Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Kvótahopp - arðurinn úr landi

Kæmi til aðildar að Evrópusambandinu yrðum við að laga lög okkar og reglur að lögum sambandsins, ekki öfugt. Þetta hafa Bretar t.d. fengið að reyna í baráttu sinni við svokallað kvótahopp, en það er eitt þeirra vandamála sem glímt er við innan sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Með kvótahoppi nýta útgerðir glufur í reglum til að skrá skip sín í öðrum löndum sambandsins en eigin heimalandi til þess að komast yfir aflaheimildir annars aðildarríkis.

Hér er verið að birta þriðja og síðasta skammtinn úr yfirlýstri afstöðu LÍÚ frá 2009 til Evrópusambandsins og sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar. Beint framhald af textanum hér ofar:

Mikilvægt er að tryggja að arður af nýtingu auðlinda verði eftir í íslensku samfélagi. Til að verja þá samfélagslegu hagsmuni eru lög sem heimila ekki að erlendir aðilar eignast meirihluta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Kæmi til aðildar að Evrópusambandinu héldu þessi lagaákvæði ekki. Þar með væri engin trygging fyrir því að arður af sjávarútvegi héldist í íslensku efnahagskerfi.

Neikvæður greiðslujöfnuður við ESB

Beinn fjárhagslegur ávinningur Íslands af aðild að Evrópusambandinu yrði enginn. Samkvæmt skýrslu Evrópunefndar forsætisráðuneytisins frá 2007 myndu beinar greiðslur Íslands til ESB umfram tekjur nema 2,5 - 5 milljörðum króna. Aðildarríki ESB hafa að jafnaði greitt 1,07% af vergum þjóðartekjum árlega til sambandsins. Að hámarki getur þetta hlutfall orðið 1,24%. Sé horft til ársins 2005 hefði Ísland greitt 10,5 milljarða króna til sambandsins.

Tollasamningar féllu úr gildi

LÍÚ aðhyllist viðskiptafrelsi og leggur áherslu á nauðsyn góðra samskipta við ríki Evrópusambandsins jafnt sem önnur, nú sem fyrr. Ef til aðildar að Evrópusambandinu kæmi féllu niður núgildandi tollar á útfluttar sjávarafurðir til aðildarríkja ESB en samtímis féllu úr gildi allir tvíhliða tollasamningar Íslands við ríki utan sambandsins.

Hér lýkur þessu LÍÚ-plaggi, fyrsti skammurinn var birtur HÉR og sá annar hér: Reglan um hlutfallslegan stöðugleika - Engar varanlegar undanþágur frá CFP.


Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með þetta á hreinu - eða hvað?!

Allgóð tíðindi berast nú frá nýjum ráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni. Hann segir, að lykillinn að því að sækja um í Evrópusambandinu sé þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Íslendingar vilji það, en "persónulega sé ég ekki á næstu árum að ástand í Evrópu og heiminum verði með þeim hætti að íslensk þjóð muni óska eftir inngöngu í Evrópusambandið," segir hann í Bændablaðinu (Segir þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald ESB-viðræðna ekki á dagskrá að óbreyttu, bls. 28-29; blaðið fæst ókeypis víða, m.a. í Nóatúnsverzlunum og á sundstöðum).

"Það er mat begggja stjórnarflokka og meirihluta landsmanna að okkar hag sé betur borgið utan sambandsins. Ef það breytist þá er það okkar stefna að þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi til," segir hann. Hins vegar bendir hann þarna á það, hvaða leið Malta annars vegar og Sviss hins vegar hafi farið í þessum efnum, og verður það atriði gert hér að umræðuefni síðar.

  • Spurður hvort hann sé með þessu að segja að eins og staðan sé í dag miðað við skoðanakannanir og úrslit þingkosninganna sé mjög ólíklegt að slík þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin á kjörtímabilinu svarar Sigurður: „Eins og ég segi þarf eitthvað stórkostlegt að gerast í heiminum til þess að íslenska þjóðin vilji sækja um aðild, já.“ (Mbl.is, Bbl.)

Laukrétt hjá ráðherranum, og fyrst og fremst ber stjórnarflokkunum að efna kosningafyrirheit landsfunda sinna nú á þessu ári, þar sem báðir hétu því að vinna að því, að hætt yrði við Össurarumsóknina.

Varðstaða eða fullveldisstaða mun vera boðuð fyrir utan Alþingi í dag við þingsetningu, sem hefst eftir guðsþjónustu (13.30) í Dómkirkjunni. Þingmenn ganga þangað kl. 13.25 og úr kirkju til þings kannski innan við hálftíma seinna. Varðstaðan, með ESB-andstöðuspjöldum uppi við, snýst um að minna stjórnarflokkana á loforð sín og á andstöðu 70% þjóðarinnar við það að fara inn í Evrópusambandið.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þjóðaratkvæði um ESB ekki á dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að slá hlutum á frest er ekki að hætta við þá!!!

Ljóst er að hafa verður stöðugt aðhald við nýja ríkisstjórn um ESB-ógæfumálið. Réttast væri að mótmæla við þingsetninguna, en flestir þá reyndar í vinnu.

Óvænt fréttaviðtal við Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra á Mbl.is 29. maí styður það, að árvekni er þörf, enda hafa leiðtogar framsóknar- og sjálfstæðismanna áður reynzt ótraustir í þessum málum, Gunnar Bragi þó verið með þeim farsælli. Samt er undarlega hluti að finna í þessu viðtali, þar sem þó segir, að hann hafi ákveðið föstudaginn 24. maí, "að ekki yrði lögð meiri vinna innan ráðuneytisins í aðildarumsóknina að Evrópusambandinu fyrr en hann hefði hitt fulltrúa þess í júní næstkomandi."

Spyrja má: Til hvers ætti þá (eftir nefndan fund) að "leggja meiri vinnu í aðildarumsóknina" hans Össurar og þess nauma meirihluta á Alþingi, sem gegn atkvæði Gunnars Braga og gegn vilja þjóðarinnar tók þessa marg-gagnrýndu ákvörðun, sem jafnvel varðaði við landráðabálk almennra hegningarlaga og var andstæður andanum í stjórnarskrá lýðveldisins (t.d. 2. gr., auk þess sem brotið var gegn 16. og 19. grein hennar við framkvæmdina)?

  • „Ég taldi eðlilegt í ljósi þess að ríkisstjórnin ákvað að gera hlé á aðildarviðræðunum að beina því til starfsfólks ráðuneytisins að frekari vinnu við aðildarferlið yrði slegið á frest þar til ég er búinn að fara út og hitta fulltrúa Evrópusambandsins,“ sagði Gunnar Bragi. Hann kvaðst eiga von á að fara til Brussel fljótlega í júnímánuði. (Sama frétt Mbl.is.)

Að slá vinnu við eitthvað á frest þýðir í flestra munni, að þeirri vinnu verði síðar haldið áfram. Er sá vilji þessa ráðherra eða þeirra, sem standa kunna á bak við afstöðu hans í málinu? Er Evrópustórveldis-sinninn Halldór Ásgrímsson, sem mætti á fund framsóknarmanna í Rúgbrauðsgerðinni 21. maí sl., kannski á ný kominn með puttana í pólitíkina hjá þeim? Eða er okkur bara ætlað að treysta þessum flokkum út í loftið? Hefur það gefizt nógu vel hingað til? – Nei, almenningur þarf að halda vöku sinni, rétt eins og grasrótin gerði í Icesave-málinu, þvert gegn stórum hluta stjórnmálastéttarinnar.

Hvernig stendur á því, að fréttamenn ganga ekki harðar að þessum ráðherra og öðrum með spurningar í ætt við það, sem HÉR* og HÉR** voru ítrekaðar og fela meðal annars í sér, hvort ESB-"samninga"nefndamennirnir verði ekki teknir af launalista ríkisins (það er mælikvarði á það, hvort þetta "ferli" verður stöðvað í raun og ekki bara í plati) og hvort Evrópusambands-áróðursstofunum tveimur ("Evrópustofu") verði ekki lokað? Þjóðin á fullan rétt á svörum ráðamanna.

* Knýjandi spurningar vegna "hlés" á aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið

** Er Ísland ennþá "umsóknarríki"? Hvað segja utanríkisráðherra, Sigmundur Davíð og Bjarni?

Jón Valur Jensson.


mbl.is Hlé á viðræðum við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

William Hague: sýna megi ESB rauða spjaldið!

Þessi utanríkisráðherra Breta segir yfirþjóðlegt vald innan Evrópusambandsins ekki hafa gefið nógu góða raun og traust á stofnunum þess sé "í sögulegu lágmarki". Hann vill að ESB-lönd fái að "hafna þeirri löggjöf sem þær telja koma illa við sig," og meðal Breta er þetta kallað "rauða spjaldið", sem margir þar vilja, að sýna megi Evrópusambandinu.

Íhaldsflokkurinn er í erfiðri aðstöðu vegna útbreiddrar, vaxandi andstöðu við ESB í landinu, andstöðu sem m.a. sýnir sig í beinu vantrausti 69% Breta á Brusselvaldinu og í stórauknu fylgi UKIP (brezka sjálfstæðisflokksins) sem einkum tekur atkvæði frá íhaldsmönnum.

Frekar en að tapa næstu kosningum vilja leiðtogar Íhaldsflokksins láta undan kröfum um þjóðaratkvæðagreiðslu um veruna í ESB. Hún verður ekki seinna en í árslok 2017, en með því fyrirheiti sínu er formaðurinn, forsætisráðherrann David Cameron, annaðhvort að lengja gálgafrestinn eða reyna að gefa sér tíma til að vinna úr málinu, því að sjálfur vill hann áframhald á ESB-aðild Breta. Það yrði hægara sagt en gert fyrir þá að losa sig frá Evrópusambandinu, svo mjög eru hagsmunir þar orðnir samantvinnaðir.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þjóðir ESB fái „rauða spjaldið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband