Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Dýrkeyptar óþurftar-tilskipanir ESB

Hér skal vakin athygli á grein Halldórs Jónssonar verkfræðings, 'Er ekki nóg komið af bullinu frá ESB?', þar sem hann bendir á, að skv. tilskipun frá Evrópusambandinu á hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis hér sem í ESB að fara í 5% árið 2015 og 10% árið 2020, gersamlega að tilefnislausu, enda er hlutfall endurnýjanlegrar orku um 75% á Íslandi, eins og Glúmur Jón Björnsson, framkvæmdastjóri efnarannsóknastofunnar Fjölvers, hefur bent á.

Ívar Pálsson viðskiptafræðingur ritar einnig um þetta mál o.fl. í nýjum pistli sínum í dag: Óíslenskar tilskipanir, þ.e.a.s. þessa umræddu tilskipun, einnig um glóperubann, ofurþykkt einangrunar (sbr. dýrkeypta byggingareglugerð okkar) o.s.frv. Taka ber undir orð Ívars um hinn þindarlausa og umhugsunarlitla mokstur alþingismanna af ESB-tilskipunum inn í okkar efnahagslíf:

  • Nú er kominn tími til þess að endurskoða þetta fargan: snúa til fyrri vegar, sem var sá að vega og meta hvort tilskipunin henti íslenskum aðstæðum yfirleitt og haga aðgerðum í samræmi við það. Sú aðferð gekk ágætlega og veldur Íslendingum ekki kostnaði og armæðu eins og óþurftar-tilskipanir gera.

Jón Valur Jensson.


Misnotkun evrókrata á ríkissjóði til áróðurs í Mogganum! (pistill frá 18.12. 2009)

Menn ættu að lesa fréttina: Hægt er að nota peninga skattgreiðandans í margt, þar sem fram kemur, að félag í eigu Karls Th. Birgissonar, mikils Samfylkingarmanns, Nýtt land ehf., “fékk 180 þúsund krónur vegna greinaskrifa í Morgunblaðið og ræðuskrifa. Þau svör fengust í ráðuneytinu að verkið hefði verið unnið í tíð Björgvins G. Sigurðssonar, í janúar,” þ.e.a.s. á þessu ári. Notaði Björgvin gagnagrunn Karls, sem var m.a. um Evrópumál og gjaldmiðilsmál, þegar sá fyrrnefndi skrifaði tvær greinar í Morgunblaðið og nokkrar ræður. 

En hér var sem sé ríkissjóður og við skattgreiðendur látnir greiða fyrir áróðursstarf Samfylkingar sem ætlað var að hafa áhrif í fjölmiðlaumræðu! Var þar með verið að nota fjármuni hins illa stadda lýðveldis Íslands til að undirbúa innlimun þess í Evrópuyfirráðabandalagið? Var verið að ræna krónum Jóns og Gunnu til að hjálpa ráðherranum að komast kænskulega að orði, þegar hann var að rægja íslenzku krónuna?

Menn ættu að fara vel yfir greinar þessara aðila til að kanna, hvað þarna var verið að matreiða ofan í okkur Íslendinga – allt á okkar kostnað!


Sjávarútvegsráðherra: makríl-samningalota skilar líklega engum samningi

Ráðherrann Sigurður Ingi segir á aðalfundi LÍÚ í dag þær ágætu fréttir, að ólíklegt sé að samningar náist í makríldeilunni í Lundúnaviðræðum strandríkja við NA-Atlantshaf í London. 

  • SigurðurIngi„Við höfum sætt því að vera hótað alls kyns viðskiptahindrunum ef við ekki göngum í takt við risaveldið Evrópusambandið. Við höfum staðist allar þær sóknir. Við höfum hins vegar verið tilbúin til þess að setjast niður til viðræðna og haft frumkvæði að viðræðum á síðustu mánuðum og vikum en sagt að það gerum við þrátt fyrir hótanir. Ekki vegna þeirra. Og sú samningalota sem er í gangi núna í London og lýkur á morgun mun væntanlega ekki skila þeim árangri sem menn höfðu vænst. Við munum áfram berjast fyrir okkar hagsmunum. Við gefum ekkert eftir þar,“ sagði Sigurður.

 

Þetta eru góð tíðindi, því að þau virðast ber festu stjórnvalda hér vitni. Hafi þau í raun látið sig dreyma um, að á einhvern hátt mætti samþýðast Evrópusambandið, sem vildi minnkun makrílhlutar okkar úr 16–17% niður í 11,9% – eða samþykkja einhverja málamiðlun sem gengi í þá átt – þá hafa viðbrögðin meðal þjóðhollra Íslendinga (Fréttastofa Rúv ekki meðtalin) sennilega dregið úr þeim móðinn.

Verðum samt áfram á vaktinni í þessum efnum! Sjá fyrri greinar HÉR!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Makrílsamningar ólíklegir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Full ástæða er til að AUKA makrílhlut okkar, alls ekki að skerða hann!

Yfirstandandi samningaviðræður eru í skugga hótana Evrópusambandsins og hafa beina tengingu við aðildarviðræður Íslands sem ekki hefur verið slitið. Heimssýn telur að samningagerð og eftirgjöf undir hótunum Evrópusambandsins um viðskiptabann sé Íslandi sem fullvalda þjóð ekki samboðin. Þá leggja samtökin áherslu á að stjórnvöld haldi fast við fyrri kröfur um aflahlutdeild í makríl.

Svo segir m.a. í ályktun framkvæmdastjórnar Heimssýnar, en hana skipa 9 manns með formanni og varafomanni, en þarna eru einnig þrír fyrrverandi ráðherrar, Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007, Ragnar Arnalds, fjármálaráðherra 1980-1983, og Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011.

  • „Ísland hefur á undanförnum árum áskilið sér rétt til að lágmarki 16-17% af heildarveiði makríls en það er byggt á rétti strandþjóðar, magni makríls í íslenskri lögsögu og gríðarlegu fæðunámi hans hér við land."

Orð eru það að sönnu. Nú hefur ICES, hið skeikula Alþjóðahafrannsóknaráð, endurmetið stofnstærð makríls í NA-Atlantshafi, skyndilega hækkað fyrra mat um 500.000 tonn í stað þess að gefa því undir fótinn, að of mikill ágangur hafi verið á hann, eins og Evrópusambandið hefur haldið fram og verið þess lygilega réttlæting fyrir því að sækja hart að Íslendingum og Færeyingum.

  • Framkvæmdastjórn Heimssýnar skorar á íslensk stjórnvöld að falla ekki frá kröfum um 16-17% hlutdeild í makrílveiðinni, nú þegar samið er um skiptingu aflans á fundi hagsmunaríkja í Lundúnum. Þar er lögð áherzla á að „ekki verði látið undan hótunum Evrópusambandsins í samningum um hlutdeild Íslands í heildar-makrílveiði“. (Mbl.is.)

Við í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland viljum vekja sérstaka athygli á því, að í raun ættu breyttar aðstæður að gefa okkur enn meiri rétt en þann að standa vörð um 16-17% hlutdeildina (ESB "býður" nú 11,9%!!!). Ótvíræð AUKNING makrílstofnsins kemur einmitt án efa til af nýjum og gjöfulum beitarlöndum hans við Ísland, Grænland og Færeyjar -- þess vegna hefur stofninn stækkað svona mikið -- og þess vegna ættum við að gera auknar kröfur í veiðikvótann, sennilega á bilinu 20-25%.

"Heimssýn skorar jafnframt á ríkisstjórnina að afturkalla þegar í stað umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu,“ segir ennfremur í ályktuninni, og koma þau orð ekki eins og skollinn úr sauðarleggnum, heldur skiljast þau einmitt í beinu samhengi við þá þrýstings- og ofríkispólitík sem nú er iðkuð í Brusselgarði gegn íslenzku þjóðinni. Og það mega ráðamenn okkar vita, að framtíð makrílveiðanna er fremur þjóðarmál en þeirra mál. Hér verða engin svik liðin og heldur engin hræðslugæði.

Já, sannarlega er ástæða til að standa vörð um lífshagsmuni Íslendinga í makrílmálinu.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Gefi ekki eftir í makríldeilunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru svik ráðamanna yfirvofandi í makrílmálinu?

Jón Bjarnason, fv. ráðherra, beinir athygli sinni, ef ekki atgeiri, að vafasamri frammistöðu Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra:

  • "Sjávarútvegsráðherrann lætur nú ESB kúga sig til undirgefni í makríldeilunni. Samkvæmt fréttum ætlar hann að þiggja úr hnefa ESB aðeins tæp 12% hlutdeild í heildarveiði á makríl. En það er um 30% lægri hlutdeild en við nú þegar höfum. Jafngildir þetta því að verið sé að gefa frá sér um 50-60 þús. tonn af makríl til ESB og Norðmanna.“ (Lbr. hér.)
Þannig ritar Jón á heimasíðu sinni í dag og talar um "fálmkennd vinnubrögð framsóknarmanna í mörgum meginmálum sem þeir hreyktu sér af og lofuðu í síðustu kosningabaráttu" og beiir þar einnig geiri sínum að Gunnari Braga utanríkisráðherra og ríkisstjórninni í heild. Jafnframt vill hann þó hvetja þá til góðra verka:
  • "En miklar væntingar eru bundnar við að þeir standi við stóru orðin.“

Það fær samt Jón ekki til að loka augunum fyrir því sem virðist uppi á borðinu í makrílmálinu, þ.e.a.s. að "svo virðist sem ríkisstjórnin sé að bogna vegna ólögætra hótana Evrópusambandsins um viðskiptaþvinganir." (Mbl.is segir frá.)

Hér er kannski ástæða til að spyrja: Hvernig getur forsætisráðherrann fengið af sér að liggja í sólinni vikum saman í útlöndum á tímum sem þessum? Veit hann ekki, að tíundi hver kjósandi (allra kjósenda samanlagðra) hefur nú snúizt frá því að kjósa Framsóknarflokkinn? Ætlar hann sér að jarða flokkinn með fjarvist sinni sem hófst þegar Alþingi var nýsett?

Hér birtist hins vegar skýr, rökrétt og einörð hugsun Jóns Bjarnasonar:

  • „Mín skoðun er reyndar sú að ekki eigi að ganga til slíkra nauðasamninga eins og nú er talað um í makríl. Og alls ekki á að bogna fyrirríkjasambandi sem í krafti stærðar og óskammfeilni heldur uppi hótunum um beitingu valds einsog ESB hefur gert gangvart  Íslendingum og Færeyingum. Færeyingar hafa þó enn haldið haus í deilunum við ESB um fiskveiðimálin, enda mikið í húfi, yfir 95% af útflutningstekjum þeirra.“

Erum við með veika ríkisstjórn eftir allt saman? Jón Bjarnason gagnrýnir Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra fyrir að hægt gangi við að afturkalla umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið. Framgangan í makríldeilunni sem liggi í loftinu sé slæm vísbending um framhaldið varðandi umsóknina.

Og þetta er sérlega upplýsandi um makrílmálið:
  • „Ég minnist þess fyrir um ári síðan þegar sá orðrómur gekk að þáverandi sjávarútvegsráðherra hafi boðið ESB að lækka hlutdeild Íslendinga niður í tæp 14% af heildarveiðimagni makríls. Þá höfðu framsóknarmenn á þingi stór orð um svik og undirlægjuhátt ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms gagnvart ESB. Verið væri að bogna fyrir hótunum. Ég sem ráðherra taldi lágmarks hlutdeild okkar vera milli 16 og 17% af heildarveiði úr makrílstofninum,“ 

segir Jón á heimasíðu sinni, segist þar hafa tekið mið af útbreiðslu makríls í íslensku efnahagslögsögunni. Álit manns með þvílíka reynslu verður ekki sniðgengið. Það hlýtur að vera krafa Íslendinga, að Sigurður Ingi sjávarútvegsráðherra upplýsi um, hvað hann hefur í hyggju, áður en stórslys verður. En Jón minnir á grunnstaðreyndir, meðal annars hér:

"Hann segir að makrílveiðar Íslendinga hafi líklega gefið samtals um 100 milljarða króna í útflutningstekjur á undanförnum 4-5 árum og það muni um minna. „Eftirgjöf Framsóknar í makrílnum, sem liggur í loftinu, er slæm vísbending um framhaldið. Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi að við stöndum á rétti okkar í makríl, en lyppumst ekki niður fyrir hótunum ESB eins og nú er látið í veðri vaka.“" (Mbl.is og heimsasíða J.B.)

Í stað þess að viðurkenna hrikalegan skeikulleika sinn í stofnmati makríls hefur Evrópusambandið ekki látið af hroka sínum, heldur notar þetta þvert á móti til að reyna að pína Íslendinga niður í mun lægri kvótaprósentu en við höfum áður ætlað okkur og verið reiðubúnir til. Réttlætingin á að heita sú, að við fáum þó með þessu móti álíka magn í tonnum talið og áður. Hins sleppa hinir kænu ESB-menn að geta, að þeir ætla sínum sjómönnum og útgerðarmönnum á Bretlandseyjum og víðar að fá langtum meiri afla en áður!

Svo er ennfremur verið að láta þarna eins og þetta verði eitthvert framtíðarástand, en stofninn getur auðvitað sveiflazt niður á við á ný –– t.d. þegar hann verður búinn að ryksuga um of átuna af Íslandsmiðum –– og þá er afar illt í efni að sitja uppi með veiðiheimild í aðeins 12% af stofninum, allt vegna slappra stjórnvalda og samningamanna af okkar hálfu! Þá er nú betra að semja um alls ekki neitt, enda er Evrópusambandið enginn fulltrúi makrílsins né þinglýstur eigandi fiskistofnsins. Grin

Jón Valur Jensson.


mbl.is Sakar Framsókn um eftirgjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt svar Færeyinga við fráleitu "tilboði" Evrópusambandsins

ESB á ekkert í makrílnum í NA-Atlantshafi, getur ekki sett fiskveiðiþjóðum þar neinar reglur, hvað þá fengið að gína yfir mestum makrílafla. Nú er komið fram lymskulegt "tilboð" sem við ættum að hafna eins og Færeyingar.

Daman gríska Damanaki segist ekki vilja makrílstríð, en "heldur ekki samkomulag sama hvað það kostar," og kemur svo með slepjulegan, PR-hljómandi áróður: "Ef við vinnum saman er samkomulag mögulegt“ (!), segir sjávarútvegsstjórinn og blaðrar svo um bjartsýni sína á "samkomulag" á færeyskum vef, eftir að hafa veifað grimmilegum hótunarvendi sínum yfir smáþjóðinni og er komin mun lengra þar en gagnvart Íslendingum.

  • "Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins myndi hins vegar standa vörð um hagsmuni sambandsins í málinu," er þó haft eftir henni líka!
 
Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja.

Jacob Vestergaard, hinn réttsýni sjávarútvegsráðherra Færeyja.

En það er Jacob Vestergaard, sjávarútvegs-ráðherra Færeyja, sem á hér heiður skilinn. Hann tekur skýrt fram, "að Færeyingar ætli ekki að sætta sig við 12% hlutdeild í makrílkvótanum líkt og [ESB]-framkvæmdastjórnin hefur gert að tillögu sinni." Hugmynd hennar er að Íslendingum verði boðin 11,9% en til þessa hafa íslensk stjórnvöld gert kröfu um 16-17%. (Mbl.is.)

Og lesið þetta (leturbr. hér): Vestergaard segir að Færeyingar vilji sem fyrr 15% en vilji Evrópusambandið ekki fallast á gagnkvæmar veiðar í lögsögum strandríkjanna eins og gjarnan er samið um í samningum um deilistofna ætli þeir að gera kröfu um 23%. Fundað verður um makríldeiluna í London 23.-24. október næstkomandi. (Mbl.is.)

Sigurður Ingi Jóhannsson má verða góður, ef hann ætlar að jafnast á við þennan ráðherra. 

En það er meira í fréttum af þessu í dag, sem koma þarf hér fram og ræða. Eins og "tilboð" Evrópusambandsins var "kynnt" í hádegisútvarpi ESB-sinnaða Ríkisútvarpsins, átti það að heita svo, að stórveldabandalagið væri að "bjóða Ísendingum óbreyttan makrílafla eins og hann hafi verið síðasta ár."

En hér undir býr blekkingin ein. Samningamenn Íslands eiga vitaskuld að vita það, en von ESB-manna felst i því, að margir meðal almennings verði hér narraðir. Þarna er nefnilega miðað við stóraukningu heildar-makrílafla í NA-Atlantshafi, í nokkrum takt við leiðréttingu fiskifræðinga á kolvitlausu stofnmati ESB-manna hingað til. Þannig verða þessi 11,9% jafngild þeim 16-17% sem við höfum viljað taka okkur. En það fylgir ekki sögunni, að um leið og makrílstofninn drægist saman, niður í það sem hann var talinn í fyrra, þá myndi afli okkar út frá þessum ESB-ráðgerðu kvótaskipum, skerast stórlega niður og verða allt annað en jafngildi þess, sem var í fyrra, heldur um þriðjungi minni.

Höfnum refsskap Evrópusambandsmanna. Látum heldur ekki viðbrögð írska sjávarútvegsráðerrans blekkja okkur, eins og daman Damanaki sé að sækja að honum. Hún er í reynd að sækja gegn smáþjóðunum við Norður-Atlantshaf.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Færeyingar fallast ekki á tillögu ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-útþensluráðherrann Stefan Füle gerir hosur sínar grænar fyrir Íslendinga

Hann er í ítrekaðri sjálfsmótsögn. Nú segir hann að Evrópusambandið setji Íslandi "ekki nein ákveðin tímamörk," en "í júní í sumar sagði Füle við blaðamenn að æskilegt væri að það lægi fyrir sem fyrst hvað íslensk stjórnvöld ætluðu að gera varðandi umsóknarferlið." Það var sem sé bara verið að pressa á íslenzk stjórnvöld í júní-yfirlýsingunni og ekki meira að marka hana en svo, að nú er allt í einu í lagi að hafa málið endalaust opið!!!

Í a.m.k. einu öðru atriði er hann ennfremur í augljósri sjálfsmótsögn. Nú gengur hann fram af fláttskap gagnvart okkur með þessari ísmeygilegu yfirlýsingu:

  • „Ég held að við höfum ekki verið það langt frá því að leggja fyrir Íslendinga samning sem hefði tekið tillit til sérstöðu Íslands en um leið grundvallarreglna Evrópusambandsins og allra reglna leiksins. Við höfum burði til þess. Við erum enn þeirrar skoðunar að það hefði verið Íslendingum í hag og sambandinu.“

En sjálfur hefur hann áður lýst þvi yfir, að engar varanlegar undanþágur eru veittar frá lögum ESB! -- og í sömu átt hafa fallið orð Olla Rehn, fyrrv. stækkunarstjóra (útþenslumálaráðherra) ESB, og Emmu Bonino, fv. framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála ESB.

Stefan Füler er einfaldlega að reyna að spila á trúgirni sumra Íslendinga, í trausti þess, að þeir muni ekki áður fram komnar staðreyndir. 

Maðurinn er bersýnilega refur, enda lærði hann ugglaust til þess í KGB-tengda diplómataskólanum í Moskvu.

Sumt í heimspólitíkinni fer fram með stríðsógnum og vopnaðri íhlutun. Við megum þó ekki horfa fram hjá því, að stór hluti af valdapólitík stórvelda fer fram með refsskap, klækjum og blekkingum.

Jón Valur Jensson.


mbl.is ESB setur engin tímamörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þótt ESB vilji okkur, viljum við ekki ESB!

Að 55% aðspurðra Austurríkismanna segist hlynnt því, að viðræður haldi áfram um inntöku Íslands í Evrópusambandið, ólíkt andstöðu þeirra við inntöku ýmissa Balkanþjóða, skv. nýrri skoðanakönnun, er ekkert undarlegt, en heldur ekkert til að lyftast nokkra millimetra í sætinu yfir eða láta þetta verða til þess að skjalla okkur Íslendinga og bræða hjörtu okkar gagnvart hinu gleypugjarna stjórveldi.

Það hefur í engu breytzt, að affarasælast er Íslendingum að halda fullu sjálfstæði sínu, landið er að verða æ mikilvægara og verðmeira með hverju árinu sem líður, m.a. strategískt og á sviði ferðamála, og þurfum sízt á ESB að halda til að auka tekjur okkar. Þá væri fullveldi okkar illa komið að geyma það í ráðherraráðinu í Brussel og ESB-þinginu.

Hinir landluktu Austurríkismenn hafa auk þess engan skilning á afgerandi mikilvægi fiskveiða fyrir Ísland og hinni hrikalegu fórn sem það yrði að gefa ráðherraráðinu vald yfir okkur í því efni og veita Spánverjum og öðrum ESB-fiskinefjum fiskveiðiréttindi hér, auk kaupréttar í útgerðum. Sjávarútvegurinn gerir ekkert annað en auka mikilvægi sitt hér á komandi árum, eins og fyrirhuguð veruleg aukning þorskkvótans um 2015 ber vitni um.

* 52% eru andvíg aðild Makedóníu og Svartfjallalands að ESB og 66% vilja ekki Kosovo í sambandið. (Mbl.is.)

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja Ísland í Evrópusambandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Utanstefna Árna Páls Árnasonar

Samfylkingin er handbendi ríkjasambands með höfuðstöðvar í Brussel, en á sér formann, Árna Pál Árnason. Hann hélt í gær til Strassborgar á fund "með ráðamönnum Evrópusambandsins í boði þingflokks jafnaðarmanna á Evrópu[sambands]þinginu. Í þingflokki jafnaðarmanna á Evrópuþinginu sitja 194 þingmenn frá öllum 28 aðildarríkjum ESB." (Mbl.is.)

Greinilega hyggst Árni Páll fara ýtarlega í saumana á því, hvað fór úrskeiðis í Össurar-umsókninni hjá evrókrötum á Íslandi, með samherjum sínum austan hafs. Stendur til að reyna að kokka upp nýja sóknarstrategíu stórveldisins með eftirgreindum fundahöldum?

  • Hann mun funda sérstaklega með Hannes Swoboda, formanni þingflokks jafnaðarmanna, og Christian Dan Preda, sem leitt hefur vinnu við aðildarumsókn Íslands. Þá mun hann eiga sérstakan fund með Stefan Füle, stækkunarstjóra ESB, og Mariu Damanaki, sem fer með fiskveiðimál í framkvæmdastjórninni. (Mbl.is.) 

Verður nú reynt að finna út einhver klækjabrögð til að leggja beitu fyrir Ísland, t.d. með því að "bjóða" eitthvað nýtt í makrílmálinu í ljósi þess, að fyrra veiðigetumat ESB-manna reyndist húmbúkk eitt og vitleysa, en mat íslenzkra og norskra fiskifræðinga fara nær sanni?

Engu er þó treystandi frá þessu Evrópusambandi um sjávarútvegssamninga og sízt ástæða til að hvika frá óskoruðum yfirráðum okkar sjálfra yfir fiskveiðum innan 200 mílnanna, auk þess sem samningar um veiðar úr síbreytilegum flökkustofni geta einfaldlega orðið okkur snara um háls.

  • Annað kvöld [þriðjudagskvöld] ávarpar formaður Samfylkingarinnar þingflokk jafnaðarmanna á sérstökum þingflokksfundi og fjallar um Evrópusamvinnuna frá sjónarhóli Samfylkingarinnar og stöðu aðildarumsóknar Íslands að ESB. (Mbl.is.)

Hann mun þá væntanlega gera samherjum sínum grein fyrir því, hverjum íslenzkra evrókrata er helzt um að "kenna", að þeirra heittelskaða Össurarumsókn fór í handaskolum – hvort aðalsökudólgurinn er Jóhanna Sigurðardóttir eða Össur Skarphéðinsson eða kannski Árni Páll sjálfur, sem hefði viljað vera verkstjóri yfir verkinu, en fekk það ekki fyrir Jóhönnu (var bara formaður að nafninu til) – eða hvort Evrópusambandið verði sjálft að taka á sig sökina, því að þaðan hafi íslenzkir þjónar þess tekið við "línunni" um stefnu og strategíu, sem hér hafi verið fylgt. Svo má vel vera og að jafnan hafi Brusselmenn talið þvert NEI Íslendinga gegn ESB-inntöku svo augljóslega vofa yfir þeim, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár, að Evrópusambandið hafi vísvitandi stuðlað að því, að viðræðurnar stæðu yfir í meira en tvöfaldan þann tíma, sem látið var í veðri vaka í upphafi, og þó fjarri því að vera lokið, enda erfiðustu "kaflarnir" eftir!

En íslenzkir stjórnmálamenn eiga ekki að sækja sér línu austur um haf, það hefur ekki kunnað góðri lukku að stýra hingað til !

Jón Valur Jensson.

Hér skal ennfremur minnt á eftirfarandi grein hér á Fullveldisvaktinni: Árni Páll Árnason minnir óvart á að ESB-umsókn Össurar og hans eigin flokks var ólögmæt!


mbl.is Fundar með ráðamönnum ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband