Nýtt mat á EES-samningi er orðið brýnt; nefnd til að meta galla hans og kosti er grun­samlega fámenn, með 2 þekktum og 1 lítt þekktum nefndarmanni

Utanríkisráðhr. skipaði 30/8 sl. 3ja manna starfshóp sem ætlað er að gera úttekt á kostum og göllum EES-aðildar Íslands. Nefndar­form. er Björn Bjarna­son, en Kristrún Heimisdóttir, fyrrv. að­stoðarm. Ingi­bjargar Sól­rún­ar og síðar Árna Páls Árna­sonar við­skipta­ráðherra, situr í nefndinni með Birni, og þótt bæði séu vitfólk mikið, er kannski ekki við því að búast, að þau komi með nýjar og óvæntar tillögur að rannsókn sinni lokinni. Björn hefur með eindregnum hætti ítrekað lýst sig mjög hlynntan EES-samningnum, og ekki er Kristrún líkleg til að leggja neitt til, sem fjarlægir okkur frá Evrópusambandinu, það þveröfuga gæti jafnvel gerzt.

Eflaust er það rétt mat hjá Birni Bjarnasyni, þegar hann segir á heimasíðu sinni: "Það er vel við hæfi að gera ítarlega og vandaða úttekt á aðild Íslands að samningnum þegar 25 ár eru liðinn frá gildistöku hans." En hér hlýtur ekki sízt að skipta máli, hvernig sú nefnd er skipuð, sem gerir þessa úttekt á því, hvort við höfum á heildina litið grætt eða haft gagn af EES-samningnum eða hvort hann hafi jafnvel lengi verið þjóðinni til þyngsla á sumum sviðum.

En hver er þriðji nefndarmaðurinn? Bergþóra heitir hún Hall­dórs­dótt­ir, núv. lög­fræðing­ur hjá Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins og er­ind­reki um sam­starf at­vinnu­lífs­ins og ut­an­rík­isþjón­ust­unn­ar. Hún varð 35 ára í fyrradag (til hamingju með það!), ólst upp í Reykjavík, og lauk ML-prófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík auk þess sem hún lauk diplómaprófi í frönsku frá Aix-Marseille Université. Hún var fyrst saksóknarafulltrúi á sviði skattamála hjá Embætti sérstaks saksóknara, einnig sérfræðingur hjá Sam­keppnis­eftir­litinu og sinnti lögfræðiaðstoð fyrir kosningaeftirlitsnefnd Öryggis- og samvinnu­ráðs Evrópu áður en hún hóf störf hjá SA, í upphafi á vinnumarkaðssviði samtakanna.

Nú er vitað, að SA hafa mjög viljað halla sér að Evrópusambandinu, og úr hópi stjórn­enda í þeim samtökum atvinnu­lífs hafa t.d. allmargir forystu­menn ESB-sinna á Íslandi komið, sem og þónokkrir af þing­mönnum "Viðreisnar", sbr. hér og hér). Því liggur beint við að spyrja: Er líklegt, að lögfræðingur SA sl. hálfan áratug sé fyrir fram hlutlaus gagnvart EES-samn­ingnum og Evrópu­sambandinu sjálfu?

En Björn Bjarnason er ósköp glaður yfir þessu öllu saman og ritar þess utan: "Fyrir okkur sem sitjum við að safna efni í þessa skýrslu er ánægjulegt að sjá að vinnulagið veldur ekki deilum á alþingi." Þá upplýsir hann um, að Pétur Gunnarsson, sérfræðingur í EES-málum í utanríkisráðuneytinu, er ritari hópsins.

Ef einhverjum þykir hér ógáfulega spurt út í mál eða of mikillar tortryggni gæta gagnvart nefndarmönnunum þremur, þá er sjálfsagt að nefna það hér í athuga­semd og koma með rök fyrir því, að þetta sé allt í bezta fari undir leiðsögn Björns Bjarnasonar. Afstaða hans til Þriðja (ACER) orku­mála­pakka Evrópu­sambands­ins dregur þó ekkert úr áhyggjum undirritaðs.

Í frétt á Mbl.is um þetta mál sagði svo:

Björn fjallaði um skip­un­ina á vefsíðu sinni [...] þar sem hann sagði meðal ann­ars: "Ég var og er á móti ESB-aðild og tel að EES-leiðin sé best til óhjá­kvæmi­legs sam­starfs okk­ar við ESB. Að greina EES-stöðuna nú og draga álykt­an­ir af þeirri vinnu er verðugt viðfangs­efni."

Fyrrverandi utanríkisráðherra fekk hér tilefni til að skjóta spotzkur á Björn (úr sömu frétt):

Þessi um­mæli vöktu at­hygli Gunn­ars Braga Sveins­son­ar, þing­flokks­for­manns Miðflokks­ins, sem birti um­mæli Bjarn­ar á Face­book-síðu sinni og velti því fyr­ir sér hvort niðurstaða skýrslu starfs­hóps­ins lægi fyr­ir í ljósi orða for­manns hans: "Er þá niðurstaðan kom­in?" (!)

VIÐAUKI

Undirritaður setti eftirfarandi texta á Facebók, m.a. á Stjórnmálaspjallið, með vísan á þessa grein:

Er þriggja manna nefnd undir forystu Björns Bjarnasonar treystandi fyrir framtíðarstöðu landsins? Hér er um afgerandi mikilvægt endurmat á EES-samningnum að ræða, en er þá við því að búast, að þrjár manneskjur, sem allar gætu fyrir fram virzt vera hlynntar honum, gefi á sínum vel launaða 12 mánaða matstíma traustsverða rniðurstöðu um allar hliðar þess máls? Víst er, að samningurinn hefur kostað mikið í árlegum útgjöldum ríkissjóðs vegna eilífrar þýðingarvinnu á löggjöf, sem við höfum alla jafnan ekkert með að gera og oft er til óþurftar og takmörkunar á athafnafrelsi Íslendinga, sem og með fráleitum framlögum héðan til þróunarstarfs ESB-ríkja í Austur-Evrópu, en það versta er þó, ef skuldbindingar okkar aukast enn, á borð við ACER-málið skelfilega og sæstrengs-málið. Björn Bjarnason virðist forstokkaður fylgismaður Þriðja orkumálapakka Evrópusambandsins, með öllu hans fullveldisframsali til ACER og ESB, og er því naumast rétti maðurinn til að leiða svona matsvinnu. Vísa ég um það mál til frábærs upplýsingastarfs Bjarna Jónssonar rafmagnsverkfræðings og nú síðast til greinar hans: Gagnrýni prófessors Peters Örebech (sérfræðings í Evrópurétti) sem malar niður í smátt hið afar meðvirka álit með Acer-samningnum sem Þórdís Kolbrún, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði eftir! -- Eitt er víst að þessi mál eru ekki í góðu fari -- að mörgu er hér að ugga, en hér er grein Bjarna Jónssonar: https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2223574/

Sjá einnig athugasemdirnar og umræður hér á eftir.

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Er þá niðurstaðan komin?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Björn virtist einstaklega ánægður með ummæli formanns Viðreisnar um nefndina. Það setur óneitanlega fram þá spurningu hvort hann á kannski betur heima í þeim flokki en Sjálfstæðisflokknum, hafi bara gleymt að færa sig, þegar Viðreisn var stofnuð.

Gunnar Heiðarsson, 11.10.2018 kl. 06:29

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Jón Valur. Ég sá ekki betur en að Bergþóra Hall­dórs­dótt­ir væri skráð sem lobbíisti hjá ESB þegar ég var að rannsaka hvaða íslendingar væru á spena ESB. Kannski er þetta fólk sem Bjarni vill hafa.  

Valdimar Samúelsson, 11.10.2018 kl. 11:11

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka ykkur báðum innleggin hér, Gunnar og Valdimar.

Aha, ýmislegt kann að koma í ljós, þegar spurt er!

Valdimar, ef þú ert með upplýsingar um, að Bergþóra Hall­dórs­dótt­ir hafi verið skráð sem lobbýisti hjá ESB, endilega miðlaðu þeim til mín, mig langar að skoða þær uppl. með þér.

Jón Valur Jensson, 11.10.2018 kl. 13:00

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka Jón Valur ég skrifaði þetta fyrir einhverjum vikum en það var töluvert um greinar í þessum dúr en fór ekkert nákvæmlega í þessi mál.  

https://skolli.blog.is/admin/blog/?entry_id=2223318

Valdimar Samúelsson, 11.10.2018 kl. 21:28

5 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

https://skolli.blog.is/blog/skolli/entry/2223318/

Ég fór á réttu slóðina  Valdimar.

Jónas Gunnlaugsson, 12.10.2018 kl. 10:09

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Í frétt á Visir.is segir Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, nú þingflokksformaður Miðflokksins, koma til greina að segja upp EES-samningnum.

Tilefni hans er dómur Hæstaréttar sem segir það brjóta gegn EES-samningnum að banna innflutning á fersku kjöti. Ef stjórnvöldum takist ekki að fá undanþágur frá samningnum komi til greina að segja honum upp.

"Ef hagsmunirnir eru metnir það stórir og miklir kæmi það að sjálfsögðu til greina. En þetta þarf allt að vega og meta og það þarf að fara mjög vandlega í gegnum þetta. Ekki kasta bara einhverju fram. Það þarf að fara mjög vandlega yfir þetta," segir Gunnar Bragi Sveinsson.

Jón Valur Jensson, 13.10.2018 kl. 04:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband