Bloggfærslur mánaðarins, mars 2019

Evrusvæðið hættulega berskjaldað gagnvart efnahagskreppum

Þetta er nú mat Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins og sagt komið til af pólit­ískum mistökum sem gerð hafa verið í tengsl­um við evru­svæðið.

Christine Lagarde, forstjóri AGS. Fram­kvæmda­stjóri AGS, Christ­ine Lag­ar­de, sagði á fimmtu­dag­inn að bank­ar á evru­svæðinu stæðu ekki nógu styrk­um fót­um kæmi til frek­ari efna­hagserfiðleika.

Lausn­ina sagði Lag­ar­de, sem er fyrr­ver­andi fjár­málaráðherra Frakk­lands, auk­inn samruna inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins og meðal ann­ars með einni sam­eig­in­legri inni­stæðutrygg­ingu. (Mbl.is)

Það er ekkert nýtt, að krísur og áföll í Evrópusambandinu þyki þar jafnóðum vera tilefni til enn meiri samrunaþróunar -- handhæg réttlæting fyrir því að stórríkið fái enn og aftur að belgja sig enn meira út, með meiri valdheimildum o.s.frv., en þá um leið með enn meira í húfi fyrir öll evrusvæðis-ríkin, skyldi þetta mikla hrófatildur verða fyrir nýjum áföllum, sem ekki voru fyrirséð eða gert ráð fyrir í skólabókadæmum tilraunasmiðanna í Brussel og í Evrópubankanum.

Og þetta er það sem íslenzkir ESB-sinnar hafa verið að mæla með eins og trúarjátningu, sem sjálfu akkeri stöðugleikans!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Evrusvæðið hættulega berskjaldað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innleiðing Orkupakka #3 á fölskum for­sendum? - eftir Bjarna Jónsson verkfræðing

Innleiðingin verður á öllum orku­pakkanum gagnvart ESB:

Því fer víðs fjarri, að ein sam­eig­in­leg frétta­til­kynn­ing ís­lenzks ráð­herra og eins fram­kvæmda­stjóra ESB hafi nokkra laga­lega skuld­bind­ingu í för með sér fyrir Evr­ópu­sam­band­ið (ESB).
Að undan­skilja gerð nr 713/2009 við inn­leið­ingu Al­þing­is á ESB-Orku­bálki #3 hefur þess vegna ekkert laga­legt gildi gagnvart ESB.
Þetta þýðir, að ESB-gerð, sem brýtur gegn Stjórnarskrá að mati Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, verður innleidd í lög á Íslandi samkvæmt Evrópurétti. ESB verður óbundið af þeim fyrirvara Alþingis að skilja gerð 713/2009 frá innleiðingu Orkubálks #3 í EES-samninginn.
Sæstrengsfjárfestar munu geta sótt um leyfi til Orkustofnunar fyrir sæstrengslögn til Íslands, eins og ekkert hafi í skorizt, þ.e. eins og enginn fyrirvari þessu lútandi hafi verið settur í íslenzk lög. Af munu hljótast málaferli, sem aðeins geta endað á einn veg.

Réttur vettvangur breytinga/aðlögunar fyrir EFTA-ríkin:

Að gera lögformlegt samkomulag við ESB um að fella niður heila gerð í heildstæðum ESB-lagabálki fyrir innleiðingu í einu EFTA-landi er ómögulegt á símafundi. Yfirlýsing samþykkt á símafundi hefur aðeins pólitíska þýðingu hér innanlands, en alls enga réttarlega þýðingu eða skuldbindingu fyrir ESB.
Eini rétti formlegi vettvangurinn fyrir slíka undanþágu eru samninga­viðræður í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem saman koma fulltrúar allra viðkomandi EFTA-landa og ESB. Breytingar, sem út úr slíkum samninga­viðræðum kynnu að koma, þurfa síðan að hljóta samþykki Fram­kvæmda­stjórnar­innar, Ráðherra­ráðsins og ESB-þingsins.
Við þessar aðstæður er ekkert til, sem hægt er með réttu að kalla „orkupakka á íslenzkum forsendum“. Með því er slegið ryki í augun á fólki með lögfræðilegum loftfim­leikum hér innanlands.

Sæstrengurinn „Ice-Link“:

Í umræddri fréttatilkynningu ráðuneytanna (UR, ANR) 22.03.2019 stendur: „Á sameiginlegum þing­flokks­fundi stjórnar­flokkanna 20. marz sl. var ákveðið að draga til baka umsókn um sæstrengs­verkefnið IceLink inn á fjórða PCI-listann (e. Projects of Common Interest). Hefur erindi þess efnis þegar verið sent.“ Núgildandi PCI-listi er nr 3, ekki nr 4, og gildir hann fram á árið 2020.
Hvers vegna var ekki óskað eftir að fjarlægja „Ice-Link“ af núgildandi lista ? Það er vegna þess, að slík beiðni myndi engin áhrif hafa. Beiðni ríkis­stjórn­ar­innar er ekki einu sinni nægjanleg til að forðast, að „Ice-Link“ fari á nýja listann árið 2020. Þótt hann fari út af fjórða listanum, getur hann farið inn á fimmta listann 2022. Hvaða réttmætur hagsmuna­aðili sem er, getur óskað eftir því við ACER/ESB, að „Ice-Link“ eða t.d. „Ice-Ire“ (sæstrengur til Írlands) fari inn á PCI #4, t.d. raforku­fyrirtækið E´ON eða annar sæstrengs­fjárfestir. Þótt beiðni ríkis­stjórnar Íslands verði vafalaust vegin og metin, hefur hún ekki neitunar­vald um málið.
Það er ekki sopið kálið, þótt í ausuna sé komið, því að í Kerfisþróun­ar­áætlun ESB er gert ráð fyrir „Ice-Link“, og hann er einnig í samevrópskri heildaráætlun (energy corridors) fyrir orkuflutninga. Þar eru mörg samþykkt skjöl og formleg ferli, sem við eiga, svo að áhrif íslenzku ríkisstjórnarinnar eru takmörkuð. Þessi beiðni frá Íslandi dugar ekki endilega til að hindra, að strengurinn fari inn á PCI#4.

Hreinar línur:

Sú leið, sem ríkisstjórnin ætlar að fara í orkupakka­málinu, er ófær, af því að hún brýtur EES-samninginn og er þar með á skjön við Evrópurétt. Annaðhvort verður þingið að samþykkja Orkupakka #3, eins og hann kom frá Sameiginlegu EES-nefndinni, eða að hafna honum alfarið. Það er ekki hægt að samþykkja aðeins hluta af honum, en hafna eða fresta hinu.
Afleiðingin af þessu er sú, að hagsmuna­aðilar, t.d. Vattenfall í Svíþjóð, geta kært ólögmætan gjörning Alþingis (að Evrópurétti) fyrir ESA, og þá mun þessi innleiðing hrynja, eins og spilaborg, og eftir mun standa í íslenzkri löggjöf Þriðji orkumarkaðs­laga­bálkurinn án nokkurrar undantekningar, þ.á.m. sá hluti hans, sem 2 af 4 lagalegum ráðgjöfum utanríkis­ráðu­neytisins töldu brjóta í bága við Stjórnarskrá Íslands.
Þar með virðist einnig myndast grundvöllur fyrir málshöfðun á hendur ríkinu fyrir íslenzkum dómstólum fyrir stjórnar­skrárbrot.

Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur.


mbl.is Leggja til orkupakka með fyrirvara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers er Sjálfstæðisflokkurinn að bjóða 1900 manns á landsfundi sína? Til að óvirða þá?

Af hverju er þessum Bjarna Benediktssyni alltaf leyft að vera við stýrið og virðist þó aldrei geta farið eftir landsfundum sínum í meiri háttar málum? Nú eins og í Icesave-málinu getur þetta reynzt þjóðinni skeinuhætt, jafnvel hrikalega! Hann er með skilnings­litla konu sem vara­formann, sem hleypt hefur verið í fjögur ráðuneyti og snýr öllu við sem viðkemur Þriðja orku­pakkanum.

Þá er hann með utanríkisráðherra sem sömuleiðis virðist gangast upp í þjónkun við Evrópusambandið. Léleg voru rök þess manns í gærkvöldi, og léleg verða þau áfram fyrir því alvarlega fullveldis­framsali og þeim fjárhagsskelli á þjóðina, sem myndi hljótast af þessum Þriðja orku­pakka, eins og færustu menn (ekki lög­fræði­strákar sem skoða málið um svo sem eina helgi) hafa leitt í ljós. Sjálfur þegir Bjarni sem fastast, kannski að gaddfreðna í nýju "ísköldu mati"? Og þá mun þjóðin spyrja: Hvað hrekur hann til þess? Hvaða nauðsyn er á þessum bannsettans Þriðja orkupakka? ENGIN fyrir okkur! en áhættan gríðarleg. Farðu að taka pokann þinn, Bjarni, ef þú ræður ekki við að verja þjóðina!

Hér má sjá hvernig Bjarni Jónsson rafmagns­verkfræð­ingur tætir í sig skelfilegan málatilbúnað Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfa­dóttur iðnaðar-, nýsköpunar-, ferðamála- og dómsmála­ráðherra: 

Ráðherra um víðan völl

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vill vísa orkupakkanum til þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamaður sem snýr öllu á haus? - og er utanríkisráðherrann öllum heillum horfinn?

Af hverju kallar Þórarinn Þór­ar­insson, áberandi pólitískur blaða­maður Frétta­blaðs­ins, sjón­ar­mið Styrmis Gunnars­sonar gagn­vart Þriðja orku­pakk­anum "minni­hluta­sjónar­mið hans" í Sjálf­stæðis­flokknum?

Er Þórarinn svona illa upplýstur um meginmál? Veit hann ekki af samþykkt Landsfundar Sjálfs­tæðis­flokksins um að við eigum EKKI að samþykka 3. orkupakkann?

Veit Þórarinn ekki, að yfir 90% Íslendinga eru andvíg þessum sama Þriðja orkupakka skv. gildri skoðana­könnun á liðnu ári?

Hverjum er Þórarinn að þjóna með þessum skrifum sínum?

Ummæli Þórarins eru í þættinum Frá degi til dags í Frétta­blaðinu í dag og yfirskrift pistils hans Eintal sálar ... --- rétt eins og Styrmir sé nánast einn um andstöðu sína við Þriðja orkupakkann!

Þvert á móti hefur þeim farið mjög fjölgandi sem átelja harðlega daður Sjálfstæð­is­flokks-ráðherra við Þriðja orkupakkann og áform ESB-manna.

Ennþá alvarlegri spurninga en þessara hér fyrir ofan þarf því að spyrja þessa uppreisnar-ráðherra Sjálfstæðis­flokksins, sem eru að mæla Þriðja orku­pakkanum bót, þrátt fyrir að í 1. lagi er engin þörf á honum (enginn sýnt fram á nauðsyn hans) og í 2. lagi er hann stórhættulegur bæði fullveldi okkar í orkumálum og myndi valda hér keðjuverkunum til margföldunar rafmagnsverðs til almennings og fyrirtækja.

Í Morgunblaðinu í gær lét Guðlaugur utanríkisráðherra svo um mælt, að það væri "auðvitað markmiðið" að fara fram með frumvarp um Þriðja orkupakkann fyrir 30. þessa mánaðar! Jæja, er það "auðvitað" markmið ríkisstjórnar lands sem vill varðveita fullveldi sitt? og er það "auðvitað" (eins og "kalda matið" hans Bjarna Ben. á Icesave-samningum) markmið þessa utan­ríkis­ráðherra að sniðganga með öllu landsfundar­samþykkt síns eigin flokks?!

Jón Valur Jensson.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SI styðji verkalýð fremur en landeyður

Samtök iðnaðarins, SI, eru meðal við­semj­enda verka­lýðs­félaga. Þau ættu fremur að bæta kjör manna en að styðja þjóð­fjand­sam­lega starf­semi.

"Samtök iðnaðarins studdu Já, Ísland sem að­hyllt­ist samstarf við Evrópu­samband­ið."

Þetta kom fram í nýrri bók Helga Magnússonar, Lífið í lit, sem Björn Jón Bragason sagnfræðingur skráði. Frá þessu sagði í grein Jakobs Bjarnar í gær á vefsíðu Vísis.

Öfugmæla­samtökin Já, Ísland unnu að því að Ísland yrði enn eitt litla tannhjólið í Evrópu­sambandinu. Samtök iðnaðarins ættu fremur að stuðla að bættum kjörum verkalýðs á Íslandi heldur en að gera landið að undirlægju ráðherraráðs, framkvæmda­stjórnar og annarra stýri­appar­ata þessa stórvelda­sambands, sem að mestu leyti, í atkvæðavægi í ráðherraráðinu og á ESB-þinginu, hefur verið undir stýrivaldi hinna gömlu nýlendu­velda* álfunnar, en um það hefur áður verið fjallað hér í greinum.

Tíu aflóga nýlenduveldi ráða lögum og lofum í Evrópusambandinu

Jón Valur Jensson.


mbl.is Hlakkar til að fara í verkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörður Kristjánsson: Hið heilaga ESB

Ekki er annað að sjá en að áhuga­fólki um feit emb­ætti við borð of­ur­skrif­finna Evr­ópu­sam­bands­ins í Bruss­el sé að tak­ast það ætl­un­ar­verk sitt að lauma Ís­landi, Nor­egi og Liecht­en­stein með lævísum blekkingum undir stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins. Það virðist vera að gerast án þess að löndin gerist þar formleg aðildar­ríki. Þar með er verið að fótumtroða sjálfstæði þessara ríkja og lýðræðis­legan ákvörð­unar­rétt borg­ar­anna um eigin málefni. 

Tók steininn úr þegar greint var frá því í norskum fjölmiðlum nýverið að verið væri að ræða innan EES fyrirmæli frá ESB um að öll lagafrumvörp norska Stór­þings­ins og Alþingis Íslend­inga og reglur sveitar­félaga skuli senda til ESB þremur mánuðum áður til samþykktar. Þar segir m.a.: „Þegar stjórnvöld eða sveitar­félög hyggjast taka nýjar ákvarðanir sem hafa áhrif á þjón­ustu­mark­aðinn munu þau skyldug að tilkynna fram­kvæmda­stjórn ESB, og eftirlitsaðila ESA, a.m.k þremur mánuðum áður en ákvörðunin öðlast gildi. Í þeim tilvikum þar sem þeir telja að ákvörðun muni fela í sér mismununarmeðferð mismunandi þjónustuveitenda, þá skal framkvæmdastjórnin eða ESA stöðva slíkar ákvarðanir.“

Þetta kemur ofan á látlausan áróður undanfarna mánuði fyrir því að Íslendingar gefi eftir sjálfs­ákvörðunar­rétt um orkumál í eigin landi í hendur ESB í gegnum lög um orkupakka 3. Þetta kemur líka ofan í afar umdeilda tolla­samninga um innflutning landbúnaðar­afurða við ESB þar sem lýðheilsa þjóðar virðist engu máli skipta þegar rætt er um hagsmuni verslunar yfir landamæri. Peninga­hyggjan er þar sett í öndvegi en heilsa og líf fólks og dýra er afgangs­stærð. Meira að segja dómarar æðstu dóm­stóla EES og íslenska ríkisins virðast láta sér í léttu rúmi liggja þótt virtir vísinda­menn, bæði innlendir og erlendir, með yfirgripsmikla þekkingu í sjúkdómum manna og dýra, hafi varað við afleiðingum af slíku árum saman. Nei, peningalegir hagsmunir skulu sko ráða för, skítt með afleiðingarnar. Líf fólks og dýra á svo sannarlega ekki að fá að njóta hins fræga vafa í þessu tilfelli.    

Án efa hlýtur Hitler gamli að skrækja af fögnuði yfir þessari þróun, sitjandi á fjósbitanum hjá höfðingjanum í neðra. Það sem honum tókst ekki með sínum milljónaher gráum fyrir járnum, er jakka­klæddum skriffinnum í Brussel nú að takast með penna eina að vopni. Einhvern tíma hefðu menn örugglega slegið svona nokkru á forsíður blaða undir fyrirsöginni „LANDRÁÐ,“ en uss, uss, svona tala menn ekki í návist Guðs vors ESB.

Hér hefur hver reglugerðin af annarri frá ESB verið stimpluð góð og gild og oftast athugasemdalaust. Virðist þá gilda einu hvort slík reglugerðarinnleiðing eigi yfir höfuð nokkurn skapaðan hlut við íslenskan veruleika. Svo yppta menn bara öxlum ef einhverjum dettur sá dónaskapur í hug að gagnrýna flumbru­ganginn.

Til að réttlæta ófögn­uðinn er gjarnan settur fram sá frasi að þetta sé allt gert í þágu íslenskra neytenda. Þannig er málatilbúnaðurinn t.d. í kringum innleiðingu á inn­flutn­ingi ferskra land­búnaðar­afurða. Ferskt skal það vera og alveg tryggt að ekki sé þá heldur hróflað við glænýjum og ferskum evrópskum lyfja­ónæmum ofurbakt­eríum. Það eru sem sé sérstakir hagsmunir íslenskra neytenda að þeir fái að sitja við sama borð og þeir evrópsku þegar kemur að úthlutun sýkinga sem lækna­vísindin hafa ekki lengur nein  úrræði til að ráða við. Við skulum fyrir alla muni ekki trufla slíkt ferli. – Í nafni hins almáttuga og heilaga ESB – AMEN.

Hörður Kristjánsson.

Þessi ritstjórnargrein í Bændablaðinu 28. febr., eftir Hörð ritstjóra þess, er sömu snilldinni merkt og margt sem frá honum kemur.

Björn Bjarnason, gersamlega ótrúr Landsfundi síns eigin flokks, leyfir sér að telja að Hörður hafi hér gert sig "endanlega mark­laus­a[n] í opinberum umræðum". Það eru stór orð, sem Björn sjálfur stendur ekki undir, en hrína ekki á Herði. Björn nálgast af einfeldni orð Harðar hér ofar um Hitler, en það blasir við af texta höfund­arins, að ekki var hann að bera nazisma, Gyðinga­hatur eða út­rým­ingar­búðir upp á sællegu Brussel­karlana, hvað þá að þeir ætli undir stjórn síns góðglaða forseta Junckers að hrinda helmingi jarðarbúa út í heims­styrjöld. Björn þarf kannski að læra að lesa upp á nýtt, áður en hann æsir sig yfir næsta leiðara í Bænda­blaðinu. En að hann sjálfur hefur brugðizt málstað Íslands í orku­pakka­málinu, er eins augljóst og um Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og Sigríði Á. Andersen.

JVJ.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband