14.11.2018 | 01:25
Baráttan gegn Þriðja orkupakka ESB þarf að verða enn markvissari
Nokkuð var fimbulfambað um hann í Kastljósi þetta þriðjudagskvöld, en bezt stóð sig Frosti Sigurjónsson, fv. alþm. Þáttarstjórnandi reyndi af megni nokkrar ágengar spurningar, en hefði mátt fylgja þeim enn harðar eftir.
Gunnar Bragi Sveinsson brást jafnvel í svo sjálfsögðu atriði sem því, að þegar talað var um að Norðmenn vildu þennan pakka, þá bar honum að geta þess, að 70% Norðmanna eru andvíg Þriðja pakkanum, en hann lét það alveg hjá líða. Andstaðan gegn pakkanum er sízt að dofna.
Ennfremur skilaði Gunnar Bragi litlu til hlustenda varðandi lagalega stöðu málsins gagnvart okkar stjórnarskrá o.fl. og sagði m.a. orðrétt:
"Í 1. lagi vil ég segja það, að lögfræðingar, sem hafa fjallað um málið, þ.á m. norski lögmaðurinn sem var hér um daginn, Peter Örebech eða hvað hann hét nú, og íslenzkir lögfræðingar, eru ekki alveg sammála um það, hvað þetta þýðir nákvæmlega, þegar menn lesa í gegnum EES-samninginn, hvað það þýðir að innleiða þessa gerð fyrir Ísland, um það eru menn ekki sammála; mér finnst vanta skýra mynd á það, áður en, í það minnsta, að maður getur tekið næsta skref."
Þarna er Gunnar Bragi að tefla hvorum gegn öðrum: Peter Örebech annars vegar og "íslenzkum lögfræðingum" hins vegar og leggja mikið upp úr því, að þessir lögspekingar væru ekki sammála um þessi mál, en fráleit er sú nálgun hans og sú uppstilling hans afar röng að tala með þessum hætti um lögfræðingana, því að hann í 1. lagi sleppir þar bezta sérfræðingi okkar, próf. Stefáni Má Stefánssyni, sem einn sér er margefldur á við álitsgjafana Birgi Tjörva og Ólaf Jóhannes, og Stefán Már er einmitt mjög eindreginn í því áliti sínu, að Þriðji orkupakkinn samrýmist naumast ("næppe") stjórnarskrá Íslands, eins og hann tók fram í stuttri ræðu sinni á dönsku á fundi Heimssýnar o.fl. félaga um málið á Háskólatogi 28. okt. sl.
Það verður að segjast, að með grunnristum hætti gekk Gunnar Bragi fram hjá mjög eindregnum niðurstöðum manna eins og próf. Peters Örebech og dr. Stefáns Más Stefánssonar, sem er prófessor í Evrópurétti við lagadeild HÍ og margra bóka höfundur um ESB-löggjafarmál, og með því að láta þá nánast eins og önnur lögfræðiálit væru þar þungvæg á móti. Örebech er langreyndur sérfræðingur í Evrópurétti. Það á ekki við um Birgi Tjörva Pétursson, sem ráðfrúin Þórdís Kolbrún Gylfadóttir kallaði til, trúlega til að fá hentugt álit sem klippt gæti hvassasta bitið úr gagnrýni hérlendis á Þriðja orkupakkann.
Það er ennfremur hlálegt að tefla tveggja daga rannsókn lögfræðings (Ólafs Jóhannesar Einarssonar) fram á móti langtímavinnu þaulreynds Norðmanns, sem þekkir ESB-löggjöf eins og handarbakið á sér og hefur kannað allar hliðar á þessum orkupakkamálum eins og þau snúa við Norðmönnum -- og hefur svo skilað ýtarlegu áliti og hrakningu bæði á sjö meginatriðunum á minnisblaði Ólafs Jóhannesar og einnig á lengri skýrslunni frá Birgi Tjörva (sjá hér í viðhengi með þessari grein).
Þáttur Guðna Jóhannessonar orkumálastjóra í þessum Kastljósþætti var veigaminni en hann hefði þurft að vera og vantaði átakanlega slagkraft sem nýtzt hefði réttindabaráttu okkar Íslendinga. Þó var hann skýr um ýmsa undirstöðuhluti, sem hafa ugglaust hjálpað hlustendum um skilning á þeim.
Varaformaður Íslensku þjóðfylkingarinnar var býsna berorður um orkumálastjórann á Facebókarsíðu flokksins í kvöld:
Þessi embættismaður vissi ekkert um hvað hann var að tala. Er þetta virkilega orkumálastjóri!? Hann gat ekki einu sinni svarað því af hverju við erum að innleiða enn eitt ESB-bullið ef við græðum ekkert á því og það skiptir ekki máli hér á landi að innleiða tilskipunina. Nei, hann gat ekki svarað því.
Augun standa á stilkum í viðtalinu, svo taugaveiklaður er hann, og ég er viss um að það er köttur að spila á harmonikku í hausnum á honum eins og er staðreyndin um flesta ESB-sinna.
Já, það má líka hafa gaman af þessu. En Guðni tók sérstaklega fram, að hann hefur enga eigin stefnu gagnvart Þriðja orkupakkanum; hann lítur á það sem hlutverk sitt að fylgja stefnu Alþingis í málinu.
En þáttur Samfylkingarkonunnar Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur var ítrekað að mestu leyti til óþurftar og með svo eindregnum hætti, að ásetningur bjó þar augljóslega að baki, þegar hún talaði þar niður alla viðleitni til að hafna þessum Þriðja orkupakka -- en ekki þar með á grunni góðs rökstuðnings, því að þvert á móti voru rök hennar veikluleg í reynd. Kristallaðist það svo greinilegast þegar hún að lokum síns máls komst svo að orði, að við eigum ekki að beita okkur gegn framsali fullveldisréttinda með gagnrýni á orkupakkanum sérstaklega. En þar er nú einmitt um þungvægasta framsalsmálið að ræða nú á seinni árum, og á þá ekki einmitt að fjalla um það af einurð og með harðri viðspyrnu gegn ásælni Evrópusambandsins?!
Ennfremur hélt hún því fram, að við værum ekki að framselja valdið til ACER, við værum að framselja það til ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA), eins og við hefðum gert áður og í alvarlegra máli. Þvílík glámskyggni! Ekki hefur hún þá kynnt sér vel greinarskrif Bjarna rafmagnsverkfræðings Jónssonar, né álitsgerðir hins sérfróða Peters Örebech, þar sem skýrt kemur fram, hvílík áhrif ACER mun fá hér í gegnum Landsreglarann, sem ekki verður undir boðvaldi ríkisstjórnar Íslands né Alþingis. Svo að vitnað sé í grein Bjarna verkfr. Jónssonar 11. þ.m., :
Í þriðja lið samantektar iðnaðarráðuneytisins á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar [lögfr.] frá apríl 2018 kemur fram stórvarasöm glámskyggni ráðuneytisins á eðli og valdmörk ACER hér á landi. Verður þá fyrst að nefna það, að valda.mesta embætti hérlendis á orkumálasviði eftir innleiðingu "pakkans", verður embætti Landsreglara, og þetta embætti verður óháð íslenzkum yfirvöldum og framlengdur armur ACER á Íslandi, sem er undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB. [...] Sjá nánar þá grein Bjarna: Valdmörk ACER.
Að lokum er hér viðhengi með þeirri rýniskýrslu sem próf. Peter Örebech samdi um greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar lögmanns:
Og HÉR er Kastljósþátturinn allur 13. nóv. 2018, undir þáttarstjórn Einars Þorsteinssonar fréttamanns: http://www.ruv.is/spila/ruv/kastljos/20181113
Jón Valur Jensson.
Vilja hafna þriðja orkupakka ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Auðlindir og orkumál | Aukaflokkar: Evrópumál, Fullveldi og sjálfstæði Íslands, Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.11.2018 kl. 03:26 | Facebook
Athugasemdir
Það er skelfilegt til þess að hugsa að stjórnmálamenn skuli láta múta sér, vera keyptir, til að hafa skoðanir sem eru skaðlegar þjóðinni. Við sjáum glöggt muninn á vilja norsku þjóðarinnar annarsvegar og norska þingsins hinsvegar. Það er ekki að norskir þingmenn séu svo miklu klárari en norskur almenningur, þeir eru keyptir, þeim mútað af ESB.
Hér þyrfti að setja á stofn embætti sérstaks saksóknara, einstaklingar sem er óháðir stjórnmálum, sem hefði það hlutverk að rannsaka mútuþægni sérstaklega.
Mútuþægni er glæpsamlegt athæfi og ættu að vera, kannski það sé, ströng viðurlög við slíku. En hvers er að vænta af gjörspilltu þingi???
Tómas Ibsen Halldórsson, 14.11.2018 kl. 11:15
Ríkisútvarpið velur viðmælendur vandlega vegna málsstaðarins sem stofnunin vinnur greinilega fyrir og því sjást sjaldnast þeir hörðustu af eindregnum andstæðingar innleiðingar Orkupakka 3.Þó vil ég nefna Frosta en þáttagerðarmenn ráða jafnan ferðinni. -
Helga Kristjánsdóttir, 15.11.2018 kl. 00:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.