Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Tilraunin með evruna á nýtt stig

Varla var afgreiðslu nýjasta "neyðar"lánsins til Spánar lokið, þegar markaðir tóku nýja dýfu niðurávið og sendu vaxtakröfur á Spán yfir 7,5%. Nú er búist við, að fjórða stærsta efnahagskerfi ESB, Spánn, þurfi að biðja um neyðaraðstoð frá AGS, SE og ESB eins og Grikkland til að geta greitt afborganir og vextir af lánum, sem þarf að greiða seinna í ár.

Þetta kemur fram í sömu andrá og fleiri landssvæði á Spáni snúa sér að yfirvöldum vegna þess að þau eru í raun gjaldþrota. Valencia hefur tilkynnt um beiðni til ríkisstjórnar Spánar upp á 200 til 300 miljónir evra. El País lagði til á laugardaginn, að fimm önnur svæði á Spáni veltu fyrir sér beiðni um fjárhagsaðstoð, þar á meðal tvö fjölmennustu svæði Spánar Andalúsía og Katalónía. Samkvæmt El País skulda 17 svæði Spánar um 140 miljarða evra og þar af þarf að fjármagna greiðslur 36 miljarða evra í ár. 

Fjármálaráðherra Spánar Luis de Guindos afneitaði þörf á fullum "björgunarpakka" til Spánar í morgun en hittir samt þýzka fjármálaráðherrann Wolfgang Schäuble í Berlín til að ræða Spánarkreppuna. Utanríkisráðherra Spánar, José Garcá Margallo beinir því til Seðlabanka Evrópu, "að einhver verður að veðja á evruna - og hver getur gert það betur en SE?" Mario Draghi bankastjóri SE bendir hins vegar á, "að hlutverk SE er ekki að leysa fjárhagsvandræði einstakra ríkja."

Á sama tíma berast fréttir um, að þolinmæði AGS er á þrotum gagnvart Grikklandi og AGS íhugi að halda aftur af umsömdum peningagreiðslum til Grikklands í framtíðinni vegna þess, að Grikklandi takist ekki að halda ríkisskuldum undir 120% af þjóðarframleiðslu ár 2020. Grikkland gæti þurft allt að 50 miljarða evra aukaaðstoð bráðlega, sem hvorki AGS né ýmis evrulönd eru reiðubúin að fallast á. T.d. segir Süddeutsche eftir heimildum ríkisstjórnar Þýzkalands, að það sé "óhugsandi" fyrir Angelu Merkel að biðja þingið um að afgreiða þriðja "björgunarpakkann" fyrir Grikkland á sama tíma og ýmisir aðrir stjórnmálamenn viðra opinskátt, að það verði allt í lagi, þótt Grikkland yfirgefi evrusvæðið.

Það, sem einkennir allt "lausnar"ferlið á skuldavanda evruríkjanna er, að það virðist annars vegar ekkert að marka "aðstoð", sem veitt er till viðkomandi ríkja, vegna þess að tölurnar hækka alltaf eftirá og þörfin á meiri og hærri peningagjöfum fylgja í kjölfarið. Hins vegar er komið að endamörkum þolmarka í stjórnmálum og efnahagsmálum "aðstoðar"ríkjanna, sem ógnar áframhaldandi evrusamstarfi og stjórnmálasamstarfi. Stjórnmálaspenna í löndum, sem eru að baki "neyðarpakkanna" hefur aukist og einnig á þjóðfélagslega spennan eftir að aukast mjög í þeim löndum, sem taka þurfa á sig neyðarskilmála, þegar niðurskurðaraðgerðir gera vart við sig að fullu t.d. á Spáni. Andstaða margra stjórnmálamanna við að ganga lengra á þessarri braut t.d. með hótun Finna að draga sig úr evrusamstarfinu skilur raunar ekkert eftir nema brotlendingu evrunnar, evrusamstarfsins og hrun á mörkuðum.

Þjóðverjar m.fl. ætla að notfæra sér ástandið til að þvinga stofnun alríkisins í gegn og kemur væntanlega í ljós á haustmánuðum, hversu mörg lönd þeir fá með sér í þann leiðangur.

gs


mbl.is Sækir Spánn næst um aðstoð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15% í netkönnun mjög hlynnt inngöngu Íslands i ESB, en 67% mjög andvíg!

Þetta kom í ljós í könnun Vísis.is, Bylgjunnar (Reykjavík síðdegis) og Stöðvar 2, birtri 4. júlí sl. 3% voru hlutlaus, en "nokkuð hlynnt" voru 8% og "nokkuð andvíg" 7%. Það sem stendur upp úr er afstaða hinna eindregnu: meira en fjórfalt fleiri eru þar í andstöðu við ESB-stefnuna í stjórnarráðinu heldur en hinir, sem hlynntir eru Össurarstefnunni. 74% vilja enga "inngöngu" í ESB.

Áberandi grafið segir sína sögu:

 

Þetta eru ánægjuleg tíðindi af fjölmiðlavettvangi Baugsmiðla. Jafnvel þar er höfnun stefnu Össurar og Jóhönnu nánast eins skýr og verða má. Og ekki var þátttakan lítil: 2.072.

Jón Valur Jensson. 


Engin þörf á að semja um neinn makrílkvóta Íslands nema þá helzt til aukningar

Steingrímur J. Sigfússon hefur ekkert þjóðarumboð til að semja við Evrópusambandið um makrílkvóta, hvorki 7, 10 né 15%.

Við höfum veitt úr honum um 16% af þeim kvóta, sem Alþjóða-hafrannsóknaráðið hefur lagt til, en það er í raun of lítið miðað við 1) dvalartíma hans hér við land (um 40% líftíma hans), 2) gríðarlegt magn átu sem hann innbyrðir hér við land, um fimmfalda eiginþyngd hans, og þetta tekur fæðu frá öðrum fiski hér.

Í þriðja lagi er ætlun ESB-þjóðanna um eigin veiðar í stórfelldu ósamræmi við það, hvar makríllinn heldur sig og í raun margföld rányrkja, ef eitthvað er "sjórán" á þessari fisktegund, enda ætla þær sér áfram að veiða margfaldlega á við okkur!

En í 4. lagi er svo ráðgjöf Alþjóða-hafrannsóknaráðsins byggð á sandi fremur en vísindum, gersamlega ótækum rannsóknaraðferðum, eins og vel kemur fram í afar skýrum skrifum Jóns Kristjánssonar fiskifræðings um þau mál, hér 6. þ.m. á Moggabloggi: Ekki semja um makrílinn!

Það er því ankannalegt í hæsta máta að lesa þessar fréttir frá Evrópusambandinu:

Evrópusambandið hefur í hyggju að bjóða Íslendingum 10% af ráðlögðum makrílkvóta í Norðaustur-Atlantshafi og Færeyingum sama hlutfall samkvæmt því sem fram kemur á írsku fréttasíðunni Donegal Democrats í dag.

Þar segir ennfremur að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sjái fram á að geta stöðvað „stjórnlausa rányrkju“ Íslendinga og Færeyinga á makrílstofninum með slíku tilboði og að um sé að ræða ásættanlega lendingu til þess að binda endi á makríldeiluna.

"Ásættanleg lending" -- þannig talar þetta kerfisfólk, ásamt óverjanlegum upphrópunum sínum, í stað þess að virða efnahagslögsögu hvers ríkis. Hún yrði að sjálfsögðu ekki virt hér, ef við færum inn í þetta Evrópusamband, þar er gefinn jafn aðgangur allra ESB-þjóða að fiskimiðunum. En jafnvel án "inngöngu" í þetta stórveldabandalag ætlast það til þess að fá að vaða hér yfir okkur á skítugum skónum með þrýstingi á þá ráðamenn hér, sem reyndust, þrátt fyrir það sem mönnum sýndist, ekki hafa bein í nefinu til að standa gegn yfirgangi þjóða úr þessari sömu átt.

Það er dæmigert, að bæði Belgar og Hollendingar taka undir hortugheit og frekju Skota, Íra og Breta á móti okkur á sínum ESB-vettvangi, en Danir og Svíar hafa hins vegar óskað eftir "málamiðlun".

Það er í 1. lagi spurning, hvort Íslandsmið og ástand annarra fiskistofna þyldi slíka málamiðlun -- réttast væri líklega að auka veiðarnar hér langt upp fyrir 20% heildarveiði makrílsins á NA-Atlantshafi. En í 2. lagi á það ekki að vera hlutverk annarra Norðurlandaþjóða að vera með íhlutun í okkar innanríkismál og stuðla að þvingun gagnvart okkar eigin efnahagslögsögu, um leið og með því væri verið að svipta okkur útflutningstekjum svo næmi mörgum tugum milljarða króna á t.d. einu kjörtímabili.

Steingrímur J., sem er að renna út skeið síns kjörtíma, hefur ekkert umboð þjóðarinnar til að gera hrossakaup við Evrópusambandið með lúpulegum svip. Sitthvað bendir jafnvel til, að hann ætli sér að eiga það spil í bakhendinni fyrir næstu kosningar að hafa loksins reynzt standa gegn offorsi stórveldisins í þessu máli. Þó er eins víst og að sólin kemur upp í fyrramálið, að fólk er hætt að treysta honum fyrir áframhaldi makrílveiða okkar, sbr. að fyrir örfáum dögum kom í ljós í könnun Útvarps Sögu, að innan við 20. hver maður treystir honum til samninga við ESB um þetta mál (Algert vantraust á Steingrími J. Sigfússyni til að semja við ESB um makrílkvóta).

Slíkir samningar eru hvort eð er óþarfir, meðan valdamenn Evrópusambandsins halda sig uppi í skýjunum og tala af hroka og yfirlæti niður til Íslendinga og Færeyinga.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Verða Íslendingum boðin 10%?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myntbandalagið sem kosið var um 2003 er horfið, segir Assar Lindbeck, Svíþjóð

Í grein í Dagens Nyheter 17. júlí skrifar Assar Lindbeck, hagfræðiprófessor við alþjóðlegu efnahagsstofnunina IIES við háskólann í Stokkhólmi, að "Myntbandalagið, sem við kusum om 2003, fyrirfinnst ekki lengur og það er ómögulegt að sjá fyrir, hvers konar myntbandalag verður til eftir fimm eða tíu ár. Ég tilheyri þess vegna þeim, sem finnst að Svíþjóð eigi að bíða og sjá, hver þróunin verður á EMU í framtíðinni áður en við tökum aftur upp spurninguna um sænska aðild."

"Það er varhugavert þegar evruríkin, að því er virðist, eru að breyta tímabundnum kreppuaðgerðum í endanlegt aðstoðarkerfi fyrir lönd með veikan ríkisfjárhag. Stjórnmálamenn evrulandanna og leiðtogar ESB eru á fleygiferð að byggja upp nokkurs konar tryggingakerfi fyrir þessi ríki. Þróunin tekur ekki bara á sig mynd sameiginlegra hjálparsjóða heldur einnig tillagna um sameiginlega tryggð ríkisskuldabréf (evruskuldabréf) og mögulega yfirríkjavald til skattlagningar innan ESB og evrulandanna. Á hagfræðingamáli mætti segja, að evrulöndin séu að byggja upp kerfi fyrir endanlegt "moral hazard", þ.e.a.s. kerfi stöðugra freistinga fyrir ríkisttjórnir til að stunda óabyrga fjármálastefnu til langtíma á annarra kostnað."

Assar Lindbeck telur, að eina leiðin til að viðhalda fjármálasjálfstæði þjóðríkja í gjaldmiðilssamstarfinu, er að bann Maastrichtssáttmálans við fjármögnun einstakra ríkja ("non-bail out") verði einnig látið gilda fyrir Seðlabanka Evrópu. Gangi það ekki eftir verði sameiginlegt "fjármálabandalag" eftir á borðinu.

"En ég dreg í efa, að íbúar landa í vandræðum með ríkisfjármálin samþykki yfirstjórn eða niðurskurði, sem stjórnmálamenn annarra landa ákveða. Ég er heldur ekki sannfærður um, að íbúar landa sem ekki eru í vandræðum með ríkisfjármálin vilji íklæðast hlutverki hins gjafmilda stórabróðurs. Ég á þess vegna erfitt með að trúa á hugmyndina um langt gengna miðstýringu fjármálastjórnunar yfir þjóðunum.

Ég kaus sjálfur "já" í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2003, þegar kosið var um, hvort Svíþjóð ætti að ganga með í myntbandalagið.  Þá datt mér engan veginn í hug, að bann Maastrichtssáttmálans um að "leysa út" lönd með slæman efnahag yrði yfirgefið fyrir skyndistuðning til einstakra ríkja. Þaðan af síður gat ég ímyndað mér að endanlegu tryggingarkerfi yrði komið á með yfirríkjastjórn fjárlaga einstakra ríkja."

Assar Lindbeck er hagfræðiprófessor við alþjóðlegu efnahagsstofnunina IIES við háskólann í Stokkhólmi. 1992-1993 var hann í forsvari fyrir Lindbecknefndinni, sem aðstoðaði ríkisstjórn Svíþjóðar að leysa efnahagskreppu á þeim tíma.  

gs


mbl.is Spánn og Grikkland fá betri vaxtakjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðið bíður ósigur í evrukreppunni, segir Carl Tham fv. menntamálaráðherra Svíþjóðar

Í grein í Dagens Nyheter í Svíþjóð 16. júlí skrifar Carl Tham fv. menntamálaráðherra Svíþjóðar, að lýðræðið verði undir í evrukreppunni. 

"Myntbandalagið er orðið að "gegnumstreymisbandalagi" þar sem geysilegar fjáhæðir tryggðar af sterku löndunum streyma til þeirra veikari til að koma í veg fyrir hrun þeirra. Aðalatriðið er minni umhygga fyrir íbúum þessarra landa en með eigin bönkum og evrunni sem pólitísku verkefni. Innbyrðis átök aukast milli ESB ríkjanna og Þýzkaland, sem átti að halda í skefjum, er nú orðið allsráðandi.

Nú á að bjarga verkefninu með enn stærra verkefni, sem kallað er "fjármálabandalag" en er í reynd nokkurs konar efnahagslegt einræði undir þýzkri leiðsögn í höndum starfsmanna og sérfræðinga í Brussel."

"Hvert skref fæðir annað eins og venjan er hjá ESB, lýðræðislegt vald þjóðanna leysist smám saman upp í þoku efnahagslegra, nauðsynlegra aðgerða, - einræði búrókratanna tekur við og þá mun alríkið verða markaðssett til þess að ljá kerfinu "lýðræðislegt andlit", sem er mjög svo afhjúpandi orðalag. Hið sjálfbyggða gjaldmiðlaskrímsli á að temja með enn þá stærra skrímsli!"

Carl Tham meinar að lýðræðið víki fyrir tundurskeyti myntbandalagsins og að þvinga alríki upp á fólk með mismunandi menningu, mál og hefðir muni óhjákvæmilega leiða til þjóðfélagsátaka.

"Ef þær tillögur ná fram að ganga, sem nú eru lagðar fram, mun áfram haldið við niðurrif á lýðræði í Evrópu. Gjaldmiðillinn er æðri lýðræðislegum stjórnarháttum. Verið er að taka ákvörðunarréttinn af fólki á færibandi.."

Carl Tham hóf stjórnmálaferil sinn hjá Folkpartiet en gekk í lið með Sósíaldemókrötum síðar, þegar hann varð menntamálaráðherra. Sífellt fleiri sósíaldemókratar í Svíþjóð viðurkenna nú, að evran eru mistök og vara við sífellt stærri lýðræðisskerðingu, sem einkennir ESB. Þeir sjá mótsögnina við fólkið í Evrópu, kjósendur aðildarríkja ESB og skilja, að þessi þróun leiðir till enn meiri hörmunga en þegar hafa gerst.

Íslenskir kratar hafa grafið sig svo langt niður í umsóknarferli ESB, að augu þeirra ná ekki út yfir brún skotgrafarinnar og eiga þeir því enn langt í land með að viðurkenna staðreyndir um evruna, sem blasa við öllum öðrum.

gs 


mbl.is Evran á uppleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þýzka æskan afskrifar evruna

Í nýrri skoðanakönnun þýzka WELT segja 56 % þýzkra ungmenna á aldrinum 14 til 24 ára, að evran muni ekki ganga upp til langframa. 45 % telja að evran muni gera það.

Niðurstaða fjölmiðilsins er, að þýzka æskan sé búin að afskrifa evruna sem gjaldmiðil í framtíðinni.
mbl.is Evran lækkar við lækkað lánshæfi Ítalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lestur á ESB-fréttablaðinu minnkar

Það er einkar ánægjulegt, að lestur á ESB-Fréttablaðinu minnkar skv. fjölmiðlakönnun Capacent. Blaðið er óverðugur málsvari undirgefni við erlent stórveldi, ritstjórinn skrifar sífelldan ESB-áróður og blaðamenn notaðir sem skæruliðar gegn sjálfstæðum þingmönnum eins og Jóni Bjarnasyni, Atla Gíslasyni, Vigdísi Hauksdóttur o.fl.

Eða hefur kannski enginn tekið eftir þessu nema undirritaður?

Eitt sem víst er: Ekki er útrásarvíkingurinn Jón Ásgeir Jóhannesson og kona hans (eigandi blaðsins) andvíg því, að Ísland verði innbyrt í Evrópusambandið.

Skammarleg var umfjöllun ESB-Fréttablaðsins um valdahlutföll innan Evrópusambandsins. Þar var mikið lagt á sig til að fela það í opnugrein, hve hverfandi lítið atkvæðavægi Íslands yrði þar eftir 1. nóvember 2014 og hve yfirgnæfandi vægi gömlu nýlenduveldanna í Evrópu (10 þeirra, öll nema Rúsland, eru í ESB).

Þetta er ein af fleiri sönnunum fyrir hlutdrægni ESB-Fréttablaðsins, gegn íslenzkri fullveldisbaráttu. Svo þurfum við á sama tíma að kljást við það, að Evrópusambandið brýtur hér Vínarsamþykktina um skyldur sendiráðs síns, sem dælir hér 230 milljónum króna í beinan áróður Evrópus[sambands]stofu, og sendiherrans Timos Summa, sem staðið hefur í löglausum áróðursferðum um landið. Reyndar hitnaði svo undir honum, vegna einarðrar gagnrýni Tómasar Inga Olrich, fyrrum sendiherra í París, að það var trúlega ástæðan til þess, að hann var látinn hverfa heim til Brussel.

Já, það gerist fleira á Íslandi en blasir við í fyrirsögnum blaðanna. Ef einhver skyldi ekki vita af því, fer nú fram barátta fyrir íslenzku sjálfstæði, gegn 1580 sinnum fólksfleira stórveldi, sem svífst hér einskis, og gegn 5. herdeild þess hér á Íslandi.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Lestur á Fréttablaðinu minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn fleiri aðlögunarverkefni dúkka upp og tölvukerfum ráðuneyta breytt í þágu ESB - en ráðherrar týndir þjóðinni og tröllum gefnir?

Á sama tíma og öll teikn eru um, að Steingrímur J. ætli sér að láta undan kröfum ESB um stórfelldan samdrátt í makrílveiðum hér, berast fleiri fregnir af hneisulegri meðvirkni með ESB hér, stjórnarskrárbrot falin og ný aðlögun sett í gang.

Stórathyglisverð frétt í Mbl. í dag, Leggja drög að tölvukerfi fyrir styrkjakerfi ESB ætti með réttu að vera komin inn á Mbl.is, en undirfyrirsögn er þar: • Forvinna í iðnaðarráðuneytinuKallar á nokkur mannár í vinnu. Baldur Arnarson blaðamaður upplýsir þar lesendur um það, hvernig "sérfræðingar iðnaðarráðuneytisins hafa að undanförnu unnið að þarfagreiningu fyrir tölvukerfi sem yrði notað fyrir styrkjakerfi Evrópusambandsins, komi til aðildar. Kerfið heitir á ensku Management Information System, MIS, og er jafnframt einskonar gæðakerfi sem Evrópusambandið notast við vegna styrkjakerfisins."

Styrkjakerfi ESB "er mikið að vöxtum og gerir Evrópusambandið kröfu um að aðildarríkin notist við tölvukerfi á borð við það sem starfsmenn iðnaðarráðuneytisins vinna nú frumkönnun á svo leggja megi mat á hvernig það rímar við íslenskar aðstæður." Þótt ódýrara verði en í stærri löndum vegna smæðar okkar, "er talið að kostnaðurinn verði umtalsverður og margfaldur á við það sem hann er í dag, enda er kerfið ekki einfalt í sniðum. Þá hafa sérfræðingar í huga að uppsetning kerfisins hefur vafist fyrir sérfræðingum fjölmennari umsóknarríkja og er sá vari því hafður á að verkið geti tekið sinn tíma og er undirbúningurinn talinn kosta nokkur mannár í vinnu," segir í frétt Baldurs.

En málið snýst um, að "til að sýna fram á að Ísland geti mætt öllum skilyrðum sambandsins um undirbúning, áætlanir og framkvæmd á styrkjum ESB til landbúnaðar, byggðamála og fiskveiða," þurfi að "taka upp ákveðna verkferla í íslenska stjórnkerfinu til að sýna fram á að Ísland geti mætt öllum skilyrðum sambandsins um undirbúning, áætlanir og framkvæmd á styrkjum ESB til landbúnaðar, byggðamála og fiskveiða."

Svo fáum við hér skammt af býrókratísku sproki samninganefndar Íslands, en á vef hennar er vikið að tölvukerfinu:

Tekið verður til athugunar hvort hanna skuli nýtt upplýsingastjórnunarkerfi á vegum stjórnunaryfirvalds og einnig skal lagt mat á hagkvæmni þess að reka eitt upplýsingastjórnunarkerfi fyrir alla sjóði ESB. Þarfagreining verður framkvæmd varðandi eftirlit og matsgerðir og kerfi og verklag áður en kaflanum verður lokað. Þessi vinna mun fela í sér heildarþarfagreiningu á upplýsingastjórnunarkerfunum og að þarfir verði kortlagðar. Á þessum grundvelli verður þjálfunaráætlun gerð í samvinnu við framkvæmdastjórnina og valin aðildarríki.

Og þá ber þess að geta, að "uppsetning á nauðsynlegu upplýsingastjórnunarkerfi mun eiga sér stað í öðrum áfanga," eins og segir á vef samninganefndarinnar, og þessu "ferli" fylgja m.a. heimsóknir möppudýra héðan til aðildarríkja Evrópusambandsins (orðalag undirritaðs, en byggt á á vefnum vidraedur.is) og allt gert til að "tryggja skjóta uppsetningu".

Þannig er litla Ísland í höndum okkar afvegaleiddu stjórnmálastéttar, sem starfar þvert gegn vilja landsmanna, sem í öllum skoðanakönnunum frá umsókn Össurarliðsins hafa tekið eindregna meirihlutaafstöðu gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið; og embættismannastéttin er sett í þjónustuverkin, hvort sem þau snúast um að fækka ráðuneytum (og ráðherrum) til þægðar ESB eða að hraða því sem mest menn mega að aðlaga stjórnarráðið að kerfi ESB.

Margt bendir til þess, að gamli kommúnistakjarninn í Vinstri grænum hafi gengið Evrópusambandinu á hönd, ekki aðeins Árni Þór Sigurðsson, sem hóf sitt nálgunarferli á því að meðtaka 10 milljóna persónulegan styrk til að "kynna sér" ESB og dveljast þar í eitt ár við lúxusaðstæður heldur líka Svavarsliðið Gestssonar og Steingrímur J. Sigfússon. Steingrímur er nú í því að hringsnúast kringum annan gamlan kommúnista (einn enn í framkvæmdastjórn ESB), Mariu Damanaki, og beygja sig og bugta fyrir kröfum um "samninga um makrílinn", eins og þær séu eðlilegar - á sama tíma og alþýða manna sýnir í nýjustu vefkönnun Útvarps Sögu, að yfir 95% telja, að Íslendingar eigi sjálfir að ráða makrílkvótanum innan landhelgi Íslands. Dóttir Svavars, ráðfrúin verkefnalitla Svandís, var hins vegar í því í verkum sínum undir þinglokin að skjóta undir stól (í Össurarstíl) áliti tveggja virtra lagasérfræðinga um að nýjasta ESB-löggjafarinnfærslan hér stríddi gegn stjórnarskrá okkar!

Almennum félagsmönnum Vinstri grænna ætti að vera orðið ljóst, að þessi forysta þeirra hefur svikið vilja og stefnu óbreyttra flokksmanna og kjósenda þess flokks, sem fekk ófá atkvæði út á það, sem vorið 2009 virtist hin einarðasta kosningastefna nokkurs flokks GEGN ESB-aðild. Þessi grasrót VG getur naumast haldið áfram að láta sem ekkert sé og leyft forystu sinni að leika lausum hala með þessum hætti og komast upp með svik við landið og þjóðina og þá sjálfa um leið.

Jón Valur Jensson.


Tvöfalt hærra sykurverð í ESB en annars staðar í heiminum

Samkvæmt Financial Times er sykurverð innan ESB tvöfalt hærra en ráðandi heimsverð. Ástæða verðmismunar er verndun á sykurframleiðslu innan ESB í formi kvóta.

Fyrir nokkrum árum ásakaði WTO ESB fyrir verðstríð í heiminum, sem kæmi í veg fyrir innflutning sykurs frá þróunarlöndum til Evrópu. ESB svaraði með sykurkvótakerfi, þar sem þróunarlöndunum var tryggt 15% af sölunni á markaði ESB. Þegar þróunarlöndin gátu ekki uppfyllt sölumagn þurfti að flytja inn sykur m.a. frá Brasilíu og Thaílandi á mjög háum verndartollum till ESB en sykur frá þessum löndum er utan kvótakerfisins.

Sem dæmi er nefnt að nýlega þurftu sykurinnflytjendur í ESB ríkjum að greiða um 85% í innflutningstolla til ESB. Næstum tvöfalt hærra útsöluverð er síðan notað til viðmiðunar innan ESB og hækkar sykurverð í öllum aðildarríkjunum.

Sykurkvótinn rennur út árið 2015 og margir eru þeirrar skoðunar að kerfið beri alfarið að leggja niður á meðan hagsmunaaðilar vilja framlengja kvótann til 2020.


Deila að rísa vegna fiskimiða og auðlinda á hafsbotni - Við megum ekki sofna á verðinum!

Landhelgi, fiskveiðilögsaga og efnahagslögsaga (EEZ) eru fyrirbæri sem skipta gríðarmiklu máli. Japanir leitast nú við að kaupa Senkaku-eyjar í A-Kínahafi af einkaeigendum, en landið átti tilkall til þeirra áður.

  • Gjöful fiskimið eru umhverfis eyjarnar og talið er að þar kunni að vera jarðefni sem hægt sé að nýta. Japanskir fiskimenn bjuggu á eyjunum fyrir seinni heimstyrjöldina. (Mbl.is.)

Gegn þessari viðleitni Japana bregðast nú Kínverjar harkalega. Vera má, að deilur, sem Kínverjar eiga í við Filippseyinga o.fl. vegna eyja í Suður-Kínahafi, sem og þessi deila geti leitt til vígvæðingar á þeim svæðum.

Ríkjum verður sífellt dýrmætara að halda fast í eignarrétt sinn á fiskimiðum og landgrunni og til hafsbotnsins og þess sem undir honum er, innan 200 mílna efnahagslögsögu. Þessu sækjast m.a. stórveldi eftir, og það sama á við hér við land. (Víðfeðm lögsaga okkar sést á þessari mynd (með grein hér), sem sýnir þriggja, fjögurra, 12, 50 og 200 mílna fiskveiðilögsöguna.)

Það fór illa, að Vestfirðingurinn frækni, sem hugðist nema land á Jan Mayen, fórst í ofviðri, áður en lagt skyldi upp í þá landvinningaferð. Hefði ferðin tekizt og búseta festst í sessi, ásamt nýtingu sjávargæða, og tilkalli lýst til Jan Mayen, eins og Norðmenn gerðu síðar, þá ættum við þar gríðarlega efnahagslögsögu til viðbótar við okkar u.þ.b. 750.000 ferkílómetra hafsvæði kringum landið.

Eftir efnahagslögsögu okkar sækist Evrópusambandið og ríki innan þess, þ.e. réttinum til nýtingar fiskistofna og jafnframt réttinum, sem sambandið hyggst taka sér í stjórn orkuauðlindamála. Nú þegar eru mjög víðtækar, en klóklega orðaðar valdheimildir einmitt í þá átt í Lissabon-sáttmálanum.

Undir Lissabon-sáttmálann yrðum við fortakslaust að segjast, ef við "gengjum í" Evrópusambandið, rétt eins og við yrðum þá að lúta lagasetningar- og stefnumótunarvaldi þess á sviði sjávarútvegs og m.a. þeirri meginreglu þar, að öll aðildarríki ESB hafi ótvíræðan rétt til jafns aðgangs fyrir fiskiskip sín til veiða á öllum miðum aðildarríkjanna innan 200 mílna markanna (sjá nánar hér: Esb. tekur sér alræðisvald yfir fiskveiðilögsögu milli 12 og 200 mílna!)

Ísland er og verður standandi dæmi um land, sem vegna þjóðarhagsmuna má aldrei og alls ekki "ganga í" Evrópusambandið. Við hefðum þar sáralítið að vinna, en nánast öllu að tapa og áhrifamáttur okkar svo til enginn.

Jón Valur Jensson


mbl.is Japan áforma að kaupa eyjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband