Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013
31.1.2013 | 18:41
"Evrópa er að deyja" Ellefu menningarvitar telja sósíalisma bjarga ESB og evrunni.
Ellefu menningarvitar í Evrópu skrifuðu nýverið í norska Aftenposten grein undir fyrirsögninni "Evrópa er að deyja." Meðal þeirra er Salman Rushdie, sem er á aftökulista múslíma fyrir bók sína The Satanic Verses, Umberto Eco og heimspekingarnir Bernard-Henry Lévy og Julía Kristeva.
"Sú Evrópa, sem foreldrar okkar byggðu samkvæmt nýrri hugmynd eftir stríð færði fólki sérstakan friðarkost, velferð og lýðræði. Þessi Evrópa er enn á ný að leysast upp beint fyrir framan augum okkar."
"Við vorum vön að segja sósíalismi eða upplausn. Í dag er valkosturinn stjórnmálabandalag eða upplausn. Eða til að vera nákvæmari: alríki eða hrun - með félagslegri eymd, óöruggum vinnumarkaði og flóðbylgju uppsagna og fátæktar."
Ellefumenningarnir telja, að Evrópa sem hugmynd, draumur og verkefni sé að glatast.
"Það ríkir upplausnarástand í Aþenu, vöggu vestrænnar menningar." Evrópubúar líta niður á grísku bræðraþjóðina, svelti Grikki og ræni fullveldi, sem áður var sameiginlega barist fyrir. Upplausnarástand ríkir á Ítalíu, sem nú er í flokki PIGS-landanna Portúgals, Írlands, Grikklands og Spánar en á þau lönd líti samviskulausar og minnislausar fjármálastofnanir til með fyrirlitningu.
Þar sem endalaus evrukreppa valdi hruni Evrópu krefjast greinarhöfundar sameiginlegrar stjórnunar á gjaldmiðlinum. Annars muni gjaldmiðillinn geta tórað í tuttugu ár eða þar til hann hrynur vegna kreppu og stríðs.
Ekkert sé handan hins myrka sjóndeildarhrings og Evrópa sé að deyja.
Byggt á grein í Svenska dagbladet
30.1.2013 | 11:43
ESB vann beinlínis gegn íslenzkri þjóð frá upphafi til enda í Icesave-atganginum - viðurkennt af áhrifamönnum hér!
Fullnaðarsigur Íslands í Icesave-máli var "löðrungur fyrir Evrópusambandið [sem] ákvað, í fyrsta skipti, að troða sér inn í mál fyrir EFTA-dómstólnum og taka þátt í málshöfðuninni gegn Íslandi með svonefndri meðalgöngu og ... beitti ... sér mjög hart og lýsti því þannig yfir að ef Íslendingar ynnu málið fæli það í sér miklar hamfarir. Miðað við hvað það var langt seilst hjá þeim í þessum málaferlum dylst engum að niðurstaðan er mikið áfall fyrir sambandið," segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins (sjá tengil neðar á Mbl.is-viðtal).
Þetta sýndi sig ekki aðeins á seinni metrunum í þessu erfiða, langdregna máli, heldur vann ESB beinlínis gegn íslenzkri þjóð strax við upphaf atsóknar brezkra og hollenzkra stjórnvalda gegn okkur, eins og ráðamenn eru farnir að játa nú hver eftir annan.
Innanbúðarmaður í hópi ESB-innlimunarjarðýtna hér á landi, Ólafur Stephensen, ritstjóri ESB-Fréttablaðsins, dró þessar staðreyndir merkilega fljótt fram í dagsljósið og það á ólíklegasta stað: í leiðara í sjálfu Morgunblaðinu hinn 6. júní 2009, meðan hann enn var ritstjóri þar. Í þessari ritstjórnargrein réttlætti hann Svavarssamninginn umbúðalaust sem knýjandi nauðsyn með tilvísan til þvingana af hálfu Evrópusambandsins, eins og sést hér á neðar í orðum hans sjálfs. Þó gerði hann sér grein fyrir því, að krafan væri gígantísk: að íslenzka ríkið gæfi út "skuldabréf að andvirði 630 milljarða króna" með 5,5% ársvöxtum. "Ekki er gert ráð fyrir neinum afborgunum næstu sjö árin, en síðan greiðist upphæðin upp á sjö árum. Vextir fyrsta árið yrðu hátt í 40 milljarðar króna. Verði ekkert greitt af láninu næstu sjö árin verður skuldin komin í 989 milljarða króna með vöxtum og vaxtavöxtum," ritaði Ólafur, en frá myndu dragast eignir þrotabús Landsbankans, sem alls óvíst var þá, hve miklar eða litlar myndu reynast.
Ólafur sór sig ekki í hóp þeirra varnarmanna Íslands, sem höfnuðu kröfunum og voru ódeigir við að láta á rétt okkar reyna fyrir dómstólunum, heldur fann hann sér einmitt handhæga réttlætingu fyrir uppgjöf ríkisstjórnarsinna ... og í hverju? Jú, í fjárkúgun síns heittelskaða Evrópusambands á hendur okkur! Það er deginum ljósara í þessum orðum hans í leiðaranum 6. júní 2009 (feitletrun jvj):
- "Efasemdir hafa komið upp um hvort skuldbindingin um innstæðutrygginguna stæðist, en Evrópusambandið kom því til skila svo ekki varð um villzt að ekki væri áhugi á að láta á það reyna slíkar efasemdir gætu kallað fram áhlaup á banka um alla Evrópu.
- Því var komið á framfæri við íslenzk stjórnvöld að það væri sameiginleg afstaða allra aðildarríkja Evrópusambandsins að leggjast gegn því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn aðstoðaði Íslendinga, yrðu kröfur Breta og Hollendinga ekki viðurkenndar og gengið til samninga um Icesave. Stjórnvöldum var því nauðugur einn kostur."
Hér vitnaði margsigldi ESB-innanbúðarmaðurinn blygðunarlaust um þessa nauðung, þessa fjárkúgun, af hálfu ESB, og samt hafa ESB-sinnar reynt að afneita þessari staðreynd hátt á fjórða ár í viðleitni sinni til að fela það fyrir þjóðinni, hvernig Evrópusambandið hefur unnið miskunnar- og sleitulaust gegn okkur í þessu Icesave-máli rétt eins og í makrílmálinu.
En ráðamenn ríkisstjórnarinnar eru sjálfir farnir að játa það nú -- sér til lokavarnar í veikri stöðu sinni vegna niðurstöðu EFTA-dómsmálsins, sem afhjúpar skrípaframferði þeirra 2009-2011 -- að þetta var allt rétt hjá Ólafi Stephensen 6. júní 2009: þau Steingrímur og Jóhanna voru undir beinum þrýstingi eða hótunum frá Evrópusambandinu, rétt eins og frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þótt fulltrúi hans hafi í Sjónvarpi í gær reynt með kattarþvotti að hreinsa AGS af allri ábyrgð. Þessar hávirðulegu stofnanir virðast síðan hafa þrýst á ríkisstjórnir Norðurlandanna í þeirri viðleitni að knébeygja Íslendinga í þágu tveggja aflóga nýlenduvelda (og í ESB eru slík tíu talsins og munu frá 1. nóv. á næsta ári ráða 73,34% atkvæðavægi í hinu volduga ráðherraráði, sem færi m.a. með æðstu löggjöf yfir sjávarútvegsmálum Íslands, ef við létum innlimast!).
Í Kastljósþætti 28. þ.m. sagði svartipéturinn Steingrímur J. Sigfússon orðrétt (2.23-): "Þá bið ég um það fyrst, að við ræðum þá bara þetta stóra mál í heild sinni, og við verðum þá að taka inn í myndina þær aðstæður sem Ísland var sett þarna í, og núna er kannski orðið skárra fyrir okkur að taka upp á borðið þegar við erum búin að fá þessa glæsilegu niðurstöðu ..."
Hann hefði betur tekið þetta "upp á borðið" hreinskilnislega gagnvart íslenzkri þjóð strax árið 2009, þ.e.a.s. að verið væri að þvinga stjórnvöld hér með ofríkisvaldi Evrópusambandsins, en hann steinþagði um það, þótt það hefði orðið til þess að efla Icesave-andstöðuna hér enn meira. Sami ráðherra var á sama tíma sjálfur illilega flæktur, þvert gegn sínum kosningaloforðum, í umsókn um inngöngu í það sama Evrópusamband; hann hefur sennilega ekki viljað "rugga þeim báti" þeirra Jóhönnu!
En hér eru orð hans sjálfs því til staðfestingar, að hann vissi þá þegar af þrýstingi ESB til að láta okkur borga í stað þess að reyna dómstólaleiðina (Kastljósþátturinn, þegar 9.50-10.12 mín. voru liðnar af honum). Steingrímur sjálfur, "straight from the horse's mouth":
- "Ég er enn þeirrar skoðunar, sem ég varð mjög fljótt eftir að ég kom að þessu þarna upp úr áramótunum 2008 og '9, að staða Íslands, því miður, bauð ekki upp á annað en að reyna einhvern veginn að koma málinu frá með samningum. Við áttum ekki kost á því að koma til dómstóla, þeir lögðust algerlega gegn því, Bretar og Hollendingar og allt Evrópubatteríið, sagði, að það væri stórhættulegt að skapa einhverja minnstu óvissu um það, að þetta væri svona."
Og fleiri ráðamenn vissu af þessari hörðu afstöðu Evrópusambandsins, sem seint og um síðir er loksins viðurkennd -- mestallan tímann vorum við snuðuð um fulla vitneskju þessa.
Nú er eðlilega talað um réttmæti vantrausts á ríkisstjórnina (sbr. forsíðufrétt Mbl. í dag) vegna vægast sagt óhreinnar handfjötlunar hennar á þessu sóknarmáli erlends valds á hendur íslenzkri þjóð. En er ekki líka kominn tími til þess, að almenningur þrýsti á um það, að Ólafur Stephensen segi af sér sem ritstjóri Fréttablaðsins eða verði sagt þar upp störfum? Þau eindregnu tilmæli eiga fyrst og fremst að vera frá alþýðu manna, sem þarf að þola ítroðslu þessa blaðs í bréfalúgur sínar daglega, með lítt duldum ESB-ítroðsluboðskap í hverri viku, ef ekki daglega. Eins ættu auglýsendur að taka undir þessa kröfu, þennan þrýsting, því að ljóst er, að þeir eru ella að kyngja því að styðja þennan Icesave-borgunarsinna, hinn meðvirka ESB-kúgunarsinna, og virða að vettugi fram komin rök fyrir brottvísun hans.
Aðalmálið hér er samt bein ábyrgð Evrópusambandsins á þeim þrýstingi á Steingrím og Jóhönnu að "fara samningaleiðina", ekki dómstólaleiðina, í Icesave-málinu. Þar eins og í makríldeilunni vinnur þetta stórveldasamband gegn okkar þjóðarhagsmunum, og skyldi engan undra.
Jón Valur Jensson.
Löðrungur fyrir Evrópusambandið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 31.1.2013 kl. 08:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2013 | 00:09
Æfur Barroso líkir þingkonu við Talíbana fyrir að biðja rannsóknarnefnd ESB um gögn
José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar ESB brást ókvæða við beiðni Inge Grässle þingkonu Kristilegra Demokrata nýlega um gögn frá rannsóknardeild ESB Olof sem sýna hvað fram fór á milli Barroso og fyrrum heilsuráðherra ESB John Dalli.
Dalli sagði af sér embætti eftir að upp komst, að fyrrum kosningastjóri hans reyndi að hafa 60 miljónir evra af Swedish Match til að múta Dalli svo framleiðsluákvæði um sænskt snús yrði ekki breytt. Dalli er ákærður fyrir mútubrot en segir, að allt sé misskilningur og honum hafi verið sparkað úr framkvæmdastjórninni. Íhugar hann málaferli gegn framkvæmdastjórninni. Framkvæmdastjórn ESB segir, að Dalli hafi hætt "af pólitískum ástæðum."
Barroso missti stjórn á sér á fundi þ. 15. jan. s.l. og sagði að spurningar þýzku þingkonunnar Inge Grässle jöfnuðust á við rógburð, þegar hún krafðist upplýsinga um hvað í raun og veru átti sér stað. Barroso vildi ekki fyrirskipa rannsóknardeildinni að láta frá sér gögnin og líkti þingkonunni við fundamentalistískan Talíbana að biðja um slíkt.
29.1.2013 | 12:13
Vinnumálaráðherra Frakka: "Frakkland gjörsamlega gjaldþrota"
Vinnumálaráðherra Frakklands Michel Sapin lét þau orð falla í útvarpsviðtali í gær, að Frakkland væri orðið "algjörlega gjaldþrota." Franska þjóðin er ekki enn búin að jafna sig á yfirlýsingunni.
"Það er ríki en það er gjörsamlega gjaldþrota ríki," sagði Sapin. Ummælin koma á sama tíma og Hollande Frakklandsforseti reynir að laga ímynd Frakklands með því að minnka fjárlagahalla um 60 miljarða evra á næstu 5 árum og auka skatta um 20 miljarða evra.
Tölur frá Frakklandsbanka sýndu fyrr í mánuðinum fjármagnsflótta frá Frakklandi af ótta við áætlanir franskra sósíalista um að skinna fyrirtæki og efnað fólk. Leikarinn Gérard Depardieu hefur skilað ríkisborgararétti sínum og tekið upp rússneskan í mótmælaskyni og David Cameron segir að Bretar "rúlli út rauða teppinu" fyrir efnaða athafnamenn, sem vilja flytja til Bretlands.
Ráðherrar frönsku ríkisstjórnarinnar reyna í dag að bera blak af ummælum vinnumálaráðherrans, sem þeir telja vera vægast sagt óheppileg.
25.1.2013 | 09:13
Anna Kvaran: ESB er EKKI hugsað fyrir þjóðlega hagsmuni
Ég var að horfa á ZDF-fréttir rétt áðan og þar talaði hr. Westerwelle Außenminister (utanríkisráðherra Þýskalands) um "sérþarfir" Englands gagnvart ESB og hann sagði orðrétt: "EU ist NICHT für Nationale Interessen gedacht! Es ist eine Schicksals-gemeinschaft." !!!!!!! (Hann lagði áherslu á "NICHT")
Schicksal= Destiny= ÖRLÖG!!! Örlagabandalag!!!
Hahh! Hann er sko ekki til í að gefa "England oder andere Nationen" fleiri undanþágur á þeirra sérþörfum!!!!!!!!!!
Oder andere Nationen= Englandi og Íslandi!?! (erum við andere Nationen?)
Það var þungt í Westerwelle í kvöld.
Ekkert bros, þungar brúnir...
Anna Kvaran.
Við þökkum Önnu þessa ágætu sendingu, sem barst okkur í gær.
Hægt verði að yfirgefa evrusvæðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.1.2013 | 19:54
Unnur Brá Konráðsdóttir: Ísland já takk - ESB nei takk
Ísland er nú í aðildarferli að ESB vegna umsóknar Samfylkingar og VG. Í vor verður kosið til Alþingis. Í þeirri kosningabaráttu munu Evrópumálin og afstaða flokkanna og frambjóðenda til aðildarumsóknarinnar verða í brennidepli. Ég er algerlega sannfærð um að hagsmunum Íslands er betur borgið utan sambandsins en innan og vil halda áfram að vinna að því markmiði að tryggja áfram sterkt Ísland utan ESB.
Allar þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið frá því í byrjun ágúst 2009 segja okkur að mikill meirihluti landsmanna er andvígur inngöngu Íslands í ESB. Niðurstöður skoðanakönnunar sem Capasent Gallup gerði fyrir Heimssýn í október sl. eru þær að 57,6 prósent þjóðarinnar er andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu, hlynntir aðild eru 27,3 prósent og hlutlausir eru 15 prósent. Það er því einsýnt að meirihluti landsmanna hefur ekki áhuga á því að ganga í ESB.
Suðurland státar af öflugum landbúnaði og eigum við mikil sóknarfæri í þessari mikilvægu atvinnugrein. Ljóst er að hart verður sótt að íslenskum landbúnaði ef af aðild verður, það sýnir reynsla annarra þjóða. Bændur munu því skipa sér í fylkingarbrjóst þeirrar baráttu sem framundan er. Fullyrðingar um undanþágur frá regluverki ESB breyta ekki skoðun minni enda ljóst að allir aðlögunarsamningar í sögu ESB hafa allir verið tímabundnir. Hinir margumræddu norðurslóðastyrkir til landbúnaðar sem m.a. eru til staðar í Finnlandi eru greiddir úr ríkissjóði Finnlands en ekki af ESB og ekki er ljóst hversu lengi þeir verða leyfðir. Slíkir styrkir eru til þrátt fyrir ESB, ekki vegna ESB.
Ég hef á kjörtímabilinu lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að aðildarumsóknin verði dregin til baka. Ég óska eftir þínum stuðningi til þess að halda áfram að vinna að því markmiði að tryggja áfram sterkt Ísland utan ESB og sækist eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í prófkjöri flokksins sem fram fer 26. janúar n.k.
Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
- Eftirmáli. Yfirgangur stjórnarþingmanna í ESB-máli sést m.a. af bolabrögðum þeirra í utanríkismálanefnd með brottrekstri Jón Bjarnasonar, sem nú skilur við þingflokk VG.
- En okkur er heiður að því að fá að birta hér grein eins traustasta fullveldissinnans á Alþingi, Unnar Brár. Nýbirt er hún í Sunnlenzka fréttablaðinu og er endurbirt hér með leyfi Unnar og hennar mynd. Það er sannarlega mikilvægt að sjálfstæðissinni sem þessi fái traust umboð til næsta þings. JVJ.
Kornin sem fylltu mælinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2013 | 19:07
Ólafur Ragnar Grímsson: Engin ESB-aðild fram undan í hans forsetatíð
Forsetinn, staddur á Alþjóða-efnahagsþinginu í Davos í Sviss, hélt ekki aðeins uppi harðri, verðskuldaðri gagnrýni á Gordon Brown vegna Icesave-afskipta hans, í viðtali við Sky í dag, heldur lét líka umhugsunarverð orð falla um ESB-málið.
- Ólafur Ragnar gaf einnig til kynna í viðtalinu að Ísland muni innan tíðar láta af fyrirætlunum sínum um aðild að Evrópusambandinu. Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að Ísland muni ganga í sambandið á kjörtímabili hans svaraði Ólafur: Ef þú vilt að ég veðji á það, þá myndi ég tvímælalaust segja nei.
- Hann bætti því við að það væri alveg ljóst bæði á Íslandi og annars staðar í Norður-Evrópu að efasemdir gagnvart þróun Evrópusambandsins væru vaxandi. Á undanförnum þremur árum hefur evrusvæðið afhjúpað sjálft sig sem allt aðra skepnu. Við höfum tekið þá ákvörðun að staldra við og halda ekki áfram á næstu mánuðum, en taka málið aftur upp síðar. (Mbl.is.)
Eins er haft eftir Ólafi Ragnari í Stöð 2, að ekki verði af 'aðild' Íslands, meðan hann verður forseti. Má e.t.v. ætla, að gerist það nauðsynlegt, muni hann beita synjunarvaldi í 'ferlinu', ef áróðursstarfsemi Evrópusambandsins hér á landi leiðir til verulegs þrýstings í átt til 'aðildar' landsins að þessu bandalagi evrópskra stórvelda.
Þá sagði hann ennfremur í viðtali við Bloomberg-fréttastofuna, að Ísland sé dæmi þess að þjóðir geti blómstrað án atbeina Evrópusambandsins. Á Eyjunni er haft eftir honum, skv. Bloomberg-viðtalinu, að endurreisn íslensks efnahagslífs eftir bankahrunið sýni að þjóðir utan Evrópusambandsins geti notið velgengni án atbeina sambandsins. Þróun mála í Bretlandi sýni ennfremur aukna tortryggni í garð ESB þar í landi.
Þetta eru ánægjulegar fréttir af okkar einarða, málsnjalla forseta.
Jón Valur Jensson.
Forsetinn ræðst að Gordon Brown | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2013 | 01:58
Katrín Júlíusdóttir talar af sér um ESB í Wall Street Journal; kitlar hláturvöðva; fær hvassa gagnrýni
Þurfti Katrín Júlíusdóttir að gera sig að augljósum skotspæni lesenda stórblaðsins WSJ með því að fara þar með einfaldanir og bjartsýnisblaður?
- "We need to be a member," Katrin Juliusdottir said in a cafe located in the island nation's capital city late Friday. "We would be a sovereign nation working with other sovereign nations on our future, working together to raise the standard of living."
Lawrence Beck er ekkert að skafa utan af því:
- Ms. Juliusdottir is either stupid or dreadfully ignorant. She should go today to Greece, Italy, Spain, Portugal or Ireland to learn what can happen to a country when it gives up control of its currency.
Einhver sem virðist sjaldan sammála Mr. Beck, William Ledsham, kemst ekki hjá því að skrifa: "For once Mr. Beck, we are agreed."
Bill Wilson á þessa stingandi athugasemd: "The Icelandic politicians want to sell out the country for their personal gain."
Scott Davenport ritaði þetta: "Joing the EU viewed as improving their lot in life? Incredible. Better we send them a bunch of artificial sunlight." (!!)
Tom Fisher segir: Iceland would be better off becoming State #51 . . . . [í Bandaríkjunum auðvitað, á hann við.]
Dennis Mabrey skrifar:
- I know this is a crazy idea but what do the people think? To hell with the politicians and their desire to be 'invited' to Merkel's table. Latest polls say the people overwhelmingly do NOT want to join -- og vísar í skoðanakannanirnar sem Wikipedia gerir góða grein fyrir: http://en.wikipedia.org/wiki/Accession_of_Iceland_to_the_European_Union#Public_opinion
Ennfremur ritar hann:
- Quoting inflation rates for 2008 are terrible. Try looking at where they are at now (4.2%).
- And ask yourselves that all important question "After the Icesave and banking failure where would Iceland be now had they no control over their currency?"
Og þetta:
- It is ludicrous to think they would have ANY say over EU policies if they were 'sitting at the table'. The EU is run by Germany while France is doing its best to keep what power it has left. How much influence do the Dutch now have or even Austria? They have some... but only if they concur with Germany. [Mjög athyglisverð ábending; aths. JVJ.]
- And YES... joining the EU is giving up a ton of sovereignty. [Feitletrun JVJ.] Why does anyone think UKIP is doing so well? [Brezki sjálfstæðisflokkurinn er nú með 15-16% í skoðanakönnunum og dregur mikið fylgi frá Íhaldsflokknum.] It is bad enough when the elected officials don't do what the people want... joining the EU you end up with a level of UNELECTED officials above them who are not accountable to anyone.
- Strange days indeed....most peculiar mama...
Og Hugo Cunningham ritar, vitnandi fyrst í þessa setningu: "joining the EU would mean giving up too much control over important domestic matters such as the fishing industry, which accounts for 40% of the country's exports," [end of quote] og segir sjálfur:
Indeed.
Do EU proponents expect a special deal that would allow Iceland to keep control of its fisheries, unlike any other EU member? EU fisheries management is among the worst in the developed world, pouring ever more subsidies into already heavily overbuilt national fishing fleets.
Joshua Van Buskirk skrifar:
- The EU will continue to have serious economic problems until both monetary and fiscal policies are joined together. Even so, there's no guarantee the EU will survive. That said.... whether Iceland gives the EU control of printing their currency, or the eventual control of both printing and spending said currency, it's difficult to argue Iceland will maintain their sovereign rights regarding such issues.
Ætli Katrín og félagar skilji þetta, eða þurfa þau enn frekari hneisu við erlendis?
Ken Peffers er með ábendingu, sem fær góðar undirtektir: "Should we not invite Iceland to join Nafta? We can always use more fish." (Leturbr. JVJ; og "við" þarna = Bandaríkjamenn.)
Jeffrey Solomon gerir þessa hvössu athugasemd: "On the bright side, at least the U.S. doesn't have a monopoly on idiocy in government."
H. Edwin Hall bendir á, að ***Most Icelanders Want to Drop EU Membership Bid, Poll Shows*** og vísar í Businessweek 12. nóvember 2012: http://www.businessweek.com/news/2012-11-12/most-icelanders-want-to-drop-eu-membership-bid-poll-shows
James Johnson er í svartsýnna lagi: "Because the people don't want it that's why they'll get it." -- Hann á kannski auðveldara en ýmsir fáráðarnir hér á Íslandi með að átta sig á því, að 1580 sinnum fólksfleira veldi en Lýðveldið Ísland geti kannski átt í fullu tré við okkur, ef það fær frjálsar hendur til mútugjafa og áróðurs hér. Og það er einmitt það sem hefur gerzt, í boði okkar ábyrgðarlausu stjórnvalda sem haga sér þar eins og leppar Brusselvaldsins.
Juan Carlos de Cardenas á þarna mjög athyglisvert innlegg:
- Stockholm syndrome? After all what Iceland suffered at the hands of a few EU members which wanted his tiny population to assume the private debt of banks, even to the point of being branded "terrorist" why would you want to join?
- By the way, Iceland could adopt the Euro, the US Dollar or any other fiat currency or a bunch of them without having to join the EU, others have done it.
- Arguably Iceland is much better now because it took the sovereign decision not to assume private bank debt. It could not have done the same had it been an EU member and wanted to remain so. Ask Ireland.
Og Karl Noell er í fyndnara lagi, en full alvara þó í orðum hans:
- "A seat at the table" sounds like an invitation to a sheep by a pack of wolves. Quick, Let's vote on what's for dinner."
Ekki einn einasti hefur enn tekið undir með Katrínu! Sautján eru innleggin þó!
Minnumst þess nú, að hér á landi kvarta innlimunarsinnar sífelldlega yfir meintri hörku í gagnrýni fullveldissinna. Skyldu þeir frekar kjósa, að á þeim verði tekið með þeim áberandi sterka hætti sem þarna má sjá í innleggjum lesenda Wall Street Journal?
Staðeyndin er sú, að ESB-sinnarnir hafa það sem eina starfsaðferð sína hér að gera lítið úr öllum vörnum fullveldissinna fyrir Ísland og láta sem gagnrýni á ásigkomulag og hátterni Evrópusambandsins sé einhvers konar villt öfgatal þjóðernisofstækismanna. En hvað eru slík viðbrögð þessara ESB-sinna annað en öfgatal?
Og hér fengu þeir laglega fyrir ferðina, í verðskulduðum viðtökum vel upplýstra skríbenta á kommentarakerfi Wall Street Journal.
Jón Valur Jensson.
Kosið um ESB 2014 eða 2015? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 03:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.1.2013 | 19:14
Annað stóráfall Norðmanna vegna hryðjuverkamála - hernaður Frakka beinir reiði islamista að þeim og öðrum Evrópumönnum - vandi Frakka verður vandi ESB
Mannfallið mikla við alsírsku gasvinnslustöðina, sem er rekin af BP, Statoil og Sonatrach, tengist innrás Frakka í Malí. Sú innrás er skiljanleg vegna nálægðar Malí við Evrópu (landið liggur að suðurlandamærum Alsírs), til að hindra valdatöku islamista í öllu ríkinu. al-Qaída er beinlínis að verki í gíslatökunni, og kröfurnar, sem settar voru fram, voru um stöðvun hernaðar Frakka í Malí og um lausn islamistískra fanga úr haldi í Alsír.
Frakkar hafa brugðizt við af snerpu, en opnað um leið Pandórubox og þar með aukið vanda sinn, því að nú fjölgar örugglega árásum á þá og aðra Evrópumenn, þ.m.t. á evrópskri grund. Vandi Frakka -- ekki smár, með margar milljónir múslima innan landamæra sinna -- verður fljótt orðinn að vanda bandamanna þeirra í Evrópusambandinu, Þjóðverja, Spánverja, Hollendinga ... Við gætum líka eignazt "hlutdeild" í þeim vanda, ef við álpumst inn í þennan stórveldishóp síhrörnandi þjóða ESB.* Í versta falli gætu þá íslenzkir borgarar, m.a. ferðamenn, diplómatar og verktakar erlendis, orðið skotmark öfgaaflanna, ef vitað væri, að við hefðum gerzt meðlimaríki í því ESB, sem stæði í stríði við islamista. Og í 2. lagi yrði fjárhagsbyrði af slíkum afskiptum ESB af málefnum múslima deilt yfir á ESB-þjóðirnar, þ.m.t. smæstu aðildarþjóðir ESB.
En nú samhryggjumst við ótal einstaklingum, í Noregi og mörgum öðrum löndum, sem misst hafa ástvini sína vegna átaka Alsírhers og islamista. Fyrir Norðmenn er þetta ekki sambærilegt við illræðisverk Breiviks, en er þó eins og salt í sárin, sem ýfð eru upp á nýtt, og grafalvarlegt umhugsunarefni um næstu framtíð. Hryðjuverk og öfgastefnur tilheyra nú því miður upplifun Norðmanna af samtíð sinni.
* Meðalaldur færist upp á við í ESB, og æ færri vinnandi hendur fá það hlutverk að halda uppi velferðarkerfi, spítalakerfi og öldrunarþjónustu sístækkandi hóps aldraðra.
Jón Valur Jensson.
Um fimmtíu látnir í Alsír | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.1.2013 | 16:52
Afar athyglisverður, ýtarlegur þáttur um Ísland og sjálfstæðishugsun okkar, í þýzku sjónvarpi
Þetta (6,35 mín. afar áhugaverðan Íslandsþátt) horfði ég á í þýska sjónvarpinu í gær.
Þarna talar þulurinn um 200 mílurnar og hvernig innganga í ESB væri óhagstæð fyrir okkur!
Síðasta setningin er góð. Þar segir hann að þjóðin berjist með öllu valdi gegn inngöngu í ESB :D
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)