Færsluflokkur: Evrópumál

Knýjandi spurningar vegna "hlés" á aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið

Verða "samninga"nefndamennirnir teknir af launalista ríkisins sem slíkir? ÞAÐ er mælikvarði á það, hvort þetta verður STÖÐVAÐ.

Verða IPA-mútustyrkirnir stöðvaðir?

Verður Evrópusambands-áróðursstofunum (báðum) lokað, að kröfu landsfundar Sjálfstæðisflokksins, eða verður einhver sýndarmennska og hráskinnaleikur hér í gangi næstu fjögur árin og framtíð lýðveldisins látin vega léttara en áróðurs- og innlimunarstefnu-hagsmunir Brusselvaldsins?

Brestur fréttamenn ímyndunarafl og frumkvæði til að spyrja núverandi ráðamenn þessara sjálfsögðu spurninga?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Spyr hvort ESB heimti styrki til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðaratkvæði um úrsögn Ítalíu og Bretlands úr Evrópusambandinu?

Það er ekki að undra, að vantrausti almennings í þessum löndum á ESB (69% Breta vantreysta því, en 53% Ítala) fylgi háværar kröfur um úrsögn landanna úr sambandinu. Fimm stjörnu-hreyfingin, sem "vann kosningasigur á Ítalíu fyrr á þessu ári, hyggst beita sér fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram í landinu um veru þess í Evrópusambandinu og á evrusvæðinu" (Mbl.is). Við þekkjum öflugan straum með slíku í ekki aðeins UK Independence Party, heldur líka í Íhaldsflokknum.

  • Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að mögulegt sé að knýja fram þjóðaratkvæði á Ítalíu með því að safna 500 þúsund undirskriftum því til stuðnings og ef stjórnlagadómstóll Ítalíu úrskurðar að tillagan sé í samræmi við stjórnarskrá landsins. (Mbl.is)

Beppe Grillo, leiðtogi Fimm stjörnu bandalagsins.  Fróðlegt verður að sjá, hvernig tillögu flokksleiðtoga Fimm stjörnu-hreyfingarinnar (MoVimento 5 Stelle), Beppe Grillo, reiðir af í ítalska þinginu. Hann er reyndar í stjórnarandstöðu, en hefur verið mjög áberandi sem gagnrýnandi þeirrar leiðar, sem Ítalíu hefur verið ýtt út á til lausnar á efnahagsvanda landsins "að kröfu Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrisjóðsins" (Mbl.is), og orð hans hafa fallið í góðan hljómgrunn meðal almennings, því að flokkurinn náði 23,79% atkvæða til ítalska senatsins og 25,55% til fulltrúaþingsins (Camera dei Deputati; þá þingdeild afnam Mussolini á sínum tíma, 1939, en hún var endurreist 1943).

JVJ. 


mbl.is Vill þjóðaratkvæði um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Titanic lítur ekki vel út til björgunar Íslandi

Søren Søndergaard, Evrópuþingmaður fyrir dönsku samtökin Folkebevægelsen mod EU, segir að

  • ákvörðun Íslands um hlé á viðræðum "sé alvarleg ofanígjöf við Evrópusambandið sem hafi ekki aðeins orðið sífellt óvinsælla á meðal íbúa þess heldur hafi nú fengið slíka ofanígjöf frá ríki sem búi að langri lýðræðishefð. Það líti ekki vel út í ferilskrá sambandsins. (Mbl.is)

Mat Sørens á þessu er ekki út í hött, en fullveldissinnar íslenzkir hefðu viljað þiggja hér fullan sigur úr hendi fullveldistrúrra stjórnmálaleiðtoga, ekki hálfan og óvissan til lengdar – og það niðurstöðu sem býður ESB-sinnum upp á áframhaldandi áróður og undirróður, en krefur sjálfstæðissinna um órofa baráttu fyrir landið árum saman, vitaskuld ólaunaða með öllu.

En hér verður líka að spyrja Sigmund og Bjarna Ben. (og hverju hafa fréttamenn ekki spurt svo augljósrar spurningar?): Hvað um Evrópustofu, verður henni lokað eða ekki? Og hvað um IPA-mútustyrkina, verða þeir áfram í gangi þrátt fyrir yfirlýst "hlé á viðræðum"?

  • Þegar Ísland varð illa úti í alþjóðlegu fjármálakrísunni árið 2008 leituðu margir eftir bjargvætti. Evrópusambandið var tekið í misgripum fyrir bjargvætt og umsókn um inngöngu í sambandið send af stað,“ segir Søren Søndergaard. (Mbl.is, leturbr. hér).

Situr hann í nefnd Evrópuþingsins, sem heldur utan um samskipti við Ísland, Noreg og Sviss, og segir í fréttatilkynningu á heimasíðu samtakanna

  • að efnahagserfiðleikarnir innan Evrópusambandsins og einkum á evrusvæðinu haft mikil áhrif á afstöðu fólks á Íslandi. Á meðan hagvöxtur minnki eða standi í besta falli í stað á evrusvæðinu hafi hann aukist á Íslandi. Og á meðan atvinnuleysi sé stjórnlaust í Evrópusambandinu og skapi óróa og fátækt hafi það minnkað mikið á Íslandi. Líkir hann sambandinu við farþegaskipið feiga Titanic en fyrirsögn tilkynningarinnar er: „Ísland vill ekki um borð í Titanic“. 

Okkur er enginn óleikur gerður með því að vera minnt á slík meginatriði.

JVJ. 


mbl.is „Ísland vill ekki um borð í Titanic“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfvelgju-tvíeykinu Bjarna og Sigmundi var um megn að gefa þjóðinni endanlegt frí frá ESB-málinu

Formlega er Össurarumsóknin ólögmæta enn í gangi. Það er blöskranlegt af nýrri ríkisstjórn. Menn setja ekki HLÉ á það, sem er GEGN STJÓRNARSKRÁ.

Þeir í Brussel líta örugglega á þetta sem SINN VARNARSIGUR, þegar illa horfði hjá þeim!

Hálfvelgju-tvíeykinu Bjarna og Sigmundi var það um megn að gefa þjóðinni endanlegt frí frá þessari óværu. Þjóðfrelsisbaráttan verður að halda áfram. Það blasir við, að það verður ekkert lát á ESB-áróðri og baráttu gegn innlimun, því að HLÉ er ekki það sama og SLIT á viðræðum.

Það á ekki að gefa næstu ríkisstjórn eftir þessa nýju refjastjórn tækifæri til að "halda umsókninni áfram", heldur á að senda Össurarumsóknina beint í ruslafötu Alþingis. Einmitt með því að gera það EKKI er verið að gefa næstu stjórn færi á "áframhaldi umsóknarinnar", í stað þess að hún yrði að byrja allt upp á nýtt. Sú nýja stjórn (2017-?) gæti þá líka borið það fyrir sig, að fyrri stjórn (Bjarna og Sigmundar) hafi EKKI hafnað ESB, heldur hafi sú stjórn aðeins sett málið í BIÐ, í "HLÉ"!

Og hvað er að hjá Mbl.is, að vera ekki komið með neina nákvæma frétt um þetta mál í dag? (kl. orðin 14.17). Eiga lesendur að trúa fréttinni frá í gærkvöldi, sem gaf í skyn, að hætt yrði við allt saman?

Jón Valur Jensson.


Ný ríkisstjórn: Aðildarferlið að Evrópusambandinu verður stöðvað þegar í stað

Þetta er mjög ánægjuleg frétt úr Valhöll, höfð eftir Bjarna Ben. sem bætir því þó við, að nánari útfærsla á þessu "verði hins vegar kynnt á næstunni". Nú er bara að vona, að sú útfærsla feli ekkert það í sér sem rekizt geti á fyllstu vonir og væntingar fullveldissinnaðra Íslendinga.

Þá væri einnig gott að frétta af því frá fundarmönnum, hvort upplýsingar um þetta mál hafi ekki verið eitthvað meiri en þessar einar.

Fyrir fundi sjálfstæðis- og framsóknarmanna í kvöld stóðu fullveldissinnar fyrir aðgerð til að minna flokkana á fyrirheitin sem þeir höfðu gefið fyrir kosningarnar, um slit ESB-aðlögunar- og aðildarviðræðnanna. Hér er mynd af vettvangi við Valhöll:

 

og hér við Rúgbrauðsgerðina í Borgartúni:

 

JVJ. 


mbl.is Aðildarferlið verður stöðvað strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi ber STRAX að slíta formlega viðræðum við ESB

Fullveldið og slit ESB-viðræðna eiga að hafa sinn háa sess í málefnasamningi hinna nýju stjórnarflokka, ef vel á að fara. Hér er tækifæri til að minna á skarpa, tímabæra yfirlýsingu sem og aðgerð kl. 8 í kvöld.

Yfirlýsing Samstöðu þjóðar:

Alþingi ber STRAX að slíta formlega viðræðum við ESB.

 

19. maí 2013.

 

Þann 16. júlí 2009 samþykkti Alþingi ályktun um »að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB«. Ályktunin hlaut samþykki Alþingis með aðeins 33 atkvæðum af 63. Tillögu, um að leita álits þjóðarinnar á þessu afdrifaríka feilspori, var hafnað með 32 atkvæðum. Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu var þannig alfarið á ábyrgð þess meirihluta á Alþingi sem studdi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Umsóknin var hvorki á ábyrgð stjórnarandstöðunnar á Alþingi né þjóðarinnar.

 

Í upphafi viðræðna hélt ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur því fram, að viðræður um aðild Íslands að ESB myndu taka í mesta lagi 18 mánuði. Liðnir eru 46 mánuðir síðan Alþingi samþykkti að sækja formlega um aðild landsins og mikilvægustu kaflar stjórnarskrár Evrópusambandsins (Der Vertrag von Lissabon) hafa ekki ennþá verið opnaðir. Að mati »Samstöðu þjóðar« eru engar forsendur til að ljúka þessum viðræðum. Áframhald viðræðna væri eins og meinsemd sem héldi áfram að draga mátt úr sjúklingi sem þjáðst hefur af hinni alvarlegu ESB-sýkingu í 46 mánuði.

 

»Samstaða þjóðar« telur þjóðarnauðsyn að Alþingi slíti strax viðræðum um aðild Íslands að ESB og að viðræðunum verði slitið formlega með ályktun. Viðræðurnar voru hafnar með ályktun meirihluta Alþingis og það væru stjórnskipuleg mistök að haga slitum á einhvern annan hátt. Benda má á, að allt frá september 2009, hafa verið gerðar kannanir um afstöðu landsmanna til inngöngu landsins í ESB, af Capacent-Gallup. Niðurstöður þessara kannana hafa ávallt verið á einn veg, 60% - 70% þjóðarinnar hefur verið andvígt aðild. Þær hugmyndir, að efna beri til þjóðarkönnunar um viðhorf almennings til áframhaldandi viðræðna við ESB, eru forsendulaust blaður.

 

»Samstaða þjóðar« skorar á forystu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að setja skýr ákvæði um formleg slit viðræðna við ESB, í sáttmála þessara flokka um nýja ríkisstjórn. Viðræðunum þarf að slíta með yfirlýsingu frá Alþingi, strax eftir að Alþingi hefur hafið störf. Alþingi hóf viðræður um aðild án samþykkis þjóðarinnar og Alþingi ber skylda til að ljúka þeim strax, án kostnaðarsamrar þjóðarkönnunar.

 

Fyrir hönd »Samstöðu þjóðar«

 

Pétur Valdimarsson.

Loftur Altice Þorsteinsson.

Anna R. Kvaran.

 

Í kvöld, þriðjudag 21. maí kl. 20.00-20.30, er fyrirhuguð aðgerð ESB-aðildarandstæðinga í baráttunni gegn ESB-umsókninni.

Ætlunin er að standa með áminningarspjöld og borða frá Heimssýn (mest með textanum: "NEI við ESB", einnig "ESB NEI TAKK" og "HÖFNUM ESB-AÐILD") fyrir utan bæði Valhöll og fundarstað framsóknarmanna í Rúgbrauðsgerðinni, Borgartúni 6, kl. 20.00-20.30 á báðum stöðum, en flokksráð Sjálfstæðisflokkins og miðstjórn Framsóknarflokks munu þá funda um málefnasáttmála flokkanna. Ekki er ætlunin að mótmæla nýrri ríkisstjórn eða taka afstöðu gegn þessum flokkum, heldur að ganga fram í þeirri von, að nú verði mynduð trú fullveldisstjórn og AÐ MINNA FLOKKANA Á FYRIRHEITI ÞEIRRA Á LANDSFUNDUM AÐ SLÍTA VIÐRÆÐUM VIÐ ESB. Einnig stendur til "að afhenda helzt hverjum fulltrúa, sem þátt tekur í fundunum, yfirlýsingu frá okkur þar sem við hvetjum þá til að standa við skýra stefnu flokks síns um að hafna ESB-aðild og slíta þessum tilganglausu innlimunar- og aðlögunarviðræðum við Sambandið nú þegar," eins og Gunnlaugur Ingvarsson, stjórnarmaður í Heimssýn og félagi í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu, ritar í bréfi.

JVJ.


mbl.is Forsetinn fundar með Sigmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB á von á "vondum fréttum" frá Íslandi

Austurríska ESB-þingmanninum Angeliku Werthmann er ljóst að lítill stuðningur er meðal almennings á Íslandi við að ganga í Evrópusambandið og hefur áhyggjur af því hvernig beri að haga samskiptum Íslands og ESB í framtíðinni, "ef Íslendingar hafna inngöngu í sambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ef tekin verður ákvörðun af hálfu nýrrar ríkisstjórnar landsins um að hætta alfarið aðildarviðræðunum," og hefur lagt fram fyrirspurn þessa efnis til framkvæmdastjórnar ESB. Svar hefur dregizt við fyrirspurninni, en framkvæmdastjórnin getur gefið sér allt að einn og hálfan mánuð til að svara slíkum fyrirspurnum.

Brusselmenn ættu að búa sig undir "vondar fréttir" frá Íslandi, því að flokkarnir tveir, sem eru að bræða saman ríkisstjórn og ganga frá stjórnarsáttmála annað kvöld, hafa þegar skuldbundið sig til að slíta viðræðunum um Össurarumsóknina sem samþykkt var með svo naumum meirhluta á Alþingi 2009. Þar með verður í raun engin breyting á viðskiptasamningum okkar né tollamálum.

JVJ. 


mbl.is Spyr um breytta stöðu á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland bezt komið með viðskipti við allar þjóðir, þarfnast ekki innilokunar í ESB

Fráleitt er, að mati Önnu Sonny, að eyríkið Ísland myndi einangrast við að slíta inntökuviðræðum við Evrópusambandið. "Það er aðili að EES og EFTA og varð nýverið fyrsta Evrópuríkið til þess að undirrita fríverslunarsamning við Kína,“ eins og þessi starfandi verkefnastjóri Evrópumála hjá brezku hugveitunni Civitas bendir á í pistli á heimasíðu hugveitunnar. Sjálft er EFTA (Fríverzlunarsamband Evrópu) með hagstæða fríverzlunar- eða tollasamninga við fjöldamörg ríki heims, m.a. Kanada.

Ennfremur vekur þessi verkefnastjóri á því athygli, að Ísland hafi "sýnt fram á að það er mögulegt að velja hvort tveggja,“ þ.e. viðskipti við Evrópusambandið, án þess að ganga í það, og við önnur lönd heims.

Það má einnig gera því skóna hér, að viðskiptasamningurinn við Kína, samhliða EES-viðskiptum okkar, geti orðið leið fyrir Kína til að koma vörum sínum nær tollfrjálsum á ESB-markað, þ.e.a.s. með viðkomu hér, þar sem síðasta fullvinnslustigið ætti sér stað, t.d. að setja reimar og innlegg í skó, sem annars kæmu að mestu leyti tilbúnir frá Kína. Sama gæti átt við um margar aðrar vörur, tízkufatnað, tæknivörur, vélar, tölvur o.fl. Við yrðum hins vegar að áskilja sjálfum okkur rétt til að stýra vinnuafli (innlendu sem erlendu, þó fremur innlendu) til þeirra vinnustaða sem annast myndu síðasta fullvinnslustigið á slíkum vörum.

PS. Í skoðanakönnun á vef Útvarps Sögu, þeirri síðustu sem birt var fyrir hvítasunnu, var spurt: "Á næsta ríkisstjórn að slíta eða halda áfram viðræðum við ESB?" -- 317 svöruðu, þar af sögðu 23,15%: "Halda viðræðum áfram," en 76,85% sögðu: "Slíta viðræðum". Kannanir á þessum vef ÚS eru vitaskuld ekki marktækar um þjóðarvilja (sbr. að 19 sinnum fleiri (57%) sögðust þar styðja Flokk heimilanna heldur en sú prósenta sem kaus hann í reynd (3%)). Engu að síður gefur þessi skoðanakönnun vilja ÚS-áhangenda nokkuð skýrt til kynna.

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Mögulegt að velja hvort tveggja“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framkvæmdastjórn ESB kastar grímunni með beinum hótunum við smæstu eyþjóð N-Atlantshafs

Þar kom að því að voldug framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti að leggja til refsiaðgerðir gegn Færeyingum vegna síldveiðiáætlunar þeirra. Með hótunum um valdbeitingu sýnir stórveldi smáríki krepptan hnefann, og það hlakkar í áhrifamönnum þar, að þessi aðgerð verði til þess að hræða bæði Færeyinga og Íslendinga til uppgjafar í makríldeilunni, en ef ekki, þá skuli viðskiptabanni skellt á þessar þjóðir vegna makrílveiða þeirra í sinni eigin fiskveiðilögsögu!

  • ... Haft er eftir Ian Gatt, framkvæmdastóra Samtaka skoskra uppsjávarsjómanna, í samtali við breska ríkisútvarpið BBC í dag, að ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins væri fyrsta skrefið í þá átt að refsa Færeyingum vegna síldveiða þeirra. Hins vegar ættu þær refsiaðgerðir einnig að ná til makríls enda væru tegundirnar tvær gjarnan veiddar samhliða.
  • Líkt og Lochhead [sjávarútvegsráðherra Skotlands] lýsti Gatt vonbrigðum sínum með að enginn frekari árangur hefði orðið í því að beita Íslendinga og Færeyinga refsiaðgerðum vegna makrílveiða þeirra. „Í tilfelli Íslands hvetjum við framkvæmdastjórnina til þess að óska eftir tafarlausum fundi með nýrri ríkisstjórn Íslands og reyna að koma viðræðuferlinu aftur af stað,“ sagði hann. Tækist það hins vegar ekki yrði að grípa til refsiaðgerða án tafar enda hefðu allar aðrar leiðir verið reyndar án árangurs. ... [Mbl.is, mun meira þar, sjá tengil neðar!]

Nú ríður á, að næsta ríkisstjórn okkar hafi bein í nefinu og láti ekki kúga sig til eins eða neins. Slíkt yrði seint eða aldrei fyrirgefið.

250084_10152309591040260_1300656966_n_2

Sjá einnig nýlega grein hér: ESB vanvirðir rétt Færeyinga rétt eins og Íslendinga. Þar á Tryggvi Helgason, flugmaður á Akureyri, gott innlegg, minnir á þakkarskuld okkar Íslendinga við Færeyinga og brýnir okkur til samstöðu með þessari góðu frændþjóð sem lifir ekki síður en við af gjöfum hafsins. Látum þá ekki standa uppi stuðningslausa, og nýtum viðskiptasambönd okkar til að rjúfa ofstopafullt viðskiptabann Evrópusambandsins, um leið og þess fer að gæta.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is ESB hyggst refsa Færeyingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formönnunum tveimur var treyst til þessa ...

Eygló Harðardóttir alþm. treystir bæði formanni sínum Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Bjarna Benediktssyni í stjórnarmyndunarviðræðunum.

En geta fullveldissinnaðir Íslendingar treyst þessum flokksformönnum til að fara eftir landsfundum eigin flokka í Evrópusambandsmálinu og slíta viðræðunum strax við myndun nýrrar ríkisstjórnar? Þeirra eigin flokksmenn eiga heimtingu á því, sem og sá meirihluti þjóðarinnar sem veitti þeim umboð til að stjórna lýðveldinu.

Sé þessari fráleitu Össurarumsókn vöðlað saman og varpað í ruslafötuna, þar sem hún á heima, verður þá ekki þeim mun léttara verk að láta loka Evrópusambandsstofunum tveimur á Akureyri og við Suðurgötu í Reykjavík?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Segir tímabært að treysta Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband