Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Takið eftir : Hörð afstaða gegn ESB-inngöngu er margfalt algengari en hörð afstaða með henni

Afar ólík hlutföll áhuga og áhugaleysis

Samkvæmt könnun Vísis.is, Bylgjunnar og Stöðvar 2 sem gerð var sumarið 2012 var "áhuginn" meinti á ESB þvílíkur, að á móti hverjum einum, sem var mjög áhugasamur um að Ísland gangi í ESB voru nálega fjórir og hálfur mjög andvígir því. Einungis 18% aðspurðra höfðu veika afstöðu í málinu, þ.e. voru annaðhvort „nokkuð hlynnt“, „nokkuð andvíg“ eða hlutlaus. Yfirgnæfandi meirihluti hafði sterka skoðun á málinu, þar af voru 67% landsmanna „mjög andvíg“ inngöngu Íslands í ESB, en einungis 15% „mjög hlynnt“. Einungis 3% voru hlutlaus, 8% „voru nokkuð hlynnt" og 7% „nokkuð andvíg" (heimild).

Þarna voru sem sagt 74% andvíg því, að Ísland gangi í Evrópusambandið, en 22% hlynnt því, en greinilega gerólík samsetning þessara tveggja hópa, því að innan þess síðarnefnda er mikli áhuginn á "jáinu" nær tvöfalt minni en linari áhuginn, þveröfugt við samsetningu hins hópsins, þar sem mikli áhuginn á NEIINU var í margföldum meirihluta!

Það eru slíkar skoðanakannanir, sem einnig verður að athuga vel, þegar menn vilja ráða í styrk andstöðunnar í þssu máli. Greinilega slær hjarta íslenzku þjóðarinnar með fullveldi lands síns.

En nú um stundir, skv. nýjustu skoðanakönnun, eru 70% almennings andvíg því, að Lýðveldið Ísland verði partur af Evrópusambandinu. Er þá til of mikils ætlazt af núverandi stjórnvöldum, sem fengu umboð til að staðfesta einmitt þá afstöðu, að þau geri það í verki, fremur en að halda enn við lýði hinni alræmdu Össurarumsókn, sem átti sér ekki einu sinni stoð í stjórnarskrá? [skrifaði undirritaður þá, en raunar var fyrirbærið afgreitt með ótvíræðu broti gegn 16.-19. gr. stjórnarskrárinnar, eins og fjallað hefur verið um hér áður.]

Jón Valur Jensson.


Lokum Evrópusambands-áróðursstofunum báðum!

Það á að loka áróðursbatteríi stórveldisins, hinni rangnefndu "Evrópustofu", og það sem fyrst. Þeim í Brussel nægði ekki að setja í þetta 230 millj. kr. fyrstu tvö árin – vilja nú bæta við jafnmiklu næstu tvö árin!!! Yfirgangurinn er óskammfeilinn og ótakmarkaður.

En nú situr ekki héraleg, ESB-meðvirk Samfylkingarstjórn að völdum, heldur stjórn sem er andvíg ESB-inntöku landsins, og síðasti landsfundur Sjálfstæðisfokksins ályktaði, að loka ætti Evrópustofu. Fótgöngulið flokksins, grasrótin, ætlast til þess, að farið verði eftir þeirri landsfundarsamþykkt; allt hik í þeim efnum yrði einungis til að rýra álit forystunnar í augum kjósenda flokksins.

Gleymið svo ekki, að það er önnur "Evrópustofa" fyrir norðan, á Akureyri, partur af sama útþenslumarkmiði Evrópusambandsins.

ÁFRAM ÍSLAND – EKKERT ESB!


Það, sem Bretar geta ekki í ESB, getum við enn síður

Brezk stjórnvöld hafa greitt atkvæði gegn 55 málum í ráðherraráði ESB sl. 18 ár. ÖLL hafa þau samt náð fram að ganga þrátt fyrir þá andstöðu og orðið að lögum í Bretlandi. Þetta kemur fram hér í frétt á Mbl.is (sjá tengil neðar), þ.e. niðurstöður rannsóknar samtakanna Business for Britain sem birtar voru í dag.

Já, tökum eftir þessu! Hversu lítilfjörlegt yrði þá ekki atkvæði okkar í ráðherraráði ESB í löggjafar-ákvörðunum sem varða okkar eigin hag! –––JVJ.

PS. Fyrir alla muni lesið greinina Fjárhagur Evrópustofu margfaldur á við það sem sagt var í upphafi?! Styrkir hennar (ætlaðir til áróðurs) fara víða til að hafa áhrif á hugi manna! – ef þið hafið ekki lesið hana nú þegar! Og tengið á Facebók!


mbl.is Höfnun Breta engu skilað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gísli Marteinn er líklega ESB-sinni - og Björn Ingi Hrafnsson er það - og af nær algerum ESB-stuðningi fjölmiðla!

Gísli Marteinn valdi þrjá ESB-sinna til viðræðu við sig í sjónvarpsþætti þennan sunnudagsmorgun. Sá harðasti er Ólafur Stephensen, en Kolbrún Bergþórsdóttir er yfirlýstur ESB-sinni, og Björn Ingi Hrafnsson, aðalmaðurinn á Eyjunni og Pressunni, tilkynnti þarna í þættinum, að hann hafi verið fremur með en móti "aðild".

Þetta er fátæklegt "val" (kannski sjálfval?) hjá Gísla Marteini, en mjög er hann grunaður um græsku að vera sjálfur ESB-sinni, eins og skynja mátti á mæli hans, rétt eins og á valinu á álitsgjöfunum. 

Fjórir í einni umræðu og allir ESB-sinnar – er það ekki ofílagt, jafnvel á Rúv?!

Hvenær ætlar yfirstjórn Rúv að taka fyrir hina augljósu misnotkun Fréttastofu Rúv og annarra starfsmanna á þessari ríkisstofnun í þágu Evrópusambands-málstaðarins? Hefðu þeir verið uppi og haft sitt útvarp og sjónvarp um miðja 13. öld, virðist augljóst af fenginni reynslu, að þeir hefðu lagzt á sveif með Hákoni konungi Hákonarsyni, ekki íslenzka þjóðveldinu, í togstreitu og átökum þeirrar tíðar.

En að Björn Ingi Hrafnsson er ESB-sinni, er, þótt flestir hafi kannski talið það gefið hingað til, af áherzlum Eyjunnar og Pressunnar að dæma, samt sem áður áhyggjuefni með það í huga, að NÆSTUM ALLIR FJÖLMIÐLAR hér á landi eru ESB-inntökusinnaðir. Það á við um 365 fjölmiðla (Bylgjuna, Stöð 2 og Fréttablaðið), DV, Rúv (Rás 1 og 2 og Sjónvarpið, þrátt fyrir eignarhald þjóðarinnar, sem á nú einu sinni þetta lýðveldi og vill halda því, en EKKI fara inn í Brussel-stórveldið), einnig Eyjuna og Pressuna – eina undantekningin Morgunblaðið. Jafnvel eigandi Útvarps Sögu er farinn að predika ESB-inntöku landsins fyrir lítt hrifnum hlustendum sínum, en vinnur í því að fá þá á sveif með sínum vægast sagt óskynsamlega málflutningi í þessa veru.

PS. Snilldarhugur Björns Bjarnasonar, fv. ráðherra, sem rannsakanda og greinanda, birtist með afgerandi hætti í ótrúlega afhjúpandi grein hans í Morgunblaðinu í dag: ESB-viðræðunum lauk í mars 2011. Þetta er alger skyldulesning allra með áhuga á ESB-málefnum og "gangi viðræðnanna"! Í raun kemur í ljós, að steigurlæti fyrrv. utanríkisráðherra, Össurar, er ekkert minna en breitt Pótemkíntjald fyrir hans vangetu til að ráða við andstöðu Frakka, Spánverja og Portúgala við skilmála utanríkisnefndar Alþingis í sjávarútvegsmálum, sem góðu heilli voru látnir fylgja umsókn "Íslands" 2009. Í raun er málið strand síðustu þrjú árin og það hlálegasta, að þetta veit Össur Skarphéðinsson, en heldur þó áfram að spraðurbassast með það eins og hann hafi sigurbikarinn í höndunum! -- Lesið hina merku rannsóknargrein Björns, sem er með allt öðru og alvarlegra orðfæri en hér var gripið til í þessari ábendingu. Ennfremur er í blaðinu merkur pistill hins einstaklega skarpa blaðamanns Stefáns Gunnars Sveinssonar, Gíslatakan, og fjallar um ástandið síðustu vikurnar í ESB-umræðunni, einkum varðandi Sjálfstæðisflokkinn.

Jón Valur Jensson. 


Sumir eru svo viðkvæmir fyrir hrakningu ESB-meðvirkra skrifa sinna

Friðrik Hansen Guðmundsson verkfræðingur fer mikinn í baráttu fyrir ESB-málstaðinn þessa dagana og var þó a.m.k. um tíma sjálfstæðismaður. Vont er að sjá hann ritskoða síðu sína nú orðið, taka ítrekað út innlegg sem voru þó ekki á neinn hátt meiðandi persónulega. Tvívegis hefur undirritaður sett þar inn athugasemd, sem jafnóðum er tekin út. Hún er við grein hans Ríkisstjórnin er ekki réttkjörin og á að segja af sér, sem nú hefur verið lokuð fyrir öllum frekari athugasemdum, en hér er mín aths. (í seinni gerðinni, þ.e. með nýjum formáls- og eftirmálsorðum): 

  • Tókstu í alvöru út innlegg mitt hér, Friðrik?
  • Hér er það, hafirðu glatað því í klaufaskap:
  • http://fhg.blog.is/blog/fhg/entry/1365538/#comment3503312
  • Góð Helga! Einnig Kristján -- og svör Friðriks út í Hróa.
  • Þú ert, Friðrik, sennilega einn í veröldinni um þessa fáheyrðu þverstæðuskoðun þína á stjórnarskrárbreytingu. Og sem betur fer var lögleysugjörðin stöðvuð, jafnvel Samfylkingin var með nógu slæma samvizku af henni til að voga sér ekki að keyra hana í framkvæmd.
  • Svo eruð þið ESB-sinnarnir greinilega að reyna á alla mögulega vegu að fremja hér valdarán, þ.e. koma til leiðar fullkominni óvirðingu þingræðisins.
  • Jón Valur Jensson, 19.3.2014 kl. 01:50
  • En þú hefur einnig tekið út innlegg þeirrar mætu konu Helgu Kristjánsdóttur í Kópavogi og þar að auki a.m.k. eitt í viðbót, eins og ég fekk sjálfkrafa tilkynningu um inn í minn netpóst, það var athugasemd frá Ragnari Gunnlaugssyni. Ertu farinn að beita hér harðri ritskoðun, Friðrik minn, eða voru þetta mistök í stjórnborðinu? Þau er þá hægt að laga. Jón Valur Jensson, 19.3.2014 kl. 11:15

En ekki kaus hann að laga þetta; hann vildi einfaldlega ekki textann! Það sama átti við um innlegg frá Helgu Kristjánsdóttur, sem hann hefur þurrkað út, og annað hvassyrtara sem ég fekk afrit af í netpóst minn, þetta:

  • Ragnar Gunnlaugsson: Eins gott að Friðrik náði ekki að smygla sér inn á þing í skjóli Sjálfstæðisflokksins í N.Vesturkjördæmi,eins og hann reyndi á sínum tíma,skömm okkar hefði verið mikil. 

Til að textar glatist ekki, er tilvalið að menn taki afrit af þeim. Wink

Mér er vel við Friðrik og get alls ekki kvartað undan honum persónulega. Vona að þetta verði honum til góðs lærdóms.

JVJ


ESB-umsókn Össurar átti að falla 31-30

Út er komið mjög athyglisvert Heimssýnarblað (marz 2014). Einn af mörgum merkum pistlum þar hefur fyrirsögnina hér ofar og hljóðar svo í heild:

"Þrír þingmenn VG greiddu atkvæði gegn yfirlýstri sannfæringu sinni þegar ESB- umsóknin var samþykkt á alþingi 16. júlí 2009 með 33 atkvæðum gegn 28, en 2 sátu hjá. Ef þingmenn VG hefðu greitt atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni, þá hefði ESB- umsóknin aldrei verið samþykkt heldur felld með 31 nei-i gegn 30 já-um.

Álfheiður Ingadóttir sagði þetta í sinni atkvæðaskýringu er hún samþykkti tillögu Össurar:

„Frú forseti. Stuðning minn við þessa tillögu um aðildarviðræður ber ekki að skilja sem stuðning við aðild Íslands að Evrópu sam­bandinu. (Gripið fram í: Nú?) Ég er eindreginn andstæðingur þess að Ísland gangi í ESB og ég tel ólíklegt að aðildarviðræður muni skila samningi sem getur varið íslenska hagsmuni og auðlindir gagnvart alþjóðlegu auðvaldi og yfirþjóðlegri drottnun þess.“

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra lét eftirfarandi ummæli falla í ræðustól þingsins þegar hún samþykkt ESB­umsóknina:

„Frú forseti. Ég hef þá sannfæringu að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Ég hef þá sannfæringu að bandalagið sé á krossgötum eins og heimurinn allur og þurfi á endurmati að halda. Þar þurfi að efast um mælikvarða, grundvöll og forsendur þess samfélags sem við höfum byggt á Vesturlöndum undanfarinna áratuga. Ég hef þá sannfæringu að lýðræðið sé fyrir borð borið í Evrópusambandinu vegna þess að valdið er of langt frá fólkinu. Ég hef þá sannfæringu að markmið Evrópusambandsins sé að verða stórt og sterkt og hugsanlega sjálfstæður gerandi í stríði á forsendum valdbeitingar og yfirgangs eins og um hernaðarbandalag væri að ræða.“

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra sagði frammi fyrir alþjóð þegar hún studdi tillögu Össurar um að sækja um aðild að ESB:

„Ég hef mótað mér mína afstöðu. Sem alþjóðasinni er ég krítísk á Evrópusambandið og ég tel hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess.“

Ef þessir þingmenn VG, þar af tveir ráð­herrar, hefðu greitt atkvæði samkvæmt yfirlýstri sannfæringu sinni, þá hefði tillaga Össurar um að sækja um aðild að Evrópusambandinu fallið, 31 hefði sagt nei, 30 já og 2 setið hjá.

ESB­-umsóknin fór umboðslaus frá alþingi, VG klofnaði og almenningur kaus af sér vinstriflokkana með afgerandi hætti vorið 2013. Það eina sem eftir er að gera er að afturkalla umboðslausu umsóknina." (Tilvitnun lýkur í Heimssýnarblaðið.)

Hér skal að lokum minnt á 48. grein stjórnarskrárinnar (feitletr. hér):

  • Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.
Er ekki nokkuð augljóst, að þessi þrír alþingismenn brutu gegn 48. gr. stjórnarskrárinnar með því að taka þátt í umsókn um inntöku landsins í stórveldabandalag þrátt fyrir sannfæringu í þveröfuga átt?!
 
Til viðbótar við þetta skal minnt á, að Össurarumsóknin 2009 var EKKI afgreidd í samræmi við fyrirmæli 16.-19. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. HÉR! Og gróf stjórnarskrárbrot eru meðal alvarlegustu mála!

Vel mælt, í tilefni áróðurs-ásóknar á þingmeirihlutann sem vill ekki sjá neina ESB-inntöku landsins

  • Hermann Guðmundsson lét svo ummælt í blaðagrein, að það væri umhugsunarefni þegar fólk, sem enginn hefði kosið, gerði aðsúg að kosnum fulltrúum með fúkyrðum, uppnefningum, útúrsnúningum og háðsyrðum, allt til að hafa áhrif á ákvarðanir þeirra.
  • "Þetta er allt gert í nafni lýðræðisins," segir Hermann. "Markmiðið er síðan að færa lýðræðið frá fólkinu til fulltrúanna í Brussel sem enginn hefur kosið og ekki er hægt að fjarlægja með lýðræðislegum hætti.
  • Er furða þó að manni verði orða vant?" 

Mbl. í dag, bls. 36. 


Málþóf og áfram reynt að knýja á um að ríkisstjórn vinni þvert gegn stefnu sinni

Vitaskuld er það rétt hjá forsætisráðherra, að "það er órökrétt að sækja um [Esb-]aðild og vera að reyna að komast inn í sambandið ef menn vilja ekki að þær viðræður beri árangur." 

Málþóf örvæntingarfullra Evrópusambandssinna á Alþingi í dag, undir liðnum 'störf forseta', sem flestir hafa þó lýst trausti sínu á, blasir við þeim, sem fylgjast með umræðunni. Reynt er að þæfa málið í stað þess að ræða það sem er efsti liður á óafgreiddri dagskrá þingsins í dag: 'Umsókn Íslands [sic] um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka' (340. mál).

Kl. rúml. 17 í dag gerði þingforseti hlé á þingfundi, og hefst hann aftur kl. 17.45, en verður þá aftur farið að ræða 'störf forseta'?!

JVJ. 


mbl.is „Það geta ekki allir orðið glaðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðin sem aldrei skyldi farin hafa verið

Auglýsing  Kjaran auglýsir nú EBA-pappírstætara, þýzka hágæðaframleiðslu. Er þetta tilvalið tækifæri og viðblasandi lausn á þvi vandræðamáli sem Össurarumsóknin ólögmæta hefur verið okkur allt frá upphafi. Nú er tilvalið að renna henni í gegnum tætarann og að upplýsa Brusselmenn um þau farsælu endalok hennar.

Merkilegt annars með þessa "vegferð" Samfylkingarmanna með gervalla þjóðina. Henni má líkja við langt ferðalag, sem hópi nokkrum var gert að fara austur á Langanes, án þess að hann fengi nokkru um það ráðið, en þegar hann hafði á nær hálfnaðri leið fengið sína menn til að taka yfir stjórn á rútunni, þá sem höfðu ekki áhuga á lokatakmarkinu fremur en hópurinn sjálfur, þá heyrðist kveðið úr horni: "Nei, nú verður að kjósa um það, fyrir lítinn kvartmilljarð, hvort við höldum ferðinni áfram, úr því að við erum komin svona langt, eða setjum ákvörðun um það á ís, af því að það er aldrei að vita, hvað kynni að vera í pakkanum sem við fengjum, þegar á leiðarenda yrði komið!"

Jón Valur Jensson.


Ólafur Stephensen lýgur að þjóðinni

Í þágu ESB-innlimunar skrifar hann dag eftir dag í viðleitni til að framlengja Össurarumsóknina ólögmætu, þrætir ótrúverðugur fyrir upplýsingar sérfróðra um að engar undanþágur fást varanlega frá lagaramma ESB fyrir umsóknarríki og gætir þess að minnast hvergi á þvera höfnun Stefans Füle stækkunarstjóra ESB á hugmynd Össurar um "klæðskerasaumaðar sérlausnir" fyrir Ísland.

Í Fréttablaðinu í dag heldur Ólafur áfram þunnum áróðri sínum og blekkingum, við hliðina á lítilsvirðandi skopmyndum af utanríkisráðherra Íslands (og ekki þeim fyrstu í því blaði).

Hann heldur því fram, að "ótal dæmi" séu "um varanlegar undanþágur í aðildarsamningum ESB-ríkja, sem hafa verið veittar á grundvelli þjóðarhagsmuna," án þess að nefna eitt einasta dæmi um slíkt. Styrkirnir við landbúnað í Frakklandi, á Ítalíu og Spáni voru t.d. ekki varanlegir og hafa verið helmingaðir, í kringum inntöku austurevrópskra ríkja, og geta að lokum horfið. Varanlegt kann leyfi Dana að vera til að stugga við þýzkum sumarhúsum í hluta ríkis síns, en það leyfi fekkst aðeins af því, að þá þegar höfðu Danir neitunarvald í sambandinu, en engin ný umsóknarríki hafa slíka aðstöðu nú, fyrir utan, að það mál er einber tittlingaskítur í efnahag og stjórnkerfi þjóða.

Ágúst Þór Árnason, brautarstjóri við lagadeild Háskólans á Akureyri.

Þvert gegn Ólafi Stephensen segir próf. Ágúst Þór Árnason, brautarstjóri við lagadeild Háskólans á Akureyri, í nýrri frétt hér á Mbl.is, "að ekki sé um neinar sérlausnir eða undanþágur að ræða, nema þá tímabundnar og þá ekki sem yrðu hluti af löggjöf Evrópusambandsins. Ágúst segir að í ljósi þess að ekki verði hægt að fá neinar varanlegar sérlausnir eða undanþágur sé aðildarviðræðum í raun sjálfhætt."

Ennfremur segir dr. Stefán Már Stefánsson, prófessor í Evrópurétti við lagadeild HÍ, í bók sinni Landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins (2011, 108 bls.), á síðu 66: 

  • "Um varanlegar undanþágur frá reglum ESB. Skoðun á aðildarlögum einstakra ríkja staðfestir að hingað til hefur ekki verið um varanlegar undanþágur að ræða, hvorki á sviði sjávarútvegsmála né landbúnaðarmála."

Það er kannski ráð fyrir Ólaf Stephensen að setjast á skólabekk á ný?

En meðan hann veltist um í vanþekkingu sinni (nema um beinar blekkingar sé að ræða), skrifar hann eins og sjá má í leiðaranum í dag: 

  • "Í þriðja lagi eru sérlausnir, þar sem löggjöf ESB er breytt til að mæta hagsmunum umsóknarríkis. Slík lausn er til dæmis breyting á landbúnaðarstefnu ESB fyrir „heimskautalandbúnað“ Svía og Finna. Það er að sjálfsögðu varanleg lausn [SIC!!!]; hún hefur gilt í 20 ár og stendur ekki til að hrófla við henni."

Þvert gegn þessari meinloku ESB-predikarans Ólafs segir próf. Stefán Már í fyrrnefndri bók sinni, bls. 167:

"Breyting á reglum ESB í þágu einstakra aðildarríkja. Sem dæmi um þetta má nefna 142. grein fyrrnefnds aðildarsamnings en þar segir svo í lauslegri þýðingu:

  • Framkvæmdastjórnin skal heimila Noregi, Finnandi og Svíþjóð að veita langtíma innanlandsstuðning með það að markmiði að tryggja að landbúnaður verði áfram stundaður á tilteknum svæðum. Þessi svæði eiga að ná til landbúnaðarsvæða norðan 62. breiddargráðu og nokkurra aðliggjandi svæða innan þeirrar breiddargráðu, sem búa við svipaðar veðurfarsaðstæður sem gera landbúnað erfiðan.

Stuðningur samkvæmt þessari grein er bundinn ströngum reglugerðarákvæðum sem framkvæmdastjórnin [í Brussel] setur. Sem dæmi má nefna að hámark er sett á heildarstuðning og tegund stuðnings er ákveðin eftir ströngum mælikvarða. Af þessu er ljóst að litið er á ákvæðið sem sérstaka útfærslu ESB-réttar. Það er ESB sem ákveður öll skilyrði fyrir stuðningnum og hann getur eftir atvikum alveg fallið í burtu með breyttri stefnu og löggjöf sambandsins í landbúnaðarmálum." (Tilvitnun lýkur í bók Stefáns Más; leturbr. JVJ.)

Hér er greinilegt, að Ólafur Stephensen fer með rakin ósannindi, þegar hann heldur því fram, að sérlausnin fyrir Finna og Svía sé "að sjálfsögðu varanleg lausn".

Þá reynir Ólafur í málefnafátækt sinni að nefna Möltu til sögunnar sem ríki sem fengið hafi "sérlausn ... til að mæta sérstöðu Möltu í sjávarútvegi." Þetta er allsendis hlálegt, því að Malta fekk ekki að halda sinni stóru landhelgi, nú mega stór skip Spánverja og annarra veiða þar upp að 25 mílna mörkum, en sjálfir halda Möltumenn um 1800 tonna ársafla í heild!!! Þar að auki var ákvæðið um 25 mílurnar eingöngu til að hafa þar sér-veiðisvæði fyrir litla báta, sem erfiðara er að gera út frá öðrum ríkjum, en hins vegar ekkert sem bannar öðrum ESB-borgurum (skv. fjórfrelsinu) að setjast þar að í samkeppni um þessi 1800 tonn (Ólafstonnin getum við kallað þau) eða að kaupa sig inn í maltneskar útgerðir.

Eitt er víst, að ekki er Ólafur Stephensen verjandi íslenzks sjávarútvegs, einnar undirstöðugreinar efnahags- og atvinnulífs hér á landi og gjaldeyrisskapandi öllum öðrum fremur.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Viðræðunum við ESB sjálfhætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband