Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Traustið á ESB í sögulegu lágmarki

Síðasta skoðanakönnun framkvæmdastjórnar ESB EUROBAROMETER um eigið ágæti Evrópusambandsins sýnir, að á fimm árum hefur traust almennings á stofnunum ESB hrunið frá 57 % niður í 31 %. Frá síðustu mælingu haustið 2011 er fallið 3 %. Á sama tíma hefur framtíðarviðhorf almennings, sem árið 2007 var jákvætt hjá 52 % viðmælanda hrunið niður í 31 %. Neikvætt viðhorf til framtíðarinnar hefur tvöfaldast frá 14 % ár 2007 til 28 % ár 2012. Samkvæmt könnuninni vilja 52 % enn hafa evrópskt myntbandalag með einum gjaldmiðli evrunni á meðan andstaðan hefur aukist verulega og 40 % eru á móti ESB og evrunni. Þá er traust fyrir þjóðþingum og ríkisstjórnum einnig í sögulegu lágmarki skv. könnuninni.

71 % töldu efnahag eigin þjóðar vera alslæman á meðan 27 % töldu efnahaginn vera í góðu lagi. Mest var óánægjan 100 % í Grikklandi en minst 15 % í Svíþjóð. Á Spáni er 99 % óánægja, 97 % í Portúgal, 96 % á Írlandi, 93 % í Ungverjalandi, 92 % á Ítalíu, 91 % í Búlgaríu, og 90 % í Rúmeníu með Serbíu, Lettland, Litháen, Króatíu, Frakkland, Kýpur, Tékkóslóvakíu og Bretland á eftir. Ánægðastir með eigin efnahag eru 83 % Svía, 82% Lúxembúrgara, 77 % Þjóðverja, 68 % Finna ásamt Austurríki, Danmörku, Möltu, Hollandi, Eistlandi og Belgíu.

Flestir eða 45 % upplifa verðhækkanir/verðbólgu, sem mikilvægasta atriðið að glíma við í augnablikinu, 21 % atvinnuleysi, 19 % efnhagsástand eigin lands, 15 % eigin peningastöðu og 15 % heilbrigðis- og velferðamál. 

Sem svar við spurningunni um, hvaða mál eru mikilvægust fyrir sérhvert land svöruðu 46 % atvinnuleysi, 35 % efnahagurinn, 24 % verðbólga, 19 % ríkisskuldir, 12 % heilbrigðis- og velferðarmál, 11 % glæpir, 9 % skattar, 9 % ellilífeyrir, 8 % innflytjendamál, 8 % menntun, 4 % híbýli, 4 % umhverfismál og 2 % hryðjuverk.

Þegar spurt var um, hvort efnahagskreppan hefði náð hámarki eða það versta væri eftir, halda 60 % að það versta sé eftir, sem er 8 % færri en í síðustu mælingu. 30 % telja að kreppan hafi þegar náð hámarki miðað við 23 % í fyrra. Yfir helmingur íbúa 21 ríkja ESB telur, að það versta sé eftir.

26.637 einstaklingar í ESB voru spurðir ásamt 6.091 einstaklingum í umsóknarríkjum þar af 500 einstaklingar á Íslandi eða samtals 32.728 einstaklingar.

Könnunina má nálgast hér.

gs


mbl.is Atvinnuleysi aldrei meira í evrulöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Upplýsta umræðan" II

"Gott og vel ... lítum á örfáar staðreyndir um Evrópusambandið," segir Vilhjálmur Kjartansson.

  • "Verð á matvöru er mismunandi innan ESB,
  • vaxtastig og lántökukostnaður er mismunandi milli svæða og landa,
  • Ísland og Noregur hafa ekki tekið upp nema rúm 6,5% af regluverki ESB samkvæmt athugun beggja ríkja,
  • í dómi Evrópudómstólsins sem nefnist Costa gegn Enel voru staðfest forgangsáhrif Evrópulaga yfir landslögum aðildarríkja ESB,
  • í 288. gr. TFEU-sáttmálans eða Lissabon-sáttmálans er kveðið á um bein lagaáhrif reglugerða ESB, þ.e. þær hafa samtímis gildi í öllum aðildarríkjum án aðkomu þjóðþinga sem hreinlega er meinað að taka upp gerðirnar af eigin frumkvæði.
  • Ísland er aðili að fleiri fríverslunarsamningum í gegnum aðild sína að EFTA en Evrópusambandið, innganga takmarkar því alþjóðlega verslun.
  • Áhrif og völd smáríkja fara minnkandi í sambandinu,
  • yfir 80% fiskistofna ESB eru ofveiddir samkvæmt eigin skýrslu sambandsins.
  • Lissabon 2000-markmið sambandsins áttu að færa ESB-ríkin nær Bandaríkjunum, en árið 2000 voru þjóðartekjur á mann 18 árum á eftir Bandaríkjunum, framleiðni 14 árum og rannsóknir og þróun 23 árum á eftir samkvæmt EuroChambres. 
  • Í dag eru þjóðartekjur [í Evrópusambandinu] á mann 22 árum á eftir, framleiðni 20 árum á eftir og rannsóknir og þróun 30 árum á eftir Bandaríkjunum.
  • Gallinn við þessa upptalningu er að hún flokkast ekki undir upplýsta umræðu. Hún er nefnilega ekki í glansbæklingum ESB."

Þannig ritaði Vilhjálmur Kjartansson í pistli í Mbl. 21. þ.m. (sbr. hér).


"Upplýsta umræðan"

  • Ekki vantar fjármagnið og bæklingana frá ESB en upplýsta umræðan lætur samt standa á sér. Daglegur fréttaflutningur af mögulegu hruni evrunnar, auknu framsali fullveldis eða valds aðildarríkja til sambandsins og hruni nærri allra fiskistofna innan lögsögu sambandsins uppfyllir ekki skilyrði hinna malandi stétta um upplýsta umræðu. Kannski er það ástæðan fyrir því að ríkisfjölmiðlarnir hafa látið kyrrt liggja og segja ekki frá ástandinu í ESB.*
  • Evrópusambandssinnar kalla eftir upplýstri umræðu um sambandið og margir þeirra saka þá sem ekki vilja inn í skuldabandalagið um áróður og einangrunarstefnu. Gott og vel, látum þá af háðinu og lítum á örfáar staðreyndir um Evrópusambandið ...

Þetta eru glefsur úr frábærum pistli efir Vilhjálm Kjartansson í miðopnu Morgunblaðsins laugardaginn 21. júlí sl. Þið fáið brátt meira af þessu að heyra ..... já hér er framhald!

* Þetta hefur reyndar svolítið breytzt síðustu vikurnar, því að ekki er lengur unnt að þegja um ófarir evrunnar og evrusvæðisins og standandi vandræði í lausn þeirra mála í sundurþykku Evrópusambandinu. (Aths. JVJ.)


Núverandi kreppa er bara upphitun, segir fulltrúi fjárfesta

Núverandi kreppa er bara upphitun, segir Steven Desmyter hjá alþjóðlega fjármálafyrirtækinu Man Investments í viðtali við Sænska Dagblaðið 26.júlí.

Fallandi verðbréfamarkaðir, háar atvinnuleysistölur og neikvæð þjóðarframleiðsla á mörgum stöðum, nýlega með svokölluðu "double dip" í Bretlandi, einkenna efnahag heimsins síðustu árin.

Steven Desmyter er yfirmaður Norrænu- og Benelux deildar MAN Investments og hann telur, "að þetta er bara upphitunin eins og ég sé það. Staðreyndin er sú, að það er ekki einu sinni byrjað að framkvæma nauðsynlegar endurbætur enn þá."

"Hinn beiski sannleikur er sá, að við höfum alltof háa skuldastöðu í heiminum. Sem heldur áfram að stækka. Jafnvel lönd eins og Svíþjóð var með fjórum sinnum meiri skuldir en þjóðarframleiðslan í júní 2007. Í júní í ár voru skuldirnar 470%." (Samanlagðar skuldir ríkis, banka og fjármálafyrirtækja, sjá athugasemd neðar á síðunni/gs).

Steven Desmyter telur, að til þess að efnahagur heimsins komist aftur í jafnvægi og til að komast hjá "geysilegri verðbólguáhættu" þarf skuldabergið að lækka þannig að það verði að hámarki um 150 - 200% af þjóðarframleiðslunni. Og það gerist ekki sársaukalaust. 

"Það er engin skyndilausn til. Við verðum að gera uppbyggilegar endurbætur á kerfinu í öllum heiminum. Það er heldur ekki hægt að lækka alla gjaldmiðla samtímis. Vextirnir eru komnir að núllinu svo ekki er hægt að lækka þá heldur. Það má segja, að bensíntankurinn sé að verða tómur," segir Steven Desmyter.

Það eina, sem er eftir, er niðurskurður. En það er mjög erfitt sjtórnmálalega að minka skuldsetninguna með meira en 10 % árlega og þá tekur það um 10 - 15 ár, að koma á jafnvægi. Því miður vantar stjórnmálalega samstöðu til að gera það, telur Steven Desmyter.

"Ef Þýzkaland og Frakkland komast ekki að samkomulagi getum við lent í hræðilegu ástandi."

Steven Desmyter telur það jákvætt, að Svíþjóð hafi ekki svo háa ríkisskuld, sem geri stöðu Svíþjóðar sterkari en margra annarra landa en það væri barnalegt að halda, að Svíþjóð komist undan án fórna.

"Við verðum að sjá yfir hyldýpið til að geta tekið þær ákvarðanir, sem þarf að taka. Við höfum sársaukafullt og mjög mikilvægt ferli framan fyrir okkur."

Aths. GS: Steven Desmyter talar um samanlagðar skuldir banka og ríkja, t.d. er ríkisskuld Svíþjóðar um 1000 miljarðir sek á meðan þjóðarframleiðsla Svíþjóðar ár 2011 var 3 492 miljarðir SEK, sem er meðal lægstu ríkisskuldarstöðu aðildarríkja ESB. Túlka má tillögur fjárfesta á borð við Steven Desmyter sem kröfu fjármálamarkaða til stjórnmálamanna, að þeir greiði götuna fyrir yfirtöku ríkja á skuldum banka og fjármálafyrirtækja og láti almenning vinna fyrir skuldunum í stað þess, eins og Íslendingar gerðu í Icesave, að láta banka og fjármálafyrirtæki sjálf taka afleiðingum eigin gjörða sinna.

gs 


mbl.is 51% Þjóðverja vill evruna burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrusvæðisvandinn ESB að kenna

Victor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, eins "aðildarríkis" ESB, er ekkert að skafa utan af sannleikanum: Hann "sagði í dag að það væri Evrópusambandinu að kenna að ekki hefði tekist að leysa efnahagsvandræði Evrusvæðisins."

  • „Það verður að segjast eins og er: þessi kreppa er í raun kreppa Brussel,“ sagði Orban í ræðu sinni í Rúmeníu ... ESB væri „aðalhindrunin í vegi þess að finna leiðir til þess að leysa efnahagsvandann.“ (Mbl.is, nánar þar.)

mbl.is Kennir ESB um áframhald kreppunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur forseti: Þjóðinni best borgið utan við Evrópusambandið

  • „Mín afstaða hefur byggst á nokkrum atriðum. Eitt er að við erum hluti af Norður-Atlantshafinu og norðurhluta Evrópu. Nágranni okkar í vestri, Grænland ákvað að yfirgefa Evrópusambandið. Nágranni okkar í austri, Noregur, gekk tvisvar í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur um inngöngu í Evrópusambandið og mistókst í bæði skiptin. Ef þú ferð um alla norðanverða Evrópu frá Grænlandi gegnum Ísland, Bretland, Noreg, Danmörku og Svíþjóð er það ekki fyrr en á Finnlandi sem þú finnur evruríki."

Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson í viðtali á sjónvarpsstöðinni France 24 í dag.

"Í reynd hefur nánast öll Norður-Evrópa ákveðið að halda í eigin gjaldmiðil og ef þú bætir við landfræðilegri staðsetningu okkar og hvernig nágrannaríki okkar hafa valið að fara aðra leið í gjaldmiðilsmálum og bætir svo við yfirráðunum yfir landhelginni og auðlindum landsins. Það hefur alltaf verið mitt mat að það væri betra fyrir Ísland, að þessu gefnu, að halda þjóðinni utan við Evrópusambandið,“ sagði Ólafur Ragnar.

„Evran engin ávísun á árangur“

„Ég held að allir átti sig á því að einn mesti lærdómur sem Evrópuríkin geta dregið á undanförnum árum er sú staðreynd að evran sjálf er ekki ávísun á neinn árangur. Raunin er sú að evrusvæðið er það svæði sem hefur endurtekið þurft að horfast í augu við áhrif kreppunnar og hefur haldið fleiri neyðarfundi um gjaldmiðilinn en nokkurt annað svæði í heiminum,“ sagði Ólafur Ragnar þegar hann var inntur eftir því hvort evran væri ekki betri hér á landi í því ljósi að hér væri tíð verðbólga og háir vextir.

„Krónan mikilvægur hluti af lausninni“

„Þegar bankarnir voru meðal stærstu fyrirtækja landsins var hægt að halda því fram að krónan hafi jafnvel verið hluti vandans. En það á ekki við lengur og við endurreisn landsins er það svo að krónan er mikilvægur hluti af lausninni. Sú staðreynd að með því að geta fellt gjaldmiðilinn gátum við gert útflutningsgreinarnar, orkugeirann, fiskinn, ferðageirann og tæknigeirann betur samkeppnishæfa og framsækna ..."

Sjá áfram þessa frétt á Mbl.is: "Sigur lýðræðislegrar byltingar".


mbl.is „Sigur lýðræðislegrar byltingar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíu aflóga nýlenduveldi ráða lögum og lofum í Evrópusambandinu

Af 27 ríkjum Evrópusambandsins eru ekki færri en tíu fyrrverandi nýlenduveldi. Þessi tíu ríki munu (frá 1. nóv. 2014) ráða 73,34% atkvæðavægi í hinu volduga ráðherraráði ("ráðinu") og leiðtogaráði Evrópusambandsins, en hin 17 ríkin, saklaus af nýlendustefnu, munu ráða þar 26,66% atkvæðavægi! Litla Ísland fengi þar 0,06% atkvæðavægi, en verður vonandi aldrei partur af þeim stórveldaklúbbi.
 
Þessi tíu aflóga nýlenduríki í Evrópusambandinu eru:
  1. Spánn, með 9,17% atkvæðavægi í ráðherraráðinu frá 1.11. 2014. Nýlendur Spánar voru mestöll Suður-Ameríka (nema einkum Brasilía), Mexíkó, Texas, Spænska Sahara, Filippseyjar, Spænsku Vestur- og Austur-Indíur o.fl. landsvæði.
  2. Stóra-Bretland (mesta nýlenduveldið um tíma, harðskeytt mjög), með 12,33% atkvæðavægi í ráðinu frá 2014.
  3. Frakkland (með geysimiklar nýlendur, m.a. mikið af Kanada og drjúgan hluta núverandi Bandaríkja Ameríku, einnig stóran hluta Norður-Afríku o.fl.), fer með 12,88% atkvæðavalds í ráðherraráði Evrópusambandsins.
  4. Portúgal, með 2,13% atkvæðavægi í ráðherraráði Esb. (Brasilía, Moçambique, Angóla, Cape Verde, Macao o.fl.).
  5. Ítalía, með 12,02% atkvæðavægi í ráðinu (Eþíópía, Sómalía, Líbýa; fasistaríkið var mjög virkt í að bæta við sig nýlendum í valdatíð Mussolinis, sem einnig gerði innrásir í Albaníu og Grikkland, við lítinn orðstír).
  6. Þýzkaland, með 16,41% atkvæðavægi í ráðinu frá 1.11. 2014 (hér er jafnan miðað við þá dagsetningu, sem er fyrir fram ákveðin í Lissabon-sáttmálanum og felur í sér gífurlega valdaukningu stærstu ríkjanna í ESB.). Um nýlendur Þjóðverja, sjá HÉR, en þær voru SV-Afríka (Namibía og hluti núv. Botswana), þýzka Austur-Afríka (Deutsch-Ostafrika), þ.m.t. Tanganjika og núverandi Rúanda og Búrúndí og þýzka Vestur-Africa (Deutsch-Westafrika), þ.e. Kamerún og Togoland, lönd sem a.m.k. frímerkjasafnarar eiga að muna eftir (og voru þó engin smásmíði).
  7. Holland, með 3,30% atkvæðavægi í ráðherraráðinu (Hollenzku Austur-Indíur, hollenzka Guiana, Mauritius, hollenzka Nýja-Gínea o.m.fl.).
  8. Belgía, með 2,15% atkvæðavægi í ráðinu (Belgíska Kongó, Ruanda-Urundi o.fl.); Leópold Belgjakonungur var alræmdur sem grimmur nýlenduherra á 19. öld.
  9. Danmörk, með 1,10% atkvæðavægi í ráðherraráði Evrópusambandsins, með nýlendur í Vestur-Indíum o.v.
  10. Svíþjóð, með 1,85% atkvæðavægi í ráðinu frá 2014 (sjá um nýlendur Svía í 118 ár HÉR).
Svo vill Evrópusambandið innbyrða Tyrkland og Rússland, en einnig þau ríki eru fyrrverandi nýlenduveldi! Við inntöku þeirra myndi atkvæðavægi Íslands hrökkva a.m.k. niður í 0,04%, en atkvæðahlutur hinna 12 fyrrverandi nýlenduvelda færi langt upp fyrir 80%.

Spánn þarf um 550 miljarða evra fyrir afborganir af lánum, evran í sögulegu lágmarki

Fyrir utan fjármagn til gjaldþrota banka á Spáni, þarf Spánn að borga um 550 miljarða evra í vexti og afborganir á lánum næstu 2-3 árin. Vextir á ríkislán Spánar fóru yfir 7,6 % í dag og evran er nú í sögulegu lágmarki gagnvart flestum öðrum gjaldmiðlum heims (sjá fréttaskýringu Bloombergs).

Fer nú að þrengjast með "úrræði" stjórnmálaleiðtoga ESB, þegar markaðir taka dýfu við hvert nýtt "neyðarlánið" til ríkja ESB. Ný lán hækka skuldastöðu viðkomandi ríkis og ekkert óeðlilegt við það, að traust markaða sé víkjandi vegna óheyrilegrar skuldsetningar ríkja á borð við Spán, Ítalíu, Grikklands, Portúgals og fleiri ríkja. Reyndar eru aðeins fjögur ríki af 27, sem enn fullnægja "skilyrðum" Maastrichtssáttmálans um hámark skulda og hallareksturs ríkissjóðs og er þá til lítils að tala um "samband" eða "samkomulag" um að fylgja þeim reglum. Að því leytinu eru bæði myntbandalagið sem og Evrópusambandið fyrir löngu komið af braut og stefnan nú allt önnur en í upphafi var ákveðin.

Þar sem Þýzkaland hefur stærstu hagsmuna að gæta í evrusamstarfinu og "neyðar"lán ríkja ESB fer í afborganir af vöxtum og lánum, koma þeir peningar að mestum hluta til baka til stóru þýzku og frönsku bankanna. Stóru bankarnir setja greiðsluskilyrðin í samstarfi við stjórnmálamenn, sem fara fram á aðlögun ríkisfjármála skuldugustu ríkjanna. Þar með er verið að reyna að þvinga fram aukna samkeppnisgetu á sama tíma og fjárhagsgrundvöllur ríkja er reyrður niður. Þetta er sá ómöguleiki, sem evran býður upp á, þar sem ríki evrusvæðisins hafa engan gjaldmiðil eins og t.d. Íslendingar, sem þau geta lækkað til að aðlaga verð afurða að erlendum mörkuðum. 

Samfara þessu skrúfstykki og dómínans þýzkra og franskra stórbanka, þrýsta stjórnmálamenn (aðallega Þýzkalands) á sköpun alríkis með sameiginlegri ríkisstjórn yfir löndum evrusvæðisins. Gangi það eftir verða lönd alríkisins að héruðum í nýju Stór-Þýzkalandi. Sjálfsagt verður heiti ESB notað áfram og breytir í raun ekki miklu miðað við ástandið í dag, að Þýzkaland ræður förinni hvort eð er.

gs


mbl.is Áfram verðfall vestanhafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhver er "ekki sáttur við Evrópustofu!"

Í bítið heitir þátturinn, sem þetta viðtal birtist í, og því ekki út í hött að birta þetta aftur í bítið og nú með vefslóð á viðtalið, þar sem formaður Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland ræddi um áróðursmál Evrópustofu og Evrópusambandsins á Íslandi (á Bylgjunni 27. janúar 2012, undir yfirskriftinni Jón Valur Jensson er ekki sáttur við Evrópustofu).

Þrátt fyrir hratt hrapandi fylgi við "inngöngu" í Evrópusambandið, bæði á Íslandi og í Noregi, virðist þetta viðtal enn halda gildi sínu við endurhlustun, og sjálfsagt mál er að hafa vefslóð á það hér.

Undirritaður verður í Útvarpi Sögu í hádeginu þennan þriðjudag, kl. 12.38-58, með sitt vikulega erindi og víkur þar nokkuð (sem oftar) að ESB-málum. Varaformaður samtakanna, Gústaf Adolf Skúlason, er vikulega í viðtali morgunhananna á sömu útvarpsstöð allsnemma á mánudagsmorgnum. --JVJ.


74,8% Norðmanna segja NEI við "aðild" Noregs að Evrópusambandinu

Glæsileg er afstaða Norðmanna til Evrópusambandsins, 3/4 á móti "inngöngu" í það og aðeins 17,2% fylgjandi, rétt rúmlega 6. hver maður! Norðmenn vita sem er, að það er eftir engu að slægjast í ESB.

Norðmenn ráku sig á vegg í samningum 1993-4 við Evrópusambandið, gátu ekki fengið norðurhluta landhelgi sinnar undanskilinn frá hinum jafna aðgangi ESB-borgara til fiskimiðanna og heldur ekki fengið "regluna" um hlutfallslegan stöðugleika fiskveiða múraða inn í aðildarsamning sinn -- af því að Brussel-valdið vill geta breytt þeirri "reglu" ("princípi") á róttækan hátt, þegar ráðandi þjóðaleiðtogum þar sýnist (og það getur einmitt ráðherraráðið, þar sem við fengjum í mesta lagi 0,06% atkvæðavægi). Eins gæti það gerzt, um leið og okkur yrði hrint inn í ískalda sturtu veruleikans, að "reglunni" þeirri arna yrði hreinlega skolað út með baðvatninu.

Fullveldið er flestum öðrum jarðargæðum dýrmætara og var okkar helzta hjálp til framfara og auðlegðar, í krafti þess veittist okkur fjögurra, 12, 50 og 200 mílna landhelgi. Þetta ætti hvert skólabarn að vita, jafnvel allir "Evrópu-fræðingarnir" vestur á Melum, uppi undir Öskjuhlíð og í Bifröst í Borgarfirði.

JVJ.


mbl.is 75% Norðmanna vilja ekki í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband