Færsluflokkur: Hermál, varnarmál

Evrópusambandið nálgast óðfluga það markmið að stofna til eigin hers!

Juncker, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar ­sam­bands­ins, sagði fyrr á árinu, að það þyrfti á eig­in her að halda sem mót­vægi m.a. við Rúss­land. „Við stefn­um mun hraðar en fólk grun­ar í átt­ina að Evr­ópu­her,“ sagði Joseph Daul, for­seti stærsta þing­flokks­ins á ESB-þinginu, Europe­an Peop­le's Party (EPP) við blaðamenn sl. fimmtu­dag.

  • Flokksþing EPP verður haldið í næstu viku en bú­ist er við að þar verði samþykkt að stefnt verði að því að Evr­ópu­sam­bandið verði varn­ar­banda­lag.
  • Greint er frá þessu á frétta­vefn­um EurActiv.com en for­ystu­menn EPP, sem er stærsti þing­flokk­ur mið- og hægrimanna á Evr­ópuþing­inu, [telja] að nauðsyn­legt sé að taka þetta skref í ljósi þeirra vanda­mála sem komið hafi upp í ná­granna­ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins, og er þar meðal ann­ars vísað til átak­anna í Úkraínu og flótta­manna­vand­ans. (Mbl.is)

Ýmsar málpípur Evrópusambandsins hér á landi hafa þráfaldlega þrætt fyrir, að ESB stofni nokkurn tímann til eigin hers. Var þó vitað fyrir um áhugann í þessa átt í Brussel, enda valdheimildir til slíks í Lissabon-sáttmálanum. Draumurinn er raunar eldri en svo:

  • Fram kem­ur í frétt­inni að hug­mynd­ir um Evr­ópu­her séu ekki nýj­ar af nál­inni. Þannig hafi slík­ar hug­mynd­ir fyrst verið sett­ar fram árið 1950. Þær hafi hins veg­ar ekki náð fram að ganga. (Mbl.is)

En sú stund nálgast óðfluga, það sést hér á öllu!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Stefna hratt að Evrópuher
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ytri landa­mæri Evr­ópu­sambands­ins og Schengen-svæðisins eru ÓTRYGG!

For­sæt­is­ráðherra Ung­verja seg­ir gagn­laust að setja kvóta á hve marga flótta­menn ríki ESB taki að sér á meðan ytri landa­mæri Evr­ópu séu ótrygg. „Svo lengi sem við get­um ekki varið ytri landa­mæri Evr­ópu þá tek­ur því ekki að tala um hversu mörg­um við get­um tekið á móti,“ seg­ir forsætisráðherrann, Viktor Or­ban. (Mbl.is segir frá.)

Þetta er háalvarlegt mál. Meðan NATO sá um varnir Vestur-Evrópu, ásamt herjum og landamæravörðum hinna einstöku ríkja, var unnt að standa gegn allri ásókn 5. herdeildar manna úr austri, að heitið gæti. Nú, með frjálsri för milli Schengen-landa -- fyrirkomulagi sem var sérstakt keppikefli Evrópusambands­ins -- og niðurbroti (viðurkenndu m.a. af Andreu Merkel) á virkri landamæra­vörzlu á ytri landamærum Schengen-svæðisins, þá er Evrópa orðin galopin fyrir útsendurum hryðjuverkasamtaka jafnt úr suðaustri sem suðri, og er engin vöntun á þeim í veröldinni (al-Qaída, Hitzbollah, Islamic Jihad, Ríki islams, Boko Haram, al-Shabaab o.fl. samtök sem einskis svífast í fjöldamorðum).

Fylgismenn Evrópusambandsins hafa ranglega gumað af því, að sambandið hafi tryggt frið í Evrópu. Hafi það nokkurn tímann tekið að sér slíkt hlutverk, er ljóst, að það sinnir því engan veginn með því ástandi sem nú er upp komið, að fólk streymi eftirlitslítið inn á Schengen-svæðið svo að hundruðum þúsunda skipti. Sú hugsun, sem sækir á sum stjórnvöld (m.a. á nefnd um innflytj­enda­mál hér á Íslandi), að hleypa megi inn í lönd þeirra fólki sem fargað hefur vegabréfum sínum, bætir sízt af öllu öryggið.

Með þessum pistli eru Samtök um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland ekki að mynda sér neina afstöðu til flóttamannavandamálsins eða gegn mannúðarstarfi. En sú "lausn" að opna ytri landamæri Schengen-svæðisins upp á gátt fyrir aðkomandi fólki, iðulega án vegabréfaskoðunar, rekst með berum hætti á varnarskyldur aðildarþjóða Schengen-samkomulagsins og tryggir því ekki varnir Evrópu gegn árásum utan og innan frá, heldur gerir þær þvert á móti líklegri en ella.

Þetta gerir flóttamenn vitaskuld ekki að hryðjuverkamönnum, en er þó þess háttar vanhugsuð ákvörðun, að hún opnar landamærin fyrir óvissum fjölda fjandmanna vestrænna samfélaga, mönnum sem auðveldlega geta misnotað sér frelsið til að lauma sér inn í Evrópu og framkvæmt þau ætlunarverk gegn saklausum borgurum, sem þeim eru lögð á herðar af foringjum sinna blóði stokknu hryðjuverkasamtaka.

VIÐAUKI: Hér er afar markverð ræða Nigels Farage, formanns UKIP í Bretlandi, þar sem hann minnist m.a. á Schengen-kerfið og kemur inn á það, að fjöldi þessa fólks verður fremur að kallast "economic migrants" heldur en "refugees". Orð forsætisáðherra Slóvakíu (sjá við 1 mín. 30 sek.) eru mjög athyglisverð í því efni: að 95% þessa fólks séu "economic migrants".

 

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Smánarblettur á ímynd Evrópu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandið sækist eftir Úkraínu

Og hvað sagði Herman van Rompuy? Jú, þetta (í skilaboðum á ráðstefnu um Úkraínumál í Sviss): "Úkraína á heima í Evrópusambandinu"!

 

Þetta talaði hann vitaskuld ekki sem prívatmaður, einstaklingur úti í bæ. Maðurinn er forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins og lýsir þarna vitaskuld ekki einkaskoðun, heldur vilja þeirra þar. Og ímyndum okkur ekki, að þeir geri ekkert í þessum ásetningi sínum. 

 

Þetta er því fullt tilefni til að hafa áhyggjur af því, að ESB sjái sér hag í að ýta undir byltingu í Úkraínu, valdayfirtöku eða skiptingu landsins ella -- með líklegum blóðfórnum eins og í Sýrlandi (þar sem um 135.000 manns hafa nú týnt lífi í tveggja ára uppreisn og borgarastríði, sem ýtt hefur verið undir með vopnasendingum vestrænna ríkja til uppreisnarmanna -- ekki sízt frá ríkjum Evrópusambandsins!).

 

PS. Þegar Herman van Rompuy lýsti því yfir, að Úkraína ætti heima í Evrópusambandinu, gerði hann nánast nákvæmlega það sama og Olli Rehn, fv. útþenslustjóri ESB, sagði í viðtali við Handelsblatt:  “Islands natürlicher Platz ist in der EU – eðlilegur eða náttúrlegur staður Íslands er í Evrópubandalaginu.” – Þetta var frek íhlutun í okkar innanríkismál (sjá nánar í aths. hér neðar), og eins var um orð Rompuys gagnvart Úkraínu.


Þarna geta Brusselbossar séð sér færi til myndunar bæði sambandsríkis og ESB-hers!

Skoðanakönnun meðal íbúa Evrópusambandsins gefur enn frekari ástæður til tortryggni af okkar hálfu gagnvart framtíðarhorfum þess. Meirihluti þeirra, sem taka afstöðu, er hlynntur því að sambandið þróist yfir í að verða að sambandsríki (eins og Þýzkaland og Bandaríkin), 34% frekar hlynntir og 11% mjög hlynntir, en 22% frekar andvígir og 13% mjög andvígir. Samrunastefnan er þarna á fullu, en þetta var raunar vilji ESB-þingsins þegar fyrir síðustu aldamót.

  • Ennfremur eru samkvæmt könnuninni 63% hlynnt því að Evrópusambandið komi sér upp einni utanríkisstefnu en 27% eru því andvíg. 73% eru að sama skapi hlynnt því að sambandið fái sameiginlega öryggis- og varnarstefnu en 19% á móti því. (Mbl.is, leturbr. hér.)
Hins vegar er meirihluti íbúa Evrópusambandsins á móti frekari stækkun þess; 52% eru á móti fjölgun ríkja sambandsins og 37% hlynnt fjölgun þeirra. Það sýnir svo græskuleysi margra Íslendinga, að 48% íslenzkra manna, sem tóku þátt í könnun kostaðri af ESB um þetta, eru hlynnt frekari stækkun Evrópusambandsins á móti 40% sem eru henni andvíg. 
  • Um er að ræða svokallaða Eurobarometer-skoðanakönnun ESB sem gerð er tvisvar sinnum á ári. Sá hluti sem fjallar um Ísland er unninn fyrir sambandið af Capacent. (Mbl.is)

En hér skal hnykkt á því, að valdamenn í Brussel geta nú séð færi á því að efna til meiri samræmingar á herjum sínum og herstjórn. Það hefur lengi verið í pípunum, en lítil hrifning fyrir því t.d. í brezka sjóhernum. En vitað er, að ráðamenn ESB vilja þetta, ella væri ekki hinar auð-nýtilegu valdheimildir fyrir Evrópusambandið í þessum efnum að finna í Lissabonsáttmálanum. Og jafnvel þótt þetta fæli kannski aldrei í sér herskyldu, myndu engin ríki sambandsins sleppa við framlag af einhverju tagi – fjárhagslegu hið minnsta – til þess samhæfða hers.

Og nú geta Brussel-bossar borið það fyrir sig, að þessi miðstýringar-hervæðing sé það sem almenningur í ESB vilji! Almenningur á meginlandinu er hins vegar græskulítill eins og fólk hér, og það að tala þarna um "öryggisstefnu" nægir eflaust í skoðanakönnun til að taka góða sveiflu í átt til þess, sem Brusselmenn höfðu ætlað sér. En líklegt er raunar, að æ fleiri hugsi þetta sem viðnám gegn frekari fólksstraumi múslima, og andstaðan við fjölgun ESB-ríkjanna kann einkum að byggjast á andstöðu við inntöku Tyrklands. Einboðið er raunar, að tilraunir til innlimunar Úkraínu í ESB muni kosta hættulega árekstra við Rússland Pútíns og Brusselmönnum affarasælast að gleyma slíku, og samt er sú útþensluhyggja sjálfum Herman van Rampuy ofarlega í huga, síðast þegar af honum fréttist!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja að ESB verði sambandsríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband