Til hamingju, þjóð, með 100 ára fullveldi!

Í verulegum kulda, eins og 1918, var haldið upp á full­veldis­afmælið við Stjórn­ar­ráðs­húsið og víðar í dag. Fyrsti stóri at­burð­uinn þar var full­veld­is­söngur Fóst­bræðra í anddyri Hörpu í hádeginu í dag, margt þjóð­legt sungið og hríf­andi, en líka Kong Christian stod ved höj en mast í þýðingu Matth.Joch., endað svo glæsilega á mikil­feng­legum þjóð­söngnum, sem eins og allir vita er einnig saminn við texta Matthíasar. Margrét II Danadrottning mun hafa verið þar viðstödd.

Það átti eftir að kólna verulega á henni, þegar kom að stærsta dagskrárlið dagsins, við Stjórnar­ráðs­húsið kl.13 (en þar fór einmitt fullveldisyfirlýsingin fram mjög hátíðlega 1918). Þar var mjög fagur, þjóðlegur söngur blandaðs kórs, í miklum norðan-stinningskalda utan af sundum. Ríkis­stjórnin sat þar undir vestur­veggnum og margir höfuðfats­lausir -- Margrét II hvorki með húfu né kórónu á höfði, en í þykkum pels. Allmargir, sennilega yfir 1000, hlýddu þar á dagskrána.

Fyrsti ræðumaður var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og talaði húfulaus alllangt mál og nokkuð snjallt. Hefði hún betur verið búin að þiggja verð­skuldaða rússneska vetrarhúfu, en meinið var, að það átti hún ekki inni hjá þeim, því að hún og allir ráð­herrarnir standa með hinu afleita og fráleita viðskipta­banni á Rússland, bændum okkar og sjómönnum til stórskaða og rússn­eskri alþýðu sömuleiðis. Á sama tíma ylja tugmilljónir Þjóðverja sér við ylinn af rússnesku gasi!

Á eftir Katrínu talaði Jelena nokkur frá Slóveníu eða Slóvakíu, nýbúi sem verið hefur hér í tvö og hálft ár, en fór þó langt með að tala á lýtalausri íslenzku og samt ekki stutt mál. Var mikið klappað fyrir ræðu hennar, enda klóklega og fallega saman sett í öllum meðmælum hennar með nýbúum landsins.

Öllu verr fór með tvö ungmenni, sem eru í Sameinuðu þjóða-félagsskap og orðlengdu mjög, í um hálfri ræðu sinni, um að okkur Íslendingum væri alger nauðsyn að samþykkja allar mögulegar ráðstafanir vegna loftslagsáhrifa -- m.ö.o. vegna tilgátunnar um manngerða hlýnun jarðar. Hljómaði það á parti sem svartsýnasta dómsdagspredikun frá 17. öld. Fengu þau dræmastar undirtektir áheyrenda.

Heimssýn, félag sjálfstæðissinna, verður með sína fullveldishátíð í húsakynnum Heimssýnar, Ármúla 4-6, kl. 20 til 22 í kvöld, en þar flytur hátíðarræðu sá skemmtilegi maður Bjarni Harðarson bóksali, fv. alþm.; boðið upp á tónlist og léttar veitingar, allir velkomnir.
 
Einhverjar sýningar eru í gangi í tilefni dagsins, m.a. á skjölum og myndefni frá 1918 í skála Alþingis, en allt Alþingishúsið var opið almenningi til sýnis í dag, og sóttu húsið langar biðraðir fólks. Undirritaður var þeirra á meðal, og  var þarna margt áhugavert og fallegt að sjá, en starfsmenn Alþingis leiðbeindu fólki og upplýstu um ýmislegt, og sennilega um fjórðungur þingmanna var þar ennfremur, ekki sízt í þingflokka-herbergunum og í fundarsal Alþingis, og margir sem tóku þá tali.
 
Þá var ennfremur sýning í Listasafni Íslands, sem og á íslenzkum þjóðbúningum í Aðalstræti fyrir hádegi, að öðru ónefndu.
 
Strengjum þess nú öll heit að gera allt hvað við getum til að Ísland verði áfram fullvalda og sjálfstætt þjóðríki næstu 100 árin!
 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Fullveldi í tölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband