Færsluflokkur: Löggæsla

Fordæmi komið fyrir brottrekstri ESB-manna vegna ólöglegrar starfsemi* þeirra hér á landi

 Afskipti ráðherra af FBI-mönnum ættu eðli málsins samkvæmt að knýja þá hina sömu til miklu harðari aðgerða gagnvart ESB-útsendurum -- til að kasta út þessu Evrópu[sambands]stofu-áróðursdrasli og skikka sendiherrann inn á teppið, þegar hann kemur úr næstu predikunarferð út á land, og geta þess í leiðinni, að hann eigi að hafa afsagnarbréfið meðferðis.
 
* Sjá t.d. þessa grein hér á vefsíðunni: Lögleysu-athæfi sendiherra.
PS. Myndin er af valdsmannslegum ESB-sendiherranum Timo Summa. Mjög er þó ólíklegt, að maðurinn með honum á myndinni sé sammála honum um að færa fullveldi Íslands yfir til Belgíu, Lúxemborgar og Frakklands (að ógleymdri Berlín).
 
Jón Valur Jensson. 

mbl.is Pólitísk taugaveiklun og Kanafóbía
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Aðildarviðræður" - straight from the horse's mouth (ESB)

  • Inntökuviðræður (e. Accession negotiations [oftast kallaðar hér aðildarviðræður])
  • Inntökuviðræður varða hæfni umsækjandans [umsóknarríkisins] til að taka á sig skyldurnar sem fylgja því að verða meðlimur [í Evrópusambandinu]. Hugtakið "viðræður" getur verið misvísandi. Inntökuviðræður beinast sérstaklega að (focus on) skilyrðum og tímasetningu á því, að umsóknarríkið taki upp, innfæri og taki í notkun reglur Evrópusambandsins, um 100.000 blaðsíður af þeim. Og þessar reglur (sem einnig eru þekktar sem acquis, franska orðið um "það sem samþykkt hefur verið") eru ekki umsemjanlegar (not negotiable). Fyrir umsóknarríkið er þetta í kjarna sínum mál sem snýst um að samþykkja hvernig og hvenær ESB-reglur og ferli verði tekin upp og innfærð. Fyrir ESB er [hér] mikilvægt að fá tryggingar fyrir dagsetningu og virkni hvers umsóknarríkis í því að innfæra reglurnar.

Þetta er úr plagginu Understanding Enlargement – The European Union’s enlargement policy , útgefnu af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins 27.7. 2011. Hér er sami texti á ensku:

  • Accession negotiations
  • Accession negotiations concern the candidate’s ability to take on the obligations of membership. The term “negotiation” can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate’s adoption, implementation and application of EU rules – some 100,000 pages of them. And these rules (also known as the acquis, French for “that which has been agreed”) are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures. For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidate’s implementation of the rules.

Er þetta ekki nokkuð augljóst, góðir lesendur? Snúast "aðildarviðræður" um að búa til samning? Nei, þær gera það ekki, er það ekki dagljóst af þessu plaggi frá Evrópusambandinu? "Inntökuviðræður fókusera á skilyrðin og tímasetninguna á því, að umsóknarríkið taki upp, innfæri og taki í notkun reglur Evrópusambandsins, um 100.000 blaðsíður af þeim." Punktur og basta. Ísland hefði engan varanlegan sér-"samning", ef það gengi í gegnum allt þetta ferli, heldur sameiginlegar skuldbindingar með öðrum Evrópusambandsríkjum, bara með mismunandi tímasetningu á sumum þeirra og hvernig þær komist í effektífa framkvæmd.

Hér yrði því vitaskuld -- það leiðir af ofangreindu -- að innfæra reglur Evrópusambandsins um jafnan rétt annarra ESB-ríkja hér til fiskveiða, sbr. það, sem fram kom í hinu mikilvæga plaggi: FISKVEIÐISTEFNA ESB OG KVÓTAHOPP (utanríkisráðuneytið, ágúst 2008), m.a. þetta (auðk. hér, jvj):

  • "Jafn aðgangur að hafsvæðum og auðlindum hafsins er meginregla í fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Meginreglan um jafnan aðgang (equal access) hefur gilt frá árinu 1970 þegar fyrsta reglugerð ESB um sjávarútvegsmál var samþykkt ... Eftir 1983 hefur meginreglan um jafnan aðgang sætt verulegum takmörkunum en það ár var heildarstefna í sjávarútvegsmálum lögfest með þremur reglugerðum ..." [Bls. 2, nánar þar, en þessar reglugerðir myndu ekki veita okkur neinn einkarétt hér, þær horfa aðeins til stofnverndunar og fiskveiðitakmarkana Esb. (innsk. JVJ)]
  • "Við aðild Íslands að ESB yrðu fjárfestingar annarra ESB borgara og fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi heimilar. Ekki mætti mismuna erlendum aðilum í óhag, enda ættu allir að sitja við sama borð." (Bls. 9.)
  • Með brezkri löggjöf árið 1983 var í varnarskyni fyrir sjómenn þar kveðið á um, að a.m.k. 75% hverrar fiskiskips-áhafnar "skyldi vera búsett í Bretlandi. Á þetta reyndi í Agegate-málinu, og var farið með það í Evrópudómstólinn, sem taldi "að með þessu væri brotið gegn ESB-rétti því þetta færi gegn tilgangi og markmiðum landskvótakerfisins." (Bls.5.) ...
  • "Rétturinn til að búa, starfa og fjárfesta hvar sem er í Evrópusambandinu er grundvöllur samstarfs aðildarríkjanna og því gefst lítið svigrúm til að banna einstaklingum og fyrirtækjum að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum annarra aðildarríkja." (Bls. 7.)

Um allt þetta, sem er "ekki umsemjanlegt", má lesa mun nákvæmar og í fleiri atriðum í nefndri samantekt, sem er nú ekki nema tæplega 8 bls. texti + efnisyfirlit + heimildaskrá, en sjá um þetta einnig ýtarlegri umfjöllun í þessari grein undirritaðs: Evrópusambandið tekur sér alræðisvald yfir fiskveiðilögsögu milli 12 og 200 mílna!

Jón Valur Jensson. 


Afbakaðar kringumstæður, fjárglæframenn komast upp með glæpi. Viðtal við prófessor William Black.

Í viðtali við usawatchdog.com segir prófessor William Black, sem er Íslendingum að góðu kunnur vegna fyrirlestra um fjársvik í Bandaríkjunum og á Íslandi í kjölfar bankahrunsins 2008, að fjársvik séu ekki lengur glæpur, vegna þess að glæpamenn eru ekki sóttir til saka fyrir fjárglæpi og ganga lausir og haldi áfram iðju sinni.

William Black segir, að aðgerðir yfirvalda í Evrópu auki á kreppuna og skapi í raun efnahagslegar afbrigðilegar kringumstæður, sem vinni gegn efnahagslegum bata.

Viðtalið er um 20 mín. langt og má sjá hér fyrir neðan.

 


Bein íhlutun í innanríkismál - en ríkissaksóknari virðist neita að skilja það!

  • "Frá báðum hliðum var fast sótst eftir fylgi Rúmena [um 1914-15]. Rússar buðu stjórnmálamönnunum fje og útsendarar miðveldanna stofnuðu blöð og keyptu blöð í landinu til þess að halda fram sínum málstað ..." (Þorsteinn Gíslason: Heimsstyrjöldin 1914-1918 og eftirköst hennar, útg.: Steindór Gunnarsson og Þorst. Gíslason, Rv. 1924, bls. 270-1).

Þetta sjá allir sem íhlutun í innanríkismál, en þegar hliðstæða þess gerist hér á Íslandi, þar sem lög mæla gegn slíku athæfi, þá virðumst við sitja uppi með lamandi hræðslu ríkissaksóknara við að styggja okkar Evrópusambands-innlimunarsinnuðu stjórnvöld, sem mælt hafa bót ófyrirleitnum fjáraustri Evrópusambandsins í áróðursstarfsemi s.k. "Evrópustofu" hér á Íslandi. Jafnvel Steingrímur mælir athæfinu bót með 100% meðvirkum hætti, þannig ekki virðist flísin komast á milli hans og Jóhönnu í þessu efni.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hefur svarað fyrirspurn Umboðsmanns Alþingis vegna kæru samtakanna Samstöðu þjóðar, sem sættu sig ekki við það, að ríkissaksóknari hæfi ekki málssókn vegna ólöglegs framferðis sem stjórnvöld hér hafa leyft sendiráði og sendiherra Evrópusambandsins að komast upp með, þvert gegn Vínarsáttmálanum (sem Sigríður tekur ekkert tillit til, af því að hann tiltaki engin refsiákvæði!) og lögum hér.

Í svari Sigríðar virðist hún hengja sig í afar þröngan skilning lagagreina um þessi mál, telur t.a.m. "blöð" einungis geta vísað til reglubundinnar útgáfu dagblaða, vikublaða og tímarita (ekki t.d. bæklingaútgáfu). Hún horfir ennfremur alveg fram hjá því, að dómafordæmi eru komin fyrir því í meiðyrðamálum, að lögjöfnun sé beitt um meiðyrði á vefnum rétt eins og í blöðum eða á prenti, þótt einungis hið síðarnefnda sé tiltekið sérstaklega í meiðyrðalöggjöfinni.

Þá tekur Sigríður ekkert tillit til gígantískrar upphæðar ESB-áróðursfjár hingað, 230+ milljóna króna, eins og þetta gríðarlega umfang geri athæfið ekki hætishót alvarlegra!

Ef Upplýsingastofnun Bandaríkjanna hefði á um tveggja ára tímabili eytt hér jafnvirði 230 milljóna nýkróna til kynningar á sérlegu ágæti Bandaríkjanna og góðum kosti þess að Ísland gerðist þar 51. meðlimaríkið, þá hefði engum blandazt hugur um, að sá fjáraustur hefði falið í sér beina íhlutun í okkar innanríkismál. Hinn rauði Steingrímur J. Sigfússon hefði t.d. brugðizt afar hart við slíku, eins og eðlilegt hefði verið. En nú situr hann lúpulegur undir dagskipunum Jóhönnu Sigurðardóttur og talar þvert gegn áður þekktum eigin hug og eigin flokksmanna í þessum efnum.

Undirritaður fær ekki annað séð en að ríkissaksóknari bregðist með hliðstæðum hætti vonum þjóðhollra Íslendinga í þessu efni, með þröngsýnni, legalistískri túlkun laganna og með því að ætlast til þess að Vínarsáttmálinn sé gerður óvirkur vegna þess eins, að hann kveður ekki sérstaklega á um, hverja refsingu sendiherrann frá Brussel ætti að fá.

En skítt með refsinguna: Það er athæfi sendiherrans og framhald þess, sem átti að BANNA, af því að hann hafði ekkert leyfi til þess, heldur þvert á móti beina skyldu til að virða Vínarsáttmálann og friðhelgi síns gistilands.

Ríkissaksóknari á að starfa í þágu Lýðveldisins Íslands, ekki erlends stórveldis. (Er nokkur ósammála?!) 

Tveggja blaðsíðna svarbréf Sigríðar er opinbert plagg og verður væntanlega birt hér á síðunni ásamt frekari gagnrýni. 

Jón Valur Jensson. 


Ari Trausti Guðmundsson virðist lítt hafa kynnt sér Evrópusambandið og ætlar að gera upp hug sinn alveg í lokin!

Hann var í viðtali á Útvarpi Sögu þar sem þetta kom fram. Hann telur sig ekki sjá, að um fullveldisafsal verði að ræða fyrr en hann skoði lokasamning - og hvort Ísland verði ekki lengur sjálfstætt land þar með. Dæmi, sem hann tekur, bendir eindregið til sama þankagangs hjá honum og ESB-sinnum mörgum hverjum, þ.e.a.s. hann bætir við framangreint: hvort Danmörk, til dæmis, eða Eystrasaltslöndin séu sjálfstæð. Þessu kasta margir fram og láta sem fáránleiki hugsunarinnar sé augljós - og það sama virðist vaka fyrir Ara Trausta, þeim gamla heildarhyggjumanni. En valdheimildir Evrópusambandsins eru gríðarlegar og í margfalt meira mæli gagnvart okkar þjóðarbúi (þótt miðað sé við höfðatölu) heldur en meðal Dana og þjóða austast við Eystrasalt. Sjávarútvegurinn er hér svo stór hlutfallslega, að það á sér hvergi neitt sem nálgast hliðstæðu í ESB-löndum. Sjávarauðlindin, fiskistofnarnir, eru svo stór hluti af auðlindum okkar, að það á sér ekkert sambærilegt í ESB-ríkjum. En einmitt á þessu sviði sjávarútvegsmála tekur Evrópusambandið sér FULLAR VALDHEIMILDIR, ólíkt mörgum öðrum atvinnusviðum.

Þar að auki er fullveldisframsalið sjálft augljóst í öllum seinni áratuga "aðildarsamningum" (accession treaties), sem eru með þeim ósköpum gerðir, að nýja aðildarríkinu er ævinlega gert það að skyldu að meðtaka ALLA sáttmála og ALLA löggjöf Evrópusambandsins og að láta sína eigin löggjöf víkja, þegar á milli ber. Það verður jafnvel neytt til þess með úrskurði ESB-dómstólsins og túlkunavalds ESB sjálfs og hefur fyrir fram meðtekið það forræðisvald ESB. Hvernig og hvar? Í sjálfum "aðildarsamningnum"!

Ef Ari Trausti Guðmundsson hefur ekki skerpu til að sjá þetta, á hann þá erindi á forsetastól? Ef hann hafði ekki kynnt sér þessi mál, voru þá ekki síðustu forvöð fyrir hann að gera það um það leyti sem hann tók ákvörðun um sitt framboð?

Jón Valur Jensson.


Þetta er dagurinn - til hamingju, Íslendingar - stöndum vörð um fullveldið

Sjálfstæði og fullveldi landsins er árangurinn af baráttu sem stóð yfir í ótrúlega skamman tíma, en grunninn lagði þjóðskörungurinn sem fæddur var þennan dag, Jón Sigurðsson. Einstök gæfa fylgdi hinu lánsama, nýja ríki lengst af, en nú stafar okkur ógn af yfirráðahyggju evrópsks stórveldis, sem seilist hér til æðstu valda yfir öllum helztu málaflokkum þjóðlífsins, einkum hinum efnahagslegu, með stjórn peningamála og viðskipta við önnur ríki, og með auðlindastýringu, sér í lagi í sjávarútvegi.

Yfir þessum málaflokkum öllum tekur Evrópusambandið sér FULLAR VALDHEIMILDIR, eins og varaformaður Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland, Gústaf Adolf Skúlason, ritaði hér fyrir nokkrum dögum:

"Skýringin á því, hvers vegna aðildarferlið dregst, er meðal annars að finna í sjávarútvegskaflanum en ESB fer með einhliða og alhliða vald yfir þeim málaflokki. Svið valdaheimilda ESB er skýrt skilgreint í Lissabonsáttmálanum í 1. bálki um flokka og svið valdheimilda Sambandsins, 2. gr. (feitletur og undirstrikanir mínar/gas): 

  • "1. Þegar Sambandinu eru veittar fullar valdheimildir á tilteknu sviði í sáttmálunum er því einu heimilt að setja lög og samþykkja lagalega bindandi gerðir en aðildarríkjunum er því aðeins heimilt að gera slíkt að Sambandið veiti þeim umboð til þess eða í því skyni að koma gerðum Sambandsins til framkvæmda." 
  • Í 3.gr. eru hin tilteknu svið skilgreind:  
  • "1. Eftirtalin svið skulu falla undir fullar valdheimildir Sambandsins:
  • a) tollabandalag,
  • b) setning nauðsynlegra samkeppnisreglna vegna starfsemi innri markaðarins,
  • c) peningamálastefna fyrir þau aðildarríki sem hafa evru sem gjaldmiðil,
  • d) verndun lífrænna auðlinda hafsins innan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar,
  • e) sameiginleg viðskiptastefna.
  • 2. Sambandið skal einnig hafa fullar valdheimildir þegar kemur að gerð milliríkjasamninga ef kveðið er á um gerð þeirra í lagagerð Sambandsins eða hún telst nauðsynleg til að gera Sambandinu kleift að beita valdheimildum sínum á vettvangi sínum eða að því marki sem gerð slíkra samninga er til þess fallin að hafa áhrif á sameiginlegar reglur eða breyta gildissviði þeirra."

Samkvæmt ofangreindum skilmálum er algjörlega ljóst, að Íslendingar afsala sér sjálfsákvörðunarrétti sínum varðandi stjórnun peningamála, 200 mílna lögsögu sjávar og auðlindum hafsins, milliríkjasamningum Íslendinga og sameiginlegri viðskiptastefnu.

Í heimsóknum Stefans Fúle til Íslands hefur hvorki hann né hafa aðrir ráðamenn ESB reynt að upplýsa landsmenn um kröfur Lissabonssáttmálans né þýðingu þeirra krafna fyrir framtíðar stjórnarhætti Íslands, gangi Ísland með í ESB." (Tilvitnun lýkur í grein Gústafs Skúlasonar.)

Jón Valur Jensson. 


mbl.is „Sólbrenna líklega fáir á morgun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látið er skína í æðsta vald þjóðar um stærstu mál, en þjóðin snuðuð um valdið!

Að þjóðin "fái" að svara 5 handvöldum spurningum Esb-sinna í ríkisstjórn og þingnefnd, en leyfa henni EKKI að hafna þar fullveldisframsalsákvæði í 111. grein stjórnarskrár-draga umboðsvana stjórnlagaráðs, jafngildir því EKKI að gefa þjóðinni æðsta vald um nýja stjórnarskrá, heldur virðist þetta form á málinu skollaleikur einber -- sýnd veiði, en ekki gefin um þjóðarvald í æðstu málum. Þar að auki er atvæðagreiðslan einungis sögð ráðgefandi.

Frumvarp, sem inniheldur ákvæði (í bland með hlálegum áróðurshljómi) frá Evrópusambands-sinnum í stjórnlagaráði um tiltölulega auðvelt og hraðvirkt fullveldisframsal, ætti að draga til baka og vanda betur alla vinnu að endurskoðun stjórnarskrár í framhaldinu.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Umræðu um þjóðaratkvæði frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögleysu-athæfi sendiherra

Það ætti að banna sendiherra ESB að halda áróðursfundi, þar sem hvort sem er er engu svarað af ágengum fyrirspurnum nema þessu helzt: "Því miður er ekki unnt að svara þessu núna, fundartíminn er ekki nógu langur til þess!"

Það ætti að banna Timo Summa að stunda það að vera farandpredikari fyrir Evrópusambands-stórveldið, sem vill gleypa lýðveldið Ísland og taka hér æðstu völd og setja lög sín sem hin æðstu lög.

Þetta hefur hann þó gert, sbr. hina eitilsnjöllu grein Tómasar Inga Olrich, Summa diplómatískra lasta, í Mbl. 2. apríl sl. Þar segir okkar reyndi, fyrrverandi sendiherra í París meðal annars:

Með framferði sínu kemur sendiherra ESB fram við Íslendinga eins og þjóðin sé ekki sjálfstæð og fullvalda. Hann hefur að engu þær reglur sem ESB hefur undirgengist. Yfirmenn hans í Brussel virðast ekki hafa áhyggjur af því og eru því samábyrgir fyrir lögleysunni.

Tómas Ingi minnir á, að Evrópusambandið hafi "skuldbundið sig til að hlíta reglum Vínarsáttmálans" um diplómatísk tengsl ríkja (1961), þar með talið "að virða þá reglu, sem er að finna í 41. grein Vínarsáttmálans og kveður á um að sendinefndunum ber skylda til að blanda sér ekki í innri málefni þess ríkis, þar sem þær starfa og virða lög og reglur heimlandsins. Þessi regla hvílir þyngst á sendiherranum sjálfum, þar eð ábyrgð hans er mest," segir Tómas Ingi.

En hvernig eru efndirnar? Lesið hér, orð Tómasar Inga:

  • Halda mætti að utanríkisráðherra Íslands væri ókunnugt um þessar reglur. Sendiherra ESB, Timo Summa, fer hér um sveitir, á vegum Evrópustofu, sem hefur það að markmiði samkvæmt yfirlýsingu forstöðumanns stofunnar "að hafa ekki áhrif á umræðuna". Sendiherrann segir á hinn bóginn, að hann ætli að "skapa" umræðuna. Það virðist ekki vefjast fyrir neinum innan Evrópustofu að þessar yfirlýsingar ganga í kross.
  • Sendiherrann sjálfur hagar sér eins og þingmaður í aðdraganda kosninga: hann heimsækir fyrirtæki, ræðir við atvinnurekendur og rekur áróður fyrir ESB ... (Leturbr. hér.)

Grein Tómasar Inga er miklu lengri og afhjúpar ólögmæti aðgerða sendiherrans og ESB. Lesið greinina HÉR.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Borgarafundur með sendiherra ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil aukning á mansali innan ESB!

  • Talið er að það hafi aukist verulega á undanförnum árum. Aðallega er um að ræða mansal á ungum stúlkum og konum sem seldar eru til vændis. 
  • Evópusambandið telur að megnið af þessum stúlkum og konum komi frá löndum innan sambandsins. Áður fyrr var þetta mansal hinsvegar að mestu bundið við fólk sem flutt var inn til Evrópusambandsins frá löndum utan þess. (Visir.is, 7. maí 2012.)

Evrópusambandið er sem sé að verða sjálfbært á þessu vafasama sviði!

En án skops er merkilegt, að sjálft eftirlitssamfélagið mikla, ESB, hefur ekki einu sinni taumhald á þrælahaldi. Mansal er ekkert annað en þrælasala og þrælahald og í þessu tilviki er það með mestu niðurlægingu kvenna, með sálrænum örum ævina á enda.

Ef lausn þessa þrælahalds er ekki á forgangslista, hvað er þá forgangsmál hjá ESB? Af hverju versnar ástandið í stað þess að batna í viðleitninni til að nálgast hina fullkomnu útópíu?

Jón Valur Jensson. 


Ólögleg Evrópusambandsáróðursstofa opnuð á Akureyri

Þetta gerðist í dag. Undarlegt er, að hún fái inni í Norrænu upplýsinga-skrifstofunni á Akureyri og að formaður Norræna félagsins á Íslandi, stjórnarformaður Norrænu upplýsingaskrifstofunnar, taki þátt í því að klippa á borða í tilefni opnunarinnar, ásamt Timo Summa, þeim sendiherra ESB á Íslandi, sem þegar hefur sætt harðri, réttmætri gagnrýni vegna áróðursferða sinna um Ísland í trássi við alþjóðareglur um skyldur sendiráða.*

Norræna félagið á Íslandi á að vera hlutlaust, ekki hlutdrægt gegn fullveldi okkar. Væri ekki minnt á þetta hér á þessum vef okkar með vefslóðina fullveldi.blog.is, stæði hann illa undir nafni.

  • Í fréttatilkynningu kemur fram að þar muni gestir hafa aðgang að upplýsingaefni, bæði almennu kynningarefni sem og fræðilegum bókakosti um ESB, ásamt því sem fólki stendur til boða að setjast niður við tölvu og sækja sér upplýsingar um ESB og starfsemi þess á vefnum.

Það er enginn vegur fyrir Evrópusambandið að reyna að telja Íslendingum trú um, að hin rangnefnda** "Evrópustofa" hafi það efst á blaði að vera með nauðsynlegar, hlutlægar upplýsingar fyrir almenning um "kosti og galla" Evrópusambandsins. Þar verður það ekki haft áberandi, jafnvel ekki sýnilegt, sem mælir eindregið gegn "Evrópusambandsaðild". Eða hver ímyndar sér, að meðal þess fyrsta, sem menn reki þar augun í, verði þetta:

  1. Ísland verður svipt sjálfsforræði með "aðildinni";
  2. Esb. tekur sér alræðisvald yfir fiskveiðilögsögu milli 12 og 200 mílna;
  3. Ísland fengi 0,06% atkvæðavægi í leiðtogaráði Evrópusambandsins og í hinu volduga ráðherraráði þess, sem m.a. hefur æðsta löggjafarvald í sjávarútvegsmálum;
  4. Ísland gæti ekki neitað að taka upp nein lög frá ESB, jafnvel ekki þeim, sem væru í mótsögn við stjórnarskrá okkar -- fyrr myndi sjálf stjórnarskráin gefa eftir!
  5. Jafnvel þetta síðastnefnda atriði kemur skýrt fram í þeim ábyggilega "aðildarsamningi" sem þegar liggur fyrir og verður í öllum aðalatriðum fyrirmynd þess, sem gerður verður við hina pólitískt skipuðu "samninganefnd Íslands" í umboði ráðherra. Samt er stöðugt reynt að láta eins og "aðildarsamningurinn" sé einhver óráðin framtíðarsmíð og að menn geti gert sér vonir um eitthvað óvænt og yndislegt!

Og þetta eru bara nokkur meginatriði af mörgum, sem Timo Summa "gleymir" víst að segja frá á ferðum sínum um landið! Þeim mun frekar verður þagað um þetta í "Evrópustofunum" báðum.

Í gangi eru tvær kærur vegna ólöglegrar áróðursstarfsemi Evrópusambandsins á Íslandi. Við munum bráðlega upplýsa um stöðu þeirra mála. 

* Sbr. hér: 

** Ísland, Noregur, Sviss, Georgía, Úkraína, Azerbaídsjan og Rússland eru í Evrópu ekkert síður en Evrópusambandið! Þetta síðastnefnda nær ekki yfir nema 42,5% af Evrópu, 43% þegar Króatía er komin inn!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Evrópustofa opnuð á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband