2.8.2019 | 18:08
Formaður Samfylkingar er reiðubúinn að gefa ESB megnið af landhelginni og allt okkar æðsta löggjafarvald
Í viðtali og pistli boðar hann sína ESB-trú, en felur ofangreindar staðreyndir, gyllir samt orkupakkann og evruna* og "samvinnuna" sem felst í að vera fylgitungl Brussel-valdsins, þar sem við fengjum 0,06% áhrifavald í ESB-þinginu, en um 0,07% eftir útgöngu Breta -- sem hann minnist ekki á, því að sízt má nefna snöru í hengds manns húsi! -- vitaskuld kom Brexit ekki til af neinni almennri ánægju Breta með tilskipana- og reglugerðabákn valdfrekra ESB-ráðamanna og embættismannahers í Brussel.
Og þrátt fyrir augljósa viðleitni Loga til ofurjákvæðni, þegar hann lítur til Evrópu, þá gleymir hann að nefna þá gleðifregn að utan, að nú mun Stóra-Bretland endurheimta sín fiskimið að fullu!
Fiskiskip frá Evrópusambandsríkjum (Spáni, Portúgal, Frakklandi, Belgíu, Þýzkalandi, Danmörku, Eystrasaltsríkjum, jafnvel Ítalíu) fengju hins vegar að hefja veiðar allt upp að 12 mílna landhelgi okkar, en í samræmi við reglur hér um svæðalokanir, möskvastærð og veiðikvóta (þeir myndu rjúka upp í verði, en verða ESB-útgerðum aðgengilegir, m.a. gegnum uppkaup útgerða). Æðsta ákvörðunarvald um nefndar reglur (jafnvel allt niður í möskvastærð) flyttist hins vegar frá íslenzkum stjórnvöldum til ESB-stjórnvalda.
Menn verða að átta sig á því, að sameiginlega sjávarútvegsstefnan í ESB felur í sér jafnan aðgang allra ESB-borgara að fiskimiðunum.** Það er ekki hægt að samrýma það með neinu móti varanlegum yfirráðum og einka-nytjarétti hinna einstöku þjóða að eigin fiskimiðum. Verjendur Evrópusambandsins hafa hins vegar vísað til "reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika fiskveiða" hvers ESB-ríkis, byggðan á fiskisóknar- og aflareynslu. En "reglan" sú er einungis tímabundið fyrirkomulag, breytilegt og afleggjanlegt í sjálfu sér, og ráðherraráð ESB hefur allt vald í þeim löggjafarefnum; við hefðum 0,07% atkvæðavægi við slíka ákvörðun!
Er það eðlilegt að formaður íslenzks stjórnmálaflokks gerist undirlægja erlends valds og boði sem sitt fagnaðarerindi innlimun okkar í valdfrekt stórveldi sem er á leiðinni með að koma sér upp stórum her? Er ímynduð hagnaðarvon honum meira virði en sjálfstæði Íslands?
* Um trú Loga á "aðgang að öflugri og stöðugri mynt" í formi evrunnar segir í Staksteinum Mbl. í dag:
"Ef til dæmis Grikkir læsu þetta teldu þeir vitaskuld að þarna færi formaðurinn með gamanmál. Svo er ekki. Logi trúir þessu."
Logi ímyndar sér, að upptaka evrunnar feli sjálfkrafa í sér lægstu vexti og afnám verðtryggingar. Svo er ekki, eins og sýnt hefur verið fram á. Vandkvæðin við að vera með gjaldmiðil sem hentar ekki sveiflukenndum þjóðartekjum sleppir hann alveg að nefna.
** Dæmi úr upplýsingatexta sem finna má gegnum þennan tengil (miklu meira þar):
- "Jafn aðgangur að hafsvæðum og auðlindum hafsins er meginregla í fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Meginreglan um jafnan aðgang (equal access) hefur gilt frá árinu 1970 þegar fyrsta reglugerð ESB um sjávarútvegsmál var samþykkt."
- "Við aðild Íslands að ESB yrðu fjárfestingar annarra ESB borgara og fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi heimilar. Ekki mætti mismuna erlendum aðilum í óhag, enda ættu allir að sitja við sama borð."
- "Rétturinn til að búa, starfa og fjárfesta hvar sem er í Evrópusambandinu er grundvöllur samstarfs aðildarríkjanna og því gefst lítið svigrúm til að banna einstaklingum og fyrirtækjum að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum annarra aðildarríkja."
Jón Valur Jensson.
Meginflokkur: Fiskveiðar, sjávarútvegur | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.