Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
10.7.2015 | 22:19
Guðlaugur Þór: EFTA-aðild betri en að vera í ESB
Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrv. ráðherra, stendur sig vel í því að kynna Bretum (m.a. á BBC, þar sem þessi mynd var tekin í dag) kosti þess að standa utan Evrópusambandsins, og má telja hér upp marga þeirra, t.d. um tollamál: "EFTA-ríkin standi utan sameiginlegra tollastefnu Evrópusambandsins. Ríkin geti þar með ekki aðeins átt í fríverslun við sambandið heldur einnig samið um fríverslun við ríki utan þess. Það sé nokkuð sem Bretland geti ekki sem hluti af Evrópusambandinu. Bæði Sviss og Ísland hafi gert fríverslunarsamning við Kína á síðasta ári. Bretar hafi ekki heimild til þess."
Þetta er meðal þess sem Guðlaugur og félagar hans í Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna (AECR) hafa verið að benda á, en Guðlaugur er varaformaður þeirra samtaka.
Fríverslun og sjálfstæð þjóðríki hefur reynst mjög góð samblanda. Tekjur miðað við íbúafjölda eru að meðaltali 56% hærri í EFTA-ríkjunum en innan Evrópusambandsins. Bæði heimalönd okkar flytja meira út til sambandsins en Bretland," og:
Mörg ár eru síðan skoðanakannanir hafa sýnt meirihluta fyrir inngöngu í sambandið í löndum EFTA. Ísland hefur formlega dregið umsókn sína til baka og hreyfing stuðningsmanna inngöngu í Evrópusambandið í Sviss hefur viðurkennt ósigur sinn og hætt störfum. Hvað Noreg varðar sýndi síðasta skoðanakönnun 17,8% hlynnt inngöngu og 70,5% á móti, segja Guðlaugur og aðrir talsmenn AECR.
Og athyglisverður þessi punktur, að ef Bretland væri nú utan ESB, þá gæti Evrópusambandið ekki sannfært Breta um að ganga þar inn í dag. Bretland var áður í EFTA, Fríverzlunarsamtökum Evrópu, og hefði trúlega allan hag af því að ganga í þau aftur.
JVJ
![]() |
Fríverslun og sjálfstæði góð blanda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sekt eða ábyrgð ESB liggur í því, að allir vissu þetta. Það voru pólitíkusar ESB sem settu kíkinn fyrir blinda augað, vitandi vits að Grikkir voru að svindla. Þess vegna liggur mikil ábyrgð á þeim. Það réttlætir kröfuna um að þeir taki hluta skuldanna á sig, segir Össur [Skarphéðinsson í Facebókar-færslu] og bætir við, að þegar Grikkir hafi komist í þrot 2009 hafi hik, tafir og ráðleysi einkennt viðbrögð Evrópusambandsins. (Mbl.is)
Össur hefur áttað sig á því, að það er ekki hægt að afneita altöluðum staðreyndum alþjóðlega um þetta Evrópusamband hans!
Hvað verður nú af þeirri meintu "röksemd" Evrópusambands-innlimunarsinna á Íslandi, að ESB sé frábær valkostur til að losna við spillingu og aðra galla á íslenzkri stjórnsýslu? Hvað um þá staðreynd, að þetta er ekkert síður til staðar í hinu oflofaða Evrópusambandi, bara í miklu gígantískari mynd?!
Látið nú af þessari einsýni ykkar og ofdýrkun á þessu átrúnaðargoði ykkar, gyllta kálfinum í Brussel, Evrópusambandssinnar!
Jón Valur Jensson.
![]() |
Pólitíkusar sekir en ekki almenningur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2015 | 05:51
Berum af ESB-ríkjum um mikla atvinnuþátttöku
"Atvinnuþátttaka var á síðasta ári sú mesta meðal fólks á Íslandi á aldrinum 15-74 ára af löndum Evrópska efnahagssvæðisins, EES [þ.m.t. Evrópusambandsins], samkvæmt tölum evrópsku hagstofunnar Eurostat." Moggi þessa fimmtudags segir nánar frá þessu.*
* http://www.mbl.is/mm/mogginn/blad_dagsins/bl_grein.html?grein_id=1559099
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 05:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2015 | 15:20
Alþingi vanrækir sitt brýnasta mál!
Styrmir Gunnarsson á heiður skilinn fyrir að minna í tveimur nýjustu greinum á nauðsyn þess að jarða Össurarumsóknina formlega og endanlega. Í þeirri fyrri, Ætlar enginn þingmaður að spyrja um afturköllun aðildarumsóknar fyrir þinglok? ritar hann:
"Engin formleg staðfesting liggur fyrir frá Evrópusambandinu um að það líti á bréf utanríkisráðherra frá því í marz sem afturköllun aðildarumsóknar.
Hið eina sem hefur gerzt er að Ísland er ekki lengur skráð sem umsóknarríki á tveimur síðum á heimasíðu ESB. Á annarri þeirra er það hins vegar enn merkt á korti sem umsóknarríki."
Og hann spyr:
Getur verið að enginn þingmaður - ENGINN - úr röðum þingflokka stjórnarflokkanna, sem andvígir eru aðild ætli að standa upp á Alþingi fyrir þinglok og krefjast skýrra svara frá utanríkisráðherra um stöðu málsins?
Í annarri grein í dag, Alþingi: Þegjandi samkomulag um að þegja um aðildarumsóknina að ESB?, ritar hann m a.:
"Það verður fróðlegt og forvitnilegt að fylgjast með því, hvort í gangi er þegjandi samkomulag allra þingflokka um að nefna ekki á nafn fyrir þinglok stöðuaðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu.
Getur verið að allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sé búinn að gefast upp við að ljúka þessu máli með afgerandi hætti?
Getur verið að allur þingflokkur Framsóknarflokksins sé búinn að gefast upp með sama hætti?"
Og hann bendir á augljósar hætturnar sem í þessu felast:
"Auðvitað blasir við að það hentar hagsmunum Samfylkingar að málið sé í þeirri stöðu, sem það er nú. Það þýðir að komist sá flokkur í ríkisstjórn getur hann hafizt handa þar sem frá var horfið."
Og það er augljóst að meirihluti þingflokks VG er orðinn aðildarsinnaður flokkur."
Og knýjandi er þessi spurning hins reynda stjórnmálaritara:
"Hvað ætli forsætisráðherra segi um málið í stefnuræðu sinni í haust? Verður þá enn þagað?"
Er hugleysið orðið einkenni þessarar ríkisstjórnar og þingmanna hennar? Aðhróp og samfelldan áróður 365 fjölmiðla Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og hlutdrægra starfsmanna á Rúv, auk stjórnarandstæðinga á þingi, hefur þetta stjórnarlið látið stjórna sér með hræðslugæðum, lyppazt niður í ráðleysi, þannig að fullveldissinnar geta, að því er virðist, engum treyst lengur á þingi.
Og hafa stjórnarflokkarnir tveir misst allt samband við grasrót sína? Styrmir ritar (leturbreytingar allar á orðum hans eru hans sjálfs):
"Hver ætli verði niðurstaða landsfundar Sjálfstæðisflokksins í haust? Verður því haldið fram í ályktunum þess fundar að aðildarumsóknin hafi verið dregin til baka með fullnægjandi hætti?!"
En það dugar greinlega ekki. Íslenzkir þjóðarhagsmunir eiga ekki að þurfa að líða fyrir það, að síðar komist í valdastóla menn sem þræti fyrir það, að uppsögn ráðherrans á ESB-umsókninni hafi verið lögleg, og að þeir finni samstöðu með þeirri afstöðu sinni hjá klækjafullum útþenslusinnum í Brussel, mönnum sem sjálfir, á bak við töldin, kunna að hafa stjórnað þessari áróðursumræðu fjölmiðla JÁJ og samherja hans.
Af öllum ástæðum er aðgerða þörf án tafar!
PS. Og enn heldur Styrmir uppi merkinu, meðan stjórnarþingmenn bregðast hver um annan þveran:
Eldhúsdagsumræður: Enginn þingmaður stjórnarflokkanna ræddi aðildarumsóknina
Jón Valur Jensson.
![]() |
Afgreiða á hátt í 70 þingmál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 1.7.2015 kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2015 | 14:29
Brezk heimili yrðu betur sett utan Evrópusambandsins
Þau myndu spara 200.000 kr. á ári ef landið segði sig úr ESB. Matvæli fengjust ódýrari frá ríkjum utan ESB (nú ókleift vegna tollmúra), auk þess sem kostnaðarsamt regluverk ESB yrði lagt til hliðar, en það er "til þess fallið að hækka verð til neytenda." Hugveitan Business for Britain fann þetta út, og birzt hefur það í Daily Telegraph og á mbl.is.
Tollmúrar Evrópusambandsins bitna mjög á þriðja heiminum, t.d. er reynt að níðast á sykurframleiðslu þeirra ríkja með styrkjum og verndartollum fyrir sykurrófuframleiðslu Ítala. En hrámeti og matvæli eru ekki aðeins ódýrari í Suður-Ameríku og Asíu en í ESB, heldur eru þau langtum ódýrari í Bandaríkjunum en í Vestur- og Norður-Evrópu og úrvalið og gæðin ekki síðri.
Við Íslendingar þurfum að ganga miklu lengra í þá átt að lækka eða fella niður tolla og vörugjöld á vörum frá Bandaríkjunum, þ.m.t. á bílum og tæknivörum -- og skoða það einnig, frá þjóðhagslegu sjónarmiði og með traustum útreikningum, hvort rétt gæti verið að ganga í NAFTA-viðskiptasambandið, ef við nytum þá velvildar til þess -- en alls ekki í hið valdfreka Evrópusamband, sem heimtar af okkur æðsta og ráðandi löggjafarvald og önnur fullveldisréttindi!
Sigríður Á. Andersen alþm. hefur sérstaklega beitt sér í þessu máli, þ.e.a.s. fyrir lækkun/niðurfellingu tolla og vörugjalda, og er skynsöm kona í þessu sem ýmsu öðru (var t.d. ein á móti því í þinginu að kasta 500M kr. út um gluggann í femínismafræðinga och dylika).
Jón Valur Jensson.
![]() |
Heimilin betur sett utan ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það verður að hafa auga með stjórnvöldum, að þau ani ekki út í ófarsælar stjórnarskrárbreytingar, sem gætu m.a. snúizt um fullveldisframsal. Óráðlegt er að gera margar breytingar í einu í stað þess að athyglin fái að beinast óskipt að einu eða fáum málum, sem fólk geti þá kosið um, hvert um sig.
Ef forsætisráðherra hefur "væntingar um að þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingartillögur þverpólitískrar stjórnarskrárnefndar geti farið fram samhliða forsetakosningum á næsta ári, eins og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur áður nefnt," þá er augljóst, að vel er hægt að afgreiða slík mál á fjögurra til átta ára fresti, og það liggur ekkert á neinni heildarendurskoðun (hér er undirritaður sammála Sigurði Líndal lagaprófessor).
Hér er einnig ástæða til að vara enn við hugmyndum Bjarna Benediktssonar, sbr. nýlega grein hér: Bjarni Benediktsson mælir með vissu framsali fullveldisheimilda!. Þá er ennfremur ljóst, að ráðherrar munu ekki hafa þjóðina með sér í slíku skaðræðisverki, skv. skoðanakönnum MMR í næstliðnum mánuði, þar sem þetta kom í ljós: Nær fimm sinnum fleiri andvígir framsali hluta íslenzks ríkisvalds en hlynntir!
- Hvað varðaði spurningu Katrínar [Jakobsdóttur] um hvort ástæða væri til að gera tímabundið ákvæði um, að þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi til að samþykkja breytingar á stjórnarskrá í stað þess að tvö þing þurfi þess, verði gert varanlegt, sagði forsætisráðherra það ekki sjálfgefið. Hann gerði hins vegar ráð fyrir því að nefndin skoðaði hvernig staðið sé að stjórnarskrárbreytingum til frambúðar.
Hér má taka undir með fyrra atriðinu hjá forsætisráðherra. Ennfremur ættum við að gera skilyrði um aukinn meirihluta, bæði almennings og Alþingis (eins og Norðmenn gera um Stórþingið), í öllum þeim málum þar sem fullveldisréttindi ríkis og þjóðar yrðu lögð undir.
Menn verða að líta til reynslu annarra smárra þjóða af því, að auðvelt er með massífum fjölmiðlaáróðri fjársterkra aðila að hagga svo til og frá afstöðu þjóðfélagshópa, að úrslitum getur ráðið í þjóðaratkvæði. Hér erum við t.d. með fjölmiðlabatterí 365 fjölmiðla, sem nú þegar hafa verið misnotaðir markvisst af sínum eigendum til að hafa strangt áhrifavald á skrif fréttamanna þar, og uppsögnum hefur einnig verið beitt. Með Evrópusambands-sinnann Jón Ásgeir Jóhannesson þar í stafni er augljós hættan af þvílíkri risa-fjölmiðlasamsteypu sem sendir t.d. "ókeypis" ESB-sinnað "Fréttablað" sitt á 90.000 heimili daglega.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Kjósi um stjórnarskrá samhliða forsetakosningum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Frétt barst nú um að Evrópusambandið hafi tekið Ísland af lista yfir umsóknarríki. Er haft eftir Klemens Ólafi Þrastarsyni, að sú ákvörðun hafi verið samþykkt á vettvangi ráðherraráðs Evrópusambandsins (en Klemens hinn ungi, fyrrverandi blaðamaður á ESB-Fréttablaðinu, er upplýsingafulltrúi sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi, hefur þá farið svipaða leið og Auðun Arnórsson, sem starfar fyrir sendiráð ESB).
Þetta eru ánægjulegar fréttir, ef treysta má þeim að fullu. Það er mikilvægt, að hér verði engum vélabrögðum verði beitt eins og þeim, að Össurarumsóknin sé með einhverjum hætti ennþá gild og brúkleg fyrir nógu ósvífna aðila síðar meir í stjórnarráði Íslands og höllunum í Brussel.
Við þurfum t.d. að fá að sjá formlega samþykkt ráðherraráðsins fyrir þessu. Fróðlegt væri einnig að sjá, hvernig atkvæði féllu um málið.
Ekki var Klemens Ólafur (sonur Þrastar Ólafssonar hagfræðings, mikils ESB-predikara) mjög áreiðanlegur í umfjöllun um málefni Evrópusambandsins, meðan hann var á ESB-Fréttablaðinu. Kom það fram í því að þegja um mikilvægar staðreyndir, eins og undirritaður upplýsti um í grein 27. júní 2011: Á Fréttablaðið að komast upp með að þegja í þágu ESB um meginstaðreynd um valdaleysi Íslands í ráðherraráðinu?
Nú er bara eftir að losa okkur við "Evrópustofu". Utanríkisráðherra þarf að fylgja því máli eftir af festu. Gleðilegt verður að sjá þau pakka niður og halda úr höfn með allt sitt hafurtask. Var talsvert um það mál fjallað nú í vikunni vegna fyrirspurnar Jóhönnu Maríu Sigmarsdóttur, alþm. og formanns Heimssýnar, til ráðherrans um málið: "Hvenær verður Evrópustofu, sem stækkunardeild ESB rekur hér, formlega lokað og starfsemi hennar lögð niður?" Sbr. einnig hér: Og þótt fyrr hefði verið! - Þar var reyndar talað um, að 400 milljónir króna hafi farið í rekstur "stofunnar", en þær reyndust vera 500 milljónir, þegar betur var að gáð. Og er mál að linni þessari áróðurs- og undirróðursstarfsemi gegn sjálfum tilvistargrunni fullveldis okkar.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Ísland af lista yfir umsóknarríki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Í nýbirtri skoðanakönnun MMR, þar sem spurt var, hvort kjósendur vildu láta breyta stjórnarskránni þannig, að Alþingi verði heimilað að framselja hluta íslenzks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana, varð niðurstaðan sú, að 14% voru því hlynntir, en 69% andvígir, þ.e.a.s. rétt tæplega fimm sinnum fleiri voru slíku framsali andvígir. Andríki kostaði þessa skoðanakönnun, sem birtist m.a. í Staksteinum Mbl. í dag, 22. maí 2015.
Af þessu er fullljóst, að tillaga Bjarna Benediktssonar, sem nýlega mælti með vissu framsali fullveldisheimilda, nýtur engrar almannahylli.
Jón Valur Jensson.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2015 | 11:47
Bjarni Benediktsson mælir með vissu framsali fullveldisheimilda!
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, sækir að sjálfstæði landsins í aðsendri grein í Mbl. í dag, vill "takmarkað framsal" valdheimilda (fullveldis), "sem bera mætti undir þjóðaratkvæði samhliða forsetakosningum á næsta ári.
- Segir hann þar, að standa verði vel að undirbúningi málsins og rekstri þess á Alþingi á komandi hausti. Grundvöllur þess er gott samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu. (Mbl.is)
Þetta eru skuggaleg tíðindi af formanni flokks sem kennir sig við sjálfstæði! Þetta minnir á grein hans og Illuga Gunnarssonar í Mbl. fyrir allnokkrum árum, þar sem þeir gældu við þá hugmynd að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Nú er raunar stefnan tekin á að framselja vald til ESB "í þágu friðar og efnahagssamvinnu," eins og Bjarni segir í blaðinu -- orðrétt eins og ESB-sinnaða Þorvaldarnefndin Gylfasonar (stjórnlagaráðið ólögmæta) kallaði það í sinni 111. gr., en einmitt það ákvæði þar vakti athygli fyrir þann óvenjulega áróðurshljóm sem með þessum orðum var settur inn í þá grein.
- "Skortur á slíku ákvæði [sem þessu um framsal valdheimilda ríkisins] hefur valdið nokkrum erfiðleikum fyrir þátttöku Íslands í alþjóðasamvinnu, einkum í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið þegar álitamál hafa risið um heimild til framsals samkvæmt núgildandi rétti,"
segir Bjarni, en bætir við:
- "Ástæða er til að taka fram að slík heimild í stjórnarskrá tengist spurningunni um umsókn Íslands að Evrópusambandinu ekki með neinum hætti -- aðild Íslands að ESB myndi ótvírætt þafnast sérstakrar stjórnskipulegrar heimildar og aðlögunar."
Þetta segir hann, en "góð meining enga gerir stoð," segir hið fornkveðna, og mikið vill meira, og eins víst er, að slefandi aðdáendaklúbbur Evrópusambandsins í Samfylkingu og fleiri flokkum myndi nota sér þessar heimildir eftir sínu höfði. Þá dugar Bjarna ekki að standa hjá og þvo hendur sínar eins og Pílatus af ábyrgð, vegna einhverra orða í Morgunblaðinu árum fyrr.
En hann heldur áfram í blaðinu:
- "Ef gengið er út frá þessu er engin ástæða til að ætla að alvarlegur ágreiningur sé um stjórnarskrárákvæði um þetta efni þótt auðvitað eigi eftir að taka afstöðu til ákveðinna útfærsluatriða." (!!)
Þessu er alls ekki hægt að vera sammála. Það er engin þörf á slíku ákvæði. Of mikið vald hefur þegar verið gefið EES eða í reynd Evrópusambandinu til áhrifa á löggjöf hér (bara eitt dæmi: EES-reglurnar eru að ganga af einkaflugvéla-eign og -notkun dauðri nema fyrir forríka einstaklinga og fyrirtæki). Æ fleiri sjá nauðsyn þess að segja upp EES-samningnum (og Schengen-samningnum sennilega í leiðinni). En Bjarni stefnir í reynd að meiri undirlægjuhætti við Evrópusambandið með tillögu sinni. Hættulegasta afleiðingin af tillögunni, í bili, gæti orðið sú, að hér yrðu teknar upp langtum meiri innistæðutryggingar heldur en var með gamla laginu og ábyrgðin beinlínis sett á ríkissjóð sjálfan, ekki á TIF (Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta).
Af öllum þessum ástæðum verður að berjast gegn þessari vanhugsuðu stjórnarskrártillögu hins illa áttaða formanns Sjálfstæðisflokksins.
Eftirmáli. Afstaða almennings hefur sýnt sig! Í nýbirtri skoðanakönnun MMR, þar sem spurt var, hvort kjósendur vildu láta breyta stjórnarskránni þannig, að Alþingi verði heimilað að framselja hluta íslenzks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana. Niðurstaðan varð, að 14% voru því hlynntir, en 69% andvígir, þ.e.a.s. rétt tæplega fimm sinnum fleiri voru slíku framsali andvígir. Andríki kostaði þessa skoðanakönnun, sem birtist m.a. í Staksteinum Mbl. í dag, 22. maí 2015.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Þjóðaratkvæði samhliða kosningum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 22.5.2015 kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.5.2015 | 20:01
Eru Píratar orðnir ESB-viðhengi?
Píratar standa ekki undir nafni nema sem flokkur sem aðhyllist rán á hugverkum höfunda og á öryggis- og persónuupplýsingum frá leyniþjónustum. Rán eru einmitt ein iðja Sikileyjar-mafíunnar, en hví vill þá Birgitta líkja Skagfirðingum eða skagfirzkum framsóknarmönnum við lögbrjóta á Sikiley? Stunda Skagfirðingar glæpastarfsemi? Það er þá eitthvað nýtt eða bara í höfðinu á henni Birgittu.
Öllu alvarlegra en allt þetta er sú stefna Pírata, sem nú virðist uppi á borðum, að beita sér gegn því, að hætt verði umsóknarferlinu að Evrópusambandinu, og þar grípur Birgitta enn einu sinni til billegra meðala eins og þeirra að klína því á ríkisstjórnina, að hún sé bara að þjóna hagsmunum Skagfirðinga og Kaupfélags Skagfirðinga.
Lágt er risið á þessum málflutningi Birgittu. Og hvernig er með hana sjálfa: Vill hún ekki standa með sjálfstæði og fullveldi Íslands? Eru Píratar orðnir enn einn undirlægjuflokkurinn undir erlent vad?
Jón Valur Jensson.
![]() |
Segir Skagafjörð Sikiley Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 17.5.2015 kl. 02:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)