Jón Bjarnason, fv. ráðherra, beinir athygli sinni, ef ekki atgeiri, að vafasamri frammistöðu Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra:
- "Sjávarútvegsráðherrann lætur nú ESB kúga sig til undirgefni í makríldeilunni. Samkvæmt fréttum ætlar hann að þiggja úr hnefa ESB aðeins tæp 12% hlutdeild í heildarveiði á makríl. En það er um 30% lægri hlutdeild en við nú þegar höfum. Jafngildir þetta því að verið sé að gefa frá sér um 50-60 þús. tonn af makríl til ESB og Norðmanna. (Lbr. hér.)
Þannig ritar Jón á heimasíðu sinni í dag og talar um "fálmkennd vinnubrögð framsóknarmanna í mörgum meginmálum sem þeir hreyktu sér af og lofuðu í síðustu kosningabaráttu" og beiir þar einnig geiri sínum að Gunnari Braga utanríkisráðherra og ríkisstjórninni í heild. Jafnframt vill hann þó hvetja þá til góðra verka:- "En miklar væntingar eru bundnar við að þeir standi við stóru orðin.
Það fær samt Jón ekki til að loka augunum fyrir því sem virðist uppi á borðinu í makrílmálinu, þ.e.a.s. að "svo virðist sem ríkisstjórnin sé að bogna vegna ólögætra hótana Evrópusambandsins um viðskiptaþvinganir." (Mbl.is segir frá.)
Hér er kannski ástæða til að spyrja: Hvernig getur forsætisráðherrann fengið af sér að liggja í sólinni vikum saman í útlöndum á tímum sem þessum? Veit hann ekki, að tíundi hver kjósandi (allra kjósenda samanlagðra) hefur nú snúizt frá því að kjósa Framsóknarflokkinn? Ætlar hann sér að jarða flokkinn með fjarvist sinni sem hófst þegar Alþingi var nýsett?
Hér birtist hins vegar skýr, rökrétt og einörð hugsun Jóns Bjarnasonar:
- Mín skoðun er reyndar sú að ekki eigi að ganga til slíkra nauðasamninga eins og nú er talað um í makríl. Og alls ekki á að bogna fyrirríkjasambandi sem í krafti stærðar og óskammfeilni heldur uppi hótunum um beitingu valds einsog ESB hefur gert gangvart Íslendingum og Færeyingum. Færeyingar hafa þó enn haldið haus í deilunum við ESB um fiskveiðimálin, enda mikið í húfi, yfir 95% af útflutningstekjum þeirra.
Erum við með veika ríkisstjórn eftir allt saman? Jón Bjarnason gagnrýnir Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra fyrir að hægt gangi við að afturkalla umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið. Framgangan í makríldeilunni sem liggi í loftinu sé slæm vísbending um framhaldið varðandi umsóknina.
Og þetta er sérlega upplýsandi um makrílmálið:- Ég minnist þess fyrir um ári síðan þegar sá orðrómur gekk að þáverandi sjávarútvegsráðherra hafi boðið ESB að lækka hlutdeild Íslendinga niður í tæp 14% af heildarveiðimagni makríls. Þá höfðu framsóknarmenn á þingi stór orð um svik og undirlægjuhátt ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms gagnvart ESB. Verið væri að bogna fyrir hótunum. Ég sem ráðherra taldi lágmarks hlutdeild okkar vera milli 16 og 17% af heildarveiði úr makrílstofninum,
segir Jón á heimasíðu sinni, segist þar hafa tekið mið af útbreiðslu makríls í íslensku efnahagslögsögunni. Álit manns með þvílíka reynslu verður ekki sniðgengið. Það hlýtur að vera krafa Íslendinga, að Sigurður Ingi sjávarútvegsráðherra upplýsi um, hvað hann hefur í hyggju, áður en stórslys verður. En Jón minnir á grunnstaðreyndir, meðal annars hér:
"Hann segir að makrílveiðar Íslendinga hafi líklega gefið samtals um 100 milljarða króna í útflutningstekjur á undanförnum 4-5 árum og það muni um minna. Eftirgjöf Framsóknar í makrílnum, sem liggur í loftinu, er slæm vísbending um framhaldið. Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi að við stöndum á rétti okkar í makríl, en lyppumst ekki niður fyrir hótunum ESB eins og nú er látið í veðri vaka." (Mbl.is og heimsasíða J.B.)
Í stað þess að viðurkenna hrikalegan skeikulleika sinn í stofnmati makríls hefur Evrópusambandið ekki látið af hroka sínum, heldur notar þetta þvert á móti til að reyna að pína Íslendinga niður í mun lægri kvótaprósentu en við höfum áður ætlað okkur og verið reiðubúnir til. Réttlætingin á að heita sú, að við fáum þó með þessu móti álíka magn í tonnum talið og áður. Hins sleppa hinir kænu ESB-menn að geta, að þeir ætla sínum sjómönnum og útgerðarmönnum á Bretlandseyjum og víðar að fá langtum meiri afla en áður!
Svo er ennfremur verið að láta þarna eins og þetta verði eitthvert framtíðarástand, en stofninn getur auðvitað sveiflazt niður á við á ný t.d. þegar hann verður búinn að ryksuga um of átuna af Íslandsmiðum og þá er afar illt í efni að sitja uppi með veiðiheimild í aðeins 12% af stofninum, allt vegna slappra stjórnvalda og samningamanna af okkar hálfu! Þá er nú betra að semja um alls ekki neitt, enda er Evrópusambandið enginn fulltrúi makrílsins né þinglýstur eigandi fiskistofnsins.
Jón Valur Jensson.