­velda, ekki framtíð sjálf­stæðra, vax­andi smáþjóða. 

Það verður gaman að sjá svipinn á þessu ESB-liði, ef BREXIT tekst þrátt fyrir óheyrilegt áróðursfé sem Evrópu­sambandið eys í já-baráttu sína og Camerons í Bretlandi: 25 milljörð­um evra, þ.e.a.s. um 3.500 millj­örðum íslenzkra króna eða um 54.000 krónum íslenzkum á hvern íbúa Bretlands!

Ef naumt verður á mununum í atkvæða­greiðslunni, blasir við, að svo tröll­auk­inn áróður getur einmitt gert útslagið -- jafnvel hjá stórþjóð eins og Bretum!

Hvað verður þá um smærri þjóðir? -- Jú, það er þegar vitað, að Evrópu­sambandinu tókst einmitt slík áróðurs-atrenna að bæði Svíum og Tékkum, með naumum úrslitum, sem Svíar t.d. sáu fljótt eftir, en í sömu tilraun í Noregi rétt slapp sú þjóð við að láta innlimast.

Enn frekar þurfa Íslendingar að verða sér meðvitaðir um, að það gengur ekki, að við teflum fullveldinu í tvísýnu með því að láta bara nauman meirihluta ráða úrslitum, ef kosið yrði um inntöku Íslands í Evrópusambandið. Jafnvel til breytinga á Sambandslögunum þurfti 75% greiddra atkvæða. Að breyta frá sjálfstæðu, fullvalda lýðveldi til fullveldisskerts, lítt sjálfstæðs lands í megin­málum og opins fyrir erlendum útgerðum og fiskveiðum ESB-manna upp að 12 mílum a.m.k., það er engin smá-breyting, heldur risavaxin rétt eins og Gamli sáttmáli, þótt með öðrum hætti sé.

En einhver að minnsta kosti EIN stjórnarskrárbreyting þarf að verða hér á landi, þá er hún sú, að gerð verði lágmakskrafa um að 4/5 eða 3/4 atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi til að gera landið part af stórveldinu á megin­landinu.

Reyndar ætti hreinlega að banna slíka innlimun, enda eigum við ekki ein þetta land, heldur framtíðar-afkomendur okkar líka. Látum það ekki fara til spillis og verða verstöð erlendra fjármálafursta! Og höfnum TISA-samningnum, sem gerður er einmitt slíkum alþjóðlegum fjármálaöflum í hag!

PS. Annar pistill undirritaðs: Halla Tómasdóttir Icesave- og ESB-kona!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Val á milli fortíðar og framtíðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tyrkland, sem "færzt hefur nær alræðis­stjórn", virðist ætla að fá sínu framgengt um frjálsan aðgang Tyrkja um Schengen-lönd

... og það án vega­bréfs­árit­un­ar! Er þetta hluti af samn­ingi um að Tyrk­ir taki aft­ur við flótta- og far­and­fólki sem hef­ur farið þaðan til Grikk­lands. Skil­yrði fyrir sam­komu­laginu virð­ast af létt­úðar­ástæð­um ætla að hafa lítið vægi, "Realpolitik" látin ráða. Þar með fá 79 og hálf milljón Tyrkja þennan aðgang að Íslandi og Noregi rétt eins og að flestum ESB-löndum (þó ekki Bretlandi og Írlandi). Allstórt hlutfall tyrkneskra borgara er hlynnt hryðjuverka­hreyfingum, og þar að auki er líklegt, að slíkir aðilar meðal Sýrlendinga og Íraka geti aflað sér falskra vegabréfa og komist þannig inn í Tyrkland og síðan um allt Schengen-svæðið.

Óháð afstöðu Ísendinga til Evrópu­sambandsins eru mörg gild rök gegn því, að við höldum áfram að vera aðilar að Schengen-samkomulaginu. Varnar­hags­munir Íslands og Norðurlanda ættu að vera hér augljóst umhugsunarefni. Meintri vörn í Schengen-kerfinu er nú þegar að stórum hluta kastað fyrir róða með því að fella niður kröfur þess kerfis um vegabréfa­eftirlit, en Þýzkaland og Austurríki voru einmitt fyrir nokkrum dögum að leggja áherzlu á fram­lengingu undan­þágna sinna frá því að fram­fylgja Schengen-skyldum sínum.

Evr­ópu­sam­bandið ótt­ast, að án vega­bréfa­sam­komu­lags­ins muni Tyrk­land ekki koma bönd­um á straum fólks inn í álf­una, segir í frétt BBC um málið. En það, hversu auðveldlega Tyrklandi hefur gengið þetta á allra síðustu vikum (um 80% árangur náðst við að stöðva fólk í för þess til Grikklands), hafa menn einmitt séð sem merki þess, að fram að því hafi stjórn Erdogans í raun verið að beita Evrópusambandið þumalskrúfu (að stoppa ekki flóttamenn af, sem vel var hægt) til þess að fá sínum kröfum framgengt í samningum, en þær kröfur Erdogan-stjórnarinnar ganga einkum út á þrennt: inntöku Tyrklands í Evrópusambandið (þ.e.a.s. að þeirra rykföllnu umsókn verði flýtt), sex milljarða evra greiðslu frá Brussel til Ankara (840 milljarða ísl. króna - og áframhald næstu ár!) og í 3. lagi, að tyrkneskir borgarar fái að leika lausum hala á Schengen-svæðinu!

Sjaldan hafa Evrópuríki gert jafnmikla undanláts- og uppgjafarsamninga sem þá, sem hér um ræðir, og minnir þetta óneitanlega á Münchenar-samkomulag Chamberlans og Daladiers við Hitler 1938!

Í frétt BBC er bent á, að Evr­ópuþingið og aðild­ar­ríki ESB þurfi að samþykkja þessa ráðstöf­un, áður en Tyrk­ir geti byrjað að ferðast vega­bréfs­laust um Schengen-svæðið. Þá geri ESB ýmsar kröf­ur til ríkja: að þau stand­ist kröf­ur um m.a. tján­ing­ar­frelsi, sann­gjörn rétt­ar­höld og end­ur­skoðun hryðju­verka­lög­gjaf­ar til að tryggja rétt­indi minni­hluta­hópa, áður en það aflétt­i kvöðum um vega­bréfs­árit­an­ir. Hætt er þó við, að í þeirri þýzku Realpolitik (hugtakið frá tíma Bismarcks) sem hér er greinilega á döfinni, verði svona "aukaatriði" annað­hvort snið­gengin eða beitt yfirborðs­legum kattarþvotti til að láta líta svo út, sem Tyrkland sé farið að "standa sig betur". En Tyrkjastjórn er þarna í þeim mun sterkari málamiðl­unar­stöðu sem hún hefur á síðustu mánuðum fjölgað mjög hand­tökum blaða­manna og lögsóknum gegn þúsundum manna vegna meintra móðgana við forsetann Erdogan.

Uggvænleg er því hin sennilega niðurstaða þessa máls, sbr. niðurlag fréttar Mbl.is af málinu:

  • Í um­fjöll­un BBC seg­ir að ef fram­kvæmda­stjórn ESB legg­ur til að Tyrk­ir fái að ferðast frjáls­ir inn­an Evr­ópu verði það með mikl­um trega. Erfitt sé að halda því fram að Tyrk­land stand­ist þess­ar kröf­ur, en stjórn­völd hafa fært sig nær alræðis­stjórn síðustu miss­er­in. Nauðsyn vegna flótta­manna­straums­ins til Evr­ópu knýi hins veg­ar á um að þetta verði látið eft­ir tyrk­nesk­um stjórn­völd­um.

En íslenzkum stjórnvöldum er frjálst að segja upp Schengen-samkomu­laginu. Og nú þegar þessar fréttir allar eru í hámæli, m.a. fyrir stundu í hádegisfréttum Rúv, þar sem Þorvaldur Friðriksson fréttamaður var með afar upplýsandi frétt og fréttarskýringu í málinu, þá getur ríkisstjórn okkar naumast skotið sér undan því að svara spurningum fréttamanna um hvort við séum ekki nauð­beygð, þessara breytinga vegna, til að segja upp Schengen-samningnum.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Tyrkir ferðast frjálsir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundurlyndi meðal brezkra íhaldsmanna í Brexit-málum kemst á nýtt stig

Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands.

Th­eresa May, inn­an­rík­is­ráðherrann, segir Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu draga úr ör­yggi Bret­lands og að Bret­ar ættu að segja sig frá hon­um.

Hún bendir á viss skaðleg áhrif sáttmálans:

May sagði að það væri mann­rétt­inda­sátt­mál­inn frek­ar en Evr­ópu­sam­bandið sem hafi tafið brott­vís­un öfga­manns­ins Abu Hamza frá Bretlandi um fleiri ár og kom næst­um því í veg fyr­ir brott­vís­un íslam­ist­ans Abu Qatada.

„Mann­rétt­inda­sátt­mál­inn get­ur bundið hend­ur þings­ins, hann bæt­ir engu við hag­sæld okk­ar, hann ger­ir okk­ur minna ör­ugg með því að koma í veg fyr­ir brott­vís­un hættu­legra er­lendra rík­is­borg­ara og hann ger­ir ekki til að breyta viðhorf­um rík­is­stjórna eins og þeirr­ar í Rússlandi þegar kem­ur að mann­rétt­ind­um,“ sagði May í ræðu sem var ætlað að tala fyr­ir áfram­hald­andi veru Breta í ESB.

May hef­ur verið nefnd sem eft­ir­maður Dav­ids Ca­meron for­sæt­is­ráðherra, sem leiðtogi Íhalds­flokks­ins. Er ræða henn­ar tal­in hafa verið átt að vera mót­vægi við bar­áttu Ca­merons fyr­ir því að Bret­ar haldi sig í ESB. (Mbl.is)

En hún fullyrðir að Bret­ar ættu ekki að ganga úr ESB, held­ur segja sig frá Mannréttindasátt­mál­an­um og lög­sögu hans. En þar með myndi reyndar Bretand hætta að uppfylla kröfu ESB um að meðlimaríkin viðurkenni sáttmálann.

Þótt ummæli hennar hafi mætt harðri gagnrýni, einkum úr Verka­manna­flokknum, er vitað, að fjölda manns ofbýður, hvernig jafnvel þekktir öfga- og æsinga­menn í röðum múslima hafa fengið að þrífast á brezka velferðar­kerfinu í skjóli laga­verndar og þiggja mörg hundruð þúsunda króna í húsnæðis- og barnabætur.

JVJ.


mbl.is Bretar segi sig frá mannréttindasáttmálanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stiklað á stóru í sögu fullveldis okkar, úr Reykjavíkurbréfi í dag

"... Landhelgismörk voru færð út. Enginn annar hafði haft hugsun á því.* Stórþjóðir höfðu skrapað mið upp í landsteina.** Þær sömu og kjánar treysta nú betur fyrir ís­lensk­um hagsmunum en Íslend­ing­um sjálfum. Lög­gjöf var lög­uð að ís­lensk­um þörfum ..."

Sannarlega er það það engin tímaskekkja hjá höfundi Reykjavíkurbréfs að beina spjótum sínum að þeim Íslendingum, sem vilja treysta forráðamönnum annarra landa betur fyrir okkar hagsmunum heldur en þeim fulltrúum okkar sem við sjálf kjósum til forræðis okkar mála, á Alþingi og þar með á ráðherrastólum og einnig á Bessastöðum. Þeir voldugu ráðamenn innan Evrópusambandsins eru sporgöngumenn valdamanna sem iðulega hafa beitt okkur valdi, með við­skipta­þvingunum, jafnvel hafnbanni íslenzkra fiskiskipa og með hryðjuverkalögum.

En jafnvel nýrri í sögunni eru hótanir og þvinganir Evrópusambandsins sjálfs gagnvart okkur og Færeyingum í makríldeilunni. Einnig í Icesave-deilunni þurftu stjórnvöld hér að kljást við þvinganir ESB og stuðning þess (jafnvel allt inn í EFTA-dómstólinn) við kröfugerð Breta og Hollendinga á móti okkur í því máli.

Það er því greinilega mikil einfeldni á bak við hugsun eða hugsunarleysi þeirra manna, sem vilja leggja öll okkar helztu ráð í hendur valdamanna gömlu, evrópsku stórveldanna og fulltrúa þeirra í Brussel.

* Hér er greinilega átt við Dani.

** Bretar, Frakkar, Þjóðverjar, Belgar (11,2 millj. í dag) og Hollendingar (16,9 millj. í dag).

Jón Valur Jensson.


Bragð er að, þá Juncker finnur: ESB-stofnanir "víða komnar að fótum fram"

Sjálfur Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, "segir íbúa Evrópu hafa misst trúna á Evrópuhugsjónina," m.a. vegna þess hversu mikið ESB hefur skipt sér af daglegu lífi borgaranna, eins og fram kemur í frétt á Eyjunni og Pressunni í gærkvöldi. (Segir Evrópubúa hafa misst trúna á ESB: Skiptum okkur of mikið af lífi borgaranna).

„Evrópuverkefnið hefur glatað hluta aðdráttarafls síns,“ sagði Juncker í ræðu sinni í Strassborg, og takið eftir orðum hans:

„Ein ástæða þess að borgarar ESB-ríkja eru að fjarlægast Evrópuverkefni er sú staðreynd að við höfum í of ríkum mæli skipt okkur af einkamálum þeirra og farið inn á of mörg svið þar sem aðildarríkin eru betur til þess fallin að grípa til aðgerða.

Þá segir hann regluverk Evrópusambandsins "of þungt" og "lýsti vilja til þess að minnka regluverkið í því skyni að bæta ásjónu sambandsins. Í því felst meðal annars að draga til baka 83 frumvörp sem framkvæmdastjórn hans fékk í arf frá framkvæmdastjórn Jose Manuel Barroso." (Eyjan/Pressan, á grunni fréttar frá Euractiv). Það er reyndar spurning, hvort þessari yfirlýsingu hans er ætlað að hafa áhrif á þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um það, hvort þeir eigi að ganga úr Evrópusambandinu. Margir gætu tekið hann alveg á orðinu um þetta.

En hann tók mun dýpra í árinni, eins og hér sést:

"Hann viðurkenndi enn fremur að ESB væri óheppilegur talsmaður Evrópu nú til dags. Sambandið njóti ekki lengur þeirrar virðingar sem þau naut í aðildarríkjunum áður fyrr. Á endanum gæti Evrópuhugsjónin endað sem rústir einar."

Og það mætti halda, að það sé bara allt að bresta hjá þessum æðsta manni ESB með hans riddaralega nafn:

"Við lifum erfiða tíma. Við glímum við alþjóðlegan flóttamannavanda, það er ráðist á frjáls samfélög, allar stofnanir okkar eru undir gríðarlegum þrýstingi og víða eru þær komnar að fótum fram."

Og hvað er í húfi? Hlustum á svar hans: 

"Hættan er sú," sagði Juncker, "að með ofangreindum krísum samhliða lækkandi fæðingartíðni og minnkandi hagvexti muni Evrópa missa virðingu heimsbyggðarinnar."

Það var kominn tími til, að það yrði viðurkennt fullum fetum á æðstu stöðum, að lítil fæðingartíðni í ESB-löndum "spells disaster" fyrir Evrópu andspænis nágrönnum álfunnar. Að Þjóðverjar eigi að meðaltali 1,44 börn á hverja konu,* meðan þau þyrftu að vera 2,10 til að þjóðin haldist við í óbreyttri stærð til lengdar, er sannarlega ástæða til einhverra aðgerða eins og þeirra, að lífsfjandsamlegri fílósófíu verði ekki hossað öllu lengur í menntakerfi og fjölmiðlamenningu þessara landa. Það er ekki nóg, að menn elski sjálfa sig og sín persónu- og félagslegu réttindi, þeir þurfa einnig að gæta skyldunnar gagnvart því að elska land sitt og þjóð, svo að það samfélag, sem þar ríkir með allri sinni arfleifð og andlegum sem öðrum verðmætum líði ekki undir lok, en þetta getur í raun gerzt á innan við tveimur öldum, og niðurtalningin á því var komin í gang á ofanverðri 20. öldinni.

Hagvöxtur í Evrópusambandinu var líka áhyggjuefni Junckers, en á meðan hann eykst hér á Íslandi stórum skrefum, fer hann "hænufetið" í ESB samkvæmt nýlegum leiðara Morgunblaðsins.

Er þetta þá það kröftuga stórveldi, sem við ættum að horfa til í von um bjarghring fyrir íslenzka þjóð á 21. öld? Svari því nú hver fyrir sig.

* Litlu skárra er ástandið í þessum löndum: Danmörku (1,73 börn fæðast á hverja konu, þ.m.t. á nýbúa, sem hækka meðaltalið), Svíþjóð (1,88), Finnlandi (1,75), Bretlandi (1,89), Hollandi og Belgíu (1,78), en er strax mun lakara í Póllandi (1,33) og Rúmeníu (1,33), Grikklandi (1,42), á Ítalíu (1,43), Ung­verja­landi (1,43), í Tékklandi (1,44), Búlgaríu (1,45), Austurríki (1,46), Króatíu (1,46), á Spáni (1,49), Lettlandi (1,50) og í Portúgal (1,52). Í Eistlandi og Litháen fæðast 1,59 börn á hverja konu, en 1,61 í Lúxemborg (heimild HÉR). Einna skást stendur Frakkland sig (2,08, alveg við stöðugleikamarkið); all­nokkur hluti þeirra fæðinga mun eiga sér stað hjá múslimska minnihlutanum, sem er um 5-6 milljónir manna.

Jón Valur Jensson.


8% Tyrkja styðja Ríki islams (ISIS-samtökin); samt býður ESB þá velkomna á Schengen-svæðið!

Er ekki eitthvað mikið að þessu Evrópusambandi? Hvernig létu ESB-menn sér detta það í hug að bjóða tyrkn­esku þjóð­inni að fara um allt Schengen-svæðið án vega­bréfs­áritunar? Í Tyrk­landi eru meðal­laun helm­ingi lægri en hjá láglauna­fólki í Evrópu­sambandinu. Þessi ákvörðun stuðlar því að miklum fólks­flutn­ingum; og með munu óhjákvæmilega slæðast menn hlynntir hryðju­verkum. 

Þetta afhjúpar hinn brezki Nigel Farage hér í ESB-þinginu (smellið!):
Farage: "[Turkey] is a country, according to the Pew Institute, whose poll last week showed that 8% of those 75 million actively encourage and support the aims of ISIS."
 
Skoðað 94.416 sinnum

JVJ.


mbl.is Íslendingur sagður í Ríki íslams
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

Reglugerðaráþján Evrópusambandsins kom í bakið á okkur

8% minnkun á rafmagnsnotkun heimila frá 2009 til 2014 kemur líklega að miklu leyti til af því, að s.k. sparperur eru fokdýrar í innkaupum og margir því nízkir við sig að endurnýja perur þar sem ljósastæði eru mörg, t.d. í ljósakrónum.

Við getum "þakkað" Evrópusambandinu það, hve kostnaður við kaup á ljósaperum hefur margfaldazt!

En við eigum ekkert með að að gera að vera í neinu múlbandi þessa stórveldis, sem sömuleiðis hugsar bara um sjálft sig, þegar það bannar hér notkun amerískra bílstóla!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Rafmagnsnotkun heimila minnkað um 8%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Schengen ógnar öryggi okkar

  • Evrópska lögreglan Europol tel[ur] að allt að 5 þúsund vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams, sem þjálfaðir hafa verið í Írak og Sýrlandi, séu þegar í ríkjum Evrópusambandsins, reiðubúnir að fremja hryðjuverk.
  • Sir Richard Dearlove, fyrrverandi yfirmaður brezku leyniþjónustunnar MI6, sem sagði í síðasta mánuði að Bretland yrði öruggara utan Evrópusambandsins.
  • Fyrrverandi forstjóri bandarísku leyni­þjónustunnar CIA, Michael Hayden, tók undir með Dearlove skömmu síðar og sagði Evrópusambandið meðal annars gera ríkjum sambandsins erfiðara fyrir að tryggja öryggi sitt.

Þetta kemur fram í afar góðri grein í Mbl. í fyrradag, Öryggi Íslands ógn­að, eftir Hjört J. Guðmundsson sagn­fræðing. Menn ættu að veita fulla eftirtekt hans glöggu orðum um okkar eigin stöðu í þessu "samstarfi", hvernig við vorum narraðir inn í það á fölskum forsendum, sem tíminn og þróunin hefur sýnt, að standist ekki. Hann segir orðrétt:

Við Íslendingar gerðumst á sínum tíma illu heilli aðilar að Schengen-svæðinu sem fyrrverandi forstjóri Interpol segir bjóða hryðjuverkamenn velkomna enda þúsundir þeirra þegar innan svæðisins að sögn Europol. Forsenda aðildar okkar var að öryggið á svonefndum ytri landamærum svæðisins yrði tryggt. Það hefur í reynd aldrei verið raunin og alveg sérstaklega ekki síðustu misserin. Forsendubresturinn er því alger. Við hefðum aldrei átt að gerast aðilar að Schengen-svæðinu en það er ekki of seint að leiðrétta þau mistök.

Eins og Jón Sigurðsson á sínum tíma* þurfum við að grundvalla stefnu okkar og viðleitni til framfara á sem fyllstri þekkingu ytri aðstæðna okkar, sögu landsins í bráð og lengd og ekki sízt á lagaramma þeim sem lýðveldinu er sniðinn. (Í VINNSLU.) 

* Það er bæði ánægjulestur og upplýsandi að sjá vel rökstutt mat nútíma­fræðimanns, dr. Guðrúnar Nordal, á hinum öfluga og farsæla viðbúnaði Jóns Sigurðssonar strax upp úr tvítugu, meðan hann var í Laugar­nesi ritari Steingríms biskups, og allar götur síðan. Þetta má lesa í mjög ljósri ritgerð hennar, "Það þarf annað en hjalið tómt til að hrinda Íslandi á fætur aftur." Um viðbúnað Jóns Sigurðssonar, í tveggja alda minningar­verkinu Jón Sigurðsson. Hugsjónir og stefnumál (Rvík, Hið ísl. bókmenntafélag 2011, bls. 71 o.áfr.). Ólíkt ýmsum, sem með 20. aldar áherzlum á aðra hluti fóru að leyfa sér að tala niður meinta persónudýrkun Jóns og ævisagna-áherzluna í sagnaritun um 19. alda sögu okkar ("Kristjánssona-sagnfræðin" var þetta gjarnan kallað) og ekki sízt með því að þykjast geta talað með takmarkaðri virðingu um hið mikla ævisöguverk dr. Páls Eggerts Ólasonar: Jón Sigurðsson, I-V, Rvík: Hið ísl. þjóðvinafélag 1929-1933, þá sjáum við bæði endurnýjaða og djarfa nálgun Guðrúnar á málið í þessari ritgerð hennar. Hún kallar dr. Pál að sönnu "hinn ástríðufulla ævisagaritara Jóns", en segir líka: "Verk hans um Jón Sigurðsson er geysilega merkilegt og auðvitað snortið þeirri miklu aðdáun sem höfundur hefur á söguefni sínu. Fyrsta bindið af fimm kallast einfaldlga Viðbúnaður. Páll lýsir því vel hvernig Jón hervæddist í fræðastarfi sínu rétt eins og hermaður býr sig fyrir orustu. Sverð Jóns og skjöldur voru vinnusemi og lestur handrita. Páll Eggert, skrásetjari handrita Landsbókasafns, skildi mjög vel fræðastörf Jóns og var því mjög vel til þess fallinn að skilja hvað í þeim fólst. En í hverju fólst viðbúnaður hans?" (Sama rit, bls. 73-74.) -- Og hér læt ég lesandanum eftir að leita um samhengi alls þessa og um spennandi framhaldið í hina mjög svo gagnlegu ritgerð dr. Guðrúnar, en bókin fæst hjá því rótgróna útgáfufélagi sem Jón Sigurðsson vann á ævi sinni ómetanleg störf fyrir,** en það er Hið íslenska bókmenntafélag. -- En meðal þeirra, sem í Evrópusambands-móði hafa leyft sér að tala niður nálgun dr. Páls Eggerts á sjálfstæðisbaráttu Jóns og samherja hans á 19. öld, eru þeir sem reyna hvað þeir geta til að "relatívisera" hugtakið fullveldi og gera í raun lítið úr fyllsta tilgangi þessarar baráttu. Það er gott að sjá, að sá prófessor í sagnfræði, sem manna helzt hefur talað í þessa átt, er ekki meðal hinna tíu höfunda áðurnefnds aldaminningarrits.

** Sjá einkum ritgerð dr. Björns Magnússonar Olsen, Jón Sigurðsson og Bókmenntafélagið, í nefndu minningarriti (2011), bls. 183-208.

Jón Valur Jensson.


Afleitt val á utanríkisráðherra

Lilja Alfreðsdóttir, sem þing­flokk­ur Fram­sóknar vill að tillögu Sig­mund­ar Davíðs gera að utan­ríkis­ráðherra, er fyrrv. for­ystu­kona í Evr­ópu­samtök­unum (ESB-samtökum) að sögn Össurar Skarphéðinssonar! Þetta kórónar klúður Fram­sókn­ar í mál­efn­um Evr­ópu­sam­bands­ins, eftir að Gunnar Bragi hafði brugðizt þeirri skyldu sinni að fram­fylgja sam­þykktri stefnu flokks­þings Framsóknar­flokksins 2013. Hann reyndi að bera fram þingsályktunartillögu um, að Össurar­umsóknin (sem var ólögmæt) yrði dregin til baka, en gafst upp fyrir þrýstingi ESB-sinna vinstri flokkanna og hlutdrægra Rúv-frétta­manna, Fréttablaðsins, Stöðvar 2, Bylgjunnar o.s.frv., og það endaði á því, eftir margra vikna þóf, að nefbeins­laus ráðherrann dró sína eigin tillögu til baka!

Evrópusinnum bætist liðsauki eru orðin sem Össur hefur að fyrirsögn í Facebókar-færslu sinni seint í gærkvöldi (skv. Mbl.is, tengill hér neðar). Hann ritaði, kjamsandi á fréttinni:

"Það er söguleg kaldhæðni að síðasta verk Sigmundar Davíðs áður en örlögin feykja honum úr stóli forsætisráðherra skuli vera tillaga um að fyrrverandi forystukona í Evrópusamtökunum verði ráðherra fyrir Framsókn.

Lilja Alfreðsdóttir er mjög öflug kona, og í stöðunni er það að mörgu leyti brilljant leikur að gera hana að ráðherra. Hún er framtíðarefni."

Össur fær ekki leynt ánægju sinni hér með sitt uppáhald! Það hlakkaði í ESB-þjóninum. Svo kom það í ljós í morgun, að af öllum ráðuneytum er þessi ESB-kona sett yfir utan­ríkis­ráðuneytið!!!

En ólíkt sigurópi hins óþjóðlega ESB-Össurar, líta aðrir vitaskuld á þetta sem svik af hálfu Sigmundar Davíðs við þá fullveldis­stefnu sem Framsóknar­flokkurinn gaf sig út fyrir að fylgja.

Það er ekki fagur vitnisburður um staðfestu þingflokksins, að hann skuli hafa samþykkt þessa afleitu tillögu fráfarandi forsætisráðherra (sem enn er og verður formaður flokksins til næsta flokksþings), því að vafalaust hefur mönn­um þar verið ljós þessi fortíð og grunnafstaða Lilju Daggar Alfreðsdóttur.

Merkilegt má heita, ef ekki hefur verið heitt í kolunum á þingflokks­fundi gær­kvöldsins, þótt Sigurður Ingi hafi eftir á talað eins og þar hafi nánast allt farið fram í friði og spekt í fullri eindrægni.

Hefði annaðhvort Ásmundur Einar Daðason (fyrrv. formaður Heimssýnar) eða Vigdís Hauksdóttir orðið fyrir valinu sem utanríkisráðherra, hefðu fullveldis­sinnar getað tekið það sem órækan vitnisburð flokksins um að hann standi með málstað fullveldis okkar og sjálfstæðis, andstætt útþenslu­stefnu Evrópu­sam­bandsins. Í staðinn fáum við þessi sorglegu tíðindi. Engum flokkanna sex á Alþingi er í raun treystandi fyrir fullveldi landsins!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Lilja verður utanríkisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband