Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014
Ljóst er að með óbilgjarnri sókn tveggja vinstri flokka með 20% fylgi, en með ótrúverðuga fjölmiðla með sér hafa þeir sett Sjálfstæðisflokk í varnarstöðu í málinu. Nú er komin frétt um að formaður utanríkismálanefndar, Birgir Ármannsson alþm., telji " ólíklegt á þessari stundu að þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að afturkalla umsókn Íslands að Evrópusambandinu verði afgreidd á þessu þingi." (Mbl.is.)
Utanríkismálanefnd var að koma saman eftir páskafrí og við erum að funda um önnur mál eins og stendur en þingsályktunartillaga utanríkisráðherra er næst á dagskrá," segir hann, en bætir þó við:
- "Eins og staðan er í dag tel ég ólíklegt að málið klárist fyrir þinglok 16. maí, segir Birgir en segir það þó enn óljóst hvort þingið muni funda strax eftir sveitarstjórnarkosningar. (Mbl.is.)
Ekki lítur þetta vel út fyrir tillögu utanríkisráðherrans, sem hefur þó notið stuðnings ríkisstjórnarflokkanna (að tveimur þingmönnum undanskildum, en jafnmargir úr stjórnarandsöðu eru þó líklegir til að styðja hana, a.m.k. Ögmundur Jónasson).
Þeim mun verr lítur þetta út sem forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, "segir engin áform vera um sumarþing enn sem komið er. Ég hef skipulagt allt starf í samræmi við að þingið ljúki störfum 16. maí, segir Einar," og er fjallað nánar um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Ætlar ríkisstjórnin að heykjast á afturköllun ESB-umsóknar vegna flokkshagsmuna? Er það veik staða Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, sem veldur því, að flokkurinn þorir ekki að afgreiða málið af snerpu í þinginu af ótta við áróðursstarfsemi Fréttastofu Rúv og 365 fjölmiðla og tilkallaðra álitsgjafa, stjórnarandstöðu og fárra, en óbilgjarnra aðila í Sjálfstæðiflokki eins og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur? (Vert er að benda þeim, sem hlustað hafa á árásir hennar í sunnudagsþætti Gísla Marteins, á að lesa seinni leiðara Moggans í dag. Þar er hún spurð ágengrar spurningar, sem mundi, ef svarað yrði, leiða í ljós allan hennar ótrúverðugleik í því máli.)
Eins og Hjörtur J. Guðmundsson blm. og Bergþór Ólason fjármálastjóri hafa bent á i nýlegum greinum í Morgunblaðinu, er hið eðlilegasta mál, sem liggur beint við, að afgreidd sé þessi tillaga utanríkisráðherrans á sitjandi þingi. Grein Hjartar, sem tengist umræðu um gjaldeyrismálin og EES, birtist sl. föstudag, 25. apríl, og verður væntanlega rædd hér síðar, en snilldargrein Bergþórs, Öllu snúið á hvolf, birtist í sama blaði sl. laugardag (og var að verðleikum rædd í forystugrein blaðsins í gær). Og hrein snilld er hún út í gegn og vert endurtekningar.
Jón Valur Jensson.
Óljóst hvort ESB-tillaga klárast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2014 | 14:31
ESB hefur allt vald yfir "reglunni um hlutfallslegan stöðugleika" fiskveiða hvers ESB-lands
* Sjá þessa grein: Íslendingar gætu þurft að greiða skaðabætur vegna þorskastríðanna, sem byggir á frétt í Ríkisútvarpinu 9. febrúar 2007. Fréttin er öll afar athyglisverð og langt frá því að vera úrelt, heldur kannski einmitt tímabærari lesning nú en nokkru sinni fyrr. Menn lesi hana alla, sér til upplýsingar (raunar er hún stutt), en ég tek hér upp lokaorð hennar:
- "Reglan um hlutfallslegan stöðugleika fjallar um fiskveiðiréttindi miðað við veiðireynslu þjóða en einnig um skaðabætur vegna tapaðra veiða. Stefán segir hugsanlegt að gangi Íslendingar í Evrópusambandið krefjist aðrar fiskveiðiþjóðir skaðabóta vegna tapaðra veiða þegar Íslendingar færðu út fiskveiðilögsögu sína."
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Þegar hvorki ríkisstjórn né meirihluti Alþingis vill ganga í Evrópusambandið kemur ekki til greina að Ísland sé áfram umsóknarríki. Þess vegna verður að afturkalla inngöngubeiðnina í Evrópusambandið með algerlega ótvíræðum hætti. Þangað til það er gert, er Ísland umsóknarríki í Evrópusambandið og lýsir því þannig yfir á hverjum degi á alþjóðavettvangi að það stefni í Evrópusambandið. Þess vegna kemur ekkert annað til greina en skilyrðislaus afturköllun inngöngubeiðninnar, og um það þarf enga nefndarfundi, umsagnir eða keyptar skýrslur"
Svo segir í nýlegum pistli á vef Andríkis.
19.4.2014 | 12:10
Sigurður Oddsson verkfræðingur afhjúpar staðreyndir
Stjórnarskráin var það góð að ekki var hægt að framselja vald til ESB án þess að breyta henni. Eftir miklar æfingar gafst almenningi kostur að svara nokkrum spurningum um stjórnarskrá. Valdar voru spurningar, sem flestir gátu svarað játandi. Ekki var spurt um fullveldið. Samfylkingin kallaði svo skoðanakönnunina kosningu, sem hefði samþykkt breytta stjórnarskrá.
Allt kjörtímabilið fékk ESB forgang. Björgun heimila sat á hakanum.
Sigurður Oddsson
Þetta er úr sláandi góðri grein, Örlagavaldurinn ESB, eftir Sigurð Oddsson verkfræðing í Mbl. 16. apríl. Hann segir þar ennfremur:
Í kosningunum 2009 voru tveir sigurvegarar. Össur lofaði fyrir kosningar að koma þjóðinni í skjól ESB og Steingrímur að halda þjóðinni utan ESB. Steingrímur sveik strax loforðið og myndaði með Samfylkingunni stjórn sem hafði það að markmiði að ganga í ESB. Sveik allt fyrir ráðherrastól. Þau svik verða seint toppuð. Össur beitti öllum brögðum til að standa við sitt. Laug að þjóðin ætti von á pakka frá Brussel, sem borgaði sig að kíkja í. Það gekk þar til Jón og Gunna föttuðu, að ESB myndi ekki aðlaga regluverkið að hagsmunum Íslands. Þá sagði Össur að Ísland þyrfti engar undanþágur.
Jóhanna sást varla í stjórnarsamstarfinu. Steingrímur vann myrkranna á milli að eigin sögn jós út skattpeningum til að rétta af þjóðarskútuna. Össur tók við þar sem Halldór hætti og var mest í ESB sendiferðum. Icesave og stjórnarskráin stóðu í vegi fyrir ESB inngöngu. Í þrígang samdi Steingrímur um Icesave við þá, sem skipuðu okkur á bekk hryðjuverkamanna. Fyrsti samningurinn var svo góður, að hann krafðist þess að þingmenn samþykktu hann óséðan. Jóhanna birtist og tuktaði til þingmenn, sem hún kallaði villiketti. Ef þau frömdu ekki landráð þá veit ég ekki hvað landráð eru.
Margt fleira er í grein Sigurðar, t.d. um óhagræðið af af ýmsu sem komið hefur hingað með ESB-löggjöf (leturbr. hér):
"Í Brussel voru kaflar opnaðir hraðar eftir því sem á leið kjörtímabilið. Mér skilst, að það að opna kafla sé að samþykkja og undirgangast lög og reglugerðir ESB. Oft mörg hundruð eða þúsundir blaðsíðna í einu. Ýmislegt höfum við fengið, sem bendir til að kaflarnir séu ekki vel lesnir. Pósturinn bað mig t.d. að hækka bréfalúgu á útidyrahurð. Hún var of lágt skv. ESB reglugerð. Gefinn var frestur, að öðrum kosti yrði hætt að bera póst til mín. Ég hefi ekki heyrt frá póstinum eftir að ég lét álit mitt í ljós í Morgunblaðspistli. Við höfum líka samþykkt að nota dýrari mengandi Euro-perur. Ný byggingasamþykkt eykur byggingakostnað um 10-15%."
PS: Mjög athyglisverð grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í dag (hann er lesendum hér að góðu kunnur): Páskaegg aðildarsinna: Völd til ESB ekki afturkræf. Jafnvel Bretlandi er sagt að sætta sig við það!
Evrópumál | Breytt 21.4.2014 kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.4.2014 | 21:46
Umsögn Samtaka um rannsóknir á ESB um hina margumræddu þingsályktunartillögu utanríkisráðherrans (send Alþingi)
Umsögn
Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland (kt. 520811-1090)
um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, herra Gunnars Braga Sveinssonar, um að hætta beri aðildarumsókn Íslands að ESB
I: Löggjafarvaldið skal vera í okkar höndum
Það var grundvallaratriði í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. og 20. öld að leitazt var við að fá fullt löggjafarvald aftur inn í landið.
Jón Sigurðsson komst svo að orði í grein í Nýjum félagsritum 1858 (s. 209), að við Íslendingar "eigum að réttu lagi fullkomin löggjafarréttindi skilið". En stuðningsmenn umsóknar hins nauma meirihluta Alþingis 2009 vilja inntöku Íslands í stórveldabandalag sem strax í aðildarsáttmála krefst æðstu og ráðandi löggjafarréttinda yfir landinu!
Þetta síðastnefnda er fullkomlega ljóst af þeim aðildarsáttmálum, sem norska ríkisstjórnin, sú sænska, hin finnska og hin austurríka undirrituðu árið 1994 (en norska þjóðin hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu). Þar segir strax, rétt við upphaf textans:
"Community law [lög Sambandsins, þ.e. ESB] takes precedence over any national provisions which might conflict with it." Þetta felur í sér, að Evrópusambandslög geta í reynd ógilt alla andstæða lagasetningu aðildarlandanna. Nánar tiltekið segir þarna í aðildarsáttmálanum:
- "... in joining the European Union, the applicant States accept, without reserve, the Treaty on European Union and all its objectives, all decisions taken since the entry into force of the Treaties establishing the European Communities and the Treaty on European Union and the options taken in respect of the development and strengthening of those Communities and of the Union;"
- "... it is an essential feature of the legal order introduced by the Treaties establishing the European Communities that certain of their provisions and certain acts adopted by the institutions are directly applicable, that Community law takes precedence over any national provisions which might conflict with it, and that procedures exist for ensuring the uniform interpretation of Community law; whereas accession to the European Union implies recognition of the binding nature of these rules, observance of which is indispensable to guarantee the effectiveness and unity of Community law."
Þetta allt og fjöldamargt annað um aðildarsamninga Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Austurríkis (1994) mátti a.m.k. til skamms tíma lesa á þessari vefslóð: http://eur-lex.europa.eu/en/treaties/dat/11994N/htm/11994N.html#0001010001 (án efa eru skjöl aðildarsáttmálanna til í vörzlu Alþingis).
Af þessu er ljóst, að ESB-lög eru forgangslög á öllu ESB-svæðinu (takes precedence over any national provisions which might conflict with it), en hvað gerist í tilfellum ágreinings um, hvort árekstur sé milli ESB-löggjafar og aðildarríkisins? Jú, þá er túlkunarvaldið Evrópusambandsins, ekki neins gerðardóms milli aðildarríkisins og ESB. Það er nefnilega engum þátttökuríkjum í sjálfsvald sett, hvernig þau túlki lög Evrópubandalagsins, heldur eru þegar til staðar e.k. afgreiðsluleiðir eða vinnuferli ("procedures") sem tryggja [Evrópusambandinu] það, að lög þess haldi fullri virkni sinni og að þau haldist ein og óskipt, þ.e.a.s. að ekki myndist frjálsar og mismunandi túlkunarleiðir, sem einstök ríki geti valið sér að geðþótta, af því að þau henti eiginhagsmunum þeirra.
Inngöngusáttmálinn tryggir því fyrir fram, að túlkun bandalagsins sjálfs fái að ráða, rétt eins og hitt grundvallaratriðið, að lög þess fá ævinlega forgang og ráða úrslitum alls staðar þar sem þau rekast á löggjöf landanna sjálfra í bandalaginu ("Community law takes precedence over any national provisions which might conflict with it").
Það verður ekki haldið og sleppt: þ.e. verið með æðsta löggjafarvald hér, eins og kveðið er á um í 2. gr. stjórnarskrár okkar og allnokkrum greinum þar í viðbót, og verið svo meðlimaríki í stórveldi, sem áskilur sjálfu sér ekki okkur æðsta löggjafarvald. Grundvallarviðmið Jóns Sigurðssonar forseta: að við Íslendingar "eigum að réttu lagi fullkomin löggjafarréttindi skilið", væri þá ekki lengur virt hér í stjórnsýslu okkar og af Alþingi sjálfu. Og þessi fullkomnu löggjafarréttindi okkar, sem okkur tókst að afla okkur í sjálfstæðisbaráttunni og notuðum m.a. með svo farsælum árangri í fjórum útfærslum fiskveiðilögsögu okkar frá 1952 til 1975, úr 3 í 200 mílur, þessi fullkomnu löggjafarréttindi vilja nú ýmsir alþingismenn feig!
Jafnvel þótt framsal stjórnvalds og dómsvalds til Evrópusambandsins í málfnum sjávarútvegs og landbúnaðar væri gríðarlegt afsal sjálfræðis okkar og jafnvel einokunar-nýtingarréttar okkar og framtíðar-eignarhalds á fiskveiðiréttindum hér, þá er hið almenna afsal æðstu löggjafarréttinda Íslands, sem fólgið væri í undirritun aðildarsáttmála með ofangreindu innihaldi, ennþá alvarlegra mál, eins og augljóst á að vera orðið af framangreindu. Sá, sem ræður lögum þjóðar, ræður og með næsta auðveldum hætti framtíð hennar.
Því ber að afturkalla þessa umsókn Össurar Skarphéðinssonar og félaga hans, enda er þjóðin í engri slíkri neyð í því verkefni sínu og hlutskipti að vera sjálfstæð, sem líkja megi við neyð Nýfundnalendinga, þegar þeir um 1950 samþykktu að land þeirra yrði hluti af Kanada.
II: Alvarleg lagabrot, jafnvel gegn sjálfri stjórnarskránni, áttu sér stað með umsókninni um aðild að ESB árið 2009
Ekki dregur það úr nauðsyn afturköllunar umsóknar um inngöngu í Evrópusambandið, að hún mun ekki hafa átt sér stað án alvarlegra stjórnlagabrota og brota á alvarlegasta kafla almennra hegningarlaga, landráðalaga-bálkinum.
16.-19. gr. stjórnarskrárinnar hljóða þannig (leturbr. hér):
- 16. gr. Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.
- Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.
- 17. gr. Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra, er forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis, og nefnist hann forsætisráðherra.
- 18. gr. Sá ráðherra, sem mál hefur undirritað, ber það að jafnaði upp fyrir forseta.
- 19. gr. Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.
Af þessu og eðli alls ESB-málsins (þ.e. umsókn hluta alþingismanna 2009 um upptöku landsins í ríkjabandalag, stórveldi sem gerir m.a. kröfu til æðstu og ráðandi löggjafarréttinda) er augljóst, að þingsályktunartillöguna um ESB-umsóknina átti skv. 16., 17. og 19. gr. stjórnarskrár lýðveldisins að bera undir forseta Íslands og leita undirskriftar hans undir það skjal.
Það var ekki gert, heldur var ákveðið að fara fram hjá lögformlegum ákvæðum sjálfrar stjórnarskrárinnar þar um og síðan hlaupið til útlanda með umsóknina og hún lögð fram hjá ESB-fulltrúum og það tvisvar, en án samþykkis forseta lýðveldisins. Fyrir þessu framferði var helzti gerandinn, þáv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson, ekki einn ábyrgur, heldur öll ríkisstjórn (ráðuneyti) Jóhönnu Sigurðardóttur.
Þá verður að benda á, að sjálfur form. stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Árni Páll Árnason, hefur viðurkennt vissa hluti í þessu sambandi sem eru sjálfum honum og Samfylkingu dómsáfellir, þ.e.a.s.: hann viðurkenndi sjálfur, að aðildarviðræður við Evrópusambandið voru mikilvægt stjórnarmálefni í skilningi 17. greinar stjórnarskrárinnar. Ergo bar honum að mótmæla því, að þetta mikilvæga stjórnarmálefni var EKKI borið undir forseta Íslands í ríkisráðinu.
Sjá nánar hér: Árni Páll Árnason minnir óvart á að ESB-umsókn Össurar og hans eigin flokks var ólögmæt! = http://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/1309618/
Hér var einnig vikið að landráðalögunum, og skal þar minnt sérstaklega á þessa vefslóð um þau mál: http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/590474/
Ennfremur virðist sem 48. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið brotin í júlí 2009, þegar nokkrir þingmenn VG voru, að því er virðist, neyddir til að greiða atkvæði á móti sannfæringu snni, eins og frásagnir eru til af og vottað nánast af þeim sjálfum, sumum hverjum, þegar þeir gerðu grein fyrir atkvæði sínu að vísu ekki grátandi eins og Árni Oddsson lögmaður 1662, en tveir þingmenn eru þó sagðir hafa fellt tár út við vegg í þessum hremmingum.
Þessi hugsun um ólögmæti umsóknarinnar frá 2009 hefur einnig verið sett fram með öðrum hætti af félagsskapnum Samstaða þjóðar, í kærubréfum til ríkissaksóknara 23. janúar og 8. febrúar 2014, sbr. grein eftir Loft Altice Þorsteinsson verkfræðing í Morgunblaðinu 6. marz 2014 og hér á netinu: http://samstada-thjodar.blog.is/blog/samstada-thjodar/entry/1361765/ , þar sem segir m.a.:
"Brot á stjórnarskrá þjóðarinnar leiðir til ákæru fyrir Landsdómi.
Með tilraunum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að innlima Ísland í Evrópusambandið, var ekki bara rofinn trúnaður við almenning heldur var framkvæmd umsóknarinnar brot á stjórnarskrá þjóðarinnar. Umsóknin sem undirrituð var af Össuri Skarphéðinssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur var stjórnarerindi af hæstu gráðu og samkvæmt 19. grein Stjórnarskrárinnar skal forseti landsins undirrita öll stjórnarerindi. Forsetanum var haldið frá að gegna stjórnarskrár-bundnum skyldum og meinað að undirrita umsóknina. Þetta stjórnarskrárbrot kærði »Samstaða þjóðar« til Ríkissaksóknara með bréfum 23. janúar 2014 og 8. febrúar 2014, sjá hér: (http://samstada-thjodar.blog.is/blog/samstada-thjodar/entry/1349610/)."
III: Þingmeirihlutinn hefur valdið til afturköllunar ESB-inntökuumsóknarinnar
Þetta vald fekk stjórnarmeirihlutinn og þeir aðrir þingmenn, sem kynnu að greiða þált. núv. utanríkisráðhr. atkvæði sitt í innan við ársgömlum kosningum. Upphlaup Samfylkingaraflanna með smölun á mótmælafundi, ásamt afar viðamikilli auglýsingaherferð, m.a. á netinu og ljósvakamiðlum og heilsíðuauglýsingum dagblaða auglýsingaherferð sem ekki er upplýst, hvaða aðilar borgi á sízt alls að hrekja þingmeirihlutann frá því að greiða um þessa þált. atkvæði skv. sannfæringu sinni, eins og landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2013 og flokksþing Framsóknarflokksins lýstu einnig yfir sem stefnu sinni, þ.e. að afturkalla bæri umsóknina frá 2009.
IV: Sjálfhætt er umsókninni vegna sjávarútvegsmála okkar
Smánarlegt er að verða vitni að því, að í skýrslu Alþjóðamálastofnunar HÍ um þessi mál skuli byggt á sögusögnum ónafngreindra embættismanna í Brussel, jafnvel um fullyrðingar um rétt okkar Íslendinga til fiskveiðilögsögunnar hér, fullyrðingar sem ganga í berhögg við sjálfan Rómarsáttmálann og einnig ummæli ýmissa æðstu ráðamanna Evrópusambandsins, sbr. þetta:
Það er ekki hægt að fá neinar varanlegar undanþágur frá lögum ESB, sagði Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í Brussel þegar spurt var út í sjávarútvegsstefnu sambandsins, og Össur Skarphéðinsson gerði sig að aðhlátursefni með því að svara efnislega, að það væri ekkert mál að semja um varanlegar undanþágur.
Eftir að Össur hafði svarað spurningunni bætti Füle við: Að í sambandi við þessi mál yrði að hafa í huga að ESB veitti ekki varanlegar undanþágur frá lögum sambandsins.
Þetta er í fullu samræmi við orð dr. Stefáns Más Stefánssonar prófessors í Evrópurétti við lagadeild HÍ, sem ritar t.d. í bók sinni Landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins (2011), s. 66:
"Um varanlegar undaþágur frá reglum ESB. Skoðun á aðildarlögum einstakra ríkja staðfestir að hingað til hefur ekki verið um varanlegar undaþágur að ræða, hvorki á sviði sjávarútvegsmála né landbúnaðarmála." (Nánar þar.)
Helztu forsvarsmenn ESB hafa alla tíð verið ærlegir gagnvart Íslendingum um það að Ísland yrði með inngöngu í ESB að beygja sig undir sameiginlegar samþykktir ESB. Í Fréttablaðinu 8. nóvember 2009 sagði Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, að það væru: Engin fordæmi fyrir varanlegri undanþágu.
Emma Bonino, framkvæmdarstjóri sjávarútvegsmála ESB, var í viðtali við Morgunblaðið 1995 þegar hún sagði að Ísland fengi ekki full yfirráð yfir fiskveiðilögsögu sinni, heldur yrði eins og önnur aðildarlönd að gangast undir hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB. Orðrétt sagði hún: Meginreglan er sú að sameiginleg stefna er öllum sameiginleg, hvort sem um er að ræða fiskveiðar eða landbúnað. Sami rammi gildir fyrir alla.
Umsókninni er því sjálfhætt af þessum ástæðum, enda væri framhald aðildarviðræðnanna komið í beina mótsögn við skilmála utanríkismálanefndar fyrir umsókninni 2009, þ.e. að við héldum okkar yfirráðum yfir fiskveiðilögsögunni.
Niðurstaðan er augljós: Afturkalla ber hina vansæmandi umsókn um inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
Að nú sé að myndast grátkór nokkurra þingmanna, þ.m.t. formanns Vinstri grænna (!), yfir því, að sé umsóknin dregin til baka, sé ekki hægt að byrja slíkt á ný án þess að sækja aftur um með meiri fyrirhöfn, þar sem slík umsókn þurfi á ný að fara fyrir stjórnvöld allra ESB-ríkjanna er engin ástæða til að hika við þetta mál, heldur þvert á móti gefst þar tækifæri einmitt vegna ákvæðis í þingsályktunartill. núv. utanríkisráðherra til að gera það, sem trassað var viljandi árið 2009, þ.e. að bera umsóknina sjálfa undir þjóðaratkvæði hér. Að vinstri flokkarnir óttist það, á ekki að vera nein ástæða til að hrekjast frá þeirri grundvallarhugsun. Raunar ætti að krefjast aukins meirihluta til slíkra mála, sem stefna í fullveldisframsal, og t.d. eru Norðmenn með ákvæði um aukinn meirihluta í Stórþinginu til slíkra mála (2/3 atkvæða eða 3/4, eftir alvöru þeirra).
Virðingarfyllst, 8. apríl 2014,
stjórn Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland,
Jón Valur Jensson, formaður, Guðmundur Jónas Kristjánsson, gjaldkeri, Halldór Björgvin Jóhannsson, meðstjórnandi.
Formaður undirritar með bleki umsögnina f.h. stjórnarmanna,
Rvík, 8. apríl 2014,
(sign.)
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Í 'Minni skoðun' á Stöð 2 í gær ræddi Mikael við Árna Pál Árnason. Undirritaður var þar með spurningar til hans, kom inn á ESB og löggjafarmálin og fullyrðingar Árna um síversnandi launakjör hér frá 1920!
Þátturinn er HÉR, innlegg undirritaðs til málanna (ásamt stuttri kynningu Mikaels Torfasonar) er frá 39:13 til 41:28 á tímalínunni talið (þegar rúmar 39 mín. eru liðnar af þættinum og áfram) og svör Árna Páls í beinu framhaldi.
Takið eftir, að flokksformaðurinn víkur sér undan fyrri spurningunni með því að fara að tala um annað, en síðari spurningunni (um launakjörin) snýr hann út úr! Þetta eiga allir að heyra í þættinum, þeir sem leggja sig eftir því að taka eftir inntaki spurninganna og hvernig Árni Páll notar svo gamla ræðutaktík, að fara eins og köttur í kringum heitan graut, til að láta sem minnst bera á því, að hann gatar í raun á prófinu, sem fyrir hann var lagt. Er þetta ekki í raun viðurkenning hans á því, að honum skjátlaðist um meint versnandi launakjör Íslendinga frá 1920 (!) og að hann er EKKI sammála Jóni forseta Sigurðssyni um að við Íslendingar eigum að réttu lagi fyllstu löggjafarréttindi skilið?
Nánar seinna.
Jón Valur Jensson.
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 02:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2014 | 15:21
Meginmarkmið Samfylkingar eru í Brussel, ekki á Íslandi
Athyglisvert er, að Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingar, talar um að þrátt fyrir að nýtt framboð ESB-sinna myndi reyta fylgi af flokki hans líti hann á það sem bandamenn frekar en andstæðinga, "vegna þess að við höfum auðvitað það aðalbaráttumál að ljúka aðildarviðræðunum ... og þarna gæti verið bandamaður fyrir okkur til að ná því megin-markmiði okkar."
Viðtal þetta var á Eyjunni. Ánægður með sitt Evrópusamband kippir Helgi sér ekki upp við að flokkur hans virðist kominn niður í ca. 10,8% fylgi, það gerir ekkert til, svo lengi sem tíðni Evrópusambandsfylgispektar í samfélaginu minnkar ekki, heldur eykst jafnvel.
Hann er sem sagt meiri ESB-maður en Samfylkingarinnar. Hans ær og kýr eru í Brusel, meginmarkmiðin eru þar, ekki á Íslandi, enda yrði landið okkar bara lítið peð á skákborði "alvörustjórnmála" þegar komið yrði inn í ESB.
EN ÞAÐ SKAL ALDREI VERÐA!
JVJ.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2014 | 13:17
Margt kyndugt um skoðanakannanir um nýjan ESB-hægriflokk
Ef greint er hvað þeir sem líklegt er að kjósi þennan flokk kusu síðast kemur í ljós að 26 prósent af fylginu kemur frá þeim sem kusu Sjálfstæðisflokkinn vorið 2013, 20 prósent Samfylkinguna, 16 prósent Framsókn, 15 prósent Bjarta framtíð, 4 prósent Vinstri græna og 2 prósent Pírata.
Og þarna segir einnig (auðk. hér):
Í greiningu á könnuninni kemur fram að nýja flokknum hafi ekki verið stillt beint upp sem valkosti við hina flokkana, en ef miðað er við síðustu könnun Capacent í mars síðastliðnum og tekið mið af því hvaðan nýi flokkurinn tæki fylgi yrði niðurstaðan nálægt þessu:
Og enn segir á Visir.is:
- Í greiningunni kemur fram að niðurstaðan sé alls ekki nákvæm og í útreikningunum hafi ekki verið reiknað með því að nýi flokkurinn fengi neitt af fylgi þeirra sem segja hvorki líklegt né ólíklegt að þeir kjósi hann. Hins vegar er reiknað með því að hann fái öll atkvæði þeirra sem segja að líklegt sé að þeir kjósi hann.
- Þess ber að geta að síðasti þingmaður Pírata stendur tæpt samkvæmt þessu og gæti það þingsæti nánast lent hvar sem er, samkvæmt greiningunni.
- Eva Heiða Hönnudóttir stjórnmálafræðingur segir niðurstöður könnunarinnar áhugaverðar. Það kemur ekki á óvart að af þeim sem eru tilbúnir til að kjósa nýjan hægriflokk kaus fjórðungur Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum. Þar á eftir kemur Samfylkingin og þar eru væntanlega á ferðinni hægri kratarnir sem eru Evrópusinnaðir, segir Eva Heiða. Það er líka áhugavert að 16 prósent af þeim sem myndu kjósa nýtt framboð kusu Framsókn síðast, miðað við hversu mikið Framsókn hefur sett sig á móti ESB.
En þar er þá sennilega um þá menn helzt að ræða, sem kusu Framsókn vegna loforða hennar í skuldamálunum (auk þeirra fekk flokkurinn líka mörg þakklætisatkvæði vegna Icesave-málsins.)
Í könnuninni var spurt: Ef fram kæmi nýtt framboð Evrópusinnaðs flokks hægra megin við miðju, hversu líklegt eða ólíklegt er að þú myndir greiða slíku framboði atkvæði þitt í alþingiskosningum ef kosið yrði til Alþingis í dag? Könnunin var unnin 3. til 10. apríl. Svarendur voru 1.667 og þar af tóku 1.378 afstöðu.
Í nýlegri skoðanakönnun MMR sögðu 38,1 prósent aðspurðra koma til greina að kjósa nýtt framboð hægri manna sem nyti stuðnings Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins. (Visir.is)
Þetta útleggur Páll Vilhjálmsson réttilega svo, að fylgi hins nýja "flokks" hafi hrapað á 10 dögum úr tæpum 40% í 20%.
Nýr flokkur nyti 20% stuðnings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2014 | 11:24
Bezt utan ESB
Að sjálfsögðu þjónar ekki hagsmunum Íslendinga að ganga í Evrópusambandið, eins og forsetinn segir réttilega í viðtali við St Petersburg Times. Við hefðum þar minnst allra að vinna (og alltaf í 6.000 millj.kr. nettó-mínus árlega vegna árgjaldsins til Brussel að frádregnum styrkjum frá Brussel, fyrir utan allan annan skaða af íverunni, sem engin þörf er á í þróttmiklu ríki sem hraðfara eykur þjóðartekjur sínar með ferðamannastraumi o.fl.) og mest að tapa: í fiskveiðiréttindum og almennt í mörgu öðru sem hljótast myndi af því að fá ESB í hendur æðsta löggjafarvald yfir Íslandi.
Þetta "mesta tap allra", sem félli okkur í hlut, tengist sérstaklega 1) okkar afar verðmætu fiskimiðum og jafnvel yfirráðum yfir olíuauðlindum undir Tjörnesi/Flatey á Skjálfanda og undir landgrunninu og 2) því, að allra ríkja hefðum við minnst atkvæðavægi í Evrópusambandinu. Frá 1. nóv. þ.á. kemst breytt atkvæðahlutfall í gildi í ESB skv. ákvæðum Lissabon-sáttmálans, og þá hrapar atkvæðavægi Möltu (með um 410.000 íbúa) um meira en 90% í hinu löggefandi (m..a. um sjávarútveg) ráðherraráði ESB og í leiðtogaráði þess og yrði 0,08%.
En okkar atkvæðavægi yrði ekki nema 0,06% !!! ---> Haraldur Hansson: Ísland svipt sjálfsforræði =http://maeglika.blog.is/blog/maeglika/entry/977585/
JVJ.
Pútín vildi ekki ræða við Ólaf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 12.4.2014 kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2014 | 22:13
Engar 250 milljónir í þjóðaratkvæðagreiðslu um spurningu sem engin sátt yrði hvort sem er um!
Eftir ágætt viðtal við Jón Gunnarsson alþm. í Sjónvarpi í seinni fréttum í kvöld, þar sem hann ræddi ESB-málið, brá svo við, að hann hljóp í undanhaldið aðspurður um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar fór illa hjá hreystimenninu.
Hvers vegna geta ráðamenn ekki einfaldlega sagt NEI, eins og þjóðin gerði í Icesave-málinu? Það er engin fjárlagaheimild til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu, og stjórnarfarslega séð hefði hún ekkert bindandi hlutverk, yrði einfaldlega "ráðgefandi", en þingmönnum samt skylt að fara að sannfæringu sinni í málinu, skv. 48. gr. þeirrar stjórnarskrár sem þeir hafa svarið eið að.
Þá dylst vart öðrum en þeim, sem lítt fylgjast með, að hér er um "sniðuga" og taktíska eða öllu heldur pragmatíska kröfu sem Samfylkingaröflin halda uppi í þjóðfélaginu, með afar miklum tilkostnaði við auglýsingaherferð (ekki var Samstaða þjóðar gegn Icesave með heilsíðuauglýsingar í því máli, ólíkt þessu máli).
Áherzla Samfylingar- og ESB-sinna í málinu byggir raunar á falstúlkunum á aðildarviðræðunum, eins og þær geti falið í sér samninga um eitthvað fram hjá lagaverki Evrópusambandsins. Það er einfaldlega ekki í boði, sbr. þessa endregnu yfirlýsingu sjálfrar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 27.7. 2011 og þessi orðaskipti Stefans Füle, stækkunarstjóra ESB, og Össurar Skarphéðinssonar, meðan hann var ráðherra -- afar pínleg fyrir þann síðarnefnda!
Þegar gengið var á Jón Gunnarsson, kom svo vitaskuld í ljós, að hann er ekki sáttur við að óskaspurning Árna Páls og annarra ESB-innlimunarhyggjumanna fái að vera spurningin stóra í þjóðaratkvæðagreiðslunni hugsanlegu. Hann vill frekar, eins og fleiri í stjórnarflokkunum, að spurningin verði með öðru sniði. En hvernig dettur þeim yfirleitt í hug, að það sé hægt að ná nokkurri sátt við hið freka ESB-lið í þessu máli? Um leið og farið væri að lofa kvartmilljarðs-dýrkeyptri þjóðaratkvæðagreiðslu, þá myndu þessir kröfumenn ekki aðeins taka í þann litla fingur, heldur krefjast þess að fá að ráða spurningunni sjálfir!
Það á einfaldlega að segja NEI, þegar tími er kominn til að segja NEI. Það á líka að vera dagljóst af stöðu mála í aðildarviðræðunum. Þeim varð ekkert þokað áfram í sjávarútvegsmálunum, þótt sá væri vilji Jóhönnustjórnar, en Frakkar, Spánverjar og Portúgalar stöðvuðu málið 2011, enda voru fyrirvarar utanríkismálanefndar Alþingis við umsóknarmál þeirra Össurar & Co. óásættanlegir fyrir þessi ríki og í sjálfum sér í beinni mótsögn við ákvæði Rómarsáttmálans. Má hér t.d. vitna til orða Emmu Bonino, þáverandi sjávarútvegsmálastjóra (kommissar) ESB, í viðtali við Morgunblaðið 1995 þegar hún sagði að Ísland fengi ekki full yfirráð yfir fiskveiðilögsögu sinni, heldur yrði eins og önnur aðildarlönd að gangast undir hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB. Orðrétt sagði hún: "Meginreglan er sú að sameiginleg stefna er öllum sameiginleg, hvort sem um er að ræða fiskveiðar eða landbúnað. Sami rammi gildir fyrir alla."
Sjálfhætt er viðræðum um "aðild" vegna þessa meginatriðis og þeim mun fremur vegna þeirrar ósveigjanlegu grundvallarkröfu Evrópusambandsins að fá hér æðsta löggjafarvald. Þingmenn hafa í raun ekki vegna eiðs síns að stjórnarskránni að samþykkja slíkt. Þeir yrðu þá fyrst að fótumtroða hana og fleygja þar út mörgum greinum, allt frá 2. gr. hennar. Ekki er þó að efa, að sú er innsta löngun þeirra sem meðvitað og viljandi aðhyllast innlimunarhyggjuna. Allt annar var vilji Jóns forseta Sigurðssonar, jafnvel svo snemma sem 1858 (í grein í Nýjum félagsritum, s. 209), að við Íslendingar "eigum að réttu lagi fullkomin löggjafarréttindi skilið". Þetta geta Árni Páll, Össur, Helgi Hjörvar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Árni Þór Sigurðsson engan veginn unað við. Þau vilja ekki standa á réttinum, þeim sem á 23 árum (1952-1975) veitti okkur vald og réttarstöðu til að útfæra fiskveiðilögsöguna úr 3 mílum í 200.
Höfnum innlimunarhyggjunni og gefum henni ekkert færi á þjóðinni. Segjum NEI við öllum kröfum þessa ESB-þjónustuliðs.
Með einlægri samúð með öllum þeim saklausu, sem hingað til hafa látið blekkjast í málinu,
Jón Valur Jensson, form. stjórnar Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)