Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2017
18.2.2017 | 13:25
Eftirminnileg orð leiðtoga Grænlendinga
Jonathan Motzfeldt, leiðtogi grænlenzku landstjórnarinnar, sagði þetta um möguleikann á því, að Grænland færi aftur í ESB: "Haldið þið að ég ætli að fara að láta eitthvert ítalskt möppudýr segja mér til um það, hvort ég megi fara út á minni trillu að veiða þorsk í soðið?!"
Það er ágætt að minna á þetta nú, þegar ritstjóri Fréttablaðsins gleymir í leiðara sínum í dag, að Grænland gekk úr Evrópusambandinu eins fljótt og mögulegt var eftir að þjóðin fekk ráðin yfir eigin málum í hendur. "Margt er óljóst," skrifar ritstjóri Fréttablaðsins um Brexit-málið og útgöngu Breta, "enda hefur engin þjóð gengið úr Evrópusambandinu áður." En þetta er rangt. Grænlendingar gengu úr Evrópubandalaginu 1985, en höfðu farið inn í það nauðugir 1973, sem hluti af danska ríkinu ...
"þrátt fyrir að um 70% þjóðarinnar greiddu atkvæði gegn því. Grænlendingar sóttu fast að fá forsjá eigin mála. Þeir fengu heimastjórn 1979 og þá var jafnframt hafin formleg grasrótarbarátta fyrir því að segja Grænland úr Efnahagsbandalaginu. Eftir að góður meirihluti Grænlendinga hafði samþykkt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 1982 að segja sig úr Efnahagsbandalaginu, hófust samningar um úrsögn sem lauk 1985 með formlegri útgöngu Grænlendinga.
Grænlendingar urðu þó að láta Efnahagsbandalaginu eftir tiltekin réttindi svo sem til veiða í grænlensku lögsögunni og ýmsar aðrar skuldbindingar sem sambandsríkin gáfu ekki eftir ..."
-- Jón Bjarnason, fv. sjávarútvegsráðherra (http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1366342/)
Á breytilegu korti hér geta menn séð útþenslu/minnkun ESB á árunum 1957 til 2013: http://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/1359071/
Þar sést Grænland koma inn 1973 og hverfa út af kortinu 1986. Og innan fárra missera dettur Stóra-Bretland út!
Hér er svo góð mynd af Jonathan Motzfeldt með sinni íslenzku konu, Kristjönu Guðrúnu Guðmundsdóttur:
Mynd: Morten Juhl
Jón Valur Jensson.
Evrópumál | Breytt 19.2.2017 kl. 04:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kröfur ESB til Breta vegna Brexit sanna hve varasamt er að gefa þessu stórveldi nokkuð eftir af fullveldi. ÖLL veiðiréttindi, sem Bretar urðu nauðugir* jafnt sem viljugir** að gefa ESB-ríkjum, vill ESB halda í þrátt fyrir Brexit!
Þetta er ljóst af minnisblaði frá ESB-þinginu sem lekið var til fjölmiðla.
Vonir breskra sjómanna um að Bretland gæti endurheimt fiskimiðin í kringum landið í kjölfar útgöngu landsins úr Evrópusambandinu gætu orðið að engu í kjölfarið. (Mbl.is)
En þetta hafði einmitt verið eitt af því, sem mælti með úrsögn: að þá myndu brezkir sjómenn endurheimta miðin að fullu til sín, í stað þess að deila þeim með Spánverjum, Hollendingum o.fl. þjóðum.
Frá þessu er greint á fréttavef breska dagblaðsins Guardian en minnisblaðið, sem blaðið hefur undir höndum, inniheldur uppkast að sjö ákvæðum sem þingmenn á Evrópuþinginu vilja að verði í fyrirhuguðum samningi á milli Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu landsins. Stefnt er að því að viðræður um útgönguna hefjist síðar á þessu ári.
Fram kemur í minnisblaðinu ekki verði um að ræða aukningu í hlutdeild Bretlands í aflaheimildum í sameiginlegum fiskistofnum (núverandi skipting aflaheimilda verði óbreytt í lögsögu Evrópusambandsins og Bretlands). Ennfremur að með tilliti til skuldbindinga á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar veiðar sé erfitt að sjá nokkurn annan valkost en áframhaldandi notkun á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins. (Mbl.is)
Þetta eru stóralvarlegar fréttir fyrir brezkan sjávarútveg, ef Brusselmönnum tekst að þjösnast á Bretum í þessu efni. En hvaða trompspili getur Evrópusambandið spilað út í því reiptogi? Jú, samkvæmt minnisblaðinu vill sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins að aðgangur Bretlands að innri markaði sambandsins verði háður því skilyrði að Bretar "haldi áfram í heiðri réttindi og skyldur samkvæmt sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni"!
Þarna stendur sem sé til að nota aðgang að innri markaðnum sem þumalskrúfu á Breta að gefa áfram eftir fiskveiðiréttindi sem ESB-ríki höfðu fengið í brezkri fiskveiðilögsögu vegna ESB-aðildar Breta! Nú vill Evrópusambandið í ágirnd sinni múra það inn sem óbreytanlegt, en kannski meðfram til að fæla önnur meðlimaríki frá því að endurtaka Brexit-leikinn. Frexit yrði, fá Frakkar hér með að vita, þeim ekki að kostnaðarlausu né til að endurheimta frelsi sitt að fullu.
Svo eru sumir hér á Íslandi sem ímynda sér, að veiðiréttur hér við land sé eða öllu heldur yrði ekki mikils virði fyrir Evrópusambandsríki! Samt er árlegur afli hér við land margfaldur á við það sem veiðist í brezkri lögsögu! Og vitnisburður spænskra ráðherra*** var t.d. órækt vitni um það, hversu mikill ávinning Spánverjar sáu í Össurar-umsókninni 2009 fyrir sinn eigin sjávarútveg.
Breskir sjómenn hafa lengi verið gagnrýnir á sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. (Mbl.is) Ekki er við það komandi hjá sjávarútvegsnefnd ESB-þingsins að þessir brezku sjómenn hafi sitt fram; aðgangur að innri markaði sambandsins á áfram að vera háður þessu skilyrði: að Bretar beygi sig fyrir sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni, en ekki aðeins það, heldur þetta að auki:
Sjávarútvegsnefndin vill ennfremur að fiskiskip frá ríkjum Evrópusambandsins geti áfram siglt undir breskum fána, en greint hefur verið frá því að hollenska útgerðarfélagið Cornelis Vrolijk veiði 23% aflaheimilda í enskri lögsögu að því er segir í fréttinni. Ennfremur að fiskiskip frá Evrópusambandinu verði að njóta sömu réttinda í Bretlandi og bresk fiskiskip. Ekki verði heimilt að setja skilyrði sem gætu hindrað starfsemi þeirra innan Bretlands. (Sama frétt, leturbr. JVJ.)
Og það er hnykkt á öllu þessu í minnisblaði ESB-þingnefndarinnar, þ.e.
að framtíðartengsl Bretlands og Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegsmála verði að skoða í samhengi við vilja Breta til þess að halda nánum tengslum við samstarfsríki innan sambandsins og innri markað þess. Sérhver samningur sem tryggir aðgang Bretlands að innri markaði Evrópusambandsins verður að tryggja aðgang að fiskimiðum Bretlands fyrir fiskiskip sambandsins. (Mbl.is)
Og nú geta ESB-innlimunarsinnarnir barið sér á brjóst í hugmóði yfir því, hvílíkt sé sjálfstraust og stærilæti Brusselmanna gagnvart gamla brezka ljóninu, sem þeir vilja gjarnan að lyppist niður í búri sínu og hími þar áfram undirgefið við svipuhöggin frá Brussel og Strassborg. En brezkir sjómenn eiga örugglega eftir að láta í sér heyra vegna þessa yfirgangs.
Jón Valur Jensson.
ESB vill veiða áfram við Bretland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fiskveiðar, sjávarútvegur | Breytt 16.2.2017 kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Í skoðanakönnun (2.058 manna úrtak) 3.-5. þ.m. eru 53% brezkra kjósenda sátt við áherzlur ríkisstjórnar Theresu May um Brexit, en 47% ósátt. Þá telja 47%, "að May takist að landa hagstæðum samningi við Evrópusambandið í tengslum við útgönguna, en 29% eru því ósammála. Í janúar voru 35% á hvorri skoðun" (Mbl.is).
- Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar fyrirtækisins ORB samkvæmt frétt Reuters. ... May kynnti á dögunum með hvaða hætti hún hyggst segja skilið við Evrópusambandið en í því felst að yfirgefa um leið innri markað þess.
Útgangan úr Evrópusambandinu var samþykkt með óvænt yfirgnæfandi meirihluta í neðri deild brezka þingsins 8. þ.m., þ.e.a.s. samþykkt með 494 atkvæðum gegn 122 að heimila ríkisstjórninni að hrinda af stað úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu (sjá hér: Neðri deildin samþykkir Brexit).
Hinn 20. þ.m. verður málið tekið fyrir í lávarðadeildinni. Við óskum Bretum allra heilla á þessari vegferð sinni. Eins og fyrir Íslendinga, þannig einnig fyrir Breta, mun það reynast sjálfstæði þessara þjóða affarasælast að standa utan þessa valdfreka bandalags og Bretum að endurheimta sín skertu fullveldisréttindi.
Jón Valur Jensson.
Meirihlutinn hlynntur Brexit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)