Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Straight from the horse's mouth, II : stefnt að Bandaríkjum Evrópu

Varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og dómsmálastjóri þess, Viviane Reding, segir ESB þurfa "raunverulega pólitíska sameiningu ... að sett verði á laggirnar Bandaríki Evrópu með framkvæmdastjórnina sem ríkisstjórn og tvær þingdeildir".

Hér er ekki einhver ómerkingur eða undirtylla að tala, heldur ein hinna allra æðstu í Brussel. Munum einnig, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er voldugri en ESB-þingið lýðkjörna í Strassborg og Brussel, enda fá þingmenn á því þingi ekki að leggja þar fram nein frumvörp, en framkvæmdastjórnin hefur hins vegar bessaleyfi til þess! (já, undarlegur lýðræðishalli það –– rétt eins og ef ríkisstjórn Bjarna og Sigmundar Davíðs mætti ein leggja fram lagafrumvörp á Alþingi, en stjórnarandstaðan og almennir þingmenn engin!).

Margt er mjög athyglisvert við þá ræðu fr. Reding, varaforseta framkvæmdarstjórnar ESB (við hlið Barrosos, forseta hennar), sem hér varð fréttarefni (sjá tengil neðar), en ræðan var flutt við nýársmóttöku í fyrradag í Brussel á vegum hollenzks fjarskiptafyrirtækis. Sjáið t.d. þetta:

  • Sífellt fleiri ákvarðanir teknar af ESB
  • Reding benti á að efnahagskrísan innan Evrópusambandsins hefði haft í för með sér stóraukinn samruna innan sambandsins sem hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árum. Meðal annars hefði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fengið heimild til þess að fjalla um fjárlög ríkjanna áður en þau kæmu til kasta þjóðþinganna. Þá væri unnið að því að koma á bankabandalagi innan sambandsins. Þessi samruni væri nauðsynlegur liður í því að koma í veg fyrir slíka erfiðleika í framtíðinni. 

Ekki vantar að reynt sé að réttlæta meiri samruna:

  • Krísan hefði  fært heim sannindi um að ekkert ríki væri eyland [kunnuglegt viðkvæði ESB-sinna] og að það sem gerðist í einu aðildarríki Evrópusambandsins hefði áhrif á önnur ...

En þessi gagnkvæmu áhrif vilja ESB-menn einmitt auka, ekki draga úr líkunum á því, að viðkvæm innri gerð hvers þjóðarsamfélags verði fyrir óvæntu áreiti og jafnvel hastarlegum holskeflum, sem þjóðarleiðtogar geta naumast séð fyrir og eiga erfitt með að vinna bug á eða leysa vandann, mikið til vegna þess að hann kemur utan að og er t.d. í tilfelli evrusvæðisins beintengdur því, að efnahagslíf landanna er orðið svo háð sveiflum og ástandi þess myntsvæðis.

  • Þá væru sífellt fleiri ákvarðanir sem vörðuðu daglegt líf íbúa sambandsins teknar af stofnunum þess. Fyrir vikið væri nauðsynlegt að gera stofnanir Evrópusambandsins og ákvarðanatökur á vettvangi þess lýðræðislegri og gegnsærri. En þörf væri á mun meiri samruna en aðeins á sviði efnahags- og fjármála. Markmiðið ætti að vera Bandaríki Evrópu. (Mbl.is eins og fyrri tilvitnanir.)

Þetta er sagt núna: "aðeins á sviði efnahags- og fjármála," en við vitum, að Evrópusambandið hefur nú þegar búið í haginn fyrir sig með víðtækum valdheimildum í Lissabon-sáttmálanum sem gefa því grænt ljós, hvenær sem tilefni og réttlæting gefst (eins og á fyrrgreindum sviðum), til að beita þeim heimildum, t.d. á sviði orkumála og hermála.

Margt fleira kemur fram í ræðunni, m.a. um áhuga- og þátttökuleysið hjá almenningi í kosningum á vegum Evrópusambandsins:

  • Þannig bendir hún [Reding] á að aðeins þriðjungur kjósenda í ríkjum Evrópusambandsins telji að rödd þeirra heyrist á vettvangi sambandsins. Margir telji að um tapaðan málstað sé að ræða. Kjósendur fari ekki á kjörstað og þeir sem það geri styðji stjórnmálaflokka sem hafi efasemdir um Evrópusamrunann.

Hún vill samt ekki gefast upp, fleiri þurfi að koma við sögu en aðeins framkvæmdastjórn ESB (!) ...

  • „Við þurfum öll að koma skilaboðunum á framfæri: Kosningar til Evrópuþingsins eru mikilvægari en kosningar til þjóðþinganna, vegna þess að þær ákveða hvaða stefnu heilt meginland tekur.

Eigum við ekki að halda okkur utan þessa sambræðings, þessa samruna í nýtt stórveldi? Eða er það kannski keppikefli einhverra að fá 0,06% (og minnkandi) atkvæðavægi um löggjafar- og önnur ákvörðunarmál í ráðherraráðinu í Brussel?

PS. Fyrirsögnin 'Straight from the horse's mouth, II : stefnt að Bandaríkjum Evrópu' vísar á sinn hátt til baka til eldri greinar hér á vefsetrinu: "Aðildarviðræður" - straight from the horse's mouth (ESB), en þar er upplýst um yfirlýsingu sjálfrar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 27.7. 2011 um að inntökuviðræður við umsóknarlönd (e. accession negotiations) fjalli um skyldurnar sem fylgja því að verða meðlimur í ESB, en hugtakið "viðræður" geti beinlínis verið "misvísandi", því að það regluverk ESB (um 100.000 blaðsíður), sem viðræðurnar fjalli um að umsóknarríkið tileinki sér, sé ekki umsemjanlegt (not negotiable) -- lagaverkið þarf m.ö.o. bara að gleypa eins og það kemur fyrir af kúnni -- eða öllu heldur: nýja ESB-ríkið þarf að taka á sig ok þess í einu og öllu (og reyndar ekki nóg með það, því að æðsta löggjafarvaldið í beinu framhaldi af þessu, til framtíðar, verður einnig falið Evrópusambandinu á hendur með inntökusáttmála hins nýja ESB-ríkis; en þetta þarf undirritaður víst að taka fram, því að ESB-málpípur "gleyma" gjarnan að nefna svo smávægilegt atriði!).

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Byggð verði upp Bandaríki Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran verður gjaldmiðill Letta þrátt fyrir beina andstöðu þjóðarinnar - Fréttaflutningur Rúv ámælisverður

Fréttamaður Rúv leyndi þjóðina því nú í hádeginu, að 60% Letta eru beinlínis andvíg upptöku evrunnar í nýrri skoðanakönnun skv. frétt AFP, en hafa engin völd til að koma í veg fyrir, að í dag verður evran formlega gjaldmiðill Lettlands. Fréttamaðurinn, Kristján Róbert Kristjánsson, sagði frá því, að Lettar hefðu nú tekið upp evruna, en steinþagði um andstöðu lettnesku þjóðarinnar! Er þetta eitt margra dæma um ESB-auðsveipni Fréttastofu Ríkisútvarpsins, og er mál að linni.

Með inngöngu í Evrópusambandið fyrir tæpum áratug urðu Lettar skuldbundnir til að taka upp evru þegar efnahagsleg skilyrði þess hefðu verið uppfyllt.

  • Stjórnvöld í Lettlandi hafa lagt mikla áherslu á að uppfylla skilyrðin sem meðal annars hafa falið í sér að tryggja að gengi latsins, gjaldmiðli landsins, væri haldið innan ákveðinna vikmarka frá gengi evrunnar. Það hefur meðal annars haft í för með sér miklar launalækkanir, þar sem ekki hefur verið hægt að fella gengi gjaldmiðilsins. (Mbl.is, leturbr. jvj.)

Og nú fá Lettar að þola áframhaldandi tilraunastarfsemi með þennan nýja, varhugaverða gjaldmiðil sem er rétt kominn á fermingaraldur, en hefur þegar haft stórskaðleg áhrif á fjárhag ýmissa ESB-þjóða.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Meirihluti Letta vill ekki evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambands-baráttujálkar snúa staðreyndum um stefnu ríkisstjórnarinnar á haus í nýrri sagnaritun!

Merkilegt er það, sem vakin er athygli á í leiðara Morgunblaðsins, hvernig Samfylkingin, m.a. Össur Skarphéðinsson, mistúlka stefnu Sjálfstæðisflokksins um aðildarviðræður við ESB og þjóðaratkvæðagreiðslu. Gróf fölsun blasir við í nýrri sagnaritun leiðandi evrókrata og tilgangurinn bersýnilega sá að setja pressu á stjórnvöld. Ófyrirleitið er það, þegar meðulin eru þau að snúa stefnu stjórnarflokkanna á haus.

Leiðari Mbl. í dag er undir fyrirsögninni Enn hefur ekki verið rétt lesið í kosningarnar og er mjög áhugaverður. Meðal helztu punkta þar eru verðug svör við ótrúverðugum málflutningi fyrrverandi ráðherrans Össurar í útvarpsviðtali í gær. Þar hélt hann því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefði "lofað að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðnanna," en rétta svarið við því er, að flokkurinn gaf út þá landsfundarályktun sína, að :

  • "Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu" (feitletrun hér, jvj).

Augljóst er þarna, hver vilji og stefna flokksins er, eins og hún var samþykkt þarna með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða landsfundarmanna 21.-24. febrúar sl. (sjá HÉR).

Með orðum leiðarahöfunda(r) Morgunblaðsins:

Þetta er auðvitað ekki loforð um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum kosningum, heldur þvert á móti loforð um að hætta viðræðunum. Um leið er því lofað að viðræður yrðu aldrei hafnar á ný nema þá að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Auðvelt er að sjá hvers vegna slík setning er höfð með enda knúði vinstristjórnin í gegn aðildarumsókn án þess að spyrja þjóðina álits.

Það er alls ekki á dagskrá núverandi stjórnarflokka að stefna að inngöngu í Evrópusambandið, þvert á móti boðuðu þeir fyrir kosningar, að viðræðunum (sem eru þó ekki "samningaviðræður", eins og oft heyrist haldið fram, heldur þáttur í aðlögunarferli) skyldi HÆTT, enda væri hagsmunum þjóðarinnar betur borgið með því að standa utan Evrópusambandsins.

Þjóðaratkvæðagreiðsla kom í þessu sambandi einungis til greina, ef ákvörðun flokkanna og fyrst og fremst Alþingis myndi snúast í þessu máli, í það að vilja "taka upp" slíka umsókn um að ganga í Evrópusambandið. Gegn þeim hugsanlega möguleika settu flokkarnir samt það skilyrði, að það yrði þá einungis eftir að þjóðin yrði spurð álits á því í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta er EKKI loforð um að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu, enda er ekkert sem neyðir núverandi stjórnarflokka til að endurskoða andstöðu sína við Evrópusambands-inngöngu.

Hér var aðeins drepið á eitt stórt atriði í þessum athyglisverða leiðara Morgunblaðsins, og ættu áhugamenn um málið að lesa hann sjálfan, en þar kemur m.a. fram, hvernig Össur Skarphéðinsson reyndi með orðagjálfri að véla Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til að samsinna sér í umræðuþættinum, en hún lét ekki blekkjast og minnti m.a. á afhroð ESB-stefnu Samfylkingarinnar í kosningunum í vor.

Lokaorð leiðarans eru svo verðug áminning til leiðtoga stjórnarflokkanna. 

Jón Valur Jensson. 


Standið í lappirnar, ráðherrar, gagnvart hótandi Evrópusambandinu, það gera Færeyingar!

 

16-17% aflahlutdeild í makrílveiðum á NV-Atlantshafi var talin lágmarkskrafa okkar, en nú berast ítrekaðar fregnir um, að ríkisstjórnin hafi sett markið við 12% (50-60 þúsund tonna eftirgjöf!). SVIK eru það og ekkert annað, ef rétt reynist. Jón Bjarnason, fv. sjávarútvegsráðherra, hefur haldið uppi réttmætri, bráðnauðsynlegri gagnrýni á þetta framferði ráðamanna núverandi ríkisstjórnar, – "gagnrýnir Jón eftirmann sinn Sigurð Inga Jóhannsson og Framsóknarflokkinn harðlega fyrir að bogna undan hótunum Evrópusambandsins," segir í Mbl.is-frétt um málið.

Jón bendir einnig á, að Evrópusambandið hafi „beitt hótunum og ólögmætum yfirgangi“ í makríldeilunni bæði gagnvart Íslendingum og Færeyingum.

Færeyingar höfnuðu 11,9% tilboði hins valdfreka stórveldabandalags. Það sama eigum við að gera. Botninn er dottinn úr paník-yfirlýsingum Brussel-manna um að makrílstofninn sé í einhverri hættu – hann reynist langtum stærri en þeir höfðu reiknað með fyrir nokkrum mánuðum! Samt láta þeir eins og hér sé einhver þörf á þrengingu aflaheimilda Íslendinga og Færeyinga, þjóðanna sem eiga það landgrunn þar sem makríllinn kýs að halda sig og innbyrðir gífurlegt magn átu, m.a. á kostnað annarra fisktegunda og fuglalífs við löndin tvö.

Hroka og yfirgang hefur ESB sýnt þessum löndum og Grænlandi – sýnt sitt rétta andlit, alveg eins og í Icesave-málinu, þar sem Brusselvaldið réðst með beinum hætti á lagalegan rétt okkar og þjóðarhagsmuni. Og norska ríkisstjórnin reynist okkur sem fyrr verri en engin.

En hingað til hafa engir íslenzkir þingmenn eða ráðherrar riðið feitum hesti frá því að leggjast marflatir fyrir kröfum þessa hótunar- og kúgunarvalds.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Kannast ekki við 12% markmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Refjar ESB með IPA-"styrkjunum"

Lúmsk var aðferð Evrópusambandsins, eins og raunar vita mátti fyrir fram: IPA-styrkirnir voru ekki aðeins ætlaðir til að liðka fyrir aðlögun lagaverks og stjórnkerfis Íslands að stórveldabandalaginu, heldur var þetta gert í gegnum íslenzk stjórnvöld (að vísu hækjustjórnvöld 2009-13, en Sigmundar- og Bjarnastjórnin situr í sömu súpu), þannig að þau þyrftu fyrst að ábyrgjast IPA-greiðslur fyrir þau samþykktu verk, sem unnin væru, en síðan fengi íslenzka ríkið þetta endurgreitt frá Evrópusambandinu. Nú er búið að vinna ýmis verkin og ætlazt til, að ríkissjóður borgi (þótt illa standi), unz ESB endurgreiði, en þá hefur Evrópusambandið þá skrúfu á stjórnvöld hér, að það vill ekki endurgreiða! Samt þjónuðu þessir styrkir fyrst og fremst Evrópusambandinu!

Allt er þetta eitt refjalið í Brussel. Það getur ekki beitt okkur hervaldi, en þar með er ekki sagt, að Brusselmenn beiti okkur ekki valdi, refjum og svikum. Þeir veittust gegn okkur í Icesave-málinu ítrekað; þeir gera það í makrílmálinu með smánartilboði, sem fæli í sér 13% minnkun veiða okkar, og reyna að sveigja Gunnar Braga til, af öllum mönnum, og þeir gera það einnig í IPA-málunum og kunna því einkar vel, ef núverandi ráðherrar komast í klandur.

Þetta Evrópusamband hefur ekki gefið okkur neitt. Athyglisverð er grein Vigdísar Hauksdóttur í Mbl. 5. nóv. 2010: 'Rúmir átta milljarðar ESB-ríkjanna'. Þar sést hvernig Jóhönnustjórnin vildi leggja átta milljarða kr. álögur á Íslendinga, til hagsbóta fyrir 15 ESB-ríki, til næstu fimm ára, þótt okkur bæri engin skylda til þess að lögum. Þannig vinna ESB-hækjur og Evrópusambandið sjálft gegn hagsmunum Íslands.

Jón Valur Jensson.


mbl.is ESB sjálft slitið viðræðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varlega, Gunnar Bragi Sveinsson, semdu ekki af þér við óvini okkar!

Ærin ástæða er til að veita stjórnvöldum hér -- og utanríkisráðherranum sérstaklega -- aðhald í makrílmálinu. Hættulegar tillögur gætu legið í loftinu og falið í sér, ef Evrópusambandið aðhyllist þær, undanhald af okkar hálfu og stórtjón landsins, m.a. ef svo færi, að makrílstofninn skryppi saman eftir nokkur ár og að við, þrátt fyrir áframhaldandi miklar göngur hans hingað, værum þá með allt of lítinn hlut úr honum miðað við þá viðveru hans hér og ágengni á fæðustofna hans hér.

Sjá einnig hér: Full ástæða er til að AUKA makrílhlut okkar, alls ekki að skerða hann!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vill leysa deiluna fyrir áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1. desember - nauðsyn heitstrengingar við sjálfstæði okkar og vel heppnaður fullveldisfagnaður sjálfstæðishreyfinga

Ísland varð sjálfstætt og fullvalda ríki fyrir 95 árum, 1. desember 1918. Að því stefndi þróun og þroski þjóðarinnar, sjálfsvitund, atorka og áræði. Úrtölumenn urðu undan að láta. En nú heyrast aftur hjáróma raddir þeirra sem efast um gagnsemi þess, að við stöndum áfram sjálfstæð og fullvalda, og eru þær eigindir þó öflugustu varnir smárra þjóða.

Sjálfstæðið hefur einnig reynzt okkur sívirk auðlind, veitt okkur fjögurra, tólf, fimmtíu og tvö hundruð mílna fiskveiðilögsögu og stutt að varðveizlu sérstöðu okkar meðal þjóða og eflt okkur í atvinnuefnum. Það er því fráleitt þegar nokkrir Íslendingar láta sér detta í hug að afhenda æðstu fullveldisréttindi yfir þessu elskaða landi okkar í hendur meginlandsmanna á ný.

Hjá Heimssýn, í nýrri miðstöð félagsins að Hafnarstræti 20 (steinhúsinu við Lækjartorg, 2. hæð), var í dag haldið upp á fullveldisdaginn, á fundi sem á 2. hundrað manns mun hafa sótt, en þar voru ekki aðeins félagsmenn úr Heimssýn, heldur einnig félaganna Ísafoldar, Herjans og Nei við ESB. Ræðumenn voru Jón Bjarnason, fv. ráðherra, Jóhanna María Sigmundsdóttir, yngsta alþingiskonan, og Halldóra Hjaltadóttir, formaður Ísafoldar. Inga Bachmann söng einsöng við harmonikkuleik, falleg íslenzk lög, Bjarki Karlsson, verðlaunahafinn úr ljóðakeppni kenndri við Tómas Guðmundsson flutti langan og góðan brag úr verðlaunabók sinni, Árleysi alda, og endað var með öflugum og áhrifamiklum fjöldasöng. 


mbl.is Mætti gera meira úr 1. desember
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkt betra er NAFTA Evrópusambandinu

Ragnheiður Elín Árnadóttir er með tillögu um tolla- og/eða vörugjalds-lækkun, sem myndi nýtast mörgum hér, þ.e. á innfluttum iðnaðarvörum frá Bandaríkjunum, en ofurtollar eru hér t.d. á innfluttum bílum. Og slík lækkun -- eða tollasamningur við Bandaríkin, jafnvel innganga í NAFTA -- myndi ekki kosta okkur snefil af löggjafarvalds-rétti Alþingis, ólíkt innlimun í Evrópusambandið.

Menn geta ekki þrætt fyrir þetta síðastnefnda, þ.e. að ESB heimtar æðstu löggjafarréttindi yfir hverju nýju meðlimaríki, þetta stendur í hverjum inntökusáttmála (accession treaty, sem ranglega er oftast kallaður hér "aðildarsamningur"). Og sá, sem gerir sér ekki grein fyrir þessari staðreynd og háskalegum afleiðingum hennar, heldur augljóslega ekki vöku sinni!

Eða lætur lesandinn sér detta í hug, að Kanada og Mexíkó myndu nokkurn tímann vilja veita Bandaríkjamönnum æðstu löggjafarréttindi yfir sér í krafti NAFTA-fríverzlunarbandalagsins?!

Jón Valur Jensson. 


Hvaða fullveldismál? spyrja sumir eins og álfar út úr hól

Ágætur maður taldi á Facebók, að gaman væri að heyra hvaða "fullveldismál" ýmsir væru "alltaf að tala um". Hér er svarið:

Það er öndverðan við ESB-innlimunaráráttu meirihluta (en ekki nærri allra) samfylkingarmanna. Eins og flestir eiga að vita, myndi sú stefna kosta það, að æðstu löggjafarréttindi yfir Íslandi yrðu þá komin í hendur Brusselbossa, og það væri nú nógu illt í sjálfu sér, en ekki batnaði það við, að þeir fengju líka í hendur æðsta stjórnvald og dómsvald á mörgum sviðum líka.

Allt tilheyrir þetta vald FULLVELDI Íslands, en evrókratar vilja í reynd stórskerða það, okkur til óbætanlegs skaða. Það er því ekkert undarlegt við hneykslan okkar fullveldissinna á landleysingjunum. Á 95 ára afmæli fullveldis og sjálfstæðis Íslands, eftir aðeins 13 daga, mættu þeir síðarnefndu iðrast í sekk og ösku, kafroðna og skammast sín.

Jón Valur Jensson. 


Fréttarbóla frá Brussel

Evrópusambandið reynir nú að slá því upp, að mikil aukning verði á framlagi þar til menningarmála, 1,46 milljörðum evra verði varið til þeirra 2014–2020, en í raun er þetta ekki nema 9% aukning og 34 milljarðar kr. árlega, samanlagt, til allra Evrópusambandslandanna 28 og EES-landanna þriggja. Sá litli hlutur Íslands, sem þarna yrði um að ræða, yrði líka fyrst og fremst fjármagnaður af okkur sjálfum.

Vissulega munar um 9% aukningu slíkra framlaga, og yfir því gleðjast eflaust margir listamenn og rithöfundar, á sama tíma og samdráttur er hjá ESB í flestum öðrum fjárveitingum. Þetta er samt alls ekki mál, sem vegið getur þungt í áróðrinum hjá fylgjendum innlimunar Íslands í evrópska stórveldið, það veldi sem nú stefnir hraðbyri í enn meiri valdsöfnun og miðstýringu, ef vilji ráðamanna bæði þar og í Þýzkalandi (nú síðast Gerhards Schröder, fyrrv. kanzlara) nær fram að ganga, eins og miklar líkur eru til.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Auknu fé varið til menningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband