Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

Fréttamenn ættu að krefja Smára McCarthy um svör

Smári McCarthy, sem kosinn hefur verið þingmaður Pírata þrátt fyrir fádæma-klaufaleg ummæli, upplýsti í útvarpsþætti um daginn, að Evrópusambandið vilji leggja mikið á sig til að fá Ísland inn. "Hvaðan hann hefur það, veit ég ekki," sagði Pétur Gunnlaugsson á Útvarpi Sögu um þetta í síðdegisþætti í dag, þar sem Vigdís Hauksdóttir er gestur þáttarins.

Sjálfur sagðist Smári McCarthy vera fylgjandi inngöngu Íslands í ESB. En hann virðist í einhverju sérstöku sambandi við Brusselmenn, og ættu fréttamenn að ganga á hann og krefja hann um svör við því, hvaða ESB-menn hafi upplýst hann um þennan mikla áhuga Evrópusambandsins á Íslandi.

Vitaskuld er áhugi stórveldisins á Íslandi engin ný frétt, en það hafa ýmsir þrætt fyrir hann og látið jafnvel sem stórveldið myndi ekkert hagnast á því að ná Íslandi inn! Samt eru ekki aðeins lífskjör betri hér en meðaltalið í ESB, hagvöxtur meiri, atvinnuleysið mun minna o.s.frv., heldur eru auðlindir okkar mikils virði, bæði á og undir jörðu og fiskimið okkar þau auðugustu í Evrópu um aldir, eins og mikil fiskisókn Breta, Frakka, Þjóðverja, Belgja o.fl. þjóða til Íslands bar vitni um og ítrekuð herskipavernd brezka flotans með fiskveiðum þeirra hér í þorskastríðunum.

Margir Íslendingar eru andvígir her í landi, en eftir gríðarlega mikilvægri hernaðaraðstöðu landsins slægjast Þjóðverjar í gegnum ESB, sbr. þessa frétt: Island will der EU beitreten! “Auch ein strategisches Interesse”, sem undirritaður sagði frá á Vísisbloggi sínu, meðan það var og hét, og verður sú grein endurbirt hér sem fyrst (því að þrátt fyrir að 365 miðlar hafi fyrir­vara­laust lagt niður gervallt Vísisblogg þúsunda manna og allar umræður þar til margra ára, þá var undirritaður svo forsjáll að taka afrit af sínum pistlum þar).

Við fengjum, vel að merkja, ekki að ráða því, hvort landið yrði notað til heræfinga og herstöðva (bæði flughers og flota), ef ESB-innlimunarsinnuðum flokkum tækist að afsala landi og þjóð fullveldisrétti og sjálfstæði í hendur yfirdrottnaranna í Brussel. Nánar um þetta í nefndri grein.

Sbr. einnig eftirfarandi grein á Moggabloggi undirritaðs 22. apríl 2010: Þýzka þingið samþykkti í dag EU/ESB-umsókn Össurar og Jóhönnu! -- einnig í öðrum pistli 23. apríl 2010: Þýzka sambandsþingið samþykkti inngönguviðræður Íslendinga (Össurar umfram allt!!!) við Evrópubandalagið (EU).

Jón Valur Jensson.


Nokkrar bábiljur ESB-innlimunarsinnaðra flokka og frambjóðenda

1) "Viðreisn" lætur sem eina leiðin til lækkunar vaxta sé í gegnum ESB. En hærri raunvextir hér en í nágrannaríkjum hafa ekkert með gjaldmiðil okkar að gera, upplýsir Már Wolfgang Mixa okkur um.*

2) Þeir vilja ekki takast á við að nýta okkar fullveldisréttindi til að beita valdi þingmeirihluta og ráðherra til að breyta vaxtastefnunni í landinu og setja t.d. 2% vaxtaþak á verðtryggða vexti. Annaðhvort kemur þetta til af pólitísku kjarkleysi (að ímynda sér þetta sem ómögulegt eða illfært) eða þeir hreinlega vilja þetta EKKI, af því að þeim (t.d. ESB-innlimunarflokknum "Viðreisn") er meira í mun að hafa hið sífellda umkvörtunarefni meirihluta þjóðarinnar: okurvexti Seðlabankans og bankanna, sem sitt tæki til að reyna að hræða menn og smala þeim til að aðhyllast ESB-inngöngu sem "einu lausnina" –– sem hún þó alls ekki er! En þetta er sá herkostnaður saklausrar þjóðarinnar sem óbilgjörn "Viðreisn" er til í: að neita fólki um íslenzka vaxtalækkun, af því að ESB-Benedikt og hans fylginautar vilja einfald­lega koma okkur undir klafa Evrópu­sambandsins. En þetta sýnir vita­skuld, að "Viðreisn" hin nýja stendur ekki undir nafni, hana skortir þor til að endurtaka gott framtak Viðreisnar­stjórnar Ólafs Thors á 7. áratugnum að því að umbylta og endur­bæta íslenzka stjórnarhætti í efnahagsmálum í krafti okkar fullveldisréttinda og aflétta fyrri haftastefnu með sínum eigin, innri starfs­tækjum, en til þess hafa stjórnvöld nú sem fyrr m.a. löggjafarþingið og vald ríkisstjórnar yfir stjórn Seðlabankans og peninga­stefnunefndar.

3) Þeir gefa kjósendum til kynna, að s.k. "aðildarviðræður" feli í sér samninga tveggja jafnrétthárra aðila um málamiðlanir í átt að einhverri sameiginlegri niðurstöðu, sem verði þó ekki í samræmi við "samninga" annarra ESB-ríkja. Til að mynda hafa menn eins og Össur Skarphéðinsson látið sem við gætum fengið "hagstæða" samninga við Evrópusambandið um okkar fiskveiðimál. Ekki fengu Norðmenn slík yfirráð yfir jafnvel parti af sinni fiskveiðilögsögu, í þeim við­ræðum sem þeir áttu í við ESB og lyktaði með norsku NEI-i í þjóðar­atkvæða­greiðslu 1994. Og á hreinu er það, skv. formanni sjávarútvegs­nefndar Evrópu­sambands­þingsins, Gabriels Mato (19.9. 2012), að "Íslendingar verða að samþykkja og virða löggjöf Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum" - ekki boðið upp á annað í ESB! Samanber einnig skýr orð sjávarmálastjóra Spánar: auðlindir "evrópusambandsvæddar" þegar ríki gengur í ESB (5. sept. 2009). Í samræmi við þetta kallaði ráðherra Spánverja í ESB-málum fiskimið Íslands "fjársjóð" og ætlaði Spánverjum að tryggja sér fiskveiðiréttindi hér í aðildarviðræðunum (29. júlí 2009).

4) Þá hafa ESB-sinnar haldið því fram í umræðunni, að við Íslendingar tökum hvort sem er við meirihlutanum af ESB-löggöf gegnum EES-samninginn. En í reynd ná innan við 10% af lögum Evrópusambandsins hér í gegn með EES-samningnum.

5) Svo er látið sem við getum náð hér varanlegum undanþágum frá jafnvel meginreglum sáttmála Evrópusambandsins. En hitt er margstaðfest staðreynd, eins og Stefan Füle, þáv. stækkunarstjóri Evrópusambandsins, tók skýrt fram á blaðamannafundi í Brussel, að engar varanlegar undanþágur eru veittar frá lögum ESB.

6) Bábiljurnar um vaxtamálin (sem Jón Steinar Ragnarsson hefur varpað nýju ljósi á í ýmsum innleggjum sínum hér neðar) ná hámark sínu í lýðskrumi nokkurra frambjóðenda, sem allir eru ESB-sinnaðir, um himinháan mun á útlögðum kostnaði lántakenda vegna íbúðakaupa á Íslandi annars vegar og í ESB-löndum hins vegar, og er hér vísað til Ástu Guðrúnar og Óttars Proppé hjá "Bjartri framtíð" og Benedikt og Þorgerði Katrínu hjá "Viðreisn" í kosninga­baráttunni að undanförnu. Þannig fullyrti Óttarr í kynningu á flokki sínum í Sjónvarpi 19. okt. sl.: "Það er náttúrlega alveg óþolandi að við hérna á Íslandi þurfum að kaupa íbúðirnar okkar þrisvar til fjórum sinnum á meðan fólk í nágrannalöndunum er að fjármagna íbúðir með jafnvel eins og tveggja prósenta vöxtum." ––Þetta um þrefalda til fjórfalda íbúðaverðið er uppspuni eða einber fáfræði þessa misreiknandi skýjaglóps. Við athugun mjög glöggs verkfræðings var íbúðarverð hér endurgreitt (ef tekið var 100% lán) með um 15–20% meiri kostnaði en í Danmörku. Jafnvel fullyrðing Þorgerðar Katrínar um að við borgum fyrir eitt hús með andvirði tveggja húsa gegnum bankakerfið er líka rakið lýðskrum til að gylla fyrir okkur "kostinn" við að fara inn í Evrópu­sam­bandið. Síðast í gærkvöldi, daginn fyrir kosningarnar, staðhæfði Benedikt Jóhannesson, að Íslendingar væru að borga andvirði þriggja til fjögurra húsa við að kaupa sér eitt á lánum, á sama tíma og Danir væru að borga tæplega eitt og hálft andvirði húss í sínum kaupum. Í reynd eru samanburðartölurnar, að öllu útreiknuðu, um 1,35 hjá Dönum, en um 1,55 hjá okkur. Það er munur sem auðvelt er að ná niður með löggjöf um vaxtaþak á verðtryggð lán (sbr. 2. lið hér ofar) og eins á óverðtryggð lán, ásamt sérákvæðum vegna mikilla gengisfellinga eða holskefla í efnahagslífinu. Pólitískur vilji er allt, sem til þarf.

7) Því er haldið fram, að evran sé stöðugur og traustur gjaldmiðill í samanburði við óstöðuga krónu. Í þessu sambandi er því einnig haldið endalaust fram, að krónan hafi rýrnað um hartnær 100% frá upptöku hennar um 1922, ólíkt frammistöðu dönsku krónunnar, sem við klufum okkur þá frá. Þetta er hin mesta sýndarblekking; verðbólga og verðfall krónunnar hefur alls ekki komið í veg fyrir, að lífskjörum og verðmætasköpun í formi íbúðarhúsnæðis og atvinnufyrirtækja hafi fleygt hér fram í meira mæli en í flestum ef ekki öllum löndum Evrópu frá sama tíma, bæði í stórfelldum vexti og í gæðum húsnæðis, ennfremur bæði í kaupmætti og ótrúlegum framförum í velferðarkerfinu. Við vorum eitt fátækasta land álfunnar fyrir um 95 árum, sumir jafnvel enn búandi í moldarkofum, en erum nú meðal bezt stæðu Evrópuþjóða og jöfnuður hér, þrátt fyrir allt, meiri en annars staðar. En á grunni fengins sjálfstæðis og fullveldis höfum við frá 1918 sótt fram með aðdáunarverðum hætti í samfélagi þjóðanna, og það eru þessi fullveldisréttindi sem m.a. veittu okkur forsendurnar og réttinn til að stækka fiskveiðilögsöguna úr þremur mílum í 200 á einungis aldar­fjórð­ungi, 1950-1975! Þetta var svo mikil blóðtaka fyrir brezkan sjávarútveg, að Sameinaða konungsríkið Stóra-Bretland fór þrívegis í þorskastríð, beitandi herskipaflota sínum og öðrum vígdrekum gegn okkur af mikilli hörku (og má benda á vel myndskreytta frásögn í Morgunblaðinu í dag, bls. 34 og 36, af ásiglingu þriggja brezkra dráttarbáta á varðskipið Þór í mynni Seyðisfjarðar 1975, en slíkar ásiglingar og tilraunir til þeirra voru margar og stórhættulegar sumar hverjar, og umtalsvert tjón hlauzt af þeim á skipum beggja aðila; sjá um það t.d. líflega sagða sögu þessara landhelgismála í fallega útgefinni bók eftir nýkjörinn forseta okkar, dr. Guðna Th. Jóhannesson: Þorskastríðin þrjú. Saga landhelgismálsins 1948–1976. Rvík: Hafréttarstofnun Íslands, 2006).

8) Því er haldið fram, að matvælaverð myndi lækka umtalsvert með a) upptöku evru sem lögeyris á Íslandi, b) við inntöku landsins í Evrópusambandið. Hvorugt stenzt neina skoðun. a) Strax við upptöku evru í ýmsum löndum Evrópu­sam­bandsins, t.d. á Spáni og Austurríki og ýmsum fyrrverandi austantjaldslöndum, hækkaði verðlag á margvíslegri þjónustu og vöruverði, þegar kaupmenn og aðrir aðilar færðu sitt verð í evrumynt. b) Þær fullyrðingar, að ESB-aðild fylgi sjálfkrafa lækkun matarverðs, komu m.a. fram í máli Evu Heiðu Önnudóttur, sem titluð var sem sérfræðingur við Háskólann á Bifröst í viðtali á Rúv 21. júní 2009, þar sem hún sagði:

"Það var talið að almennt mundi vöruverð lækka um 10-15% og matvara lækka sem því nemur og jafnvel meira. Ég vil samt taka fram þegar verið er að tala um verðlækkun á matvöru og á húsnæðislánum, þá er ekki víst að það komi fram í því að vöruverð lækki eingöngu heldur að það dragi saman á vöruverði á Íslandi og meginlandi Evrópu. Þannig að það dregur úr verðhækkunum, það er reynslan hjá Finnum og Svíum."

En ótrúlega grunn var umfjöllun Rúv, eins og m.a. innflutningsaðili, Sigurður Þórðarson, benti á:
 
"Við erum nú þegar í tollabandalagi með ESB í gegn um EES þannig að almenna reglan er að það eru engir tollar á vörur frá ESB. Varðandi sumar landbúnaðarvörur þá eru takmarkanir í formi kvóta og heilbrigðisreglna.
Hvernig getur RUV haldið því fram að vöruverð lækki? Þvert á móti mun vöruverð hækka vegna þess að tolla- og fríverslunarsamningar okkar t.d. við Asíulönd munu falla úr gildi. ESB-aðild mun líka hækka tolla á fiski frá okkur, t.d. til Kína og Kóreu."

Og undirritaður jók þessu við þá umræðu (sjá einnig innlegg Guðbjörns Guðbjörnssonar tollgæzlumanns þar):

"Það er fráleitt að miða við "meðalverð í ESB", sem oft er talað um, held­ur ætti miklu fremur að miða hér við meðalverð í Norðvestur-Evrópu, þar sem kauplag og verðlag á ýmissi þjónustu hefur verið miklu líkara okkar en kauplag og verðlag í Suður-, Mið- og Austur-Evrópu.

Það fólk, sem heldur því fram, að matarverð myndi almennt lækka –– jafnvel um 10–15%!!! – á að setja upp við vegg og láta það rökstyðja þessa fullyrðingu sína. Ætlar það að lækka flutningskostnað til landsins? Ætlar það að lækka kaup verzlunarfólks? Hvernig bætir það okkur upp smæð markaðarins og fjarlægð hans frá meginlandinu? Þó að sumar matvörur yrðu ódýrari (en aðrar alls ekki), þá yrði það í 1. lagi með þeim tjóna­kostnaði, að það yrði högg fyrir okkar land­búnað og ylli auknu atvinnu­leysi, en í 2. lagi er þetta svo takmarkaður hluti matarkörfunnar (sem er sjálf í heild um 16% af útgjöldum meðalfjölskyldu), að það hefði ekki áhrif nema á sáralítinn hluta heildar­útgjalda hverrar fjölskyldu. Til frádráttar kæmu svo meiri skattbyrðar vegna atvinnulausra."

Þá benti undirritaður á, að jafnvel hin ýkta 10–15% lækkun matvælaútgjalda myndi ekki þýða lækkun heildarútgjalda fjölskyldu upp á meira en ca. 1,7–2,5%, ef satt væri fullyrt, sem það þó alls ekki var. "En jafnvel þótt þetta VÆRI satt (sem síðan ætti þó eftir að draga frá áðurnefndan tjónskostnað), myndi það vera þess virði að missa löggjafarvald okkar og yfirráð yfir auðlindunum þess vegna?!"

Samkeppnisaðilar á matvælamarkaði hafa staðið sig tiltölulega vel á seinni árum við að halda verðlagi hér í prýðilegu ásigkomulagi miðað við nágranna­lönd okkar. Með nýlegri niðurfellingu og lækkun tolla og vörugjalda á ýmsar aðrar vörur eins og raftæki, skó og fatnað hefur ástandið enn batnað til mikilla muna og því dregið mjög úr þeim innkaupa­ferðum fólks, sem áður voru orðnar árviss viðburður um þetta leyti árs og fram á aðventuna, til Glasgow o.fl. borga Evrópu.

* Már Wolfgang Mixa er með PhD-próf í Business Administration og m.a. lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík; nánar um hann hér.

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Fjallið tók jóðsótt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn snjallasti heili landsins ritar: Opið bréf til Steingríms

mynd 2016/10/18/GE210A86B.jpg "Steingrímur, í kosningum fékkstu skýr skilaboð um að þinn tími væri liðinn. Þrátt fyrir það skorti þig hvorki brigsl né ísmeygileg hnýfilyrði í garð ríkisstjórnar og nú ert þú aftur í framboði. Þú ættir að draga framboðið til baka. Þú getur ekki gert formanninum það að dröslast með ykkur Björn Val í skottinu eina ferðina enn.

Loforð um að halda þjóðinni utan ESB sveikstu strax eftir kosningar. Til að liðka fyrir aðild að ESB sendir þú vin þinn að semja um Icesave. Sá kom með samni
ng, þegar hann nennti ekki lengur að standa í samningaströgglinu. Þið kröfðust þess að þingmenn samþykktu samninginn án þess að sjá hann. Líkt og blindir kettlingar. Það gekk ekki og Jóhanna kallaði þitt fólk villiketti, sem ekki væri hægt að smala. Samningurinn var kolfelldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá hefðuð þið átt að segja af ykkur strax.

Næstu kosningar fóru á sömu leið, en áfram sátuð þið samt. Rúin trausti í annað sinn. Stóradóm fenguð þið í alþingiskosningunum. Í viðbót við ESB, Icesave og veiðileyfi til hrægamma kunna eftirfarandi atriði að vera ástæða fallsins:

*Þið hleyptuð AGS inn og lögðuð blessun yfir hækkun stýrivaxta úr 12 í 18%. Kostnaðurinn lagðist á landsmenn. Margir misstu heimili sín og aldrei hafa jafn mörg fyrirtæki farið á hausinn. Snjóhengjubraskararnir fengu 18% vexti í gjaldeyri, sem streymdi úr landi þrátt fyrir gjaldeyrishöftin.

* Seðlabanki Íslands (SÍ) braskaði með skráð gengi krónu. Skilyrði var fjárfesting á Íslandi fyrir krónurnar. Ekki var spurt hvaðan gjaldeyririnn kæmi eða hvernig hans var aflað.

Á þinni vakt var SÍ peninga- þvottastöð á sama plani og bankarnir í Tortóla. Fékk skatturinn lista yfir þá sem keyptu útsölukrónur af SÍ?

*Þið kærðuð ekki Breta fyrir að setja á okkur terroristalög af ótta við að fá ekki að vera memm í ESBklúbbnum. Ekki þorðuð þið að tala máli þjóðarinnar þegar allar „vinaþjóðirnar“ réðust á okkur. Forsetinn sá að ekki gekk að hafa markið galopið með engan í marki. Hann fór í mark og í sóknina með þeim árangri að landinn þurfti ekki lengur að horfa á tærnar á sér í samræðum við útlendinga.

*Þið gáfuð hrægömmum veiðileyfi á almenning og fyrirtæki. Atvinnutæki voru hirt af verktökum fyrir slikk og seld úr landi fyrir gjaldeyri. Milliliðir hirtu gróðann. Fyrrverandi eigendur sátu eftir jafn skuldugir og áður. Mörgum hefði mátt bjarga með því að bjóða út grunn að nýjum spítala.

*Óskiljanlegt er að þið skylduð selja Kaupþing í Lúxemborg án þess að gramsa fyrst í því hvað bankinn hefði að geyma. Sagt var að fyrr myndi snjóa í helvíti áður en sæist hvað þar væri falið. Sérstakur þurfti svo að fara bónleiðina til að fá gögn úr bankanum, sem var mjatlað í hann.

*Þú felldir niður tugmilljarða skuldir hjá ýmsum fyrirtækjum, sem t.d. í sjávarútvegi seldu seinna kvóta úr byggðarlaginu. Kvóta sem var og er þjóðareign. Eitt loforða þinna var að skila honum til þjóðarinnar.


*Skjaldborgin um heimilin var skjaldborg um fjármagnseigendur. Með 20% leiðinni héldu lánardrottnar áfram að innheimta lán. Verðtryggingin sá um hækkun höfuðstóls. Á nokkrum árum varð staðan enn verri.

* Svo var það Hitaveita Suðurnesja, Sjóvá, Sparisjóðurinn, Askja, Straumur-Burðarás, Byr, VBS, Saga & Askar Capital, Drómi og allt hitt.

*Í liði VG var góður hagfræðingur, Lilja Mósesdó
ttur. Lyklafrumvarp hennar hefði bjargað mörgum heimilum. Jarðfræðiþekking þín vó þyngra en hagfræðikunnátta hennar og um að gera að losna við hana sem fyrst úr stjórninni.

* Jón Bjarnason stóð vörð um fullveldið og makrílkvótann, sem þið Össur vilduð semja um við ESB. Jón vildi setja samskonar kvóta á makrílinn og var á skötuselnum, en fékk ekki. Þú vildir losna við Jón úr ráðuneytinu. Það tókst sem betur fer ekki fyrr en í lokin.

*Þið læstuð niður skjöl í meira en 100 ár vegna persónuverndar, 
sem tók við af bankaleynd. Hvað er svo ljótt að skal falið 4-5 kynslóðum?

*Þið senduð reglulega tilkynningar um það hversu mikið ástand heimila og fyrirtækja hefði batnað undir ykkar stjórn. Hvernig gat annað gerst, þegar þeir verst settu höfðu misst íbúðir sínar og mörg þúsund fyrirtæki farið á hausinn?

Við það bættist landflótti fólks sem ekki átti sér viðreisnar von í landinu okkar góða. Er ekki ljóst að þeir sem lifðu af stóðu betur en hinir, sem þið gáfuð veiðileyfi á? Þú munt segja þetta tóma dellu miðað við hvað þið skiluðuð góðu búi þrátt fyrir rústirnar sem þú tókst við.

Ég spyr, hvernig hefði þetta endað hjá ykkur hefði almættið ekki blessað þjóðina með makríl og túristum? Hvað væri skuldin há hefði ykkur tekist að fá að greiða Icesave og deila makrílnum með ESB?

Að lokum:
Er trúverðugt að svara því sem kemur fram í skýrslu Vigdísar með því að skýrslan sé klippiplagg og ekki-skýrsla full af stafsetningarvillum? Reyna svo að gera Vigdísi ótrúverðuga hjá alþýðu manna með í senn ísmeygilegum og illyrmislegum ásökunum rætnifullra rægitungna um gegndarlaust og einskis nýtt hjal um stafsetningarstagl.
Þykir mér sýnt að trúverðugleiki Vigdísar vaxi við að þú, Steingrímur, reynir að gera hana ótrúverðuga."

Tilvitnun lýkur í grein Sigurðar Oddssonar verkfræðings (Opið bréf til Stein­gríms, Mbl. 18. okt.). Greinin hefur þegar verið endurbirt á DV-vefnum og sennilega víðar, enda á höfundurinn  "þakkir skildar fyrir að skrifa þessa króniku. Hún má ekki gleymast núna þegar VG er að gera hosur sínar grænar fyrir kjósendum," eins og Sigurður Hjaltested ritaði á DV-vefinn. Steingrímur J. hefur svikið kjósendur sína áður í ESB-málinu og mikils um vert að hann komist ekki í ráðherrastól á ný. Því er ekki óeðlilegt, að hinn frábærlega glöggi höfundur Sigurður Oddsson fái hér svigrúm fyrir sitt breiða yfirlit um nokkra viðkomustaði þessa mesta kosningasvikara í allri fullveldissögunni.


"Viðreisn" þegir um undirokun Íslands undir evrópskt stórveldi; Þorgerður Katrín og Jón Steindór eru óheil gagnvart þjóðinni um staðreyndir

Meint "frjálslyndi" Viðreisnar felst fyrst og fremst í trausti á þá evru sem helztu hagfræðingar heims telja nú að hafi verið tilraun sem mistókst.* Engin þörf er á bindingu við evru til að lækka vexti á Íslandi, og sjálf er evran fjarri því að vera "stöðug", hún hefur nú á nokkrum mánuðum sveiflazt niður úr um 160 kr. niður í 125,20 í skráðu miðgengi. Íslenzka krónan hefur þannig staðið sig mun betur en bæði evran og norska krónan síðasta misserið.

ESB-sinnarnir í "Viðreisn" reyna ísmeygilega að ná inn á íbúðaeigendur sem glíma við háar vaxtagreiðslur. Ládeyðan, sem birtist í sáralitlum hagvexti í athafnalífi og vinnumarkaði í Evrópusambandinu, er reyndar meginástæða lágra stýrivaxta, en í samfélagi eins og okkar sem einkennzt hefur af stöðugum vexti öll síðustu ár, verður aldrei miðað við 0% vexti!

Hitt er staðreynd, að bankar okkar hafa komizt upp með okurvexti allt of lengi, en stjórnvöld hafa daufheyrzt bæði við afnámi verðtryggingar og að lögleiða hámarksþak á vexti. 2% vextir ofan á verðtryggð lán í stað 5 eða 5,5% myndi bjarga mörgun íbúðaeigendum að glíma við afborganir lána sinna. Það heyrir því miður til undantekninga, að stjórnmálaflokkarnir boði slíka stefnu sem sína, en er þó til. Slíkar hugmyndir finnast þó sízt alls hjá "Viðreisn", enda vill hún ekki reisa við efnahag fólks með þessari aðferð, heldur einmitt notfæra sér núverandi ástand til að gera lítið úr krónunni og möguleikum íslenzks efna­hagskerfis til að leysa vandamálið, og þau benda á evruna sem dýrð­ar­innar patentlausn í staðinn -- jafnvel þrátt fyrir að nú hrikti í stoðum evrunnar og viðbúið að evrusvæðið geti skroppið saman, þar sem innan þess er erfitt að sætta mismunandi aðstöðu og hagsmuni ríkra þjóða eins og Þýzkalands og Hollands gagnvart hins vegar Suður- og Austur-Evrópuríkjum innan þess myntsvæðis.

Þetta spursmál um viðráðanlega vexti er þannig engan veginn forsenda þess að líta á evruna eða tengingu við hana sem einhverja augljósa patentlausn fyrir lántakendur. 

Þar að auki þegja þessir predikarar Evrópusambandsins um það sem hangir alltaf á spýtunni á bak við þetta vaxta- og evrutal þeirra, þ.e. um langtum stærri mál, sem þeir ætla þó þjóð sinni að kyngja eins og ekkert sé og helzt án þess að hún viti af því: að Ísland yrði, sem meðlimaríki í hinu sakleysislega hljóðandi "ESB", svínbeygt undir æðsta löggjafarvald ráðherraráðsins í Brussel og annarra lagastofnana Evrópusambandsins.

Og af því að þessir sömu predikarar, hvort sem þeir heita Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson eða Benedikt Jóhanneson, eru sífellt að tala um, að þau vilji "sjá hvernig samningurinn verður," þá ættu þau án tafar að byrja á því að gera kjósendum heiðarlega grein fyrir því, að með inntöku lands okkar í Evrópu­sambandið fengjum við yfir okkur allt lagakerfi þess stórveldis, sáttmála þess og önnur lög, alls rúmar 100.000 bls., og allt sem á eftir að bætast þar við, án neitunar­valds af okkar hálfu og með einungis 0,06% atkvæðahlut okkar í ráðherra­ráðinu! Þar við bætist það ákvæði á 1. blaðsíðu nefnds inntöku-"samnings" (accession treaty), að þar sem ESB-lög rekast á landslög hér, forn sem ný, þar skuli ESB-lög ráða. Þannig er allt æðsta löggjaf­ar­vald fært í hendur ESB-stofnana og verða ekki lengur á valdi Alþingis og heldur ekki forseta Íslands né þjóðarinnar í neinum málum, sem rekast á ESB-löggjöf. Jafnvel ákvæði stjórnar­skrár Íslands myndu ekki halda, ef þar verður árekstur við ESB-lagaverkið.

Af hverju spyrja menn ekki þetta keika og kokhrausta fólk, Þorgerði Katrínu, Jón Steindór, Benedikt og Þorstein Víglundsson, út í ÞESSA HLUTI í kosninga­baráttunni? Er mönnum bara alveg sama um að glata æðsta löggjaf­arvaldi, sem Jón forseti og sporgöngu­menn hans höfðu af elju og trúmennsku reynt að ávinna okkur, í hendurnar á valdaklíku stórveldabandalags? Og þar fyrir utan færi æðsta framkvæmdavald og æðsta dómsvald einnig til stofnana þess sama Evrópusambands!

* Þetta er margfaldlega viðurkennt og áréttað í leiðurum viðskipta­blaðamannsins glöggsýna, Þorbjarnar Þórðarsonar, í Fréttablaðinu síðari hluta nýliðins sumars.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Viðreisn vill frjálslynda miðjustjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópska stórveldið er hans ær og kýr og eina von

Meint hægrisinnað "frjálslyndi" Viðreisnar lyppast niður í nákvæmlega ekki neitt þegar flokknum stendur til boða að komast í vinstri stjórn!

En hvers vegna? Jú, af því að margfalt mikilvægara er það fyrir ESB-Benedikt og aðra Brussel-áhangendur flokksins að komast í aðstöðu til að svíkja Ísland undir hramm evrópska stórveldisins heldur en hitt að gera nokkra alvöru úr yfirlýstu "frjálslyndi" sínu!

Eða eins og segir í kviðlingnum:

 

Að jafnaði´ er Bensi Jóhannesson

     jarðbundinn fýr,

en ESB er nú hans eina von

     og ær og kýr.

 

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Áhugaverð tilraun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógeðfellt er í einni lest ...

Merkilegt: að foringjar Sex­flokks­ins á Alþingi hafa lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um að minn­ast ald­ar­af­mælis stofn­unar sjálf­stæðs, frjáls og full­valda ríkis 1. des. 2018. Flokk­ar í bandi ESB eins og Sam­fylk­ing, "Björt fram­tíð" og VG eiga ekki heima í hópi full­veld­is­sinna, ekki frekar en "Við­reisnin" hans Bene­dikts Jóhannes­sonar sem svín­beygði sig létti­lega fyrir kröfum Evrópu­sambands­ins í Icesave-málinu, reyndi jafnvel að ljúga að þjóðinni, að við myndum græða á því að segja "já!" við Buchheit-samningnum, sem nú væri búinn að kosta okkur um 80 milljarða króna í erlendum gjald­eyri! Engin furða að þessi þjóðar­svika-hópur skuli einnig vilja draga Íslendinga á asnaeyrum undir klafa Evrópusambandsins.

Ógeðfellt er í einni lest

Evrópusambandsvinnuhjú

sorglegan með sinn siðferðisbrest

svikul að líta í vondri trú :

flokkana þá, sem fullveldið smána,

fláráðir hyllandi íslenzkan fána,

sjálfstæðið þótt þeir seldu í dag

fyrir silfurbuddu, í eigin hag!

                                       P.t. Egilsstöðum, 13/10.2016

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja minnast fullveldisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sniðgöngum alla undir­lægju­flokka Evrópu­sambandsins!

Stjórnmálaflokkar, sem fjand­skap­ast við fullveldi Íslands í sínum mál­um og vilja koma landi og þjóð undir æðsta vald Evrópu­sam­bands­ins, eru a.m.k. þessir: "Viðreisn", Sam­fylk­ingin og "Björt fram­tíð". Þá eru Pír­atar og jafn­vel Vinstri grænir (a.m.k. að hluta) lík­legir til þess sama.

Þetta eru því ekki flokkar, sem sannir full­veldis- og sjálfstæðis­sinnar geta með góðri samvizku greitt atkvæði í komandi kosn­ingum. Það kemur aldrei til greina í huga þjóð­hollra manna að fyrirgera æðstu löggjafar­réttindum yfir Íslandi í hendurnar á hinum voldugu Brussel-herrum.

Hefði einhver valdsmaður eða lögréttumaður á Alþingi á t.d. 14.-16. öld boðað, að Íslendingar ættu að segja sig undir lögsögu Englands­konungs, þá hefði það ekki aðeins mætt andstöðu hjá háum sem lágum hér á landi, heldur einnig í öllu valdakerfi landsins og hjá konungi okkar.

En nú er hún "Snorrabúð stekkur" í samanburði, þ.e.a.s. þegar það gerist, að þeir menn bjóða sig fram til setu á Alþingi og allt upp í æðstu embætti, sem reiðu­búnir eru að ryðja brautina fyrir erlent yfir­vald yfir allri löggjöf okkar, stjórnsýslu, fram­kvæmda­valdinu og dómstólum!

Heitum sjálfum okkur því að standa eitilhörð gegn öllum Evrópusambands­flokkum hér á meðal okkar og láta engan með mjúkmálum falsyrðum komast upp með að villa okkur sýn í þessu megin­máli allra okkar stjórnmála: að varðveita sjálfstæði Íslands.

Sjálfstæðið er sístæð auðlind, eins og Ragnar Arnalds benti á í samnefndri bók sinni, og sannaðist það ekki aðeins í landhelgisdeilunni og þorska­stríð­unum, þegar við á einungis einum aldarfjórðungi stækkuðum fiskveiði­lögsöguna úr þremur mílum í 200 mílur, heldur sannaðist það einnig í Icesave-málinu, sem og í makríldeilunni, en einmitt nú getum við fagnað þeim tímamótum, að fiskazt hefur á sjö árum ein milljón tonna af makríl í lögsögu Íslands og það í krafti fullveldisréttinda okkar -- og andstætt vilja og valdi Evrópusambandsins, sem bæði tók þátt í lögsókn á hendur Íslendingum vegna Icesave-málsins (og hafði jafnvel í sínum eigin "gerðardómi" dæmt okkur borgunarskyld þegar á haustinu 2008!) og ætlaði okkur um þrefalt minni hlut í makrílveiðum á Norður-Atlantshafi en við tókum okkur rétt til og fengum að njóta, með hjálp og staðfestu þessa fullveldissinna á Alþingi. Heiðrum því hann, en heiðrum umfram allt lýðveldi okkar, sjálfstæði og fullveldi Íslands. 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja spyrja þjóðina um viðræðurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband