Bloggfærslur mánaðarins, október 2018
23.10.2018 | 20:40
"Ef þessi tilskipun ESB verður samþykkt á Alþingi, eru varnir okkar farnar"
Snilld var ræða Vigdísar Hauksdóttur lögfr. og fv. alþm. á fundinum um 3. orkumálapakka ESB á Háskólatorgi í gær. Hér eru nokkur af helztu atriðum ræðunnar, sem fljótlega verður raunar hægt að nálgast í heild á myndbandsupptöku af henni á netinu.
Vigdís er mjög vel heima um þessi mál, síðan hún stóð í stríðu í Alþingi að tala gegn ESB-umsókn Samfylkingarmanna, og þekkir á þeim ýmsa fleti, sem öðrum eru ekki endilega ljósir, eins og fram kom í ræðu hennar. Hefur hún áfram fylgzt vel með ESB-málum og sér það glögglega, að í þessu tilfelli enn einnar EES-tilskipunar og tillögu um að innfæra hana í lög Íslands er um að ræða enn eitt dæmi um "spægipylsuaðferðina", þ.e. að koma öllu regluverki Evrópusambandsins á okkur í smáum eða stærri skömmtum, hverjum eftir annan.
"En hér er verið að fjalla um náttúruauðlindir" Íslands.
Ásækni ESB í þessu efni ber að skoða í ljósi þess, að "mikill orkuskortur er í Evrópu, verið er að loka þar ýmsum orkuverum, kola- og kjarnorkuknúnum, sem eru talin úrelt og mengandi." (Orð V.H. hér jafnan höfð með tilvitnunarmerkjum.)
"Ef Ísland væri í ESB, stæði þessi umræða um Þriðja orkumálapakkann ekki yfir, því að við værum þá undir Lissabon-sáttmálanum" og lög ESB lög hér og engin von til þess að atkvæði okkar hefði neitt vægi gegn því í ESB-stofnunum. (Af þessu sést raunar, hve gersamlega valdalaus við hefðum verið eftir "inngöngu" í Evrópusambandið, við myndum engu ráða t.d. um ákvörðun um sæstrenginn, og eins og bent hefur verið á, gæti ESB þá t.d. látið reisa hér ótal vindmyllur um landið og spillt hér útsýni. Aths. JVJ.)
"Það er skylda eins ríkis í ESB að skaffa öðru ríki þar orku, ef hana skortir."
"Það var í raun búið að opna orkupakkann [þ.e. stefnuna á þann þriðja] í ESB, þegar ESB-umsóknin [hans Össurar & félaga] stóð yfir," því að Lissabon-sáttmálinn gaf framkvæmdastjórninni valdheimildir í þessa átt.
"Íslendingum var lofað láni frá ESB til að leggja sæstreng, ef Ísland gengi í ESB"! Þetta var þegar umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið var á döfinni hjá Samfylkingunni 2009, þá var lofað þessu láni, partur af því að lokka okkur inn, en þarna sést, að strax var meðvitað farið að stefna á þennan sæstreng á meginlandinu árið 2009.
"Þingmenn eru undir gríðarlegri pressu ekki aðeins frá ESB, heldur einnig frá norskum stjórnvöldum að samþykkja 3. orkupakkann." En eins og ítrekað kom fram á fundinum (og Vigdís veit vel), myndi norska þjóðin kunna Alþingi heilar þakkir fyrir að hafna þessari ESB-tilskipun, því að 70% Norðmanna eru andvíg innfærslu hennar þar í landi.
"Ef þessi tilskipun ESB verður samþykkt á Alþingi, eru varnir okkar farnar."
"Á ráðstefnu Háskólans í Reykjavík um málið voru aðallega fylgismenn tilskipunarinnar í panelnum." [Svo var einn lesandi að kvarta hér á Fullveldisvaktinni, að ráðstefnan á Háskólatorgi HÍ í gær hefði verið "aðeins einhliða áróðursfundur"; en ekki varð þess vart, að viðkomandi segði það sama um fund HR! Ennfremur reyndi formaður Heimssýnar, próf. Haraldur Ólafsson, hvað hann gat til að fá meðmælendur Þriðja orkupakkans til að verða meðal ræðumanna í gær -- reyndi það í ráðuneytinu og víðar, en fekk engan til að taka að sér slíkt hlutverk; þetta upplýsti hann í fundarslitaræðu sinni í gær.]
Norðmenn vita, að þessi tilskipun, gerð fyrir mun stærri þjóðir, á ekki við um aðstæður í þeirra landi, og ennþá síður á hún við á Íslandi. Ennfremur er enn ekki víst, að það myndi borga sig að flytja rafmagnið þessa löngu leið, svo mikil eru afföllin með núverandi tækni.
Undir lokin vék Vigdís að því, að mikið hefði verið reynt á sínum tíma að gera gys að henni fyrir að tala um "hreina orku" frá orkuauðlindum Íslands og hins vegar "skítuga orku" frá evrópskum orkuverum (kola-, olíu- og kjarnorkuknúnum), sem við fengjum hingað til baka. En nú eru einmitt orkufyrirtæki hér farin að selja eignarkvóta í sínum vottaða orkuforða og taka við óhreinum, neikvæðum kvótum í staðinn, þannig að nú geta t.d. íslenzk garðyrkjufyrirtæki ekki lengur auglýst sig með vörur sem framleiddar eru með græna, endurvinnanlega orku að baki, því að þá yrði sagt við þau: Nei, þið eruð ekki með hreina og vottaða kvóta! (en þetta er eitt af því, sem hlotizt hefur af því, að gengið er út frá vísindatilgátunni um manngerða hlýnun jarðar í loftslagsmálum).
Jón Valur Jensson.
Þriðji orkupakkinn í febrúar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Auðlindir og orkumál | Breytt 24.10.2018 kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.10.2018 | 06:37
Nú gefst tækifærið til að hlýða á sérfræðinginn um 3. orkupakka ESB sem frú Reykfjörð lætur plata sig til að agitera fyrir utan og innan þings
Prófessor Peter Thomas Örebech við lagadeild háskólans í Tromsö er mættur hér á Íslandi til að fjalla um þriðja orkupakka Evrópusambandsins, sem hann telur að muni illu heilli "eiga fullkomlega við um Ísland, hafni Íslendingar ekki upptöku hans."
Það myndi þýða að hans mati að íslenskt bann við því að stofna til sæstrengstenginga við útlönd væri andstætt EES-samningnum. (mbl.is)
Hann hefur tekið saman ýtarlega umfjöllun um þetta mál og molað sundur í frumeindir sínar þá greinargerð lögfræðings með takmarkaða þekkingu á ESB-regluverkinu, sem Reykfjörð iðnaðarráðherra lét taka saman, en hún"einkennist af misskilningi," eins og próf. Örebech hefur sýnt fram á.
Bæði er fjallað um þetta álitaefni í Morgunblaðinu í dag og fundur haldinn á Háskólatogi í HÍ síðdegis þennan mánudag kl. 17.15, í stofu HT-102, þar sem Örebech verður aðalfyrirlesari, en aðrir frummælendur verða Vigdís Hauksdóttir lögfræðingur og Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur. Þá verða einnig almennar umræður, en fundarstjóri verður Haraldur Ólafsson prófessor, formaður Heimssýnar. Fundarboðendur eru Ísafold, Herjan og Heimssýn, en þessi eru m.a. fundarefnin:
- Hvaða vald fær orkustofa Evrópusambandsins og landsreglarinn og hvernig munu þessir aðilar beita því?
- Hver er stefna Evrópusambandsins í orkumálum og er skynsamlegt að Íslendingar undirgangist hana?
- Munu íslensk stjórnvöld missa vald til að ákveða hvort sæstrengur verður lagður eða ekki?
- Er best fyrir Íslendinga að afþakka orkulöggjöfina? Hvernig mun Evrópusambandið bregðast við höfnun?
Bann við sæstreng yrði andstætt EES | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
20.10.2018 | 01:03
Af evru-meðvirkni minnislítilla Rúvara
Hvimleitt var að horfa upp á samstöðu Rúvara í þætti Gísla Marteins. Atli Fannar reið á vaðið með því að uppteikna krónuna sem meiri háttar sökudólg, vitaskuld án raka (hann kærir sig ekki um þau frekar en áreitnishópur femínistanna; "rökræður eru ekki leyfðar" segja þær á sínum "lokaða" vef þegar Jón Steinar hrl. er veginn og léttvægur fundinn, svo að pent og vægt sé orðað um dólgslegt athæfi þeirra).
Gísli Marteinn, sem þrátt fyrir Valhallarmerkið hefur verið vinstri-meðvirkur síðasta áratug eða svo (m.a. þægt verkfæri í höndum flugvallarandstæðinga í þeim herbúðum, rétt eins og Hanna Birna), lét sér krónu-níðið vel líka, og næstur á dagskrá var Bogi Ágústsson fréttastjóri, sem byrjaði gamlan söng ESB-sinna um hve krónan hefði rýrnað mikið, síðan henni var ýtt úr vör um 1922, miðað við dönsku krónuna, eins og þetta segi einhverja sögu um lífskjör okkar hér! En sér hann, sem fréttamaður, sem á að vera hlutlægur, ekki þessi þungvægu grundvallaratriði:
Það er engin spurning, að frá 1922 hefur lífskjörum Íslendinga, sem og gæðum íbúðarhúsnæðis okkar og tæknivæðingu atvinnuveganna fleygt langum meira fram en hjá Dönum. Af hverju þagði Bogi um það?
Það er sömuleiðis alveg ljóst og viðurkennt af erlendum sérfræðingum, að við bankakreppuna reyndist sveigjanleiki krónunnar okkur mikil björgunartaug: án hennar hefði samkeppnisstaða okkar erlendis og gagnvart ferðamennsku ekki stórbatnað, útflutningur fiskafurða ekki gefið jafnmikið af sér og byltingin í ferðamennsku jafnvel ekki átt sér stað! Það þarf meira en Eyjafjallajökulsgos til að laða að milljónir manna! Af hverju þagði Bogi um þetta?
Svo er sífellt sífrað um krónuna og vexti í herbúðum ESB-sinna, en aldrei minnast þeir á hitt, að bæði raforku- og hitunarkostnaður húsa er margfalt lægri hér en úti í Evrópu, sem Atli kaus að miða okkur við. Veit hann ekki af því, að rafmagn til almennings á Íslandi er fimmfalt ódýrara en í Þýzkalandi? Allt þetta vegur mikið í lífskjörum okkar.
Að sjálfsögðu á Bogi Ágústsson að vita þetta, en minntist ekki einu orði á það! Fremur sat hann þarna, ríkisstarfsmaður, og tók þátt í einhliða níði um gjaldmiðil þjóðarinnar! Er kannski næsti bær hjá honum að ganga í enn einn fáfræðiklúbb Loga Samfylkingarformanns, sem heldur að evran sé gjaldmiðill í Noregi, Danmörku og Svíþjóð?!!
Þá er enn óminnzt á Jón okkar blessaðan Ólafsson. Sá jafnvel hann ekki í gegnum það, að "Magga Kristmanns" er alltaf að gera lítið úr krónunni? -- þ.e.a.s. Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verzlunar og þjónustu, sem er liðsmaður ESB-hópsins hlálega "Já Ísland" og gekk fram fyrir skjöldu til að mæla alveg sérstaklega með Icesave-áþjáninni?! Eigum við að taka slíka sem marktækan álitsgjafa um gjaldmiðil okkar og lífskjör?
Og getum við ekki einu sinni reitt okkur á það, að sjálfur fréttastjóri Rúv kunni að gæta hlutlægni og standa á óvilhallan hátt með þjóð okkar frekar en þeim sem sífellt róa undir því, að við glötum fullveldisréttindum okkar til stórveldisins ESB?
Í beinu framhaldi af því: Munum við á komandi mánuðum geta treyst fréttaflutningi Boga og undirmanna hans af ACER-málinu? -- því sem nú ógnar dýrmætum hluta fullveldis okkar -- sem og lága verðinu á raforkunni!
Jón Valur Jensson.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2018 | 03:18
Greinar sem eru einstakar í sinni röð og fjalla um afar þýðingarmikil mál fyrir fullveldi Íslands
Greinar Bjarna Jónssonar verkfræðings eru í sér-gæðaflokki á Moggabloggi, þótt ekki séu allar árennilegar fyrir allan almenning, séu menn ekkert komnir inn í málin. Af hræðsluáróðri og Evrópugerð um innviði nefnist hans nýjasta grein, og einkennir hana sem fyrrum hárbeitt rökvísi og glöggskyggni á innihald lagagreina og reglugerða og þá stefnu Evrópusambandsins sem þar er mörkuð, að fylgt verði við framkvæmd "pakkans", hvort sem þjóðum líkar það vel eða miður.
Gagnrýni prófessors Peters Örebech er önnur grein eftir Bjarna, meiri háttar og grundvallandi krítík á Þriðja orkumarkaðslagabálk Evrópusambandsins og sérstaklega á þá álitsgerð, sem Birgir Tjörvi Pétursson lögfræðingur tók saman að beiðni iðnaðarráðherra okkar (varaformanns Sjálfstæðisflokksins), Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, en reynist vera með afbrigðum meðvirk og ómarktæk í raun, eins og rakið er í grein Örebechs, sem Bjarni segir þarna frá.
JVJ.
Tryggja þarf fullveldi EFTA-ríkjanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 03:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2018 | 19:00
Ólafur Ragnar Grímsson: Framtíð Íslands best borgið utan ESB
Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Ólaf Ragnar í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá alþjóðlegu fjármálakreppunni og bankahruninu á Íslandi." HÉR má sjá myndband Stöðvar 2 með viðtali Þorbjarnar Þórðarsonar við forsetann fyrrverandi.
"Ólafur Ragnar var forseti Íslands frá 1996-2016 og var í mörg ár alþingismaður og ráðherra þar á undan.
Á Ísland að standa áfram utan við ESB?
Það hefur ávallt verið mín skoðun og það var ein af ástæðunum fyrir því að ég ákvað að opinberlega og alþjóðlega lýsa þeirri skoðun þrátt fyrir að þáverandi ríkisstjórn hefði samþykkt aðild að Evrópusambandinu.
Á fyrstu árum mínum sem forseti fékk ég margar heimsóknir frá erlendum áhrifamönnum sem sögðu að Ísland þyrfti að ganga í Evrópusambandið þá, um síðustu aldamót, til að vera á undan Noregi. Til þess að við stæðum ekki uppi með það að Noregur væri búinn að móta sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins þegar við gengjum inn, ekki ef, heldur þegar.
Núna vita auðvitað allir að Noregur er ekkert á leið inn í Evrópusambandið og það munu örugglega líða áratugir þangað til, ef einhvern tímann það gerist.
Tony Blair hafði það sem meginþátt í sinni efnahagsstefnu á sínu fyrsta kjörtímabili að á öðru kjörtímabili myndi hann hafa forystu um það að Bretar gengju inn í evrusamstarfið.
Það myndu allir hlæja að slíkri tillögu í Bretlandi núna og það sem meira er þá er Bretland á leiðinni út úr Evrópusambandinu.
Þessar spár og þessi umræða, sem ég varð vitni að sjálfur á fyrstu árum mínum sem forseti, er auðvitað dæmi um það að þessir spádómar um að Evrópusambandið væri hin örugga framtíð og væri á beinni braut og allir yrðu að ganga þar inn ef þeir ætluðu sér að eiga einhverja sómasamlega framtíð, þetta hefur alltsaman reynst rangt. Þvert á móti sjáum við hér í Norður-Atlantshafi þar sem Íslendingar og Norðmenn hafa staðið utan, Grænlendingar og Færeyingar, öllum þessum þjóðum vegnar tiltölulega vel samanborið við þær þjóðir sem eru á meginlandi Evrópu og glíma við þau gríðarlegu vandamál sem Evrópusambandið glímir við þar.
Þannig að ég á mjög bágt með að sjá það að einhver geti fært fram í dag einhverjar sannfærandi röksemdir fyrir því að af hverju, út frá íslenskum hagsmunum, við ættum að ganga í Evrópusambandið, segir Ólafur." (Visir.is)
Sjá má viðtalið við Ólaf í heild sinni HÉR.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 19:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2018 | 05:15
Nýtt mat á EES-samningi er orðið brýnt; nefnd til að meta galla hans og kosti er grunsamlega fámenn, með 2 þekktum og 1 lítt þekktum nefndarmanni
Utanríkisráðhr. skipaði 30/8 sl. 3ja manna starfshóp sem ætlað er að gera úttekt á kostum og göllum EES-aðildar Íslands. Nefndarform. er Björn Bjarnason, en Kristrún Heimisdóttir, fyrrv. aðstoðarm. Ingibjargar Sólrúnar og síðar Árna Páls Árnasonar viðskiptaráðherra, situr í nefndinni með Birni, og þótt bæði séu vitfólk mikið, er kannski ekki við því að búast, að þau komi með nýjar og óvæntar tillögur að rannsókn sinni lokinni. Björn hefur með eindregnum hætti ítrekað lýst sig mjög hlynntan EES-samningnum, og ekki er Kristrún líkleg til að leggja neitt til, sem fjarlægir okkur frá Evrópusambandinu, það þveröfuga gæti jafnvel gerzt.
Eflaust er það rétt mat hjá Birni Bjarnasyni, þegar hann segir á heimasíðu sinni: "Það er vel við hæfi að gera ítarlega og vandaða úttekt á aðild Íslands að samningnum þegar 25 ár eru liðinn frá gildistöku hans." En hér hlýtur ekki sízt að skipta máli, hvernig sú nefnd er skipuð, sem gerir þessa úttekt á því, hvort við höfum á heildina litið grætt eða haft gagn af EES-samningnum eða hvort hann hafi jafnvel lengi verið þjóðinni til þyngsla á sumum sviðum.
En hver er þriðji nefndarmaðurinn? Bergþóra heitir hún Halldórsdóttir, núv. lögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins og erindreki um samstarf atvinnulífsins og utanríkisþjónustunnar. Hún varð 35 ára í fyrradag (til hamingju með það!), ólst upp í Reykjavík, og lauk ML-prófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík auk þess sem hún lauk diplómaprófi í frönsku frá Aix-Marseille Université. Hún var fyrst saksóknarafulltrúi á sviði skattamála hjá Embætti sérstaks saksóknara, einnig sérfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu og sinnti lögfræðiaðstoð fyrir kosningaeftirlitsnefnd Öryggis- og samvinnuráðs Evrópu áður en hún hóf störf hjá SA, í upphafi á vinnumarkaðssviði samtakanna.
Nú er vitað, að SA hafa mjög viljað halla sér að Evrópusambandinu, og úr hópi stjórnenda í þeim samtökum atvinnulífs hafa t.d. allmargir forystumenn ESB-sinna á Íslandi komið, sem og þónokkrir af þingmönnum "Viðreisnar", sbr. hér og hér). Því liggur beint við að spyrja: Er líklegt, að lögfræðingur SA sl. hálfan áratug sé fyrir fram hlutlaus gagnvart EES-samningnum og Evrópusambandinu sjálfu?
En Björn Bjarnason er ósköp glaður yfir þessu öllu saman og ritar þess utan: "Fyrir okkur sem sitjum við að safna efni í þessa skýrslu er ánægjulegt að sjá að vinnulagið veldur ekki deilum á alþingi." Þá upplýsir hann um, að Pétur Gunnarsson, sérfræðingur í EES-málum í utanríkisráðuneytinu, er ritari hópsins.
Ef einhverjum þykir hér ógáfulega spurt út í mál eða of mikillar tortryggni gæta gagnvart nefndarmönnunum þremur, þá er sjálfsagt að nefna það hér í athugasemd og koma með rök fyrir því, að þetta sé allt í bezta fari undir leiðsögn Björns Bjarnasonar. Afstaða hans til Þriðja (ACER) orkumálapakka Evrópusambandsins dregur þó ekkert úr áhyggjum undirritaðs.
Í frétt á Mbl.is um þetta mál sagði svo:
Björn fjallaði um skipunina á vefsíðu sinni [...] þar sem hann sagði meðal annars: "Ég var og er á móti ESB-aðild og tel að EES-leiðin sé best til óhjákvæmilegs samstarfs okkar við ESB. Að greina EES-stöðuna nú og draga ályktanir af þeirri vinnu er verðugt viðfangsefni."
Fyrrverandi utanríkisráðherra fekk hér tilefni til að skjóta spotzkur á Björn (úr sömu frétt):
Þessi ummæli vöktu athygli Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Miðflokksins, sem birti ummæli Bjarnar á Facebook-síðu sinni og velti því fyrir sér hvort niðurstaða skýrslu starfshópsins lægi fyrir í ljósi orða formanns hans: "Er þá niðurstaðan komin?" (!)
VIÐAUKI
Undirritaður setti eftirfarandi texta á Facebók, m.a. á Stjórnmálaspjallið, með vísan á þessa grein:
Er þriggja manna nefnd undir forystu Björns Bjarnasonar treystandi fyrir framtíðarstöðu landsins? Hér er um afgerandi mikilvægt endurmat á EES-samningnum að ræða, en er þá við því að búast, að þrjár manneskjur, sem allar gætu fyrir fram virzt vera hlynntar honum, gefi á sínum vel launaða 12 mánaða matstíma traustsverða rniðurstöðu um allar hliðar þess máls? Víst er, að samningurinn hefur kostað mikið í árlegum útgjöldum ríkissjóðs vegna eilífrar þýðingarvinnu á löggjöf, sem við höfum alla jafnan ekkert með að gera og oft er til óþurftar og takmörkunar á athafnafrelsi Íslendinga, sem og með fráleitum framlögum héðan til þróunarstarfs ESB-ríkja í Austur-Evrópu, en það versta er þó, ef skuldbindingar okkar aukast enn, á borð við ACER-málið skelfilega og sæstrengs-málið. Björn Bjarnason virðist forstokkaður fylgismaður Þriðja orkumálapakka Evrópusambandsins, með öllu hans fullveldisframsali til ACER og ESB, og er því naumast rétti maðurinn til að leiða svona matsvinnu. Vísa ég um það mál til frábærs upplýsingastarfs Bjarna Jónssonar rafmagnsverkfræðings og nú síðast til greinar hans: Gagnrýni prófessors Peters Örebech (sérfræðings í Evrópurétti) sem malar niður í smátt hið afar meðvirka álit með Acer-samningnum sem Þórdís Kolbrún, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði eftir! -- Eitt er víst að þessi mál eru ekki í góðu fari -- að mörgu er hér að ugga, en hér er grein Bjarna Jónssonar: https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2223574/
Sjá einnig athugasemdirnar og umræður hér á eftir.
Jón Valur Jensson.
Er þá niðurstaðan komin? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.10.2018 | 12:37
Ekki er björgulegt fram undan í Evrópusambandinu, djúp evrukreppa jafnvel yfirvofandi á komandi tíð
Hagkerfi evruríkja eru berskjölduð vegna skuldasöfnunar, sem og einkafyrirtæki.
"Hugsanlegt er að næsta niðursveifla á evrusvæðinu verði verri en sú síðasta þar sem ríkisstjórnir og seðlabankar innan svæðisins hafa ekki lengur nauðsynleg tæki til þess að takast á við nýja efnahagskrísu að mati alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody´s.
Fyrir vikið verði lítið svigrúm til þess að grípa inn í með fjárhagslegum stuðningi komi til nýrrar niðursveiflu. Enn fremur segir Moody's að evruríki með veikburða hagkerfi og mikið atvinnuleysi hafi gert of lítið til þess að koma á nauðsynlegum umbótum,"
eins og hermt er á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph og frá er sagt á Mbl.is í dag. Og ekki er útlitið gott:
Á sama tíma og Evrópski seðlabankinn er enn að prenta peninga vegna síðustu krísu hefur ríkisstjórnum Ítalíu, Spánar og Frakklands ekki tekizt að lækka skuldir sínar sem neinu nemi. Ennfremur hafa mörg fyrirtæki safnað skuldum þrátt fyrir minnkandi lánstraust. Það hafi verið hægt vegna mikils framboðs á ódýru lánsfé. Þau stæðu því illa að vígi.
Margrómaðir yfirburðir ESB-ríkja í vaxta- og lánamálum, sem og vegna "öflugs" Evrópsks seðlabanka, virðast þarna hæpnari en á var litið og jafnvel orðnir að snöru fyrir þessi lönd sjálf, því að endalaust varir þetta ástand ekki, og skellurinn getur orðið mikill. Vill einhver kasta efnahag Íslands inn í slíkan rúllettu?
Svigrúmið til þess að grípa til aðgerða heldur jafnvel áfram að minnka,
Meðal annars vegna þess að áhrifaþættir til lengri tíma gera stöðuna sífellt verri. Þar á meðal sífellt eldri íbúafjöldi evruríkjanna.
Ekki er staðan mikið betri hjá heimilum á evrusvæðinu að mati Moody´s. Þau
hefðu átt erfitt með að draga úr skuldsetningu sinni á sama tíma og sparnaður væri af skornum skammti. Fyrir vikið gætu þau átt erfitt með að greiða skuldir til baka ef vextir færu hækkandi.
Ennfremur: flest bendi til "lítils hagvaxtar á evrusvæðinu næstu árin, jafnvel þó ekki kæmi til niðursveiflu vegna lítillar framleiðniaukningar og hækkandi meðalaldurs."
Þetta bendir sízt til glæsilegs ástands fram undan. Náttúrleg fólksfjölgun á evrusvæðinu hefur stöðvazt og fer nú niður á við, enda fæðast þar víða einungis 1,3 til 1,5 börn á hverja fjölskyldu og því einboðið, að miklu minna framboð verði á nýjum vinnuafls-kynslóðum þar á næstu tveimur áratugum en fyrir aldarfjórðungi. "Lausn" að hluta til gæti fólgizt í síauknum innflutningi fólks frá Mið-Austurlöndum, Afríku og Indlandi, en því fylgir bæði mikill upphafskostnaður, aukið álag á menntunarkerfi til að efla starfs- og raunar grunnmenntun fyrir allt það fólk, fyrir utan aðlögunarvanda á báða bóga, innfæddra og aðfluttra.
Jón Valur Jensson.
Næsta evrukrísa hugsanlega verri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)