Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.5.2012 | 03:43
Austurrískur lögfræðingur: Framkvæmdastjórn ESB myndi líklega ÓGILDA tvíhliða viðskiptasamninga Íslands við lönd utan ESB
Þetta kom fram í erindi hans, Niklas Maydell, á opnum fundi Lagastofnunar Háskóla Íslands á fimmtudag. Fréttablaðið sagði frá (sjá hér).
- Maydell benti á að með gildistöku Lissabon-sáttmálans 2009 hefði vald yfir gerð tvíhliða viðskiptasamninga færst frá aðildarríkjunum til leiðtogaráðs ESB. Íslensk stjórnvöld gætu því eftir inngöngu ekki gert slíka samninga við önnur ríki nema í gegnum ESB ...
- Þar sem Ísland hefði ... ekki verið í ESB fyrir gildistöku Lissabon-sáttmálans væri líklegt að framkvæmdastjórn ESB myndi ógilda viðskiptasamninga Íslands eftir aðild nema samið yrði um annað í aðildarviðræðunum.
Það er eins gott að menn hafi þetta á hreinu. --JVJ.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2012 | 20:19
Ólögleg Evrópusambandsáróðursstofa opnuð á Akureyri
Þetta gerðist í dag. Undarlegt er, að hún fái inni í Norrænu upplýsinga-skrifstofunni á Akureyri og að formaður Norræna félagsins á Íslandi, stjórnarformaður Norrænu upplýsingaskrifstofunnar, taki þátt í því að klippa á borða í tilefni opnunarinnar, ásamt Timo Summa, þeim sendiherra ESB á Íslandi, sem þegar hefur sætt harðri, réttmætri gagnrýni vegna áróðursferða sinna um Ísland í trássi við alþjóðareglur um skyldur sendiráða.*
Norræna félagið á Íslandi á að vera hlutlaust, ekki hlutdrægt gegn fullveldi okkar. Væri ekki minnt á þetta hér á þessum vef okkar með vefslóðina fullveldi.blog.is, stæði hann illa undir nafni.
- Í fréttatilkynningu kemur fram að þar muni gestir hafa aðgang að upplýsingaefni, bæði almennu kynningarefni sem og fræðilegum bókakosti um ESB, ásamt því sem fólki stendur til boða að setjast niður við tölvu og sækja sér upplýsingar um ESB og starfsemi þess á vefnum.
Það er enginn vegur fyrir Evrópusambandið að reyna að telja Íslendingum trú um, að hin rangnefnda** "Evrópustofa" hafi það efst á blaði að vera með nauðsynlegar, hlutlægar upplýsingar fyrir almenning um "kosti og galla" Evrópusambandsins. Þar verður það ekki haft áberandi, jafnvel ekki sýnilegt, sem mælir eindregið gegn "Evrópusambandsaðild". Eða hver ímyndar sér, að meðal þess fyrsta, sem menn reki þar augun í, verði þetta:
- Ísland verður svipt sjálfsforræði með "aðildinni";
- Esb. tekur sér alræðisvald yfir fiskveiðilögsögu milli 12 og 200 mílna;
- Ísland fengi 0,06% atkvæðavægi í leiðtogaráði Evrópusambandsins og í hinu volduga ráðherraráði þess, sem m.a. hefur æðsta löggjafarvald í sjávarútvegsmálum;
- Ísland gæti ekki neitað að taka upp nein lög frá ESB, jafnvel ekki þeim, sem væru í mótsögn við stjórnarskrá okkar -- fyrr myndi sjálf stjórnarskráin gefa eftir!
- Jafnvel þetta síðastnefnda atriði kemur skýrt fram í þeim ábyggilega "aðildarsamningi" sem þegar liggur fyrir og verður í öllum aðalatriðum fyrirmynd þess, sem gerður verður við hina pólitískt skipuðu "samninganefnd Íslands" í umboði ráðherra. Samt er stöðugt reynt að láta eins og "aðildarsamningurinn" sé einhver óráðin framtíðarsmíð og að menn geti gert sér vonir um eitthvað óvænt og yndislegt!
Og þetta eru bara nokkur meginatriði af mörgum, sem Timo Summa "gleymir" víst að segja frá á ferðum sínum um landið! Þeim mun frekar verður þagað um þetta í "Evrópustofunum" báðum.
Í gangi eru tvær kærur vegna ólöglegrar áróðursstarfsemi Evrópusambandsins á Íslandi. Við munum bráðlega upplýsa um stöðu þeirra mála.
* Sbr. hér:
** Ísland, Noregur, Sviss, Georgía, Úkraína, Azerbaídsjan og Rússland eru í Evrópu ekkert síður en Evrópusambandið! Þetta síðastnefnda nær ekki yfir nema 42,5% af Evrópu, 43% þegar Króatía er komin inn!
Jón Valur Jensson.
![]() |
Evrópustofa opnuð á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.5.2012 kl. 04:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2012 | 13:15
Refjastjórnmál - og fullveldið sjálft í húfi
Hættuleg stefna stjórnvalda hér, a.m.k. Samfylkingar, um fullveldisframsal í hendurnar á Brusselvaldinu, afhjúpaðist í orðum Össurar Skarphéðinssonar í Fréttablaðinu í dag, og ritstjórinn þar er sama ESB-sinnis. Nú sjá þeir tækifæri til að læða fullveldisframsalsákvæði inn í stjórnarskrána til þess, í orði kveðnu, að liðka fyrir viðtöku EES-reglugerðar á fjármálasviði, en til þess virðist leikurinn gerður að afnema stjórnarskrárvarnir okkar gegn snöggri inntöku (innlimun) í Evrópusambandið.
Um þetta mál var fjallað hér í ýtarlegri grein í nótt: Þetta er stóra málið: við viljum ekki fullveldisframsal til Evrópusambandsins.
Já, nú er reynt að fara þessa leiðina til að mæla með hinum fráleitu fullveldisframsals-ákvæðum í s.k. drögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, en það ráð var skipað í óleyfi og þvert gegn bæði almennum kosningalögum, lögum um stjórnlagaþing og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
Í fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun innti enginn þingmaður - og enginn úr stjórnarandstöðunni! - eftir þessu endemismáli, þ.e. þeirri herskáu stefnu utanríkisráðherrans að vilja afnema fullveldisvarnir stjórnarskrárinnar.
Jón Valur Jensson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gríðarlegt vald yrði falið "sameiginlegu fjármálaeftirliti ESB hér á landi" (m.a. að banna Kaupþing og lífeyrissjóðina!) ef ný reglugerð ESB kæmust hér á gegnum EES-leiðina, en er ÓLÖGLEGT skv. stjórnarskránni. Hún heimilar EKKI slíkt framsal valds til stofnana á vegum Evrópusambandsins.
Frétt um þetta mál í Sjónvarpinu á fimmtudagskvöldi vakti suma, ekki alla, upp af dvalanum. Þetta mál í hugum ESB-hneigðra knýr á um þá breytingu á stjórnarskrá Íslands, sem þá virðist dreyma um: að leyfa slíkt framsal fullveldis okkar -- og yrði það þó bara partur af því fullveldisframsali, sem gerast myndi með raunverulegri "aðild" að Evrópusambandinu : þar væri verið að framselja til ríkjasambandsins öllu æðsta löggjafarvalds-fullveldi, sem og fullveldisrétti okkar yfir fiskimiðum okkar, a.m.k. utan 12 mílna, yfir efnahagslögsögunni raunar og æðsta stjórnvaldi yfir öllum sjávarútvegsmálum, allt frá hvölum niður í möskvastærð neta og nýtingu átunnar hér við land, ljósátu og minnstu seiða.
Við í Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland erum andvíg afsali æðsta löggjafarvalds í hendur annarra ríkja eða ríkjasambanda. Það merkir þá jafnframt, að við tökum afstöðu gegn því að breyta stjórnarskránni í þágu fullveldisafsals í annarra hendur en þeirra sem byggja þetta land.
Hér er, ef að er gáð, bezta þekkingin á því sem okkur kemur vel og hentar lífsháttum okkar, hvort sem um fiskveiðar, stýringu veiða úr öðrum villtum stofnum eða um aðra hluti er að ræða sem varða sjálfa stjórn okkar á landinu. Orð, sem Jón Sigurðsson lét falla í þessa átt, eiga eins vel við nú og þá.
En aftur að fréttinni. Nú hefur utanríkisráðuneytið fengið það staðfest eftir grandgæfilega skoðun tveggja lagaprófessora, Stefáns Más Stefánssonar og Bjargar Thorarensen, að ef þessar reglur í nýju ESB-reglugerðinni yrðu innleiddar hér á landi óbreyttar, "yrði gengið lengra í framsali framkvæmdavalds og dómsvalds en talið er að heimilt sé samkvæmt stjórnarskránni."
Samkvæmt þessu er bannað að innfæra þessar reglur hér. En Evrópusambandið hefur ekki þegið einhverjar framboðnar málamiðlunartillögur á vegum íslenzkra og norskra stjórnvalda, heldur ætlast til þess að Íslendingar og Norðmenn lögtaki þetta eins og ekkert sé!
Það sama gæti átt við um nýja innistæðutilskipun ESB, sem myndi nær fimmfalda tryggingu innistæðna (hækka trygginguna úr 20.887 evrum upp í 100.000, stytta ennfremur útgreiðslutíma tryggingarinnar og leggja hana beinlínis á herðar ríkisins í hverju tilviki!).
Það er því eðlilega komið að krossgötum hér. Utanríkisráðherrann benti á það í frétt Sjónvarpsins, að hér væri tvennt til: annaðhvort að breyta stjórnarskránni til að leyfa fullveldisframsal eða að færa okkur úr úr EES-samningskerfinu. Margt bendir til, að einnig Norðmenn verði brátt að íhuga seinni kostinn. Ýmsir óttast hann þó, þ.e. uppsögn EES-samningsins, en gleyma því þá gjarnan, að í gildi er tolla- og fríverzlunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins.
Þetta er málefni, sem full nauðsyn er nú að ræða í framhaldinu. Vonandi hafa alvarlega þenkjandi menn bara haft gott af því að fá þessa viðvörun: að hætta steðjar nú að varnarákvæðum stjórnarskrárinnar, þeim sem sett voru í þágu fullveldis okkar.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Reglugerðin ósamrýmanleg stjórnarskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2012 | 11:12
Fer forsætisráðherra Íslands með ósannindi um stöðu ESB-mála?
Því er blákalt haldið fram í leiðara Mbl. Fari blaðið rétt með, er það vitaskuld alvarlegt mál. Á Alþingi sagði Jóhanna
- kannanir hafa "sveiflast mjög frá því að lögð var inn aðildarumsókn" og að fylgið sé "nokkuð lítið núna". Hún sagði að skýringarnar "liggi nokkuð ljósar fyrir" og nefndi makríldeilu og meðalgöngu ESB vegna Icesave-málsins í því sambandi. Þar að auki hafi staðan í Evrópu "á umliðnum vikum og mánuðum" haft áhrif en það sé vonandi tímabundið. "Ég hygg því að bakslagið sé tímabundið að því er varðar þessa skoðanakönnun," sagði Jóhanna. (Tilvitnun hér úr leiðara Morgunblaðsins í dag: Ósannindi um stuðning.)
Er þetta rétt hjá henni? Er hér um stutt eða tímabundið "bakslag" að ræða frá "fylgi" við ESB-umsókn flokks hennar og Vinstri grænna? Fjarri fer því. ALDREI hefur verið meirihlutastuðningur við "aðild" náð meirihlutafylgi í tíð þessarar ríkisstjórnar, sem þó hefur barizt fyrir þessu máli nánast frá fyrstu tíð og nýtur til þess stuðnings voldugra fjölmiðla (rétt eins og í sínu Icesave-máli) og nú síðast beinnar áróðursfjárveitingar frá Evrópusambandinu, sem veitr heilum 230 milljónum til "kynningarstarfs" í gegnum Athygli hf. og tvær svokallaðar "Evrópustofur", í Reykjavík og á Akureyri.*
Upplýsingar, sem staðfesta MEIRIHLUTASANDSTÖÐU við "aðild" allt frá upphafi umsóknarinnar verða birtar hér sundurliðaðar á þessu vefsetri í annarri grein innan tíðar.
Ofangreind ummæli lét Jóhanna Sigurðardóttir falla í liðinni viku í svari við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, en hann hafði spurt hana þar um afstöðuna til aðildarumsóknar "í ljósi vilja þjóðarinnar,"og vísaði hann til nýlegrar, vandaðrar skoðanakönnunar, þar sem fram kom, að meirihluti var á móti aðild, en einungis 27,5% fylgjandi henni."
Hvetja ber alla til að lesa þennan leiðara Morgunblaðsins í dag, Ósannindi um stuðning, bls. 20. Þótt ekki sé hann langur, fær svar Jóhönnu þar eins afgerandi röklega hrakningu eins og verða má. Svar hennar er í raun "fjarstæða" (orð leiðarahöfundar, studd gildum rökum), og hún "hlýtur að vita betur" í raun og veru. Engar umtalsverðar sveiflur hafa verið á andstöðu þjóðarinnar við inngöngu í Evrópusambandið, og þar þurfti hvorki makrílmál né aðild ESB að lögsókn á hendur okkur fyrir EFTA-dómstólnum til, og það væri réttast að Jóhanna viðurkenndi með "ísköldu mati" í stað þess að fara með ósannindi, eins og hún gerði á sjálfu Alþingi í svari sínu. Eða er málinu kannski þannig farið, eins og segir í lok leiðarans: "Er staða umsóknarinnar svo veik að hún þoli ekki að sannleikurinn komi fram?"?
* Síðarnefnda "Evrópustofan" var opnuð nú í kringum 1. maí, á sama tíma og ESB hleypti hér af stokkunum vikulöngum hátíðahöldum á s.k. þjóðhátíðardegi Evrópusambandsins. Í sjálfum ESB-löndunum tíðkast aðeins að halda upp á þetta einn dag á ári. Greinilega þykir Brusselmönnum ekki af því veita að herða sig hér, með mikinn meirihluta þjóðarinnar á móti aðild Íslands að þessari stórveldisviðleitni, en aðeins 27,5% með!
Jón Valur Jensson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2012 | 14:10
ESB með lagabrot gegn Íslandi - segir hver?!
Munar Evrópusambandið ekkert um að brjóta alþjóðalög, þ. á m. EES-samninginn? En fullyrðir það einhver? Jú, nú síðast sjálft utanríkisráðuneyti Íslands! (sjá fréttartengil).
- Evrópuþingið hefur verið með til umfjöllunar tillögu framkvæmdastjórnarinnar um reglugerð sem heimili ESB að beita viðskiptaaðgerðum gegn ríkjum sem stundi ósjálfbærar fiskveiðar að þess mati. [Svo!]
- "Í meðförum þingsins hefur ákvæðum tillögunnar verið breytt þannig að þau ganga í berhögg við EES-samninginn. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað lýst yfir áhyggjum vegna þessara breytingatillagna og komið á framfæri mótmælum bæði munnlega og skriflega við sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins, framkvæmdastjórn ESB og við aðildarríki þess," segir m.a. í yfirlýsingu ráðuneytisins. (Mbl.is var með fréttina.)
Verður óhamingju Evrópusambandsins á Íslandi allt að vopni? Jafnvel tryggasti vinur þess, utanríkisráðherrann úr Samfylkingunni, sér sig tilneyddan til að snupra eina aðalstofnun Evrópusambandsins, þá sem næst kemst því að vera lýðræðislega valin.
Í yfirlýsingunni, sem er á ensku,* beinir ráðuneytið því til Evrópusambandsins "að það virði í hvívetna alþjóðlegar skuldbindingar sínar við ákvarðanir og beitingu viðskiptaaðgerða af þessu tagi. Sérstaklega er vísað til ákvæða bókunar 9 í EES samningnum sem banna allar viðskiptaaðgerðir sem ganga lengra en löndunarbann á fiski úr sameiginlegum stofnum em deilur standa um ..." (Mbl.is).
Evrópusambandið hefur löngum horft í gegnum fingur sér við lagabrot stóru ríkjanna innan þess, t.d. vegna fjárlagahalla hjá Frökkum og Þjóðverjum, en beitir svo þeim reglum hart gegn smærri ríkjunum. Öllu verra er hitt, að sambandið fremji lögbrot gegn smáþjóðum. Það væri þá reyndar ekki í fyrsta sinn gagnvart Íslandi.
- Í Icesave-málinu virðist ESB ekki geta virt eigin tilskipun 94/19/EC og hefur því farið í mál við Ísland fyrir EFTA-dómstólnum!
- Með starfsemi "Evrópustofu" og 230 milljóna fjáraustri hingað í s.k. kynningarstarfsemi er Evrópusambandið að brjóta Vínarsáttmálann um skyldur sendiráða og ríkja, eins og Tómas Ingi Olrich hefur upplýst í merkri grein sinni nýlega.
Vekja ber athygli á mjög góðri grein, nýbirtri hér, eftir Gústaf Skúlason, varaformann Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland: Ætla Íslendingar að innleiða fiskveiðistefnu ESB?
* Statement by Iceland at the EEA Joint Committee 30 April 2012.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Reglugerð brýtur gegn alþjóðalögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2012 | 20:35
Ætla Íslendingar að innleiða fiskveiðistefnu ESB?
Gústaf Skúlason ritar:
Fiskveiðistefna ESB hefur leitt til ofveiði á 72 % og útrýmingarhættu 20 % fiskistofna í vötnum ESB. Á 14 ára tímabili hefur afli ESB minnkað um 30 % og dugir einungis fyrir helming fiskneyslu íbúanna. ESB verður sífellt háðara fisk annarra og innflutningi sjávarafurða. Fiskveiðistefna ESB hefur eyðilagt sjávarútveg í mörgum löndum og kostar skattgreiðendur milljarða evra árlega. T.d. er sjávarútvegur Bretlands ekki svipur hjá sjón með fækkun starfa um 70 - 80 %. Í sumum tilvikum er fimm sinnum magni þess afla kastað, sem komið er með að landi, sem vakið hefur gífurlega reiði almennings (sbr. fishfight.net). Á Norðursjó er helmingi aflans um einni milljón tonna af príma þorsk og ýsu fleygt dauðum í hafið vegna stefnu ESB. Áframhaldandi gegndarlaus ofveiði og útrýming á fiskistofnum heims mun að mati ýmissa vísindamanna leiða til hruns arðbærra fiskveiða fyrir árið 2048.
En ríkisstjórnin heldur áfram að draga þjóðina á asnaeyrum með því að aðlaga Ísland að ESB á meðan þjóðinni er sagt að bíða og sjá, hvað kemur úr pakkanum. Með því að taka stóran hluta kvótans eignaupptöku og færa í hendur stjórnmálamanna til að koma á réttlátari skiptingu gróðans, er ríkisstjórnin að hrifsa til sín farsæla stjórn greinarinnar frá útvegs- og sjómönnum. 70% skattur á hagnað útgerðarinnar kippir endanlega rekstrargrundvelli undan íslenskum sjávarútvegi og þá fær ríkisstjórnin vilja sínum framgengt að aðlaga atvinnugreinina að stjórnar- og styrkjakerfi ESB. Þar með gerir ríkisstjórnin ESB-heimavinnuna sína áður en kaflinn um sjávarútveginn verður opnaður og grundvöllurinn lagður að yfirtöku ESB á aðalauðlind Íslands fiskmiðunum. Innleiðing evrunnar mundi síðan útrýma því, sem eftir væri af sveigjanleika og samkeppnishæfni greinarinnar og dauðadómur yfir fjöreggi þjóðarinnar endanlega staðfestur.
Ég hef áður í greinum í MBL (Ásælni ESB í fisk annarra landa 1. sept. 2010 og Hver gefur ESB undanþágu frá ofveiði og útrýmingu fiskistofna 23. ágúst. 2011) gert grein fyrir rannsóknum og niðurstöðum NEF (New Economic Foundation, neweconomics.org), sem gefið hefur út skýrslur um ofveiðar ESB. Með því að reikna út ofveiðar í heiminum og bera saman við aflaverðmæti í ESB hefur NEF komist að þeirri niðurstöðu, að ESB gæti aukið afla sinn um 3,53 milljónir tonna árlega með því að hætta ofveiðum og taka upp ábyrgar fiskveiðar. Mundi aflinn þá duga fyrir ársþörf íbúanna og ESB verða sjálfu sér nógt í stað þess að verða sífellt háðara öðrum. Með því að rækta upp sjálfbæra fiskstofna með ábyrgum veiðum eins og gert er á Íslandi, gæti viðbótaraflinn aukið fiskveiðitekjur ESB mótsvarandi 3,19 milljörðum evra. Það er fimm sinnum hærri upphæð en árlegir styrkir ESB til greinarinnar. Færi ESB að ráðum íslenskra útvegsmanna gæti ESB því skapað yfir 32 þús. ný störf við veiðarnar og að auki 69 þús. störf við fiskvinnslustöðvar eða samtals yfir 100 þús. ný störf. Mundi ekki veita af því hjá ríkjasambandi með íbúafjölda mótsvarandi 75 Íslöndum opinberlega á atvinnuleysisskrá.
En þannig hugsa ekki óábyrgir stjórnmálamenn, sem ríghalda í stórveldadraum og misheppnaðan gjaldmiðil og láta sig raunveruleikann engu skipta. Þjóðin hefur áður leiðbeint ráðvilltum stjórnmálamönnum en nú þarf annað að koma til, því ríkisstjórnin er hreint ekkert ráðvillt í því markmiði sínu að eyðileggja lýðveldið Ísland og leggja fjöregg þjóðarinnar í líkkistuna í Brussel. Þar sem spádómurinn um Kúbu norðursins vill ekki rætast reynir íslenska ríkisstjórnin allt til að koma þjóðinni á þann stað. Vandamálið er hins vegar, að ástandið í mörgum evruríkjum er orðið það slæmt, að Kúba raunveruleikans verður að gósenlandi í samanburði. Núna þarf þjóðin að snúa bökum saman með þeim þingmönnum, sem sýnt hafa, að þeir standi við gefið drengskaparheit að fylgja stjórnarskránni en krefjast reikningsskila við hina. Þingmenn meirihlutans, sem í tvígang hafa fengið vottorð Hæstaréttar um stjórnarskrárbrot, eru búnir að fyrirgera rétti sínum til þingsetu með broti á þingskapareið sínum.
ESB þarf á gjöfulum fiskimiðum Íslendinga að halda til að mæta sífellt minni fiskveiðum á eigin miðum. Fiskveiðistefna ESB leiðir að mati ýmissa haffræðinga til hruns arðbærra fiskveiða eftir u.þ.b. 30-40 ár. Hvaða þingmenn á Alþingi vilja leiða þetta brjálæðisskipbrot yfir þjóðina í nafni ESB draumsins?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.5.2012 kl. 03:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2012 | 02:38
Fullyrðingar Samfylkingarmanna um klofna afstöðu sjálfstæðismanna til ESB eru tilefni fyrir þá fyrrnefndu til að skoða sjálfa sig í spegli
Einungis 10,2% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru hlynnt inngöngu í ESB skv. skoðanakönnun, en þegar litið er til Samfylkingar, eru 12,3% mótfallin inngöngu. 73,8% kjósenda Samfylkingarinnar eru hlynnt því að Ísland gangi í ESB, en 77% sjálfstæðismanna eru því andvígir.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn er sagur klofinn í þessu máli, þá ætti það miklu fremur að segjast um Samfylkinguna!
Grasrótin í Sjálfstæðisflokknum er einarðari í þessu máli en í nokkrum öðrum flokki sem nú er á þingi. Annað mál er, að forystan í Valhöll lætur ekki nógu vel að stjórn flokksmanna og er enn með all-lina afstöðu í ESB-málinu, eins og greina mátti á tali Bjarna Benediktssonar í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi. Þá eru hreinni línur hjá Guðmundi Franklín Jónssyni í Hægri grænum í andstöðunni við Evrópusambands-inngöngu. En þvílík er andstaðan við hana í Sjálfstæðisflokknum, að það á vel að vera unnt að setja þar traustan fullveldissinna á formannsstól eða ætlast til skeleggari afstöðu núverandi formanns. Hann hefði yfirgnæfandi fjölda fylgismanna flokksins með sér í því máli.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Mest andstaða hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2012 | 13:59
Manuel Hinds telur upptöku Bandaríkjadals álitlegan kost, en ekki upptöku evrunnar
Manuel Hinds, ráðgjafi stjórnvalda í El Salvador, var í Silfri Egils í dag og VARAÐI Íslendinga við upptöku evru vegna fylgifiska hennar, þ.e. vegna þess tröllaukna reglukerfis sem myndi fylgja. Íslendingar hafi búið við mjög frjálst (liberal) efnahagskerfi, jafnvel á tíma vinstri stjórna, en þarna yrði breyting á, ef samið yrði við Evrópusambandið.
Á fundi VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, í fyrradag (sjá tengil neðar) taldi hann raunhæfan kost fyrir Ísland að taka einhliða upp Bandaríkjadal. "Hann segir það ekki rétt sem haldið hefur verið fram að það kosti mikla fjármuni að stíga slíkt skref" (Mbl.is) og sagði í Silfrinu í dag, að jafnvel þótt Bernake í Bandaríkjunum legðist gegn einhliða upptöku dollarans hér, hefði það ekkert að segja, því að svo mikið magn sé af Bandaríkjadal í umferð í heiminum og því auðvelt fyrir okkur að fá lán í þeirri mynt.
Við fjöllum e.t.v. nánar um þetta mál hér í annarri grein -- og bjóðum velkomnar allar umræður um það -- og ekki má taka þetta frétta-viðbragð til marks um afstöðu Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland (fullveldi.blog.is) til gjaldeyrismála. Við höfum ekki tekið neina afstöðu í þeim málum og ýmsir félagsmanna sennilega fylgjandi því, að við höldum áfram með krónuna; í hópi þeirra er t.d. undirritaður.
Jón Valur Jensson.
![]() |
Telur einhliða upptöku færa leið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2012 | 13:59
Evrópusambandið heldur áfram að auka tekjur sínar ár frá ári þótt ársreikningar séu ekki endurskoðaðir!
- "Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur óskað eftir því að fjárframlög til þess á árinu 2013 verði aukin um 6,8% frá því sem nú er á þeim forsendum að aukið fjármagn þurfi frá ríkjum sambandsins til þess að standa við ýmsar skuldbindingar sem framkvæmdastjórnin þurfi að standa við."
Svo segir hér í frétt á Mbl.is. Þetta er á ská og skjön við stefnu ESB um niðurskurð á fjárlögum meðlimaríkjanna. Og ekki eykur það tiltrúna, að ársreikningar ESB hafa ekki fengizt endurskoðaðir síðustu 14 árin.
- Ýmis ríki ESB hafa ítrekað hvatt framkvæmdastjórnina til þess að skera frekar niður í rekstri sínum í stað þess að óska sífellt eftir meiri fjármunum frá ríkjunum en framkvæmdastjórnin fór einnig fram á aukin framlög á síðasta ári. (Mbl.is.)
En á næsta ári hefði ESB, samkvæmt þessari fjárhagsáætlun sinni, að sögn BBC, "til ráðstöfunar samtals 138 milljarða evra eða sem nemur um 22.500 milljarða króna."
ESB-sinnar hafa samt talað um, að skattar til Evrópusambandsins séu lágt hlutfall þjóðartekna í ESB-ríkjunum. Það er á sinn hátt rétt, enda rekur ESB ekki skóla, sjúkrahús og samgöngukerfi landanna, svo að eitthvað sé nefnt. En tiltölulega lágt hlutfall, sem fer til Brussel-báknsins, líta forráðamenn þess vitaskuld á sem þeim mun meira sóknarfæri og halda því áfram að stórauka tekjupósta sína ár frá ári þrátt fyrir samdrátt í ríkisútgjöldum landanna.
Skattheimtan mun einnig stóraukast, ef ESB fer svo út í að nýta sér valdheimildirnar sem gefnar eru í Lissabon-sáttmálanum til íhlutunar á sviði orku- og auðlindamála og til eflingar öryggis- og hermálum á vettvangi Evrópusambandsins sjálfs.
Við Íslendingar höfum næsta lítinn áhuga á því sóknarfæri Evrópusambandsins, eins og ljóst er af nýjustu skoðanakönnun!
Jón Valur Jensson.
![]() |
Vill aukin framlög frá aðildarríkjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)