Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2019
1.8.2019 | 05:37
Sendiherra brýtur gegn skyldum sínum með áróðursgrein fyrir innlimun Íslands í stórveldi sitt!
Ófyrirleitið er af sendiherra Evrópusambandsins að endurtaka sinn fyrri leik að brjóta Vínarsamþykkt um skyldur sendiráða, með einhliða gyllingargrein um evrópska stórveldið, í raun með áróðri fyrir því, að Íslendingar láti innlimast í Evrópusambandið.
Þetta samrýmist ekki skyldum hans sem sendiherra, ekki frekar en að Evrópusambandið dæli styrkjum og mútufé í fyrirtæki, samtök og einstaklinga hér á landi.
Vísa ber manninum úr landi, eins og ætla má, að gert hafi verið við fyrirrennara hans Timo Summa 2012, ef hann var þá ekki beinlínis kallaður til baka af yfirmönnum sínum í Brussel, eftir að hitna tók undir honum eftir skelegga gagnrýni Tómasar Inga Olrich (fyrrv. ráðherra og sendiherra í París) á framferði hans, m.a. með áróðursferðum hans um landið. Sjá einnig hér (15.11. 2018): https://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/2225873/
Er ekki eitthvað brogað við fullyrðingar Michaels Mann um "frelsi og velmegun" í borgum eins og Ríga, Aþenu og Lissabon? -- eru það vel valin dæmi, eftir að þýzkir og franskir bankar fengu að leika þjóðarhag Grikkja grátt í boði ESB og Evrópubanka þess? Litlu skárra er ástandið í Portúgal, en fólksflótti hefur verið þaðan frá atvinnuleysi og þó um enn lengri tíð frá Lettlandi, og ekki er fæðingartíðnin þar í landi til að hrópa húrra yfir: 1,52 börn á hver hjón! -- örugg leið til útþurrkunar þjóðar á 6-7 kynslóðum!
Mann þessi geipar af því, að hinn verðandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, hafi "sett fram metnaðarfulla og hvetjandi áætlun til næstu fimm ára," en "gleymir" alveg að nefna, að þessi fráfarandi varnarmálaráðherra Þýzkalands hefur af elju og hörku hvatt til þess (rétt eins og herra Macron Frakklandsforseti), að uppfyllt verði fyrirheiti Lissabonsáttmálans um stofnun öflugs Evrópusambandshers, til að ESB verði síður háð Bandaríkjunum um liðveizlu. Af hverju sleppir hr. Mann að nefna það, en kemur svo með smjörklípuna um að "NATO verði ávallt hornsteinn varna Evrópu"? Mátti sannleikurinn ekki koma skýrar í ljós, eða hentaði það ekki að upplýsa Íslendinga um, að ef þeir láta narrast inn í Evrópusambandið, þá bíður ungmenna landsins hugsanlega herskylda og ríkissjóðs okkar óefað það hlutverk að leggja um það bil 2% af landsframleiðslunni í herapparat og hergögn handa ESB-bossum og generálum að leika sér við, til dæmis til að fara út í áhættusamar ögranir við Rússa.
Jón Valur Jensson.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)