Annað stóráfall Norðmanna vegna hryðjuverkamála - hernaður Frakka beinir reiði islamista að þeim og öðrum Evrópumönnum - vandi Frakka verður vandi ESB

Mannfallið mikla við alsírsku gasvinnslustöðina, sem er rekin af BP, Statoil og Sonatrach, tengist innrás Frakka í Malí. Sú innrás er skiljanleg vegna nálægðar Malí við Evrópu (landið liggur að suðurlandamærum Alsírs), til að hindra valdatöku islamista í öllu ríkinu. al-Qaída er beinlínis að verki í gíslatökunni, og kröfurnar, sem settar voru fram, voru um stöðvun hernaðar Frakka í Malí og um lausn islamistískra fanga úr haldi í Alsír.

Frakkar hafa brugðizt við af snerpu, en opnað um leið Pandórubox og þar með aukið vanda sinn, því að nú fjölgar örugglega árásum á þá og aðra Evrópumenn, þ.m.t. á evrópskri grund. Vandi Frakka -- ekki smár, með margar milljónir múslima innan landamæra sinna -- verður fljótt orðinn að vanda bandamanna þeirra í Evrópusambandinu, Þjóðverja, Spánverja, Hollendinga ... Við gætum líka eignazt "hlutdeild" í þeim vanda, ef við álpumst inn í þennan stórveldishóp síhrörnandi þjóða ESB.* Í versta falli gætu þá íslenzkir borgarar, m.a. ferðamenn, diplómatar og verktakar erlendis, orðið skotmark öfgaaflanna, ef vitað væri, að við hefðum gerzt meðlimaríki í því ESB, sem stæði í stríði við islamista. Og í 2. lagi yrði fjárhagsbyrði af slíkum afskiptum ESB af málefnum múslima deilt yfir á ESB-þjóðirnar, þ.m.t. smæstu aðildarþjóðir ESB.

En nú samhryggjumst við ótal einstaklingum, í Noregi og mörgum öðrum löndum, sem misst hafa ástvini sína vegna átaka Alsírhers og islamista. Fyrir Norðmenn er þetta ekki sambærilegt við illræðisverk Breiviks, en er þó eins og salt í sárin, sem ýfð eru upp á nýtt, og grafalvarlegt umhugsunarefni um næstu framtíð. Hryðjuverk og öfgastefnur tilheyra nú því miður upplifun Norðmanna af samtíð sinni.

* Meðalaldur færist upp á við í ESB, og æ færri vinnandi hendur fá það hlutverk að halda uppi velferðarkerfi, spítalakerfi og öldrunarþjónustu sístækkandi hóps aldraðra. 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Um fimmtíu látnir í Alsír
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

Við gætum líka eignazt "hlutdeild" í þeim vanda, ef við álpumst inn í þennan stórveldishóp síhrörnandi þjóða ESB.*

Þvílík hræsni. Íslendingar eru langflestir náfölir, þ.e. hvítir Evrópumenn (má segja það á þessum vef?). Auk þess erum við, í orði kveðnu a.m.k., kristnir. Íslendingur á ferð á þessum slóðum getur vel hatað Evrópusambandið og verið Formaður Vantrúar. Hann mun sjálfkrafa verða tekinn fyrir sem kristinn, hvítur Evrópubúi. ESB skiptir nákvæmlega engu máli í þessu samhengi. Greinarhöfundur virðist auk þess hafa gleymt því að Ísland er stofnaðili að NATO og hatað í ýmsum herbúðum þess vegna. En allt skiptir þetta engu máli: Fyrir íslamista eru aðrir en íslamistar úr sama sértrúarhópi og þeir sjálfir réttdræpir hvar og hvenær sem er.

Sæmundur G. Halldórsson , 18.1.2013 kl. 01:56

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég held, Samy, að lesendur nái lítt meiningunni í orðum þínum um "hræsni" hér.

Jón Valur Jensson, 18.1.2013 kl. 11:05

3 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

Alveg rétt. Hér átti að standa: Þvílík della. Annað óbreytt. Ef kenning þín um að aðild heimalands viðkomandi að ESB setji þá í hættu, hvernig má þá vera að íslamistarnir telji Norðmennina ekki til "bræðra sinna"? Noregur hefur þó tvisvar hafnað EBE/ESB aðild. Málið er að rasismi og trúarbragðahatur spyr ekki að því hvaða ríkjasamstarfi heimaland manna kann að tilheyra. Þeir telja þig réttdræpan vegna þess að þú ert (í þessu tilfelli) hvítur, kristinn, Vesturlandabúi.

Sæmundur G. Halldórsson , 19.1.2013 kl. 03:58

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þeir réðust þarna á norska gasvinnslustöð, af því að þar vinnur fjöldi Evrópumanna. Það hefur naumast beinzt sérstaklega að Norðmönnum, heldur fremur haft þann tilgang að sýna alsírskum stjórnvöldum, að erlendar fjárfestingar þar geti verið í hættu, ef stjórnvöld styðji Frakka í Malí-málinu, eins og þau í raun gera, með því að leyfa yfirflug eða jafnvel lendingar herflugvéla á leið til Malí til árása á islamista. Aðaltilgangurinn kann þó einfaldlega að hafa verið að fá islamista leysta úr fangelsum í skiptum fyrir gísla.

Jón Valur Jensson, 20.1.2013 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband