Færsluflokkur: Evrópumál

Eins og Norðmenn gerðu

Frá Birni S. Stefánssyni

Björn S. Stefánsson
Björn S. Stefánsson
 

Við ættum að geta gert eins og Norðmenn gerðu, nefnilega að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig má heyra, þegar rætt er um Evrópusambandsmálið. En hvað gerðu Norðmenn?

Norðmenn bjuggu sig undir Efnahagsbandalagsmálið á sjöunda áratug síðustu aldar með því að setja í stjórnarskrá ákvæði um framsal á valdi. Það var þannig, að framsal á valdi til bandalags ríkja, sem Noregur er aðili að, getur gerst með samþykki þriggja fjórðu þingmanna.

Aðild að Efnahagsbandalaginu var á dagskrá í Noregi fljótlega eftir þessa stjórnarskrárbreytingu. Mið-hægristjórn Bortens vann að henni, en málinu var hleypt upp. Stjórn Verkamannaflokksins, undir forystu Brattelis, hélt málinu áfram. Fyrirsjáanlegur var meirihluti á þingi fyrir aðild, en ekki þrír fjórðu. Samtök fyrir aðild lögðu þá til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún var ekki bindandi, því að engin ákvæði voru um slíkt í stjórnarskránni. Ef einhverjir þingmenn, sem voru andvígir aðild, mundu greiða atkvæði með aðild með vísan til þess, að meirihluti þjóðarinnar hefði reynst vera fylgjandi aðild, hefði meirihlutinn á þingi getað farið í þrjá fjórðu. Andstæðingar aðildar lýstu sig samþykka þjóðaratkvæðagreiðslu, og þingið ákvað, að hún skyldi fara fram. Þá varð heiftúðugt stríð meðal landsmanna. Fullur fjandskapur varð gjarna meðal vina og ættingja. Í Verkamannaflokknum var kröftugur minnihluti andvígur aðild. Bratteli lýsti því, að stjórn hans mundi segja af sér, ef þjóðin felldi aðild. Svo fór. Það var 1973, og Bratteli sagði af sér. Aðildarsamningurinn var ekki borinn undir þingið.

Árið eftir heyrði ég Einar Gerhardsen, fyrirrennara Brattelis, á málstofu um þjóðaratkvæðagreiðsluna í stjórnmálafræðideild Oslóarháskóla lýsa afsagnarhótun Brattelis sem býsnum. Ef enginn hefði komið fram í andstöðu við aðild í flokknum, sagði hann, hefði flokkurinn þurft að búa til slíka andstöðu í honum. 1994 var eins og 1973, að á þingi var meirihluti með aðild. Þjóðaratkvæðagreiðsla (ekki bindandi) fór fram, og aðild var hafnað. Samningur Noregs um aðild var ekki borinn undir þingið.

Síðar hefur það gerst fyrir þingkosningar, að andstæðingar aðildar hafa kannað skipulega meðal frambjóðenda, sem voru líklegir til að ná kjöri og höfðu lýst sig andstæða aðild, hvort þeir ætluðu að standa við það, enda þótt þjóðaratkvæðagreiðsla færi á annan veg. Þá hafa aðildarsinnar á þingi lagt til að breyta ákvæði stjórnarskrárinnar um aukinn meirihluta úr þremur fjórðu í tvo þriðju, en án árangurs.

BJÖRN S. STEFÁNSSON, dr. scient.

 

Frá Birni S. Stefánssyni.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 14. maí sl. Endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Geta má þess, að dr. Björn er mjög kunnugur málefnum Norðmanna, hefur sínar prófgráður þaðan og starfaði þar um árabil. 


Króatar fá ENGAR undanþágur frá fiskveiðistefnu ESB sem gefur Ítölum o.fl. afnot af króatískri landhelgi upp að 12 mílum!

Það SAMA mun gerast hér, ef kvislingar okkar fá að ráða ferðinni ...

  • „Það fóru alls engar samningaviðræður fram, við náðum engum árangri í ferlinu. Við komumst aðeins að raun um að það var ekkert í boði annað en að samþykkja það sem boðið var upp á.“ Þetta er haft eftir króatíska sjómanninum Danilo Latin í frétt Reuters en fjölskylda hans hefur haft viðurværi sitt af sjósókn í fjóra ættliði. Króatía gekk formlega í Evrópusambandið á miðnætti í gær í kjölfar viðræðna við sambandið og þjóðaratkvæðagreiðslu. (Mbl.is.)

Hér er ekki um lítið hagsmunamál að ræða fyrir hina 4,4 milljóna þjóð Króatíu. Þótt henni hafi boðizt tímabundin aðlögun í smávægilegum atriðum, fær hún enga undanþágu til frambúðar frá ESB-reglunni um sameiginlegan aðgang að fiskimiðunum og fullan rétt borgara í hvaða ESB-ríki sem er til að kaupa sig inn í fiskveiðileyfi, jafnvel innan 12 mílnanna! Sjá um það meðfylgjandi frétt (tengill hér neðar).

  • Fram kemur í fréttinni að flestir þarlendir sjómenn, sem séu um 3.700, óttist að inngangan kunni að hafa í för með sér endalok króatísks sjávarútvegar en í viðræðunum við Evrópusambandið var samið um nokkrar tímabundnar aðlaganir að sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins, meðal annars varðandi notkun veiðarfæra og fiskveiðar til eigin neyslu. „Ég er hræddur um að margt eigi eftir að koma okkur óþægilega á óvart,“ segir Latin ennfremur og vísar þar meðal annars til aukinna takmarkana á sjósókn, minni niðurgreiðslna og kröfu um breytt veiðarfæri sem hafa muni í för með sér mikinn kostnað.
  • Hafa áhyggjur af ásókn ítalskra sjómanna
  • Fram kemur í fréttinni að flestir aðrir sjómenn í strandhéröðum Króatíu deili áhyggjum Latins. Þeir telji að króatísk stjórnvöld sem sömdu um inngöngu landsins í Evrópusambandið hafi ekkert gert til þess að standa vörð um hagsmuni þeirra. Þar segir ennfremur að inngangan muni hafa í för mér sér að fiskiskip frá öðrum ríkjum sambandsins muni fá aðgang að efnahagslögsögu Króatíu. Mestar áhyggjur heimamanna í þeim efnum snúa að ítalska fiskiskipaflotanum. (Mbl.is.)
Málið stendur raunar verr en þetta. Í 1. lagi (feitletrun jvj):
  • Haft er eftir Miro Kucic, aðstoðarlandbúnaðarráðherra Króatíu, að margfalt meiri fisk sé að finna í Króatíumegin í Adríahafinu en Ítalíumegin. Hagsmunir Ítala af því að komast í króatísk fiskimið væru því miklir og því mikilvægt að vinna að því með ítölskum stjórnvöldum að vernda fiskistofnana á svæðinu. Hins vegar sé gert ráð fyrir því að 12 mílna landhelgi Króatíu sé eingöngu fyrir króatíska sjómenn.

Í 2. lagi: Þessi einkaafnot Króata að 12 mílunum (einungis!) eru ekki einu sinni trygg! – sjá neðar!

Í 3. lagi: Ekki aðeins Ítalir, heldur hvaða ESB-þjóð sem er getur nú gengið að króatísku fiskveiðilögsögunni utan 12 mílna. Þar koma Frakkar og Spánverjar helzt til greina, með tugþúsundir atvinnulausra sjómanna og vannýtt fiskiskip. Spánverjum er ekkert að vanbúnaði að sækja innst í Adríahafið, þeir eru við austurströnd Norður-Ameríku, Grænland, Senegal í A-fríku og suður með allri vesturströnd Afríku með sinn mikla flota stórvirkra verksmiðjutogara.

  • En Latin segir að engin trygging sé fyrir því að Króatar sitji einir að 12 mílunum. Ítalskar útgerðir þurfi einungis að semja við króatískan sjómann sem sé reiðubúinn að selja veiðileyfi sitt og hætta sjálfur starfsemi og stofna síðan eigið fyrirtæki í Króatíu. (Mbl.is, áfram byggt á Reuters-fréttinni; leturbr. hér.)

Svo spá þessir vonsviknu menn í, að inn komnir í Evrópusambandið geti þeir reynt að hefja baráttu fyrir hagsmuni króatískra sjómanna á vettvangi þess, "í ljósi sérstakra aðstæðna í Adríahafi"! Og jafnvel þótt það ólíklega gerðist, að smáríkinu tækist að fá samþykkt frávik frá sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB (CFP), þá "kunni það að vera of seint" – skaðinn hafi þá þegar átt sér stað.

En Króatar eru líka raunsærri um sumt en ýmsir ESB-bjartsýnisglóparnir hér á landi:

  • „Það var ekki hægt að ætlast til þess að Evrópusambandið samþykkti okkar lög í viðræðunum,“ segir Kucic. 
Auðvitað ekki – í Evrópusambandinu ríkja nefnilega ESB-lög! Evrópusambandið var ekki að innlimast í Króatíu og lagaverk hennar, heldur öfugt!

 

Hin afleita reynsla af ESB-inntöku Slóveníu fyrir sjávarútveg þar

Slóvenía liggur milli Ítalíu og Króatíu. Á Istria-skaga sem skiptist milli þessara þriggja landa, var sjávarútvegur ábatasamur fyrir einum áratug, en hefur hnignað "vegna verri stöðu fiskistofna og aukinnar skriffinnsku" (Mbl.is.)
  • Hliðstæða sögu segir slóvenski sjómaðurinn Loredano Pugliese sem gerir út frá hafnarborginni Izola. Hann segir að staða sjávarútvegsmála í Slóveníu hafi sífellt orðið verri undanfarin ár en landið gekk í Evrópusambandið árið 2004. Þegar hafi orðið mikill samdráttur í greininni. Izola hafi áður verið þungamiðjan í slóvenskum sjávarútvegi en 30 fiskiskip séu nú gerð út frá borginni samanborið við 400 fyrir áratug. Pugliese segir fiskveiðistjórnun sambandsins einkum bera ábyrgð á þessari þróun. Ef fer sem horfir segir hann enga sjómenn verða eftir á svæðinu og hann óttist að það sama verði raunin í Króatíu. (Mbl.is.) 

Vilja nú ekki ESB-sinnarnir fagna þessum gríðarlegu framförum sem átt hafa sér stað í krafti hinnar hjálpræðislegu ESB-"aðildar" Slóveníu og óska Króötum annarrar eins blessunar?!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Króatískir sjómenn óttast framtíðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beethoven samdi ekki Óðinn til gleðinnar fyrir nýtt stórveldi, ESB

  Eins og fyrri daginn hremma ýmsir algeng tákn og jafnvel listaverk sjálfum sér til hagsbóta eða dýrðar. Það á við um s.k. "þjóðsöng Evrópusambandsins". Beethoven getur farið að snúa sér við í gröfinni, þegar vitnast í æ meiri mæli, hvernig þetta fyrrum einbera tolla- og fríverzlunarbandalag breytist í æ valdfrekara og herskárra stórvelda-valdaapparat sem tekur vitaskuld ekki tillit til allra hinna smáu, hvort sem þeir heita Grikkir, Íslendingar eða Færeyingar.

Af öllum Evrópuþjóðum hefðu þessar tvær síðastnefndu mestu að tapa að gefa upp æðsta fullveldi í sínum löggjafar- og framkvæmdavaldsmálum til þessa bandalags sem eðlilegt er að kenna við gömlu nýlenduveldin í álfunni, enda munu þau hafa þar um 73% atkvæðavægi í hinu volduga ráðherraráði ("ráðinu") og leiðtogaráði Evrópusambandsins frá 1. nóv. 2014, en hin 17 ríkin, saklaus af nýlendustefnu, munu ráða þar um 27% atkvæðavægi! -- og þá dugar hvorki Grikkjum né Króötum að kalla "Elsku mamma!" til Brussel. 

Í Króatíu tókst Evrópusambandinu með massífri áróðursstarfsemi sinni að auka fylgi sitt um 6 til 11% af heildaratkvæðum fram að þjóðaratkvæðagreiðslu á liðnu ári, en áður hafði fylgi þess verið um 55-60% í skoðanakönnunum (66,27% í þjóðaratkvæðinu). Hefðu mótaðilarnir hins vegar haft sambærilega yfirburði í áróðursfé, hefðu úrslitin trúlega orðið mjög jöfn í þjóðaratkvæðinu og jafnvel á hinn veginn, þrátt fyrir að stjórnmálastéttin stæði nánast öll með stórveldinu. Eins og fyrri daginn er þeirri stétt iðulega illa treystandi, eins og við Íslendingar þekkjum engu síður en aðrar þjóðir eftir margföld svik leiðtoga okkar. 

Á hitt skal líka minnt, að gerólík er staða okkar og hinna fátæku Króata -- við höfum hér nánast ekkert að vinna, en gríðarlega miklu að tapa -- einokunar-réttindum okkar til fiskveiða í okkar lögsögu, sem yrði ESB-löndum að leiksoppi og féþúfu, ef menn létu hér narrast yrði inn í Evrópusambandið á þess járnhörðu skilmálum, sem kommissarar framkvæmdarstjórnar ESB -- Olli Rehn, Emma Bonino, Stefan Füle, Damanaki, Barroso -- hafa hver eftir annan ítrekað, að engin varanleg undanþága fáist frá.

 

  Þegar Beethoven, sem ungur hreifst af Napóleon sem 1. konsúl og samdi til hans um 1804-1805 þriðju symfóníu sína, Eroica (Hetjuhljómkviðuna), áttaði sig stuttu síðar á stórveldisdraumum Korsíkumannsins, þá reiddist hann svo, að hann reif tileinkunnina til Napóleons framan af handriti verksins. 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Króatía gengin í Evrópusambandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættið annaðhvort að brosa eða yggla ykkur, ESB-menn!

Uppgerðarjákvæðnin í sendimönnum ESB hingað er engu lík nema öðru eins smjaðri af hálfu pólitískra frambjóðenda fyrir kosningar. Kurteisishjalið er grynnra en harðvítug andstaða þeirra við okkur og Færeyinga vegna fiskveiða í okkar eigin efnahagslögsögu, og þjóðinni má ekki líða úr minni liðveizla Evrópusambandsins við ríkisstjórnir Breta og Hollendinga í ófyrirleitinni, ólögvarinni og ólögmætri aðför þeirra að okkur í Icesave-málinu.

Og svo eru okkur sagðar fagnaðarsögur af Króötum af því tilefni, að land þeirra verður nú hið 28. í ESB, en hinu sleppt að nefna, að þjóðin er ekki einhuga um áhugann á að renna inn í Evrópusambandið. 66,27% greiddu atkvæði með því í þjóðaratkvæðagreiðslu snemma árs 2012, en 33,13% greiddu atkvæði á móti. Þetta var niðurstaðan eftir mikinn kosningaáróður, en frá maí 2011 höfðu skoðanakannanir sýnt 55 til 63% stuðning við "inngöngu í ESB". Þarna hefur miklu ráðið um endanlega útkomu, að bæði stjórnarflokkarnir króatísku og stjórnarandstaðan voru fylgjandi Evrópusambandsinntöku landsins, og fjárráðin voru þeim megin. 

"Þetta er subbulegt!" sagði þjóðhollur maður í símtali til undirritaðs, þegar hann sagði frá því, að nú boði Evrópustofa hátíðarhöld í Iðnó vegna inntöku Króatíu. Allt er nú notað til að auglýsa þetta gráðuga stórveldisbandalag gömlu nýlenduveldanna í Evrópu. "Nú held ég að það ætti að fara að skora á ríkisstjórnina að loka Evrópustofu," sagði sami maður, enda er þetta allt liður í áróðri með ESB-inntöku Íslands. Þeir einir fagna með 230 milljóna króna "Evrópustofu" sem vilja fullveldi Íslands feigt. Gegn þeim þarf baráttan að harðna og sízt að linast. Það er ekkert gagn að ESB-andstæðum atkvæðum fullveldissinna, sem greiddu götu núverandi stjórnarflokka til valdastólanna, ef þeir sömu flokkar hyggjast hafa þetta kvartmilljarðs áróðursapparat í gangi hér áfram.

En Íslendingar skulu einnig minnast þess, að gerólík er staða okkar og hinna fátæku Króata -- við höfum hér nánast ekkert að vinna, en gríðarlega miklu að tapa -- einkaréttindum okkar til fiskveiða í okkar lögsögu, sem yrði ESB-löndum að leiksoppi og féþúfu, ef gengið yrði inn í Evrópusambandið á þess járnhörðu skilmálum, sem kommissarar framkvæmdarstjórnar ESB hafa hver eftir annan ítrekað, að engin varanleg undanþága fáist frá.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Undirbúa hátíð vegna inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veikur forsætisráðherra?

Linur hljómar Sigmundur Davíð í ávarpi sínu, framan af, á fundi þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins í morgun, fundi sem stjórnvöld hér virðast hafa reynt að fela í lengstu lög.* „Hvað varðar viðræðurnar á milli Íslands og Evrópusambandsins teljum við rétt að taka skref til baka og sjá hvert við stefnum áður en lengra er haldið,“ sagði hann, en Ísland legði eftir sem áður áherslu á gott og náið samstarf við sambandið og Evrópuþjóðir eins og verið hefði til þessa. (Mbl.is, skál. hér.)

En svo herðir hann sig upp og sækir í sig veðrið í framhaldinu:

  • Sigmundur rifjaði upp hvernig stofnað var til umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið á sínum tíma. Fyrri ríkisstjórn hafi verið mynduð af stjórnmálaflokkum sem hefðu kynnt ólíka afstöðu til málsins fyrir kosningarnar 2009 en Vinstrihreyfingin - grænt framboð hafi ákveðið að leyfa umsóknina þrátt fyrir þá stefnu sína að hafna inngöngu í sambandið. Ríkisstjórnin hafi síðan kynnt þá stefnu að ekki væri endilega ætlunin að ganga þar inn heldur aðeins að sjá hvað kynni að vera í boði.
  • „Þetta hefur verið kjarninn í umræðum um inngöngu í Evrópusambandið undanfarin fjögur ár. Það hefur verið lítil umræða um hugsanlega kosti og galla þess að ganga í sambandið og hvað það snýst um - hvort það er eitthvað sem Ísland eigi heima í. Umræðan hefur snúist um það hvort við ættum að halda áfram viðræðum um það hvort við fáum eitthvert tilboð frá Evrópusambandinu og sömuleiðis einnig um það hvort innganga í sambandið væri lausn á núverandi stöðu efnahagsmála á Íslandi,“ sagði hann.
  • Sigmundur sagðist vera þeirrar skoðunar, sem og ríkisstjórn hans, að þetta væri ekki rétta nálgunin þegar sótt væri um inngöngu í Evrópusambandið. Líkt og þingmenn á Evrópuþinginu og aðrir fulltrúar Evrópusambandsins og ríkja innan þess hefðu ítrekað vakið máls á þá snerist slík umsókn um það að umsóknarríkið gerðist aðili að því sem sem sambandið byggðist á og fylgdi lögum þess og reglum. Ekki væri um að ræða viðræður um samruna Evrópusambandsins og Íslands á jafnréttisgrunni. (Mbl.is, feitletrun jvj.)

Og hér birtist skýrari stefna Sigmundar en við höfum heyrt síðasta mánuðinn: 

  • „Fyrir vikið tel ég að fara þurfi fram umræða hér á landi um það hvað Evrópusambandið raunverulega snýst um og hvort það sé eitthvað sem Íslendingar vilji verða hluti af eins og það er,“ sagði hann ennfremur. Það væri vitanlega hægt að fá aðlögunarfresti og annað slíkt en ríki sem ætlaði að sækja um inngöngu í sambandið þyrfti að vera skuldbundið til þess að ganga þar inn og fylgja reglum þess og sáttmálum. Sama ætti við um ríkisstjórn slíks ríkis sem þyrfti ennfremur að hafa nauðsynlegan stuðning þjóðarinnar á bak við sig. (Mbl.is.)

En hér eru anti-klímaxar líka, miðað við að Sigmundur Davíð leitaði eftir umboði til þingkosninga með höfnun á Evrópusambandsþátttöku ofarlega á blaði og fekk til þess stuðning með sínum samstarfsflokki, sm hafði á landsfundi samþykkt mjög einarða stefnu um þetta sama mál; samt sagði Sigmundur í morgun (skáletrun jvj): 

  • „Það sem við þurfum að gera á næstu mánuðum er að ræða um hvað Evrópusambandið raunverulega snýst og ákveða síðan hvort við viljum ganga þar inn."

Vorum við ekki búin að ákveða það?! 

En þetta ætlar þó að ganga heldur hraðar en ýmsir höfðu gert sér í hugarlund:

  • "Í kjölfar slíkrar umræðu verður skýrsla lögð fyrir þingið, vonandi í september eða október næsta haust, um viðræðurnar á milli Íslands og sambandsins til þessa og þróun mála innan þess,“ sagði Sigmundur. Evrópusambandið væri jú að ganga í gegnum gríðarlegar breytingar og um það þyrfti að fara fram umræða hér á landi. (Mbl.is og bein ræða ráðherrans.)

En Sigmund Davíð skortir verulega á einurð í þessu innleggi sínu til mála. Hann ætti að taka sér Ásmund Einar Daðason til fyrirmyndar um hreinskilni og einurð í þessu fullveldismáli okkar, sem snýst um að hafna þessu Evrópusambandi, inntöku í það, eins og 70% Íslendinga vilja, þegar þeir eru spurðir beint út í málið, hvort sem þeir hugsa þar til framtíðarvilja síns eða þeir eru spurðir, hvað þeir vilji, "ef kosið yrði í dag". Sigmundur Davíð hefur ekkert nema gott af því að fylgja þeim þjóðarvilja – og stöðva jafnframt IPA-fjárstrauminn og áróðursbatteríið "Evrópustofu" (= tvær Evrópusambands-auglýsingastofur).

* Hvað olli því, að tilkynning um þennan fund þingmannanefndanna kom svo seint fram á vef Alþingis og raun bar vitni? Hvers vegna var þetta ekki í blöðunum fyrir fram? Óttast stjórnvöld mótmæli gegn öllu áframhaldandi samkrulli við Evrópusambandið?!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Pólitískur vilji þarf að vera til staðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilja Danir Ísland í Evrópusambandið?

Frú Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, talar ekki fyrir munn danskra þegna, þegar hún segir "það alltaf [hafa] verið ósk Danmerkur að Ísland gangi í ESB," en þau orð lét hún falla eftir fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra okkar, í dag. Málið hefur aldrei verið borið undir dönsku þjóðina.

Sigmundur kvaðst sjálfur "ánægður með heimsóknina. „Við ræddum Evrópusambandið og stöðu Íslands þar,“ sagði hann. Þau ræddu meðal annars aukna áherslu á norðurslóðamál, norræna samvinnu og vest-norrænt samstarf." (Mbl.is / Ritzau.)

Mörg innfjálg orð eru látin falla á fundum þjóðaleiðtoga. Hér ber að greina hismið frá kjarnanum. Ríkisapparatið er ekki þjóðin. Kjörnir pólitíkusar eru ekki þjóðin. Þjóðin ein er þjóðin.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Danir vilja Ísland í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandið vill fá að vita hvað gera beri við sína Íslandsviðræðustarfsmenn; óhreinskiptni ríkisstjórnarinnar

Aðferð ríkisstjórnarinnar gengur ekki -- að lognmollast til að "setja aðildarviðræður í hlé" -- og hugnast hvorki kjósendum ríkisstjórnarflokkanna né andstæðingum. Engin svör berast, hvort Þorsteini Pálssyni verði sagt upp störfum og öllu "samninga"-nefndarliðinu með honum eða hvort haldið verður áfram að ausa peningum í þá.

En Evrópusambandið vill fá að vita, hvað það sjálft á að gera við sína eigin starfsmenn, sem stóðu í þessu -- hvort þá megi nota til annarra verkefna eða hvort ríkisstjórn Íslands ætli að ljúka þessu "hléi" sínu, eins og hléum lýkur yfirleitt. 

Snýst málið um hugleysi ríkisstjórnarflokkanna, eða toga einhverjir þar í spotta, t.d. síngjarnir sveitarstjórnarmenn sem vilja áframhald IPA-styrkjanna?

Við viljum heiðarlegan ENDI á þessar innlimunarviðræður! 

Jón Valur Jensson. 


mbl.is ESB telur sig þurfa frekari skýringar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frederik Reinfeldt verður ekki kápan úr því klæðinu að blekkja okkur

Sigmundur Davíð forsætisráðherra hitti forsætisráðherra Svíþjóðar, Reinfeldt, að máli í dag, í enn einni heimsókn ESB-sendisveina hingað. Nefndi Reinfeldt, að 9% Svía vilja evru!? eða reyndi hann þegja um þá staðreynd (nýleg er sú skoðanakönnun), og freistaði hann þess í staðinn að agitera fyrir Evrópusambandinu, eins og hann hefur gert í ESB-vænu Silfri Egils, í viðtölum við ráðamenn hér og í fjölmiðlum jafnan?

  • Á fundinum ræddu forsætisráðherrarnir um traust og gott samstarf Íslands og Svíþjóðar, bæði tvíhliða og á alþjóðavettvangi. Einnig var rætt um stöðu efnahagsmála  í Evrópu og stöðu evrusvæðisins, en Svíar standa utan evrusamstarfsins, þó sænska krónan sé tengd gengi evrunnar. Jafnframt var rætt um áherslur á alþjóðavettvangi, m.a. hlé á viðræðum við Evrópusambandið, aukna áherslu á Norðurslóðamál, norræna samvinnu og vest-norrænt samstarf. (Mbl.is.)

En það er sama hvað Reinfeldt reynir og reynir, honum verður ekki kápan úr því klæðinu að kasta ryki í augu okkar -- og ekki heldur um evruna! Nægir eru vitnisburðirnir úr Evrópusambandinu sjálfu, bæði í fréttum af viðhorfum heilla þjóða þar og af ummælum fræðimanna, eins sjá brátt má sjá hér.

Engin skandinavísku landanna hafa tekið upp evruna – Svíar höfnuðu því árið 2003 í þjóðaratkvæðagreiðslu með 56 prósentum atkvæða, og nú er fylgið við upptöku hennar sem sagt hrokkið niður í 9%! Ennfremur hafa Bretar engan áhuga á henni – hvers vegna skyldum við hafa það? Atvinnuleysið er nær þrefalt meira á evrusvæðinu en hér.

Lengi hefur verið reynt að narra okkur til að elta Eista, Letta og Litháa inn í Evrópusambandið (þjóðir sem höfðu þó litlu sem engu að tapa í fiskveiðimálum og eru því alls ekki sambærilegar við okkur, enda stendur þeim ógn af rússneskum stórveldissinnum). En ekki bendir þetta til mikillar hrifningar meðal nefndra þjóða af evrunniMikill meirihluti Letta andvígur upptöku evru -- þ.e.a.s. 62% þeirra! (36% vilja taka hana upp). Þeir eru samt "skuldbundnir til að taka hana upp samkvæmt aðildarsamningi sínum við Evrópusambandið. Ekki er gert ráð fyrir þjóðaratkvæði um evruna." Þjóðin fær sem sagt engu að ráða um málið!

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefði gjarna mátt spyrja Reinfeldt þenna: "Vilt þú, herra minn, að íslenzka þjóðin verði neydd til að taka upp þessa evru, sem þínir eigin landsmenn hafna þó svo eindregið?!"

Sjá einnig þessar áhugaverðu greinar:

Skandínavísku þjóðirnar hafa hafnað evrunni

Portúgalar eru áhugasamir um hvernig hægt sé að losna við evruna

Svíar sömdu um undanþágu frá evrunni (Gústaf Adolf Skúlason 20. maí sl.; hann hefur lengi verið búsettur í Svíþjóð og hefur auk bloggvefja ritað fjölda greina í Morgunblaðið).

Evran hrikalegustu mistök heimsins að mati leiðandi sænsks krata. Íslenskir ESB-sinnar út úr hól við umræður meginlandsins. (Gústaf Adolf Skúlason 7/5.)

Tilraunin með evruna að mistakast segir Nóbelsverðlaunahafi.

Þjóðaratkvæði um úrsögn Ítalíu og Bretlands úr Evrópusambandinu?

Meirihluti Breta vill yfirgefa ESB.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Ráðherrar ræddu skattamál og ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjávarútvegur er 100% á valdi ESB

Hressilega er tekið á boðskap dansks sendimanns um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins í Staksteinum Morgunblaðsins (sjá einnig afar upplýsandi fréttarfrásögn, viðtengda hér neðar):

Vegna þess hvernig áróðurinn hefur verið hér á landi kemur sennilega ýmsum á óvart hvernig Ole Poulsen, fyrrverandi sviðsstjóri sjávarútvegsmála í danska stjórnarráðinu, talaði á fundi Alþjóðamálastofnunar HÍ.

Að vísu þurfti ekki að koma neinum á óvart að hann hljómaði sem talsmaður Evrópusambandsins og stefnu þess í sjávarútvegsmálum, en annað mál er hvernig hann útskýrði stefnuna.

Ole Poulsen dró enga dul á það hver réði ferðinni í sjávarútvegsmálum innan ESB: „Það er ljóst að sjávarútvegur er 100% á valdsviði Evrópusambandsins,“ sagði hann, en ekki á valdi einstakra ríkja.

Og hann benti á, þegar hann var spurður að því hvort Ísland gæti fengið varanlegar undanþágur frá sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni, að það yrði „yfirþjóðleg lagasetning innan Evrópusambandsins, það er ljóst“. Sem sagt engin varanleg undanþága.

Hann var einnig spurður út í regluna um hlutfallslegan stöðugleika, sem oft hefur verið sögð til marks um að Íslendingar hefðu ekkert að óttast með aðild, og staðfesti að hægt væri að breyta henni með auknum meirihluta innan ESB.

Augljóst var af orðum danska sérfræðingsins að ríki innan ESB ráða engu um sjávarútveg sinn nema ef ESB leyfir og að slíkt leyfi getur alltaf verið tekið til baka. Hvers vegna geta íslenskir ESB-sinnar ekki viðurkennt svona staðreyndir? 

Það væri betur, að ýmsir, sem setið hafa á Alþingi síðustu ár, væru jafn-skýrir í kollinum og ritstjórarnir uppi í Hádegismóum. Pistillinn birtist sl. laugardag.

JVJ.


mbl.is Valdið hjá Evrópusambandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftir harkalegar aðgerðir ESB gegn okkur í Icesave-málinu þurfum við sízt á fleiri hótunum að halda. Um 17. júní-ræðu forsætisráðherra

Hugmyndin um fullveldi byggist á því að menn trúi því raunverulega að íslensku þjóðinni farnist best þegar hún ræður sér sjálf og hefur full yfirráð yfir auðlindum sínum og örlög sín í eigin höndum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í 17. júní-ræðu sinni í morgun.

Við mættum aldrei missa þá sannfæringu að trúa því að Ísland ætti að vera sjálfstætt land, sagði hann.

Hann gekk nokkuð til móts við ESB-sinnana með þeim orðum, að við þyrftum einnig að virða afstöðu þeirra, sem velta því fyrir sér, hvort aðild að Evrópusambandinu myndi styrkja stöðu Íslands (hvað er svona virðingarvert við þá röngu afstöðu? – annað má segja um samvizkufrelsi manna til að leita sannleikans, hver með sínum ófullkomna hætti), en hann bætti því við, að við gætum verið sammála um að nú þyrfti sambandið að sanna sig gagnvart Íslandi, og það eru orð að sönnu, því að svo hrapallega hefur þetta stórveldabandalag gamalla nýlenduvelda brugðizt okkur Íslendingum, eins og svo skýrt kom fram í ræðu Sigmundar:

„ESB tók þátt í tilraunum til að þvinga Íslendinga til að taka á sig gríðarlegar efnahagslegar byrðar í andstöðu við lög og braut svo blað í sögu sinni til að taka þátt í málaferlum gegn Íslandi. Nú þarf ESB að sýna að það sé samband sem byggi á lögum og jafnræði en ekki valdi í krafti stærðar og hagsmuna hinna stóru.“

Þar, eftir upprifjun Icesave-málsins, var hann að vísa til makrílmálsins, en eins og kunnugt er, hefur Evrópusambandið endurnýjað hótanir sínar í okkar garð og þolir ekki að Íslendingar veiði 16% af aflanum í NA-Atlantshafi, þótt sjálft ætli það sér og Norðmönnum margfalt meira!

Hann sagði að í ljósi umræðunnar um áhrif aðildar Íslands að ESB hlytu Íslendingar að líta til þess hvort Evrópusambandið myndi sýna Íslendingum aukna sanngirni í deilum um fiskveiðar í eigin lögsögu. „Það að beita smáþjóð ólögmætum refsiaðgerðum fyrir að veiða fisk samkvæmt vísindalegum viðmiðum í eigin lögsögu á sama tíma og stærri þjóðir veiða úr sama stofni óáreittar myndi varla boða gott um sameiginlega fiskveiðistefnu,“ sagði Sigmundur Davíð réttilega. Það er gott að hafa þennan einarða hug lykilmanns til varnar þjóðarhagsmunum á næstu mánuðum.

  • Eðlilegt að forseti Íslands tjái sig um fullveldið
  • Sigmundur Davíð vitnaði til ræðu forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, við setningu þingsins fyrr í þessum mánuði, þar sem hann ræddi stöðu Íslands gegn Evrópusambandinu.
  • „Það hefðu líklega fáir trúað því árið 1944 – eða 1994, að síðar yrði leitað til sérfræðinga til að spyrja hvort það heyrði undir viðeigandi umræðuefni fyrir forseta Íslands að tjá sig um fullveldi landsins. Sem betur fer var ekkert út á mat sérfræðinganna að setja en það kom þó ekki í veg fyrir að þeir sem eru viðkvæmir fyrir umræðuefninu túlkuðu það áfram á sinn hátt.“ (Mbl.is.)

„Íslendingar ... hafa löngum verið sjálfstæðir í hugsun og þolað illa yfirvald, hvað þá kúgun. Það sýndi sig vel í ICESAVE-deilunni þar sem þjóðin felldi samkomulag sem hún taldi ósanngjarnt. Alþjóðlegur dómstóll staðfesti síðan þessa niðurstöðu sem sýndi að réttlætistilfinning þjóðarinnar var góður vegvísir.“

  • Í ræðu sinni kom Sigmund Davíð inná aðgerðir fyrir íslensk heimili. Hann sagði að við myndum ekki láta alþjóðastofnun segja okkur að ekki sé hægt að gera meira fyrir íslensk heimili um leið og við værum minnt á mikilvægi þess að ljúka uppgjöri efnahagshrunsins. (Mbl.is.)

Í meginatriðum er þessi ræða forsætisráðherra verðug upprifjun á nauðsyn þjóðar til að ráða sér sjálf og hafa "full yfirráð yfir auðlindum sínum og örlög sín í eigin höndum," eins og hann sjálfur kvað að orði.

Menn taka almennt vel og jafnvel fagnandi þessari hátíðarræðu ráðherrans.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Evrópusambandið þarf að sanna sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband