Ágangur Evrópusambandsins hefur ekki minnkað, heldur eykst einmitt nú; viðspyrna nauðsynleg (aukin grein)

Það eru margar góðar áherzlur í máli Bjarna Benediktssonar í við­tali hans við Daily Telegraph um EES- og ESB-mál, hann bend­ir á ergelsi Brussel­manna yfir sjálf­stæði okkar og óviðun­andi þrýsting þeirra á okkur að láta undan um full­veldis­mál okkar í ýmsu. Um leið má og finna veikar hliðar á málflutningi Bjarna.

Hinn auk­ni þrýst­ing­ur af hálfu stórveldis­ins í garð Íslands snýst nú að undanförnu einna helzt um að taka upp frek­ari regl­ur ESB á sviði orku­mála og mat­væla, og ástandinu er lýst sem svo, að það sé fari að "skapa erg­elsi", eins og fram kom í viðtalinu í Tel­egraph við þennan fjár­mála- og efnahagsráðherra Íslands.

Hann sagði einnig að Evr­ópu­sam­bandið liti á sjálf­stæði Íslend­inga sem "vesen". (mbl.is)

Ekki er gott í efni, að svo voldugt ríkjasamband fari að umgangast viðskipta- og samningsland sitt með slíku ólundargeði. Og lausn málsins er ekki að bukta sig og beygja fyrir duttlungum embættismanna þess.

Það ber að meta hreinskilni Bjarna um málið, tjáða (svo að eftir verður tekið) í hálfgerðu hliðarríki Evrópusambandsins, Bretlandi, sem stefnir á útleið þaðan, á sitt Brexit.

Og þetta hjá Bjarna er að halda vel á spöðunum:

"Eitt til­tölu­lega nýtt dæmi er hrátt kjöt og frjálst flæði varn­ings. Lína Evr­ópu­sam­bands­ins er einn fyr­ir alla, all­ir fyr­ir einn, eng­ar sér­tæk­ar regl­ur fyr­ir neinn. En við erum sér­stakt dæmi, til að mynda er ekki sal­mónella á Íslandi, það er ekki hægt að tala um það sem vanda­mál eins og gert er í aðild­ar­ríkj­um [Evr­ópu­sam­bands­ins]" sagði Bjarni. "Ef þú bæt­ir við þetta sýkla­lyfj­um, ég meina: þau eru næst­um ekki notuð á Íslandi borið sam­an við ali­fuglaiðnaðinn á Spáni"“ bætti hann við. (mbl.is)

Og þessu hér á eftir ber hann einnig vitni; ekki á hverjum degi sem ráðamenn hér leyfa okkur að skyggnast inn í, hvað þeir eru að skrafa sín á milli um raunverulegt ástand:

Sam­kvæmt Bjarna eru vax­andi áhyggj­ur á Íslandi vegna þess að Evr­ópu­sam­bandið virðist ekki geta sýnt af­stöðu Íslands skiln­ing og seg­ir jafn­framt að Evr­ópu­sam­bandið sé að grafa und­an tveggja stoða kerfi EES-samn­ings­ins.

Og aftur beinir hann sjónum að undarlega breyttu viðhorfi í ESB:

Fjár­málaráðherra seg­ist þó skilja, út frá póli­tísku sjón­ar­miði, af­stöðu sem fyr­ir­finnst í Evr­ópu sem varp­ar fram spurn­ing­un­um „hvenær ætla þeir að losa sig við þetta? Af hverju geta ekki all­ir bara orðið aðild­ar­ríki [Evr­ópu­sam­bands­ins]?“ Hann seg­ir Íslandi „nán­ast sýnd van­v­irðing, þetta er eins og vesen í þeirra aug­um.“

Eins gott að við vitum þetta, en bregðumst rétt við! En það er ekki hvað sízt eftirfarandi ummæli hans, sem afhjúpa hvað skýrast ástandið:

Að sögn Bjarna er þessi aukni þrýst­ing­ur frá Evr­ópu­sam­band­inu að valda erfiðleik­um í að viðhalda sjálfs­ákvörðun­ar­rétti.

Það er nefnilega það! Ráðherrar Íslands standa höllum fæti gagnvart ágengu stórveldi með hálfan milljarð íbúa á bak við sig. Þá skiptir þeim mun meira máli, að við veitum þessum ráðherrum okkar skýran stuðning í því máli og þeim sem heild verðugt aðhald, sem endurspeglar og sýnir í verki umhyggju landsmanna fyrir sjálfstæði okkar og fullveldisrétti.

Lokasetning mbl.is-fréttarinnar er svo kapítuli út af fyrir sig:

Hann [BB] staðhæf­ir að á sama tíma hef­ur EES-aðild Íslands skapað "gíf­ur­lega vel­sæld" þar sem Ísland hef­ur haldið rétt­in­um til þess að gera eig­in fríversl­un­ar­samn­inga með því að vera utan Evr­ópu­sam­bands­ins.

Ekki gaf EES-samningurinn okkur réttinn til að gera eigin fríverzl­un­ar­samn­inga, þótt hitt sé rétt, að innan Evrópusambandsins hefðum við ekki lengur haft þann rétt.

Um hvaða "gíf­ur­legu vel­sæld" Bjarni telur sig vera að tala, verður hann sjálfur að útskýra, en nú eru einmitt uppi raddir um það víða, að meta þurfi árangurinn eða afleiðingarnar af EES-samningnum, hvort hann hafi reynzt okkur hagstæður þrátt fyrir allt býrókratíið, sem af honum hefur leitt, eða heft í raun frelsi atvinnuvega okkar og skilað bæði takmörkuðum hagnaði, en um leið valdið okkur skaða, eins og hann gerði m.a. með þeim áhrifum á bóluárunum að leyfa bönkunum að belgja sig út erlendis með skelfilegum afleiðingum.

Það er of snemmt fyrir fjármálaráðherrann að gefa sér, að niðurstaða rannsóknar á áhrifum EES-samningsins, sem nú er kallað eftir á Alþingi, verði sú, að hann hafi skapað "gíf­ur­lega vel­sæld". Sumum hefur hann hjálpað, s.s. útrásarvíkingum til ævintýramennsku og stúdentum í framhaldsskólanámi (bæði erlendum hér og íslenzkum erlendis), en um annað hefur samningurinn verið til byrði, kostar gríðarmikið pappírsstarf í fjöldaþýðingum heils hers þýðenda og þrengir umfram allt að okkar sjálfsákvörðunarrétti, í raun að fullveldi okkar, og lausnin er ekki að gefast upp, heldur að krefjast þess, að staðið sé við upphafleg fyrirheit um tveggja stoða kerfi EES-samn­ings­ins (sem felur í sér meira samráð við Ísland um nýjar lagagerðir, ólíkt því sem sjá hefur mátt á síðustu árum) og fulla virðingu samingsaðila gagnvart okkur.

En bezta lausnin kann einmitt að reynast að segja upp EES-samningnum. Þegar hann er farinn að skila okkur lakari fisksölukjörum en Kanada nýtur með sér-viðskiptasamningi við ESB, án þess að það land þurfi að leggjast undir lagaverk Brusselmanna,* þá blasir við, að þessi samningur skilar okkur ekki því, sem honum var ætlað.

* Sbr. https://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/2214455/ (undir kaflaheitunum: Óþol ESB og Valkostur við EES) og hér (12. febr. sl.): Gæði EES-samningsins harla lítil í reynd.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Álíta sjálfstæðið vera vesen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband