Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Hráskinnaleikur VG-forystunnar árið 2009 og áfram

Greinin Afturköllum umsóknina um aðild að ESB eftir Jón Bjarnason, fv. ráðherra, og Atla Gíslason, fv. þingmann, í Mbl. 25. þ.m. er náma ýmissa upplýsinga, skoðið t.d. þennan part:

  • Reiptog um ESB vorið 2009
  • Okkur er minnistæð ESB-umræðan innan þingflokks VG við ríkisstjórnarmyndunina vorið 2009. Hún miðaði að stórum hluta að því að snúa niður þann hóp sem fylgdi hugsjónum, kosningaloforðum og grunnstefnu flokksins og neitaði að styðja aðildarumsókn að ESB. Lítið fór fyrir efnislegri umræðu innan þingflokksins um hvað umsóknin fæli í sér. Vísað var til þess að Norðmenn hefðu fellt aðildarsamning án þess að þurfa að breyta neinu hjá sér í samningsferlinu. Enginn nefndi að slíkt var ekki lengur í boði af hálfu ESB. Samþykktum ESB þar að lútandi hafði verið breytt eftir að Norðmenn felldu samninginn. Ýmsir reyndu að sannfæra sjálfa sig og aðra um að hægt væri að sækja um í þykjustunni, hringja dyrabjöllunni og hlaupa svo fyrir horn þegar húsráðandi opnaði. Aðrir töluðu digurbarkalega og sögðust ætla að sýna ESB í tvo heimana, setja fram hörð skilyrði, fyrirvara og tímasetningar sem sambandið yrði að samþykkja áður en gengið væri til samninga. Aumust voru þó rök þeirra sem sögðust verða að samþykkja umsóknina, leika sér að fullveldinu til þess eins að samþykkja kröfur Samfylkingarinnar. Þessu reiptogi innan þingflokksins lauk með því að fimm þingmenn undir forystu Atla Gíslasonar lögðu fram bókun sem kvað á um að umsókn um aðild að ESB yrði ekki studd. Síðar kom í ljós að margir í þingliði VG voru í raun stuðningsmenn aðildar að ESB.
  • Þá var horfið frá því að umsókn að ESB væri „ ríkisstjórnarmál“, heldur yrði hún einskonar þingmannamál og réði meirihluti Alþingis örlögum slíkrar tillögu. Var fallist á að hverjum þingmanni væri frjálst að tala fyrir sinni skoðun í ESB-málum og greiða um þau atkvæði í samræmi við hana. Sú yfirlýsing rataði inn í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Síðar var reynt að virða þá samþykkt að vettugi.  

Já, greinilega var það ekki andskotalaust að vera heiðarlegur, fullveldissinnaður þingmaður VG á þessum árum, eins og þessir tveir geta vitnað um.

 

 

En hafi Steingrímur J. og Katrín Jakobs iðkað þarna hráskinnaleik vorið 2009 og áfram með hörmulegum "árangri", þá er nú bara eins gott að Bjarni Benediktsson falli ekki líka í það sama fúafen með eigin flokk, sem hann virðist strax frá sl. vori vera farinn að meðhöndla sem þinglýsta eign sína og berlega gegn samþykktum landsfundar í marz 2009. Þetta gerði hann bæði með munnlegum yfirlýsingum, sem hafa dregið slóða á eftir sér, og með tilkynningu á vef flokks síns sem er á ská og skjön við æðstu valdastofnun hans, landsfundinn! Mál er að linni, Bjarni, enda sleppurðu annars aldrei við stöðuga gagnrýni víða að og hvatningar um, að flokksmenn steypi þér að öðrum kosti á næsta landsfundi. Hélztu í alvöru, að þú gætir leikið sama ískalda leikinn tvisvar og jafnvel þrisvar? 

 

Jón Valur Jensson. 


Illa ráðnar eru hótanir Damanaki gagnvart Íslandi og Færeyjum - Norðmenn krefjast 1,2-1,3 millj. tonna heildar-makrílkvóta!

Það fer Mariu Damanaki illa að uppteikna Ísland og Færeyjar sem veldi hins illa í norðurhöfum, þegar hennar eigið ESB er langt komið í eyðingu eigin fiskistofna og hún býður ofurfrekum Norðmönnum arminn þrátt fyrir óheyrilegar kröfur þeirra um makrílkvóta! Og ekki kemur það til af fátækt norska ríkisins!!!
  • „Þetta er óheppilegt skref af hálfu Mariu Damanaki og hefur slæm áhrif á samningaferlið,“ sagði Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, við Morgunblaðið í gærkvöldi.
  • Tilefnið voru ummæli sjávarútvegsstjóra ESB að Íslendingar og Færeyingar hafi frest út vikuna til að ná samkomulagi í makríldeilunni. Annars muni ESB semja beint við Norðmenn. Þá muni ESB beita Færeyjar og Ísland refsiaðgerðum náist samningar ekki. Damanaki lýsti þessu yfir í samtali við þýska tímaritið Der Spiegel, en úrslitatilraun er nú gerð í Bergen til að ná samkomulagi í deilunni. (Mbl.is.)

Svo oft má hrópa: "Úlfur, úlfur!" að enginn tekur mark á því lengur. Og Damanaki hefur þegar reynt að beita sínum arðasta brandi gagnvart Færeyingum og þeir ekki gefið sig og engar líkur á, að þeir fari að gera það nú:

  • Vestergaard segir ESB ekki geta beitt Færeyjar frekari refsiaðgerðum umfram núverandi refsiaðgerðir vegna síldveiða Færeyinga. Slitni upp úr viðræðum muni Færeyingar gefa út einhliða makrílkvóta. (Mbl.is.)

Og Damanaki ætti ekki að láta það koma sér á óvart og hefur ekki úr háum sessi að hrópa í því efni, því að hún gerir nákvæmlega það sama: hótar, að ef við semjum ekki, muni ESB og Norðmenn gefa einhliða út kvóta!

En að Norðmenn krefjist 1200–1300 þúsund tonna heildarkvóta í makrílveiðum hefur tvívegis komið fram í vandaðri umfjöllun Morgunblaðsins, síðast á forsíðunni í dag (í fréttinni: 'Hótar refsiaðgerðum – ESB gefur Íslandi lokafrest i makríldeilu'), þar sem segir m.a.:

  • Öystein Hage, ritstjóri norska útvegsblaðsins Fiskeribladet Fiskaren, hafði eftir norskum samningamönnum að þeim væntu þess að samningar næðust í dag. Þeir krefjast 1,2–1,3 milljóna heildarkvóta. Samkvæmt Der Spiegel neitar Damanaki að fara upp fyrir 890.000 tonn og virðist deilan því í hnút.

En þegar ESB byrjaði að hamast á Íslendingum og Færeyingum vegna makrílsins var heildarveiðin og samanlagðir markmiðskvótar landanna allra miklu miku minni en hér um ræðir í báðum þessum tölum, og hefur fiskivit grísku frúarinnar brugðizt hrapallega, en söm og jöfn er þó dómssýki hennar og offors gagnvart hinum sjálfstæðu fiskveiðiþjóðum í NV-Atlantshafi.

Sjá menn nú þetta sem glæsileg meðmæli með því Evrópusambandi, sem íslenzkir evrókratar vilja láta innlimast í ?! Eða þarf að minna menn á það, hve grátt þetta sama ESB hugðist leika Ísland í Icesave-málinu, með þeim hætti, að það hefði getað riðið efnahag okkar að fullu? (sbr. HÉR í gær).

En samt og jafnt mun þó ESB-Fréttablaðið og helztu spírur þess, Ólafur Stephensen og Þorsteinn Pálsson, áfram vera í stanslausu trúboði sínu fyrir þetta ofríkisapparat, Brusselveldið.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Hótar refsiaðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru ESB-andstæðingar síðasta von aðildarsinna?

Glögg og snjöll grein eftir Ásmund Einar Daðason alþm. í Bændablaðinu 23. þ.m. (fyrirsögnin hér ofar er hans):

  Í Kastljósviðtali á mánudagskvöldið fór Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra vel yfir stefnu ríkisstjórnarinnar í ESB-málinu. Að undanförnu hefur verið reynt að teikna upp þá mynd að utanríkisráðherra sé einn á báti í þessu máli og þar með sé hann stærsti vandi aðildarsinna. Það að telja málum þannig háttað er auðvitað mikið pólitískt ólæsi. Það er hins vegar furðulegt, og til marks um mikla örvæntingu, að heyra aðildarsinna ítrekað kalla eftir því að helstu ESB- andstæðingar landsins haldi áfram aðildarsamningum við ESB.

Ef aðildarsinnum yrði að ósk sinni og aðildarsamningum yrði haldið áfram myndi utanríkisráðherra án vafa tryggja að skoðanabræður hans væru í meirihluta í nefndum og ráðum líkt og fyrri ríkisstjórn gerði. Vandi aðildarsinna er hins vegar sá að skoðanabræður utanríkisráðherra eru á móti ESB. Það yrði aðildarsinnum líklega mjög til framdráttar ef hörðustu ESB-andstæðingar landsins mættu til Brussel í þeim tilgangi að semja um hvernig aðlögun næstu ára yrði háttað. Ef utan ríkisráðherra er ekki tilbúinn að setja undirritaðan í forystu fyrir þessari sveit er ekki ólíklegt að t.d. Jón Bjarnason, Guðni Ágústsson eða Styrmir Gunnarsson yrðu fyrir valinu. Það gæti orðið enn fróðlegra að fylgjast með því þegar einstök atriði er varða ESB-samningana verða rædd í utanríkismálanefnd Alþingis þar sem Birgir Ármannsson, einn öflugasti ESB-andstæðingur þingsins, gegnir for mennsku og undirritaður vara formennsku. IPA- og Taiex-aðlögunarstyrkirnir fá eflaust flýtimeðferð hjá fjárlaganefnd þar sem Vigdís Hauksdóttir, formaður Heimssýnar, ræður ríkjum og varaformaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson mun eflaust berjast ötullega fyrir málinu. Forseti Alþingis mun örugglega halda okkur öllum við efnið enda „mikill“ áhugamaður um aðild Íslands að ESB.

Það kom vel fram á síðasta kjörtímabili að ógjörningur er að semja um ESB-aðild nema að einhugur sé um málið í ríkisstjórn og starfandi stjórnarmeirihluta. Svo langt gekk þetta að ómögulegt var að vera með ESB-andstæðinga í ríkisstjórn né í utanríkismálanefnd Alþingis. Samþykkt stefna beggja stjórnarflokkanna er skýr og á þeirri stefnu byggir stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar. Það er því hámark bjartsýninnar (og í raun dálítið hlægilegt) að halda að ríkisstjórn þar sem báðir stjórnarflokkarnir eru á móti ESB-aðild geti haldið áfram aðildarsamningum. Því er það svo að þrátt fyrir ótrúlegan áhuga aðildarsinna mun furðuleg ósk þeirra um að ESB-andstæðingar dragi vagninn til Brussel ekki verða að veruleika.

Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður.

 

Bændablaðinu er dreift ókeypis víða, m.a. í stórmörkuðum og á sundstöðum. Hér er vefslóð á vef blaðsins:

http://www.bondi.is –– og http://www.bondi.is/Pages/671


Tvennt ólíkt: "aðildarsamningur" við ESB, alfarið á járnhörðum forsendum þess, og fríverzlunarsamningur við Kína, mótaður frá upphafi á okkar forsendum

„Stundum liggur mikið á og hafa þarf hraðar hendur. Kosturinn við íslenskt stjórnkerfi getur stundum verið smæð þess,“ segir Bergdís Ellertsdóttir sendiherra í grein á nýjum, athyglisverðum bloggvef utanríkisráðuneytisins. Þar ræðir hún á fróðlegan hátt um fríverzlunarviðræðurnar við Kína sem lauk með undirritun fríverzlunarsamnings í apríl 2013, en það liggur nú fyrir á Alþingi að samþykkja þann samning.

Ljóst er, að ekki er 95 ára fullveldi Íslands neinn dragbítur fyrir samskipti við önnur lönd, heldur þvert á móti grundvöllur mikils reynslusjóðs sem kemur okkur vel í nýjum samningum. Við höfum, svo að vitnað sé í Bergdísi, "meira en fjörutíu ára reynslu í viðræðum um fríverslun, og að verja hagsmuni okkar út á við kom sér vel, og þar höfðu við töluvert forskot á Kínverja sem tóku sín fyrstu skref út í hið alþjóðlega viðskiptakerfi með aðild að alþjóðaviðskiptastofnuninni 2002 og gerðu fyrsta fríverslunarsamninginn árið 2004 og þá við sjálfsstjórnarsvæði Hong Kong og Makáa.“ (Leturbr. jvj.)

Þetta eru ekki innantóm orð, því að þrátt fyrir ofurstærð Kína (meira en 4000 sinnum fjölmennara) miðað við Ísland var fyrirkomulag samninganna EKKI að geðþótta stórveldisins, m.a.s. langt frá því, eins og hér sést ljóslega: 

  • Bergdís ræðir í pistlinum þá mynd sem margir kunni að hafa ímyndað sér að íslensku samningamennirnir væru að eiga við ofjarla sína í ljósi þess hversu mikill stærðarmunur sé á Íslandi og Kína einkum hvað fólksfjölda varðar. Það hafi hins vegar alls ekki verið raunin. „Í viðræðunum við Kína kom það í hlut Íslands að leggja til texta að samningi og var þá stuðst við þá samninga sem við höfðum þegar gert í samfloti við önnur EFTA-ríki, og því voru það við sem þekktum betur orðalag, ástæður og bakgrunn þeirra texta sem unnið var með, sem var svo sannarlega kostur.“ (Mbl.is, leturbr. jvj.)

Þetta er þveröfugt við s.k. "aðildarsamninga" við Evrópusambandið. Þar er allt eftir höfði Brusselvaldsins, nýja meðlimaríkinu einfaldlega ætlað að gleypa allt 100.000 blaðsíðna laga- og regluverk stórveldisins.

  • Samningurinn [við Kína] var ræddur á Alþingi síðastliðinn fimmtudag, en gert er ráð fyrir að greidd verði atkvæði um hann í þinginu í næstu viku og að hann taki formlega gildi í sumar, verði hann samþykktur, sem allar líkur verða að teljast á að verði niðurstaðan. (Mbl.is)

Ættu Íslendingar ekki að leita áfram eftir enn fleiri fríverzlunarsamningum eftir eigin höfði eða a.m.k. með sanngjarnri samningsaðstöðu og eðlilegri gagnkvæmni í stað þess að láta sig dreyma um að lúta forsjá annarra ríkja eða ríkjabandalaga um inntakið, eins og gert er í ESB-ferlinu, og jafnvel afsala þangað æðstu löggjafarrréttindum okkar, auk dóms- og framkvæmdavalds?!

Með EFTA-aðildinni fáum við betri viðskiptasamninga við hvert ríkið á eftir öðru, m.a. við Kanada, og leita ber eftir fríverzlun eða hagstæðum tollasamningum við Bandaríkin, sem gera engar þær kröfur til afsals valds af okkar hálfur, sem ráðríkt Evrópusambandið gerir.

Hér er áðurnefndur bloggvefur utanríkisráðuneytisins, merkileg nýjung sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur komið í framkvæmd. Og honum skulu hér þökkuð þau einörðu orð sem hann lét falla á Alþingi um daginn, þegar hann lýsti algerri andstöðu sinni við, að Ísland fari inn í Evrópusambandið.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Ræddu ekki við „kenjótta ofjarla“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjasta árás ESB á Færeyinga fer fram úr öðrum hingað til

Stórmerk er grein HÉR! eftir Jón Bjarnason sem ESB-liðléttingar í síðustu ríkisstjórn ráku þaðan. Horfið á aðalatriðið hér: Afhjúpun Jóns á nýjasta ofríki ESB gagnvart Færeyingum. Hann segir þar m.a.:

  • Evrópusambandið hefur í dag beitt neitunarvaldi innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO við  því að tekin sé  til efnislegrar meðferðar kæra Færeyinga um lögmæti viðskiptaþvingana sem ESB hefur lagt á  vegna síldar og makrílveiða þeirra.   Kom í veg fyrir kæru Færeyja
  • Evrópusambandið hefur einhliða beitt Færeyinga refsiaðgerðum og  viðskiptaþvingunum vegna síldar og makrílveiða. ESB tekur sér þar lögregluvald yfir litlum strandríkjum á norðurslóð sem eru að nýta auðlindir innan sinnar eigin lögsögu.
  • Í krafti stærðar setur ESB afarkosti sem eru í raun brot á alþjóðalögum. Myndu þeir hafa gert þetta t.d. gegn Rússlandi?  Gamla nýlendustefnan heldur velli. *

Lesið áfram í greininni sjálfri.

Hið sama Evrópusamband skipaði nokkra fulltrúa í gerðardóm haustið 2008 sem DÆMDI okkur Íslendinga seka og gjaldskylda í Icesavemálinu!!!!!!!!!!!! (þvert gegn ESB-lögum auðvitað!).

Svo eru til "Íslendingar" sem vilja draga þjóðina inn í þetta stórveldabandalag, sjálfir slefandi af hrifningu! Þeir ættu að lesa upplýsandi leiðara um ESB og evrumálin** í þeim Mogga sem fór í aldreifingu í gær. En lesið fyrst þetta eftir Jón Bjarnason!

* Kannski ekki að undra, þar sem tíu aflóga nýlenduveldi ráða lögum og lofum í Evrópusambandinu og fara frá 1. nóv. á þessu ári, 2014, með rúmlega 73% atkvæðavægi í hinu volduga ráðherraráði ("ráðinu") og leiðtogaráði Evrópusambandsins, en hin 18 ríkin, saklaus af nýlendustefnu, munu ráða þar innan við 27% atkvæðavægi!

** Þessi leiðari Mbl. í gær er með yfirskriftina Svæfandi sjálfsblekking ("Hreinskilin umræða í Davos um evrukreppuna er sláandi ...").

Jón Valur Jensson. 


Vitræn svör gegn illa rökstuddum málatilbúnaði um þjóðaratkvæðagreiðslu

Snilldarlegir eru ýmsir leiðarar Mbl. um ESB-málið, m.a. yfirstandandi þjóðaratkvæðugreiðslu-umræðu, t.d. leiðarinn í gær og annar nýlega. Glæsilegt er líka andsvar Hjartar J. Guðmundssonar gegn skrifum Þorsteins Pálssonar um málið, m.m., en sá pistill Hjartar er á leiðarasíðu Mbl. í dag.

Menn eru hvattir til að skrifa þessi afar vitrænu skrif í blaðinu, mörgum veitir ekki af.

JVJ. 


Kotroskinn Svíi gerir sig að athlægi með ábúðarmiklum yfirlýsingum um stuðning við Ísland í ESB - en hvar liggur hundurinn grafinn?

Eitt einasta aumt atkvæði í Svíþjóð, Erik Scheller, biðlar í dag til Íslands "að ganga í ESB" og hefur þar, forgengilegur eins og hann er (örugglega ekki með eilífan kjörþokka), sem rök að HANN muni standa með ísl. hagsmunum í Brussel !

Hann er reyndar enginn fulltrúi þar nú þegar, heldur býður sig bara fram í kosningum til ESB-þingsins "í maí á næsta ári," eins og hann segir í ESB-Fréttablaðinu! "Þar kem ég," bætir hann við ábúðarmikill, "til með að vera fulltrúi frjálslyndra gilda og hins norræna samfélagslíkans."

Vaaaá, maður lifandi, þvílíkt happ í hendi fyrir Ísland! Þetta bjargar öllu, hann ætlar að standa með okkur, fullyrðir raunar: "Svíþjóð mun standa með ykkur."

En hvort á nú að taka meira mark á einstaklingi með augljóslega útblásið sjálfstraust eða forsætisráðherra og ríkisstjórn Svíþjóðar, sem brást okkur Íslendingum hrapallega í Icesave-málinu, þvert gegn þjóðarhagsmunum hér og ótvíræðum lagalegum rétti okkar (eins og líka úrskurðað var um að lokum)?

Sumt í greininni er beinlínis hlálegt:  

  • Með EES-samningnum ættu nýjar samningaviðræður að geta hafist tafarlaust á ný [sic] og á áhrifaríkan hátt [!]. 

Þessi maður lifir í greinilega óupplýstri óskhyggju, og honum teflir flokkur hans fram sem fulltrúa sínum til ESB-þingsins! Og hann bætir við:

  • Svíþjóð mun standa með ykkur. Þannig birtast tengsl bræðraþjóða. 

Já, við vitum nú allt um það! Mikið að marka svona ódýr orð eða hitt þó heldur.

Það hlýtur að vera gaman að vera ungur, skeggjaður, gáfulegur maður í Folkepartiet, liberalerna, í Svíþjóð og búinn að fá tilnefningu flokksins sem einn frambjóðenda til ESB-þingsins, og þá er nú strax kominn tími til að drífa Ísland líka í Evrópusambandið! Það er líka ekkert mál fyrir hann að ætla sér að vippa Noregi þar að auki inn, hann gerir það bara með þremur orðum í framhjáhlaupi, hér:

  • Metnaður minn og margra annarra Svía er að Svíþjóð muni eins fljótt og auðið er ganga í NATO og ósk mín, sem og margra annarra Svía, er að eins fljótt og auðið er muni Ísland og einnig Noregur verða aðilar að Evrópusambandinu. 

Takið eftir hvernig hann gerir þetta:

  • Þegar sá dagur kemur að Ísland ákveður að taka fullan þátt í hinu evrópska samstarfi þá mun ég standa með hagsmunum ykkar í Brussel. Sem Norðurlandabúar eigum við hjálpast að og styðja hverjir aðra. Þau skilaboð sem ég er að reyna að koma á framfæri eru að ávinningurinn fyrir okkur öll er of stór til þess að láta kyrrt liggja: Ég bið þig Ísland, að ganga í ESB. 

En hvers vegna ætti Ísland að láta að óskum þessa útópista? Og hvað skyldi búa að baki hjá honum um þennan "ávinning" í raun, því að hugsar ekki Svíi fyrst og fremst um Svía? Sjáið nú til: 

  • Okkar norræna rödd getur orðið sterkari því fleiri sem sameiginlegir snertifletir okkar verða. ... Svíþjóð og sænskir stjórnmálamenn geta ekki gert annað en að standa hjá og vonast til að geta greitt Íslendingum leiðina til Brussel. Og Svíar hafa góða ástæðu til að vona: 
  • - Aðild Íslands að ESB myndi styrkja hina norrænu rödd í Evrópu. Til að mynda með eigin framkvæmdastjóra, atkvæði i ráðherraráðinu og fleiri norrænum sætum á Evrópuþinginu. [Feitletr. jvj.]

O.s.frv. En að hann upplýsi lesendur um, hver sé helzta ástæðan til þess að nú þurfi að "styrkja hina norrænu rödd" (fyrir utan það kaos sem Svíar stefna nú í í innflytjendamálum), það er af og frá, því að það má helzt ekki nefna!

En málið er, að á sjálfu þessu ári, 1. nóvember, hrapar atkvæðavægi Svíþjóðar í hinu volduga ráðherraráði í Brussel um meira en þriðjung: úr 2,90% í 1,95%. Þetta er harla lítið hlutfall til að reiða sig á til áhrifa á eigin mál, og þá er nú allt hey í harðindum, jafnvel kannski smá-stoð í því og eftirsóknarvert að geta fengið skitið 0,06% atkvæðavægi Íslands í sama ráði til smá-stuðnings við glataða áhrifastöðu Svíþjóðar, meðan stórveldin í ESB stórauka atkvæðavægi sitt þar! (Sjá nánar hér um atkvæðavægið: Haraldur Hansson: Ísland svipt sjálfsforræði).

Svo þykist hann geta lofað Íslandi einhverjum stuðningi í Brussel eins og hann sjálfur verði þar eilífur augnakarl !

Það segir mikið um ritstjóra Fréttablaðsins að þeir skuli birta svona vitlausa áróðursgrein.

Jón Valur Jensson.


Ósannfærandi vælugangur

Jafnvel innan Samfylkingar reyndist við skoðanakönnun hlutfallslega meiri andstaða við ESB-umsókn heldur en stærðin á hópnum í Sjálfstæðisflokki sem vildi ESB-umsókn. Samt er alltaf verið að tala um einhverja ESB-sinna í Sjálfstæðisflokki og að taka eigi tillit til þeirra, en aldrei voru ESB-málpípurnar að ætlast til hliðstæðrar tillitssemi Samfylkingar við sína eigin ESB-andstæðinga! -- nei nei, heldur bara keyrt á málið og umsóknin send, kolólöglega og tvífellt (í nefnd og þingsölum) að spyrja þjóðina áður! Svo vælir þetta lið nú um þjóðaratkvæði!

Jón Valur Jensson.


Þorsteinn Pálsson vill ekki fara rétt með um viðræður við Evrópusambandið

Aldreifing Fréttablaðsins er á ábyrgð auglýsenda og eigenda þess blaðs. Þeir bera þannig ábyrgð á stöðugum áróðri Þorsteins Pálssonar og Ólafs Stephensen fyrir samruna Íslands við ESB.

Í dag skrökvar Þorsteinn enn að alþjóð. Hann viðheldur í pistli sínum goðsögn eða öllu heldur þeim áróðurstilbúningi að viðræðurnar hafi falið í sér "samningsgerð" (!) við stórveldið, þrátt fyrir að sjálf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (sem kemst næst því að vera ríkisstjórn þess) hafi lýst því yfir 27.7. 2011, að inntökuviðræður við umsóknarlönd (accession negotiations) fjalli um skyldurnar sem fylgja því að verða meðlimur í ESB, en hugtakið "viðræður" (negotiations) geti beinlínis verið "misvísandi", því að það regluverk ESB (um 100.000 blaðsíður), sem viðræðurnar snúist um að umsóknarríkið tileinki sér, sé "ekki umsemjanlegt" (not negotiable), eins og framkvæmdastjórnin tekur fram í yfirlýsingunni. Lagaverkið þarf m.ö.o. að gleypa eins og það kemur fyrir af kúnni.

   Gervi"samninga"maðurinn Þorsteinn Pálsson.

Það er á grundvelli þeirra útbreiddu áróðurslyga, að einstök eða ný ESB-ríki geti samið um, hvaða varanlegu kjörum og regluramma það muni sæta innan stórveldisins, sem ófyrirleitnir áróðursmenn eins og Þorsteinn og Ólafur geta gengið að því vísu, að margir leggi trúnað á það lyganet. Síðan eru búnar til blekkjandi skoðanakannanir sem halda að hinum aðspurðu þeirri upplognu forsendu, að um "samningsgerð" hafi verið að ræða, og þeir spurðir hvort þeir vilji (eins og Þorsteinn orðar það í ESB-Fréttablaðinu í dag) "ljúka samningsgerðinni"!

Á grundvelli lyganetsins, sem RÚV og 365 fjölmiðlar og alls konar málpípur ESB-stefnu hafa haldið að alþjóð, byggjast síðan ómarktækar niðurstöður nefndra skoðanakannana þess efnis að nokkur meirihluti svarenda "vilji ljúka samningsgerðinni" -- niðurstaða sem í sjálfri sér er þeim mun kyndugri sem vitað er að í viðurkenndum skoðanakönnunum hafa hartnær og stundum yfir 2/3 svarenda lýst beinni andstöðu sinni við að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Það er ömurlegt hlutskipti fyrrverandi forsætisráðherra Íslands að halda uppi blekkingum um þetta mál, jafnvel þótt hann eigi að vita miklu betur sem fyrrverandi formaður viðræðunefnda Íslands og ESB. Hvað skyldi honum vera borgað fyrir að halda uppi sínum blekkingarskrifum í Fréttablaðinu? Og hangir fleira á spýtunni? Hefur honum verið lofað embætti í Brussel, takist honum að stuðla að því að Ísland verði svikið inn í þetta evrópska stórveldi, sem voldugir ráðamenn þar vilja nú gera að Bandaríkjum Evrópu ?

Jón Valur Jensson.


Straight from the horse's mouth, II : stefnt að Bandaríkjum Evrópu

Varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og dómsmálastjóri þess, Viviane Reding, segir ESB þurfa "raunverulega pólitíska sameiningu ... að sett verði á laggirnar Bandaríki Evrópu með framkvæmdastjórnina sem ríkisstjórn og tvær þingdeildir".

Hér er ekki einhver ómerkingur eða undirtylla að tala, heldur ein hinna allra æðstu í Brussel. Munum einnig, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er voldugri en ESB-þingið lýðkjörna í Strassborg og Brussel, enda fá þingmenn á því þingi ekki að leggja þar fram nein frumvörp, en framkvæmdastjórnin hefur hins vegar bessaleyfi til þess! (já, undarlegur lýðræðishalli það –– rétt eins og ef ríkisstjórn Bjarna og Sigmundar Davíðs mætti ein leggja fram lagafrumvörp á Alþingi, en stjórnarandstaðan og almennir þingmenn engin!).

Margt er mjög athyglisvert við þá ræðu fr. Reding, varaforseta framkvæmdarstjórnar ESB (við hlið Barrosos, forseta hennar), sem hér varð fréttarefni (sjá tengil neðar), en ræðan var flutt við nýársmóttöku í fyrradag í Brussel á vegum hollenzks fjarskiptafyrirtækis. Sjáið t.d. þetta:

  • Sífellt fleiri ákvarðanir teknar af ESB
  • Reding benti á að efnahagskrísan innan Evrópusambandsins hefði haft í för með sér stóraukinn samruna innan sambandsins sem hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árum. Meðal annars hefði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fengið heimild til þess að fjalla um fjárlög ríkjanna áður en þau kæmu til kasta þjóðþinganna. Þá væri unnið að því að koma á bankabandalagi innan sambandsins. Þessi samruni væri nauðsynlegur liður í því að koma í veg fyrir slíka erfiðleika í framtíðinni. 

Ekki vantar að reynt sé að réttlæta meiri samruna:

  • Krísan hefði  fært heim sannindi um að ekkert ríki væri eyland [kunnuglegt viðkvæði ESB-sinna] og að það sem gerðist í einu aðildarríki Evrópusambandsins hefði áhrif á önnur ...

En þessi gagnkvæmu áhrif vilja ESB-menn einmitt auka, ekki draga úr líkunum á því, að viðkvæm innri gerð hvers þjóðarsamfélags verði fyrir óvæntu áreiti og jafnvel hastarlegum holskeflum, sem þjóðarleiðtogar geta naumast séð fyrir og eiga erfitt með að vinna bug á eða leysa vandann, mikið til vegna þess að hann kemur utan að og er t.d. í tilfelli evrusvæðisins beintengdur því, að efnahagslíf landanna er orðið svo háð sveiflum og ástandi þess myntsvæðis.

  • Þá væru sífellt fleiri ákvarðanir sem vörðuðu daglegt líf íbúa sambandsins teknar af stofnunum þess. Fyrir vikið væri nauðsynlegt að gera stofnanir Evrópusambandsins og ákvarðanatökur á vettvangi þess lýðræðislegri og gegnsærri. En þörf væri á mun meiri samruna en aðeins á sviði efnahags- og fjármála. Markmiðið ætti að vera Bandaríki Evrópu. (Mbl.is eins og fyrri tilvitnanir.)

Þetta er sagt núna: "aðeins á sviði efnahags- og fjármála," en við vitum, að Evrópusambandið hefur nú þegar búið í haginn fyrir sig með víðtækum valdheimildum í Lissabon-sáttmálanum sem gefa því grænt ljós, hvenær sem tilefni og réttlæting gefst (eins og á fyrrgreindum sviðum), til að beita þeim heimildum, t.d. á sviði orkumála og hermála.

Margt fleira kemur fram í ræðunni, m.a. um áhuga- og þátttökuleysið hjá almenningi í kosningum á vegum Evrópusambandsins:

  • Þannig bendir hún [Reding] á að aðeins þriðjungur kjósenda í ríkjum Evrópusambandsins telji að rödd þeirra heyrist á vettvangi sambandsins. Margir telji að um tapaðan málstað sé að ræða. Kjósendur fari ekki á kjörstað og þeir sem það geri styðji stjórnmálaflokka sem hafi efasemdir um Evrópusamrunann.

Hún vill samt ekki gefast upp, fleiri þurfi að koma við sögu en aðeins framkvæmdastjórn ESB (!) ...

  • „Við þurfum öll að koma skilaboðunum á framfæri: Kosningar til Evrópuþingsins eru mikilvægari en kosningar til þjóðþinganna, vegna þess að þær ákveða hvaða stefnu heilt meginland tekur.

Eigum við ekki að halda okkur utan þessa sambræðings, þessa samruna í nýtt stórveldi? Eða er það kannski keppikefli einhverra að fá 0,06% (og minnkandi) atkvæðavægi um löggjafar- og önnur ákvörðunarmál í ráðherraráðinu í Brussel?

PS. Fyrirsögnin 'Straight from the horse's mouth, II : stefnt að Bandaríkjum Evrópu' vísar á sinn hátt til baka til eldri greinar hér á vefsetrinu: "Aðildarviðræður" - straight from the horse's mouth (ESB), en þar er upplýst um yfirlýsingu sjálfrar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 27.7. 2011 um að inntökuviðræður við umsóknarlönd (e. accession negotiations) fjalli um skyldurnar sem fylgja því að verða meðlimur í ESB, en hugtakið "viðræður" geti beinlínis verið "misvísandi", því að það regluverk ESB (um 100.000 blaðsíður), sem viðræðurnar fjalli um að umsóknarríkið tileinki sér, sé ekki umsemjanlegt (not negotiable) -- lagaverkið þarf m.ö.o. bara að gleypa eins og það kemur fyrir af kúnni -- eða öllu heldur: nýja ESB-ríkið þarf að taka á sig ok þess í einu og öllu (og reyndar ekki nóg með það, því að æðsta löggjafarvaldið í beinu framhaldi af þessu, til framtíðar, verður einnig falið Evrópusambandinu á hendur með inntökusáttmála hins nýja ESB-ríkis; en þetta þarf undirritaður víst að taka fram, því að ESB-málpípur "gleyma" gjarnan að nefna svo smávægilegt atriði!).

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Byggð verði upp Bandaríki Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband