Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2016
26.2.2016 | 16:34
Aðildarumsóknin að ESB og stjórnarskrámálið eru sama málið
Árni Páll Árnason sagði í bréfi sem hann sendi flokksmeðlimum í Samfylkingunni 11. febrúar sl.: Við byggðum aðildarumsókn að ESB á flóknu baktjaldasamkomulagi, sem aldrei hélt, í stað þess að fá skýrt umboð frá þjóðinni til að fara í aðildarviðræður, sem hefði bundið alla flokka við umsóknarferlið. En þarna játar Árni að umsóknarferlið hafi verið ein stór mistök.
Helgi Hjörvar þingflokksformaður, sem fýsir að verða formaður, tekur í svipaðan streng í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum í kjölfar þess að hann tilkynnti framboð til formennsku í flokknum; Það dugar ekki að bíða eftir evrunni, heldur þarf Samfylkingin skýra stefnubreytingu. - Sem er í sjálfu sér allt í lagi, en hann heldur áfram: Við eigum að halda aðildarumsókninni að ESB á lofti, en hætta að segja að allt sé ósanngjarnt og verði áfram óhóflega dýrt á meðan við höfum okkar veikburða gjaldmiðil. -Takið eftir, að hann segir að halda eigi aðildarumsókninni á lofti og viðurkennir þar með að hún hafi ekki verið dregin til baka og segir að krónan sé veikburða gjaldmiðill. Og hann sagði ennfremur í yfirlýsingu sinni: Við megum ekki fresta því að breyta kerfinu þangað til við fáum alvöru gjaldmiðil. Þessar yfirlýsingar Helga gefa okkur nasasjón af því hvernig hann myndi beita sér í Evrópusambands-aðildarmálinu, yrði hann formaður Samfylkingarinnar - væri hann vís til að gera allt til þess að liðka fyrir sem sneggstri innlimun í ESB.
En förum nú aftur í yfirlýsingar Árna Páls þar sem hann talar um flókið baktjaldamakk í tengslum við ESB "aðildarviðræðurnar". Árið 2009 átti að ganga í sambandið að undangengnum breytingum á stjórnarskrá. Leitað var til Feneyjanefndarinnar um álit á því hverju þyrfti helst að breyta og var það álit tilbúið 2010. Til að hægt væri að opna kafla er vörðuðu framsal valds og að gera okkur gjaldgeng til inngöngu þurfti að breyta ákvæðum í stjórnarskrá hvað þetta varðaði. Þá var á endanum skipað stjórnlagaráð sem síðar kom með tillögur að breytingum, sem áttu að vera samkvæmt forskrift Feneyjanefndarinnar. (Það má taka fram að við skipun stjórnlagaráðs var litið framhjá úrskurði hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings). Þessi drög voru send Feneyjanefndinni til yfirferðar og skilaði hún áliti sínu á þeim 2013 sem í stuttu máli sagði drögin ómöguleg þar sem of margir fyrirvarar væru á framsalsákvæðum. Meðan svo var, var ekki hægt að opna kafla er vörðuðu framsalið og því sigldu aðlögunarviðræðurnar í strand. Þetta var aldrei viðurkennt og aðeins rætt um hlé á aðildarviðræðum. Reynt var að telja fólki trú um að aðildarviðræðurnar svonefndu og stjórnarskrármálið væru tvö aðskilin mál sem þau voru að sjálfsögðu ekki. Enn er verið að vinna í stjórnarkrármálinu, því án valdaframsals í stjórnarskrá er ekki hægt að halda "aðlögunarviðræðum" réttu nafni: aðildarferlinu áfram.
Með því að rýna í gegnum þennan vef blekkinga og baktjaldamakks má sjá að ESB-umsóknin og stjórnarskrármálið eru sama málið.
Svonefndar rýniskýrslur voru gerðar af ESB, en mönnum var ekki mikið í mun að þær kæmu fyrir almenningssjónir. Er ástæðan eflaust sú að þar hefði komið fram á hverju steytti, nefnilega framsali valds í stjórnarskrá. Öll gögn um aðildarumsóknina á að vera hægt að finna á vef utanríkisráðuneytisins, framvinduskýrslur, álit stjórnarskrárnefndar og ESB-Feneyjanefndarinnar 2010 og 2013. En þar vantar þó enn rýniskýrslurnar. Þær hefur Össur séð ásamt fleirum, en þær eru of eldfimar til opinberar birtingar því að þær tengja þessi tvö mál saman svo ekki verður um villst.
Stjórnarskrárnefnd heldur áfram undirbúningsvinnu fyrir aðild að ESB án þess að fólk almennt átti sig á því. Ekki tókst að ná fram sáttum um framsalsákvæðin í síðustu atrennu, en það má búast við því að það verði reynt áfram, því það er lykillinn að því að taka upp viðræður við ESB, sem strönduðu einmitt á þessum ákvæðum.
Það er mikil herkænska af Samfylkingunni að slaka á kröfunni um inngöngu í Evrópusambandið þegar vitað er að aðildarferlið er stopp og mun hvergi komast af stað fyrr en búið er að liða sundur stjórnarskrána til að gera okkur hæf til inngöngu og opna á kafla sem varðar framsal. Nú eru þeir komnir með forgangsröðina. Nú mun áherslan lögð á stjórnarskrárbreytingar til að greiða götuna. Ég vil hvetja fólk til þess að vera vel á verði og fylgjast vel með fréttum af stjórnarskráviðræðum. Sjáum hvort framsalsákvæðið komi aftur til umræðu. Skrifum og látum í okkur heyra og mótmælum ef troða á í gegn þessu ákvæði um skilyrðislaust framsal valds í stjórnarskrá lýðveldis okkar.
Steindór Sigursteinsson. Steindór er hér gestapenni samtakanna. Með þakklæti.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.2.2016 | 17:56
Hvað gengur Skúla Magnússyni og Ragnhildi Helgadóttur til að vilja tefla fullveldi okkar í tvísýnu?
Skúli, sem er nú formaður Dómarafélagsins, amast við því, að stjórnarskrárnefndin hafi ekki samþykkt tillögu sem heimili stjórnvöldum að framselja ríkisvald "til alþjóðastofnana í þágu alþjóðasamninga".
"Skúli sagði að það mál kæmi Evrópusambandinu ekkert við og sambærileg ákvæði væri í stjórnarskrám annarra ríkja." (Mbl.is)
Þetta er léleg röksemd, ef menn horfa til þess, að einungis takmarkaður fjöldi smærri, sjálfstæðra þjóðríkja leyfir slíkt fullveldisframsal nema þá að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum eins og stórauknum meirihluta í kosningum um slík mál. Það á t.d. við um Noreg, en hefur ekki verið inni í myndinni í hugum þeirra, sem hér hafa komið nærri þessum málum á seinni árum: hvorki Samfylkingar-þingmanna, sem keyrðu á ESB-umsókn sína af mestu óbilgirni árið 2009 og aldrei kusu annað en að hafa einfaldan meirihluta í þingi og meðal þjóðar sem reglu, né heldur meðal "ráðsmanna" í hinu ólögmæta "stjórnlagaráði", sem vildu leyfa billega kosningu þjóðarinnar (einfalds meirihluta greiddra atkvæða, sem gæti þá verið innan við 40% landsmanna) til að innlimast í stórveldi (111. tillögugrein ráðsins), en vildu um leið (í 67. gr.) meina þjóðinni með öllu að eiga frumkvæði að því að ganga úr því stórveldi eða yfirhöfuð að hafa nokkurt leyfi þá til að fá að greiða um það þjóðaratkvæði!
Skúli segir, að "Ísland eigi í erfiðleikum í alþjóðlegu samstarfi, ekki síst því sem kennt er við evrópska efnahagssvæðið. Skortur á slíku ákvæði sé annmarki á stjórnskipun landsins." (Mbl.is).
En þetta er fráleit nálgun á þetta mál. Það hefur engin þörf verið á slíku ákvæði, en sannarlega er reynt að þrýsta á þingmenn með það, meðfram á fölskum forsendum ESB-innlimunarsinna, en einnig til að skuldbinda okkur með hættulega ágengri löggjöf, m.a. um innistæðutryggingar (miklu alvarlegri löggjöf en þeirri sem gilti hér á Icesave-tímanum) og um TISA-bankastarfsemina í Austur-Asíu, sem við ættum einfaldlega að hafna.
Það að nefndin komi nú árið 2016 og skili ekki frumvarpi er ekki aðeins vonbrigði heldur til marks um það að nefndinni og stjórnkerfinu hafi mistekist að standa undir þeirri ábyrgð að viðhalda íslenskri stjórnskipun og leysa úr þeim göllum sem á henni eru. Að þessu leyti fær vinna nefndarinnar falleinkunn,
sagði Skúli í viðtali við Mbl.is, en fær sjálfur falleinkunn hjá okkur i Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Íslands vegna andvaraleysis hans og eitraðs peðs sem hann hefur nú fært fram í þessu eilífa þrátefli.
Ragnhildur Helgadóttir, prófessor og deildarforseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, sagðist einnig sakna ákvæðis um framsal ríkisvalds í tillögum nefndarinnar.
Við deilum ekki þeim söknuði með henni! Stór hluti Íslendinga hefur reyndar engan hugsjónarhita fyrir því að skurkað sé mikið í stjórnarskránni.
Í raun erum við í hættu stödd, ef hér eru ekki styrktar okkar fullveldisvarnir fremur en veiktar, eins og Skúli og Ragnhildur þó vilja í óforsjálni sinni.
Vegna gríðarlegs afls- og aðstöðumunar 330 þúsund íbúa Íslands og 510 milljón manna Evrópusambands, sem þar með er um 1550 sinnum stærra, ættum við Íslendingar að horfa með þeim mun meiri gagnrýni, ef ekki beinlínis þykkju og andstöðu, á hvern þann landa okkar sem getur hugsað sér að leggja því lið, að landið verði innlimað í evrópska stórveldið eða hvaða stórveldi sem er.
Sannarlega eiga slíkir einstaklingar aldrei erindi á forsetastól þessa lýðveldis.
Eitt a.m.k. gerði þó Ragnhildur rétt á þeim fundi sem Lagastofnun Háskóla Íslands og Lögfræðingafélags Íslands héldu í dag: að leggja áherzlu á, að ekki einungis ætti að vera réttur kjósenda að fá þjóðaratkvæði um lagafrumvörp, heldur einnig um þingsályktunartillögur um mikilvæg málefni.
Jón Valur Jensson.
Falleinkunn stjórnarskrárnefndar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2016 | 15:16
Ofmetnaður og vanhæfi?
Sem betur fer þarf ekki að kjósa annan tveggja Evrópusambands-innlimunarsinna til Bessastaða, Þorgerði Katrínu eða stjórnarskrárbrjótinn Össur Skarphéðinsson, sem 19. þ.m. gaf ótvírætt í skyn að hann gengur með forsetann í maganum ("ég yrði ábyggilega alþýðlegur forseti" sagði hann í síðdegisþætti á Útvarpi Sögu! og þetta er maðurinn sem unir sér svo vel innan um háelítuna í Brussel og vill helzt, að æðsta vald yfir okkar löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldi komist í hendur Evrópusambandsins!).
Ýmsir betri kostir koma til greina í forsetakjöri, eins og brátt kemur í ljós.
Jón Valur Jensson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2016 | 21:13
Borgarstjóri Lundúna vill að Bretland gangi úr Evrópusambandinu
Íhaldsmaðurinn mikilvægi Boris Johnson lýsir nú stuðningi við úrsögn Breta úr Evrópusambandinu. Þetta er áfall fyrir David Cameron o.fl. frammámenn Íhaldsflokksins.
- Sagði Johnson í dag að eftir mikla umhugsun myndi hann mæla með að fólki kysi um að yfirgefa sambandið.
- Johnson er vinsæll stjórnmálamaður og einn sá þekktasti í Bretlandi. Hefur ærslafullt fas hans, mikið ljóst hár og hnittin svör hafa gert hann vinsælan hjá stuðningsmönnum Íhaldsflokksins sem og Verkamannaflokksins. (Mbl.is)
Takið eftir þessu (leturbr. hér):
- Johnson sagði Cameron hafa staðið sig mjög vel í samningaviðræðunum við leiðtoga Evrópusambandsins í fundarlotunni í vikunni sem er að líða, en að enginn gæti í raun sagt að þessar breytingar myndu hafa [í för með sér] grundvallarbreytingar á samskipti ríkjanna eins og hugmyndin var upphaflega.
Já, hlustum á gagnrýni hans:
- Meðal þess sem Johnson gagnrýndi var að völd Evrópudómstólsins væru komin úr böndunum, og þá sagði hann að Bretland þyrfti að leitast eftir nýju sambandi við Evrópusambandið byggðu á viðskiptum og auknu samstarfi.
Þá er þetta býsna athyglisvert um framtíðarhorfurnar hjá Cameron og Johnson:
- Stjórnmálaskýrendur í Bretlandi telja að þetta útspil Johnsons, sem hefur bæði komið fram sem stuðningsmaður Camerons og stundum verið honum ljár í þúfu, sýni að Johnson horfi til þess að verða arftaki Cameron í embætti leiðtoga Íhaldsmanna. Telji hann væntanlega líklegra til vinsælda þegar til lengri tíma sé litið að styðja nú útgöngu úr sambandinu. (Mbl.is)
Hér verður engu spáð, nema hvað ljóst er, að yfirlýst afstaða Boris Johnson mun hafa sín áhrif á úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í sumar.
Jón Valur Jensson.
Boris mótfallinn hugmyndum Cameron | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.2.2016 | 13:34
Gott að Samfylking sjái ljósið - eða a.m.k. smá-skímu
Nú hafa tveir forystumenn Samfylkingar, formaðurinn Árni Páll og Helgi þingflokksformaður, sem fýsir að verða formaður, viðurkennt mistök flokksins með einhliða ofuráherzlu á ESB og evruna ásamt hlutdrægum bölmóði um íslenzkt efnahagslíf.
Mistök eru til þess að læra af. Kreppa stjórnmála og ekki síst okkar jafnaðarmanna er ekki séríslensk þótt hún djúp sé hér. Hún er sprottin af þeirri tilfinningu fólks að peningaöflin ráði, stjórnmálamenn séu í stjórnmálum bara sjálfra sín vegna og flokkarnir svíki gefin loforð, segir Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, í yfirlýsingu sem hann hefur sent til fjölmiðla í kjölfar þess að hann tilkynnti framboð til formennsku í flokknum (leturbr. jvj).
Það dugar ekki að bíða eftir evrunni, heldur þarf Samfylkingin skýra stefnubreytingu. Við eigum að halda aðildarumsókninni að ESB á lofti, segir Helgi, en hætta að segja að allt sé ósanngjarnt og verði áfram óhóflega dýrt á meðan við höfum okkar veikburða gjaldmiðil.
Takið eftir, að enn hangir hann í því að tíunda meintan veikleika krónunnar, í stað þess að viðurkenna a.m.k. sveigjanleika hennar um leið, og vill halda aðildarumsókninni áfram, NOTA BENE: ekki viðurkenna, að hún hafi verið dregin til baka! Við vitum sem sé, hvernig Helgi myndi reynast í því máli, yrði hann foringi Samfylkingarinnar gera allt til að liðka fyrir sem sneggstri innlimun í stórveldið!
Við megum ekki fresta því að breyta kerfinu þangað til við fáum alvöru gjaldmiðil [sic], segir Helgi ennfremur í sömu yfirlýsingu.
En þótt það sé prýðilegt að Samfylking sjái a.m.k. smá-skímu þessa dagana og ætli sér ekki að halda áfram gamla söngnum um að nánast allt sé hér ómögulegt, eins og það hafi verið rök fyrir innlimun í stórveldabandalag, þá skulum við samt hafa auga með því, hvað valdamenn í þessum hnignandi flokki ætla sér og ekki þá síður vegna þess, að nýja formannsefnið vill sameinast Pírötum og "Bjartri framtíð" og trúlega véla það fólk inn í Brusseláhugamál sitt.
Engin Evrópusambands-innlimunarstefna má eiga hér upp á pallborðið hjá íslenzkri þjóð; við stefnum sjálf að okkar eigin björtu framtíð með vinnusemi og okkar ágætu krónu sem smám saman hefur gert Ísland að alvöru-ferðamennskulandi, ríkissjóði og sveitarfélögum og okkur öllum til mikils tekjuauka. Með tímanum (eins og hefur sýnt sig) getum við svo vel sniðið marga agnúana af okkar efnahags- og peningamálum og gefið almenningi miklu betri hlut í batanum með því að útdeila gróða nýju bankanna af því að hafa keypt kröfur hrundu bankanna á spottprís. Og nú þegar, frá síðustu áramótum, hefur ríkisstjórnin fært niður verðlag á ýmsum vörum með niðurfellingu tolla en það er nokkuð sem við værum ekki sjálfráð um, ef við værum í Evrópusambandinu!
Jón Valur Jensson.
Ekki hægt að bíða eftir evrunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.2.2016 | 15:04
Stjórnarskrárnefnd má ekki leggja neitt til sem stofnar fullveldi í hættu eða torveldar endurheimt þess
Það, sem mestu skiptir um rétt þjóðarinnar til áhrifa á löggjöf, er ekki sú prósenta (15%) sem stjórnarskrárnefnd var að ráða með sér, heldur 1) að unnt sé að stöðva fullveldisframsal til ESB í krafti naums meirihluta kjósandi þingmanna og 2) að þjóðin geti haft frumkvæði að því að hafna þeim "þjóðréttarsamningi" sem feli í sér slíkt fullveldisframsal.
Lágmarkskrafan um 15% kjósenda (um 40.000 manns), sem þurfi til að unnt verði að vísa samþykktum lögum til þjóðaratkvæðis, er verulega ströng og yrði því trúlega sjaldan (jafnvel aldrei) nýtt, því að þetta verður sennilega haft innan fjögurra vikna ramma, þ.e. að innan þess tíma, frá samþykkt Alþingis á viðkomandi lögum, verði undirskriftalistar að liggja fyrir, og þar verður gerð mun strangari krafa til undirskriftanna heldur en t.d. í áskorendasöfnun Kára Stefánssonar og félaga eða öðrum áþekkum.
Fundað verður á ný í stjórnarskrárnefnd á morgun, og þar er áhyggju-verkurinn: að nefndin kunni að stefna að svipuðum stjórnarskrárbreytingum um framsal fullveldis og s.k. "stjórnlagaráð", sem hér starfaði ólöglega og bar fram tillögu í afar billegu formi um heimild til framsals ríkisvalds, þannig að hvenær sem væri (og þegar það t.d. væri talið ESB hentugast vegna stöðu alþjóðamála sem innlendra) gæti einfaldur meirihluti þingmanna troðið slíku máli í gegn og síðan gert áhlaup á þjóðina í krafti yfirgnæfandi peningaveldis og áróðursyfirburða innlendra sem erlendra hagsmunaaðila til að véla nauman meirihluta þjóðarinnar til að samþykkja þetta, sem 111. tillögugrein "ráðsins" átti að heimila en um leið bundið þannig um hnútana í 67. tillögugreininni, að kjósendur (alveg sama hve margir) gætu aldrei krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu um að afturkalla þær þjóðréttarskuldbindingar, sem samþykktar hefðu verið með fyrrnefndum gerningi, þ.e. innlimun í Evrópusambandið!
Það hvílir því mikil ábyrgð á herðum þessara stjórnarskrárnefndarmanna undir forystu Páls Þórhallssonar, sem og á alþingismönnum, eftir að frumvarp um þessi mál kann að koma fram á yfirstandandi vorþingi. Því er spenna í lofti, hvað kann að koma í ljós að loknum fundi nefndarinnar á morgun. En það er langt í frá sjálfgefið, að flokkar, sem jafnvel kenna sig við sjálfstæði, standi tryggan vörð um þjóðarhagsmuni. Það gerðu flestir þeirra ekki á lokastigum Icesave-málsins, og það var málskotsréttur forsetans, ásamt samstöðu grasrótarhreyfinga og þjóðarviljans, sem bjargaði okkur þá frá óförum og alþjóðahneisu. Þess vegna ætti stjórnarskrárnefnd ekki heldur að taka það í mál, að þessi dýrmæti málskotsréttur verði tekinn af forseta Íslands. Ennfremur er það afleitt, að einfaldur, naumur meirihluti, hvort heldur í Alþingi eða í þjóðaratkvæðagreiðslu, geti haft úrslitaáhrif á sjálfstæði og fullveldi þessa lands.
En við þekkjum ýmsa þá, sem mælt hafa gegn neyðarrétti forsetans, og við skulum ekki ljá máls á því nú, að sömu aðilar laumi nú síðar inn þeirri valdsviptingu þess embættis, enda er hreint engin þörf á henni.
Ennfremur má sérstaklega vara við því, að stjórnarskrárnefndin getur hugsanlega tekið upp enn eina óþurftartillöguna frá "stjórnlagaráði", þ.e.a.s. í 113. greininni, um stjórnarskrárbreytingar, þar sem segir m.a.: "Hafi 5/6 hlutar þingmanna samþykkt frumvarpið [frumvarp til breytingar á stjórnarskrá] getur Alþingi þó ákveðið að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður og öðlast þá frumvarpið gildi engu að síður." Þarna er einnig um valdsviptingu að ræða, í þetta sinn aftur og beint frá þjóðinni. Ákvæðin fyrstgreindu úr stjórnarskrártillögum "stjórnlagaráðs" gætu þá t.d. komizt inn nú fyrir vorið, og síðan gæti Alþingi eitt sér breytt þeim ákvæðum í enn meiri ESB-átt, ef þingmönnum svo sýnist. Og minnumst þess hér, að 70% þeirra samþykktu Buchheit-frumvarpið!
Jón Valur Jensson.
Þjóðaratkvæði ef 15% vilja það | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2016 | 16:12
Baktjaldamakk Samfylkingar um ESB-umsóknina þarf að koma algerlega upp á yfirborðið
Árni Páll: "Við byggðum aðildarumsókn að ESB á flóknu baktjaldasamkomulagi, sem aldrei hélt, í stað þess að fá skýrt umboð frá þjóðinni til að fara í aðildarviðræður, sem hefði bundið alla flokka við umsóknarferlið." Hann flokkar því Össurarumsóknina sem "mistök".*
Merkilegt að uppgötva þetta svona eftir á. Og nú á Árni það eftir, eins og bent var á í leiðara Morgunblaðsins í dag, að lýsa því fyrir okkur með nákvæmum, sannsöglum hætti, hvernig þetta mikla baktjaldasamkomulag varð til, hverjir voru þar aðalleikendur, innlendir eða erlendir, og hvort einstaklingar úr öðrum flokkum en Jóhönnustjórnarinnar komu þar við sögu; ennfremur út á hvað þetta baktjaldasamkomulag gekk hvort til dæmis skyldi fyrir alla muni forðazt, að þjóðin yrði spurð ráða.
Ennfremur var þetta meðal þeirra helztu mistaka sem Árni Páll nefndi í frægu bréfi sínu í gær:
"Skuldir heimilanna Þegar fólk var að drukkna í skuldafeni tókum við að okkur í of ríkum mæli að útskýra fyrir fólki að það ætti að borga skuldir sínar, í stað þess að taka okkur stöðu með fólki gegn fjármálakerfi.
Icesave Við studdum samning um Icesave sem varði ekki ítrustu hagsmuni þjóðarinnar og mæltum gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um hann."
Sannarlega var kominn tími til sannleiksuppgjörs í Samfylkingunni við hennar arfaslappa feril í Icesave- og ESB-málum. En seint mun Árna Páli takast að fá samþingmenn sína í SF alla til að iðrast. Hætt er við, að nú verði hangið í þögn að hætti Oddnýjar Harðardóttur og afneitun á borð við undanfærslur og nýskáldskap Steingríms J. Sigfúsonar í Icesave-málinu og raunar í fleiri mjög viðkvæmum fjármálum fyir hann.
Árni Páll hefur óneitanlega hreinni skjöld í sumum þessum málum en samráðherrar hans fyrrverandi. Þannig léði hann fyrstur manna í stjórnarliði Jóhönnu máls á því að snúa við blaðinu í Icesave-málinu eftir á.
* Reyndar var Árni Páll einn meðal fárra sem gerðu sér grein fyrir því, að Össurar-umsóknin var, eins og á henni var haldið, beint stjórnarskrárbrot, sbr. hér: Árni Páll Árnason minnir óvart á að ESB-umsókn Össurar og hans eigin flokks var ólögmæt!
Jón Valur Jensson.
Bréf Árna Páls kom á óvart | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.2.2016 | 06:44
Fv. varnarmálaráðherra Breta: "Að vera í ESB býður hættunni heim"!
Liam Fox segir hryðjuverkamenn komast til landsins undir yfirskini þess að vera flóttamenn. Því stafi Bretum hætta af straumi hælisleitenda og flóttamanna til álfunnar og verri gætu afleiðingarnar orðið en árásirnar sem konur urðu fyrir í Köln o.fl. þýzkum borgum um áramótin.
Þetta kemur fram í viðtali breska dagblaðsins Daily Telegraph við Liam Fox en þar segir hann að Bretar þurfi að endurheimta sjálfstæði sitt og segja skilið við Evrópusambandið til þess að koma í veg fyrir að þessi staða geti komið upp. Segir hann út í hött að halda því fram, líkt og David Cameron forsætisráðherra Bretlands hafi gert, að vera Breta í Evrópusambandinu styrkti þjóðaröryggi þeirra. Bretlandi stafaði hætta af veru sinni í sambandinu af fjölmörgum ástæðum. Þar á meðal vegna efnahagskrísunnar á evrusvæðinu. (Mbl.is segir frá, leturbr. jvj.)
Þessi fyrrverandi ráðherra segir "yfirvöld í Grikklandi og á Ítalíu ekki hafa hugmynd um það hvaða fólk sé að koma til landa þeirra með bátum frá Tyrklandi og yfir Miðjarðarhafið, hvort um sé að ræða flóttamenn, hælisleitendur, fólk að flýja bág kjör eða hryðjuverkamenn sem haldi því fram að þeir séu flóttamenn eða hælisleitendur."
Þetta er alvarleg áminning, ekki aðeins til ríkisstjórnar íhaldsmanna í Bretlandi, heldur til margra ríkisstjórna í Evrópusambandinu. Standa hefði mátt miklu betur að þessum flóttamannamálum, en eins og of lengi var látið reka á reiðanum, má líklegt telja, að varnir landanna hafi riðlazt eða veikzt.
Jón Valur Jensson.
Vera í ESB bjóði hættunni heim | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)