Kotroskinn Svíi gerir sig að athlægi með ábúðarmiklum yfirlýsingum um stuðning við Ísland í ESB - en hvar liggur hundurinn grafinn?

Eitt einasta aumt atkvæði í Svíþjóð, Erik Scheller, biðlar í dag til Íslands "að ganga í ESB" og hefur þar, forgengilegur eins og hann er (örugglega ekki með eilífan kjörþokka), sem rök að HANN muni standa með ísl. hagsmunum í Brussel !

Hann er reyndar enginn fulltrúi þar nú þegar, heldur býður sig bara fram í kosningum til ESB-þingsins "í maí á næsta ári," eins og hann segir í ESB-Fréttablaðinu! "Þar kem ég," bætir hann við ábúðarmikill, "til með að vera fulltrúi frjálslyndra gilda og hins norræna samfélagslíkans."

Vaaaá, maður lifandi, þvílíkt happ í hendi fyrir Ísland! Þetta bjargar öllu, hann ætlar að standa með okkur, fullyrðir raunar: "Svíþjóð mun standa með ykkur."

En hvort á nú að taka meira mark á einstaklingi með augljóslega útblásið sjálfstraust eða forsætisráðherra og ríkisstjórn Svíþjóðar, sem brást okkur Íslendingum hrapallega í Icesave-málinu, þvert gegn þjóðarhagsmunum hér og ótvíræðum lagalegum rétti okkar (eins og líka úrskurðað var um að lokum)?

Sumt í greininni er beinlínis hlálegt:  

  • Með EES-samningnum ættu nýjar samningaviðræður að geta hafist tafarlaust á ný [sic] og á áhrifaríkan hátt [!]. 

Þessi maður lifir í greinilega óupplýstri óskhyggju, og honum teflir flokkur hans fram sem fulltrúa sínum til ESB-þingsins! Og hann bætir við:

  • Svíþjóð mun standa með ykkur. Þannig birtast tengsl bræðraþjóða. 

Já, við vitum nú allt um það! Mikið að marka svona ódýr orð eða hitt þó heldur.

Það hlýtur að vera gaman að vera ungur, skeggjaður, gáfulegur maður í Folkepartiet, liberalerna, í Svíþjóð og búinn að fá tilnefningu flokksins sem einn frambjóðenda til ESB-þingsins, og þá er nú strax kominn tími til að drífa Ísland líka í Evrópusambandið! Það er líka ekkert mál fyrir hann að ætla sér að vippa Noregi þar að auki inn, hann gerir það bara með þremur orðum í framhjáhlaupi, hér:

  • Metnaður minn og margra annarra Svía er að Svíþjóð muni eins fljótt og auðið er ganga í NATO og ósk mín, sem og margra annarra Svía, er að eins fljótt og auðið er muni Ísland og einnig Noregur verða aðilar að Evrópusambandinu. 

Takið eftir hvernig hann gerir þetta:

  • Þegar sá dagur kemur að Ísland ákveður að taka fullan þátt í hinu evrópska samstarfi þá mun ég standa með hagsmunum ykkar í Brussel. Sem Norðurlandabúar eigum við hjálpast að og styðja hverjir aðra. Þau skilaboð sem ég er að reyna að koma á framfæri eru að ávinningurinn fyrir okkur öll er of stór til þess að láta kyrrt liggja: Ég bið þig Ísland, að ganga í ESB. 

En hvers vegna ætti Ísland að láta að óskum þessa útópista? Og hvað skyldi búa að baki hjá honum um þennan "ávinning" í raun, því að hugsar ekki Svíi fyrst og fremst um Svía? Sjáið nú til: 

  • Okkar norræna rödd getur orðið sterkari því fleiri sem sameiginlegir snertifletir okkar verða. ... Svíþjóð og sænskir stjórnmálamenn geta ekki gert annað en að standa hjá og vonast til að geta greitt Íslendingum leiðina til Brussel. Og Svíar hafa góða ástæðu til að vona: 
  • - Aðild Íslands að ESB myndi styrkja hina norrænu rödd í Evrópu. Til að mynda með eigin framkvæmdastjóra, atkvæði i ráðherraráðinu og fleiri norrænum sætum á Evrópuþinginu. [Feitletr. jvj.]

O.s.frv. En að hann upplýsi lesendur um, hver sé helzta ástæðan til þess að nú þurfi að "styrkja hina norrænu rödd" (fyrir utan það kaos sem Svíar stefna nú í í innflytjendamálum), það er af og frá, því að það má helzt ekki nefna!

En málið er, að á sjálfu þessu ári, 1. nóvember, hrapar atkvæðavægi Svíþjóðar í hinu volduga ráðherraráði í Brussel um meira en þriðjung: úr 2,90% í 1,95%. Þetta er harla lítið hlutfall til að reiða sig á til áhrifa á eigin mál, og þá er nú allt hey í harðindum, jafnvel kannski smá-stoð í því og eftirsóknarvert að geta fengið skitið 0,06% atkvæðavægi Íslands í sama ráði til smá-stuðnings við glataða áhrifastöðu Svíþjóðar, meðan stórveldin í ESB stórauka atkvæðavægi sitt þar! (Sjá nánar hér um atkvæðavægið: Haraldur Hansson: Ísland svipt sjálfsforræði).

Svo þykist hann geta lofað Íslandi einhverjum stuðningi í Brussel eins og hann sjálfur verði þar eilífur augnakarl !

Það segir mikið um ritstjóra Fréttablaðsins að þeir skuli birta svona vitlausa áróðursgrein.

Jón Valur Jensson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka Jón Valur. Þessi var góður. Kannski eru ESB sinnar með þetta í huga líka en þó efa ég það. Hjá þeim er bara rökleysa í gegn um línuna.

Talandi um þetta ESB mál þá vil ég að það verði rannsakað hvort þessi aðför gegn fólkinu í landinu standist lög og stjórnarskrá. Við getum sleppt öllum persónum en það verður að koma svar.

Valdimar Samúelsson, 16.1.2014 kl. 14:54

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég var gáttuð er las þetta,eiginlega dolfallin og aldrei dottið í hug að áberandi Svíi léti þessa vellu út úr sér. Takk fyrir Jón Valur.

Helga Kristjánsdóttir, 16.1.2014 kl. 20:04

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hjartans þakkir, bæði tvö.

Jón Valur Jensson, 17.1.2014 kl. 00:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband