Straight from the horse's mouth, II : stefnt að Bandaríkjum Evrópu

Varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og dómsmálastjóri þess, Viviane Reding, segir ESB þurfa "raunverulega pólitíska sameiningu ... að sett verði á laggirnar Bandaríki Evrópu með framkvæmdastjórnina sem ríkisstjórn og tvær þingdeildir".

Hér er ekki einhver ómerkingur eða undirtylla að tala, heldur ein hinna allra æðstu í Brussel. Munum einnig, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er voldugri en ESB-þingið lýðkjörna í Strassborg og Brussel, enda fá þingmenn á því þingi ekki að leggja þar fram nein frumvörp, en framkvæmdastjórnin hefur hins vegar bessaleyfi til þess! (já, undarlegur lýðræðishalli það –– rétt eins og ef ríkisstjórn Bjarna og Sigmundar Davíðs mætti ein leggja fram lagafrumvörp á Alþingi, en stjórnarandstaðan og almennir þingmenn engin!).

Margt er mjög athyglisvert við þá ræðu fr. Reding, varaforseta framkvæmdarstjórnar ESB (við hlið Barrosos, forseta hennar), sem hér varð fréttarefni (sjá tengil neðar), en ræðan var flutt við nýársmóttöku í fyrradag í Brussel á vegum hollenzks fjarskiptafyrirtækis. Sjáið t.d. þetta:

  • Sífellt fleiri ákvarðanir teknar af ESB
  • Reding benti á að efnahagskrísan innan Evrópusambandsins hefði haft í för með sér stóraukinn samruna innan sambandsins sem hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árum. Meðal annars hefði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fengið heimild til þess að fjalla um fjárlög ríkjanna áður en þau kæmu til kasta þjóðþinganna. Þá væri unnið að því að koma á bankabandalagi innan sambandsins. Þessi samruni væri nauðsynlegur liður í því að koma í veg fyrir slíka erfiðleika í framtíðinni. 

Ekki vantar að reynt sé að réttlæta meiri samruna:

  • Krísan hefði  fært heim sannindi um að ekkert ríki væri eyland [kunnuglegt viðkvæði ESB-sinna] og að það sem gerðist í einu aðildarríki Evrópusambandsins hefði áhrif á önnur ...

En þessi gagnkvæmu áhrif vilja ESB-menn einmitt auka, ekki draga úr líkunum á því, að viðkvæm innri gerð hvers þjóðarsamfélags verði fyrir óvæntu áreiti og jafnvel hastarlegum holskeflum, sem þjóðarleiðtogar geta naumast séð fyrir og eiga erfitt með að vinna bug á eða leysa vandann, mikið til vegna þess að hann kemur utan að og er t.d. í tilfelli evrusvæðisins beintengdur því, að efnahagslíf landanna er orðið svo háð sveiflum og ástandi þess myntsvæðis.

  • Þá væru sífellt fleiri ákvarðanir sem vörðuðu daglegt líf íbúa sambandsins teknar af stofnunum þess. Fyrir vikið væri nauðsynlegt að gera stofnanir Evrópusambandsins og ákvarðanatökur á vettvangi þess lýðræðislegri og gegnsærri. En þörf væri á mun meiri samruna en aðeins á sviði efnahags- og fjármála. Markmiðið ætti að vera Bandaríki Evrópu. (Mbl.is eins og fyrri tilvitnanir.)

Þetta er sagt núna: "aðeins á sviði efnahags- og fjármála," en við vitum, að Evrópusambandið hefur nú þegar búið í haginn fyrir sig með víðtækum valdheimildum í Lissabon-sáttmálanum sem gefa því grænt ljós, hvenær sem tilefni og réttlæting gefst (eins og á fyrrgreindum sviðum), til að beita þeim heimildum, t.d. á sviði orkumála og hermála.

Margt fleira kemur fram í ræðunni, m.a. um áhuga- og þátttökuleysið hjá almenningi í kosningum á vegum Evrópusambandsins:

  • Þannig bendir hún [Reding] á að aðeins þriðjungur kjósenda í ríkjum Evrópusambandsins telji að rödd þeirra heyrist á vettvangi sambandsins. Margir telji að um tapaðan málstað sé að ræða. Kjósendur fari ekki á kjörstað og þeir sem það geri styðji stjórnmálaflokka sem hafi efasemdir um Evrópusamrunann.

Hún vill samt ekki gefast upp, fleiri þurfi að koma við sögu en aðeins framkvæmdastjórn ESB (!) ...

  • „Við þurfum öll að koma skilaboðunum á framfæri: Kosningar til Evrópuþingsins eru mikilvægari en kosningar til þjóðþinganna, vegna þess að þær ákveða hvaða stefnu heilt meginland tekur.

Eigum við ekki að halda okkur utan þessa sambræðings, þessa samruna í nýtt stórveldi? Eða er það kannski keppikefli einhverra að fá 0,06% (og minnkandi) atkvæðavægi um löggjafar- og önnur ákvörðunarmál í ráðherraráðinu í Brussel?

PS. Fyrirsögnin 'Straight from the horse's mouth, II : stefnt að Bandaríkjum Evrópu' vísar á sinn hátt til baka til eldri greinar hér á vefsetrinu: "Aðildarviðræður" - straight from the horse's mouth (ESB), en þar er upplýst um yfirlýsingu sjálfrar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 27.7. 2011 um að inntökuviðræður við umsóknarlönd (e. accession negotiations) fjalli um skyldurnar sem fylgja því að verða meðlimur í ESB, en hugtakið "viðræður" geti beinlínis verið "misvísandi", því að það regluverk ESB (um 100.000 blaðsíður), sem viðræðurnar fjalli um að umsóknarríkið tileinki sér, sé ekki umsemjanlegt (not negotiable) -- lagaverkið þarf m.ö.o. bara að gleypa eins og það kemur fyrir af kúnni -- eða öllu heldur: nýja ESB-ríkið þarf að taka á sig ok þess í einu og öllu (og reyndar ekki nóg með það, því að æðsta löggjafarvaldið í beinu framhaldi af þessu, til framtíðar, verður einnig falið Evrópusambandinu á hendur með inntökusáttmála hins nýja ESB-ríkis; en þetta þarf undirritaður víst að taka fram, því að ESB-málpípur "gleyma" gjarnan að nefna svo smávægilegt atriði!).

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Byggð verði upp Bandaríki Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband