Bloggfærslur mánaðarins, maí 2018
29.5.2018 | 16:15
Lætur Sjálfstæðisflokkurinn ESB svínbeygja Alþingi til að samþykkja stórlega íþyngjandi persónuverndarlög?
Hneisa er það fyrir Alþingi og Íslendinga að hlusta á dómsmálaráðherra tala um það á þingi í dag, að ekki sé annað hægt en að afgreiða lög um persónuvernd í skyndi, þeim verði hvort sem er ekki breytt þar, Evrópusambandið ætlist til að þau verði meðtekin sem slík!
Þetta eru ekki hennar beinu orð, en hlusta mátti á þetta á vef Alþingis nú eftir hádegið og í 4-fréttum Rúv.
PS: HÉR er þetta, 4. fréttin í fréttatíma kl.16 í dag (þegar 3 mín eru liðnar af upptökunni á Rúv-vefnum). Þar töluðu nokkrir þingmenn, vinnubrögðin voru harðlega gagnrýnd, m.a. kvað Þorsteinn Sæmundsson (Miðflokki) þetta ríkisstjórninni til vansa og annar, að hér væri verið að sýna þinginu fádæma-vanvirðingu, en Sigríður (ráðherrann) svaraði m.a.: "Og að lokum vil ég nefna það, að menn tala hér um að hér sé verið að leggja fram skjal til stimplunar fyrir ríkisstjórnina, þá vil ég ég vil bara benda á það, að þetta mál er hreinræktað mál frá Evrópusambandinu og verður litlu breytt hér í þingsal, verður litlu breytt hér í þingsal, vegna reglna sem Evrópusambandið setur Íslandi."
Ýmsir aðilar hafa nú þegar bent á, hve illframkvæmanleg þessi nýja 147 blaðsíðna ESB-löggjöf er í okkar litla samfélagi og hve íþyngjandi hún myndi verða þeim sjálfum, fyrir utan að hér verður um milljarða-kostnað að ræða, sennilega einkum fyrir sveitarfélögin í landinu.
Þannig segir líka Þorsteinn Júlíus Árnason, héraðsdómslögmaður hjá PACTA lögmönnum, í Skinfaxa, tímariti UMFÍ (skv. frásögn Mbl.is)
að þessi nýja reglugerð sé það umfangsmikil að það hefur tekið fyrirtæki og stofnanir langan tíma að undirbúa sig og að erfitt gæti verið fyrir íþróttafélög að fylgja ákvæðum reglugerðarinnar.
Hér er þetta Evrópusamband enn með sínar krumlur í okkar innanlandsmálum og hefur sjálft ekki af miklu að státa í sambandi við endurskoðun eigin reikninga, sem ekki hefur legið fyrir í meira en einn og hálfan áratug!
Svo erum við með jafnvel ráðherra flokks, sem kennir sig við sjálfstæði, sem á Alþingi ögrar þingmönnum með því að vilja keyra þetta mál í gegn á lokadögum þingsins, þegar enginn tími er að vinna málið að þinglegum hætti, eins og venja hefur verið eða á að vera til. Nokkrir þingmenn mótmæltu í dag þessum aðferðum ráðherra að bera þetta mál svo seint fram, og samtök hafa þar að auki bent á hve fráleit þessi lagasetning yrði, sbr. vefgrein samtakanna Frjálst land: Ísland fær línuna, grein sem hefst þannig:
Evrópusambandið heimtar að persónuverndarlög ESB verði sett í lög hér án tafar "... called for its swift incorporation into the EEA-agreement ".
Eitthvert blað var með grein um þetta alvarlega mál...
Það er alveg ljóst, að jafnvel eitt sér er þetta mál af þeirri stærðargráðu, að það svo lítur út sem það mæli sterklega með því, að Íslendingar segi upp EES-samningnum, vilji þeir viðhalda fullveldi síns löggjafarvalds, eins og full ástæða virðist einnig til vegna fleiri þátta í þeirri EES-lagavinnu sem hefur á síðustu misserum verið að færast í enn meira óviðunandi horf en áður hefur sézt eða verið dæmi um, og er hrapallegast þar á blaði ACER-málið, sem færir sig inn á nýtt svið, orkumálin, sem áður voru utan EES-löggjafar, mál sem geta orðið þjóðinni afar dýrkeypt og illbætanleg, jafnvel þótt reynt yrði að snúa til baka.
Því kalla æ fleiri nú eftir uppsögn EES-samningsins. Það er leitt að sjá ráðherra Sjálfstæðisflokksins loka okkur hér af, þar sem þessi möguleiki er fyrir fram útilokaður, en boðið upp á áframhaldandi inngrip stórveldisins og eftirlitsaðila þess inn í málefni sveitarfélaga, fyrirtækja og félagasamtaka!
Sízt eru þeir þingmenn hrósverðir sem ætla að samþykkja víðtækt valdaframsal lansins til býrókrata í Brussel og ofurselja æðsta dómsvald um þessi mál til ESB-dómstólsins í Lúxemborg!
Er ekki að því komið, að sjálfstæðisbaráttan verði að virkjast hér af fullum krafti, eins og hún gerði áður fyrr í landhelgismálinu, þegar Bretar, Belgjar og Þjóðverjar vildu ekki virða íslenzka lögsögu eftir útfærsluna í 12 mílur árið 1958, og þegar Evrópusambandið reyndi að þvinga Ísland til uppgjafar í Icesave-málinu, jafnvel með sínum falska gerðardómi haustið 2008? Er ekki full ástæða til að menn taki nú höndum saman um vörn íslenzkra landsréttinda?
Jón Valur Jensson.
Persónuverndarlög erfið félagssamtökum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.5.2018 | 01:17
Einsýnt að við verðum að hætta í EES
"EES-samstarfið hefur nú breytzt í ofbeldissamband, þar sem Framkvæmdastjórn ESB virðir forsendur EES-samningsins að vettugi. EFTA-ríkjum, sem ekki kæra sig um að verða fylki í Sambandsríki Evrópu eftir BREXIT, er ekki lengur vært í EES. Það er útilokað fyrir EFTA-ríkin að breyta EES-samninginum. Þá er eina lausnin að segja upp EES-samninginum og gera fríverzlunarsamninga. Þjóðin er algerlega andvíg því að flytja stjórn hvers málaflokksins á fætur öðrum undir stofnanir ESB. Dæmi um það mun koma í ljós á næstunni, þegar skoðanakönnun Heimssýnar um orkumálin verður birt. Vantar okkur stjórnvöld með bein í nefinu?"
Þannig ritar hinn bráðglöggi Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur í athugasemd á Moggabloggi sínu í gær. Verður ekki annað séð en að taka beri undir hans sjónarmið.
JVJ
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 01:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)