Innleiðing Orkupakka #3 á fölskum for­sendum? - eftir Bjarna Jónsson verkfræðing

Innleiðingin verður á öllum orku­pakkanum gagnvart ESB:

Því fer víðs fjarri, að ein sam­eig­in­leg frétta­til­kynn­ing ís­lenzks ráð­herra og eins fram­kvæmda­stjóra ESB hafi nokkra laga­lega skuld­bind­ingu í för með sér fyrir Evr­ópu­sam­band­ið (ESB).
Að undan­skilja gerð nr 713/2009 við inn­leið­ingu Al­þing­is á ESB-Orku­bálki #3 hefur þess vegna ekkert laga­legt gildi gagnvart ESB.
Þetta þýðir, að ESB-gerð, sem brýtur gegn Stjórnarskrá að mati Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, verður innleidd í lög á Íslandi samkvæmt Evrópurétti. ESB verður óbundið af þeim fyrirvara Alþingis að skilja gerð 713/2009 frá innleiðingu Orkubálks #3 í EES-samninginn.
Sæstrengsfjárfestar munu geta sótt um leyfi til Orkustofnunar fyrir sæstrengslögn til Íslands, eins og ekkert hafi í skorizt, þ.e. eins og enginn fyrirvari þessu lútandi hafi verið settur í íslenzk lög. Af munu hljótast málaferli, sem aðeins geta endað á einn veg.

Réttur vettvangur breytinga/aðlögunar fyrir EFTA-ríkin:

Að gera lögformlegt samkomulag við ESB um að fella niður heila gerð í heildstæðum ESB-lagabálki fyrir innleiðingu í einu EFTA-landi er ómögulegt á símafundi. Yfirlýsing samþykkt á símafundi hefur aðeins pólitíska þýðingu hér innanlands, en alls enga réttarlega þýðingu eða skuldbindingu fyrir ESB.
Eini rétti formlegi vettvangurinn fyrir slíka undanþágu eru samninga­viðræður í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem saman koma fulltrúar allra viðkomandi EFTA-landa og ESB. Breytingar, sem út úr slíkum samninga­viðræðum kynnu að koma, þurfa síðan að hljóta samþykki Fram­kvæmda­stjórnar­innar, Ráðherra­ráðsins og ESB-þingsins.
Við þessar aðstæður er ekkert til, sem hægt er með réttu að kalla „orkupakka á íslenzkum forsendum“. Með því er slegið ryki í augun á fólki með lögfræðilegum loftfim­leikum hér innanlands.

Sæstrengurinn „Ice-Link“:

Í umræddri fréttatilkynningu ráðuneytanna (UR, ANR) 22.03.2019 stendur: „Á sameiginlegum þing­flokks­fundi stjórnar­flokkanna 20. marz sl. var ákveðið að draga til baka umsókn um sæstrengs­verkefnið IceLink inn á fjórða PCI-listann (e. Projects of Common Interest). Hefur erindi þess efnis þegar verið sent.“ Núgildandi PCI-listi er nr 3, ekki nr 4, og gildir hann fram á árið 2020.
Hvers vegna var ekki óskað eftir að fjarlægja „Ice-Link“ af núgildandi lista ? Það er vegna þess, að slík beiðni myndi engin áhrif hafa. Beiðni ríkis­stjórn­ar­innar er ekki einu sinni nægjanleg til að forðast, að „Ice-Link“ fari á nýja listann árið 2020. Þótt hann fari út af fjórða listanum, getur hann farið inn á fimmta listann 2022. Hvaða réttmætur hagsmuna­aðili sem er, getur óskað eftir því við ACER/ESB, að „Ice-Link“ eða t.d. „Ice-Ire“ (sæstrengur til Írlands) fari inn á PCI #4, t.d. raforku­fyrirtækið E´ON eða annar sæstrengs­fjárfestir. Þótt beiðni ríkis­stjórnar Íslands verði vafalaust vegin og metin, hefur hún ekki neitunar­vald um málið.
Það er ekki sopið kálið, þótt í ausuna sé komið, því að í Kerfisþróun­ar­áætlun ESB er gert ráð fyrir „Ice-Link“, og hann er einnig í samevrópskri heildaráætlun (energy corridors) fyrir orkuflutninga. Þar eru mörg samþykkt skjöl og formleg ferli, sem við eiga, svo að áhrif íslenzku ríkisstjórnarinnar eru takmörkuð. Þessi beiðni frá Íslandi dugar ekki endilega til að hindra, að strengurinn fari inn á PCI#4.

Hreinar línur:

Sú leið, sem ríkisstjórnin ætlar að fara í orkupakka­málinu, er ófær, af því að hún brýtur EES-samninginn og er þar með á skjön við Evrópurétt. Annaðhvort verður þingið að samþykkja Orkupakka #3, eins og hann kom frá Sameiginlegu EES-nefndinni, eða að hafna honum alfarið. Það er ekki hægt að samþykkja aðeins hluta af honum, en hafna eða fresta hinu.
Afleiðingin af þessu er sú, að hagsmuna­aðilar, t.d. Vattenfall í Svíþjóð, geta kært ólögmætan gjörning Alþingis (að Evrópurétti) fyrir ESA, og þá mun þessi innleiðing hrynja, eins og spilaborg, og eftir mun standa í íslenzkri löggjöf Þriðji orkumarkaðs­laga­bálkurinn án nokkurrar undantekningar, þ.á.m. sá hluti hans, sem 2 af 4 lagalegum ráðgjöfum utanríkis­ráðu­neytisins töldu brjóta í bága við Stjórnarskrá Íslands.
Þar með virðist einnig myndast grundvöllur fyrir málshöfðun á hendur ríkinu fyrir íslenzkum dómstólum fyrir stjórnar­skrárbrot.

Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur.


mbl.is Leggja til orkupakka með fyrirvara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband