Bloggfærslur mánaðarins, október 2015

Tveir flokkar þunnir í roðinu - báðir sakbitnir?

Styrmir kvartar eðlilega yfir því að í ályktun landsfundar VG er ekki eitt orð um skoðun flokksins á ESB (orðnir samdauna Samfylkingu?).

En hans eigin Sjálfstæðis­flokkur lét eina setningu nægja! Í stjórn­mála­ályktun landsfundar hans segir:

  • Sjálfstæðisflokkurinn áréttar að hagsmunir Íslands séu best tryggðir með því að standa utan Evrópusambandsins.

Og ekki orð í viðbót! Þetta er þó einfalt og ágætt, svo langt eða stutt sem það nær, en ekkert nýtt, og hvers vegna er þá ennþá unað við það (eða því tekið eins og hverju öðru hundsbiti) að Evrópusambandið skuli í ýmsum afkimum sínum og stofnunum vera með það skráð á ýmsar vefsíður, að Ísland sé umsóknarríki að sambandinu?!

Hvað er að þeirri forystu flokksins, sem getur ekki gengið frá þessu máli? Og það sem meira er: Af hverju var Bjarni Benediktsson að ganga þvert gegn sínum eigin landsfundi 2013, þegar hann fór í viðtölum að ljá máls á öðru en því sem landsfundurinn samþykkti? Telur hann sig þá líka hafa bessaleyfi til að svíkja nýsamþykkt orð landsfundar 2015 hér fyrir ofan?

Og hvað hélt aftur af landsfundarfulltrúum að gagnrýna ekki Bjarna formann harkalega fyrir að hafa hlaupið út undan sér (eftir landsfundinn 2013 og fyrir kosningarnar 2013) með sínu óábyrga hjali um þessi mál við fjölmiðla? -- hjali sem varð svo púður fyrir Fréttablaðið, 365 miðla og vinnusvikara á Fréttastofu Rúv til endalauss þrýstings á um að freista þess að fá í gegn framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið eða a.m.k. að Össurarumsóknin yrði ekki afturkölluð.

Hefur ekki Bjarni leikið skollaleik gagnvart flokknum? Og sveik hann ekki fyrri landsfund tvívegis í Icesave-málinu,

  1. með því að samþykkja og fá flesta aðra þingmenn sína til að samþykkja fyrirvaralögin í ágúst 2009?
  2. með því að samþykkja og fá aðra þingmenn til að samþykkja Buchheit-samninginn snemma árs 2011? (og meint réttlæting þá hið "ískalda mat" Bjarna sjálfs).

Allt þetta var gert þvert gegn þjóðarhag og þvert gegn lögvörðum rétti ríkissjóðs! En var þá ekki mál til komið að veita Bjarna áminningu fyrir þessa flokksóhollustu? Eða var hann kannski verður þess að fá 96% kosningu, af því að hann ber sig svo vel, er svo fínn í tauinu, gerir í sumum öðrum málum vel og kom svo vel út í auglýsingum fyrir landsfundinn?

Eða eru hinir sjálfstæðu sjálfstæðismenn einfaldlega svona meðfærilegir, að þeir þora ekkert að segja, ekki frekar en Politburo í höndunum á Stalín?

Þarf ekki Bjarni og félagar hans að gera hér reikningsskil í málum?

Svo ræddi nýafstaðinn landsfundur flokksins, keyrður áfram af æstum hópi ungmenna, um meinta þörf á því að kasta út krónunni og fá annan gjaldmiðil í staðinn; og um þetta var hjalað í fréttum þennan mánudag. Ljóst er þó af ný­legri skoðanakönnun, að í staðinn kemur EKKI evran, því að einungis 4% fylgismanna Sjálfstæðisflokksins eru hlynnt því.

Engir gjaldmiðlar eru með öllu gallalausir. Fráleitt þó að leggjast í sama farið og hinir reynslulausu Píratar sem vanvirða krónuna og þann sveigjanleika hennar sem stórhækkaði í reynd útflutningstekjur okkar eftir hrunið og gaf grænt ljós á metaukningu ferðamannastraums ár eftir ár.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Frjálslyndið í fyrirrúmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandið nálgast óðfluga það markmið að stofna til eigin hers!

Juncker, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar ­sam­bands­ins, sagði fyrr á árinu, að það þyrfti á eig­in her að halda sem mót­vægi m.a. við Rúss­land. „Við stefn­um mun hraðar en fólk grun­ar í átt­ina að Evr­ópu­her,“ sagði Joseph Daul, for­seti stærsta þing­flokks­ins á ESB-þinginu, Europe­an Peop­le's Party (EPP) við blaðamenn sl. fimmtu­dag.

  • Flokksþing EPP verður haldið í næstu viku en bú­ist er við að þar verði samþykkt að stefnt verði að því að Evr­ópu­sam­bandið verði varn­ar­banda­lag.
  • Greint er frá þessu á frétta­vefn­um EurActiv.com en for­ystu­menn EPP, sem er stærsti þing­flokk­ur mið- og hægrimanna á Evr­ópuþing­inu, [telja] að nauðsyn­legt sé að taka þetta skref í ljósi þeirra vanda­mála sem komið hafi upp í ná­granna­ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins, og er þar meðal ann­ars vísað til átak­anna í Úkraínu og flótta­manna­vand­ans. (Mbl.is)

Ýmsar málpípur Evrópusambandsins hér á landi hafa þráfaldlega þrætt fyrir, að ESB stofni nokkurn tímann til eigin hers. Var þó vitað fyrir um áhugann í þessa átt í Brussel, enda valdheimildir til slíks í Lissabon-sáttmálanum. Draumurinn er raunar eldri en svo:

  • Fram kem­ur í frétt­inni að hug­mynd­ir um Evr­ópu­her séu ekki nýj­ar af nál­inni. Þannig hafi slík­ar hug­mynd­ir fyrst verið sett­ar fram árið 1950. Þær hafi hins veg­ar ekki náð fram að ganga. (Mbl.is)

En sú stund nálgast óðfluga, það sést hér á öllu!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Stefna hratt að Evrópuher
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Franski forsetinn vill fá fingraför allra í ESB - og láta skanna andlit þeirra!

Nú er ekki aðeins Schengen-sæla eftirlitsleysisins á útleið, eins og Staksteinar í gær höfðu eftir Páli Vilhjálmssyni og Þjóðverjum. François Hollande vill strangar reglur um fingraför og skönnun andlita alls þessa ofurfrjálsa fólks í Evrópu­sambandinu!

Og þegar Frakklandsforseti og Þýzkalandskanzlari leggjast á eitt um málefni, þá fylgir stjórmálastéttin í öllum hinum 26 meðlimaríkjunum yfrleitt á eftir eins og þæg hjörð.

Fyrst gáfu engillinn yfirlýsti, Angela Merkel, og varakanzlari hennar grænt ljós á hálfa til eina milljón fllóttamanna inn í ESB og Þýzkaland, tóku síðan Schengen-samninginn tímabundið úr gildi, en nú er annað uppi á teningnum: þrengt að Tyrklandi að halda stíft uppi landamæragæzlu í stað þess að taka af fyrri rausn á móti sýrlenzkum flóttamönnum, en Schengen ella varanlega fyrir bí, þ.e. að Þjóðverjar virði ytri landamæri ESB sem eigin landamæri.

Og Frakklandsforseti bætir um betur: Nú skal enginn sleppa! Eftirlitsþjóðfélagið verður enn fullkomnara en hjá Orwell og Aldous Huxley, í 1984 og Brave New World.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Vilja fingraför íbúa ESB-ríkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í skjóli ofurvalda Evrópu­sambandsins geta stjórn­mála­menn laumað óvinsælum stefnumálum á þjóðir sínar

Evrópusambandið er nógu ólýð­ræðislegt, lög­gjafar­þing þess (tvö) nógu fjarri athygli almenn­ings til að þar sé hægt að koma í gegn lög­gjöf, sem er í valdsins þágu, en slyppi ekki í gegnum þjóð­þingin! Og eins og allir eiga að vita, er lög­gjöf frá ráð­herra­ráði ESB og ESB-þinginu í Strassborg og Brussel aldrei borin undir þjóðþingin!

Þetta lýsir ástandinu. Þarna gefst ráðamönnum ESB-landa tækifæri til að fjarstýra þjóðunum truflunarlítið af lýðræðinu, og það er og verður gert í vaxandi mæli, enda eru valdheimildir Brussel-valdsins svo miklar (eins og jafnvel Þorvaldur Gylfason ætti þrátt fyrir stefnu sína að vita), að það er tómt mál að tala um sjálfstæði og fullveldi ESB-þjóða í málum, þar sem Evrópu­sambandið leiðir sinn vilja í lög.

En þessi nýuppgötvaði vinkill á málið, að nú eru evrópskir pólitíkusar farnir að nýta sér beinlínis framhjáhlaup Evrópusambandsins til að koma óvinsælum stefnumálum sínum í framkvæmd í heimalöndunum, án þess að þingmenn þar heima hafi nokkurn minnsta tillögurétt, hvað þá atkvæðavægi þar um, það er frétt fyrir marga og bætist við margt annað sem mælir gegn þessu valdfreka stórveldabandalagi.

Lesið viðtengda Mbl.is-grein; sbr. vef Heimssýnar: Nota ESB til að sleppa við lýðræðið.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Nota ESB til að sniðganga lýðræðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband