Eitt sinn ágjarnt ESB ávallt ágjarnt - vill halda öllum veiðirétti við Bretland!

Kröfur ESB til Breta vegna Brexit sanna hve vara­samt er að gefa þessu stór­veldi nokkuð eftir af fullveldi. ÖLL veiði­rétt­indi, sem Bretar urðu nauð­ugir* jafnt sem vilj­ugir** að gefa ESB-ríkjum, vill ESB halda í þrátt fyrir Brexit!

Þetta er ljóst af minn­is­blaði frá ESB-þing­inu sem lekið var til fjöl­miðla.

Von­ir breskra sjó­manna um að Bret­land gæti end­ur­heimt fiski­miðin í kring­um landið í kjöl­far út­göngu lands­ins úr Evr­ópu­sam­band­inu gætu orðið að engu í kjöl­farið. (Mbl.is)

En þetta hafði einmitt verið eitt af því, sem mælti með úrsögn: að þá myndu brezkir sjómenn end­ur­heimta miðin að fullu til sín, í stað þess að deila þeim með Spánverjum, Hollendingum o.fl. þjóðum.

Frá þessu er greint á frétta­vef breska dag­blaðsins Guar­di­an en minn­is­blaðið, sem blaðið hef­ur und­ir hönd­um, inni­held­ur upp­kast að sjö ákvæðum sem þing­menn á Evr­ópuþing­inu vilja að verði í fyr­ir­huguðum samn­ingi á milli Bret­lands og Evr­ópu­sam­bands­ins um út­göngu lands­ins. Stefnt er að því að viðræður um út­göng­una hefj­ist síðar á þessu ári.

Fram kem­ur í minn­is­blaðinu „ekki verði um að ræða aukn­ingu í hlut­deild Bret­lands í afla­heim­ild­um í sam­eig­in­leg­um fiski­stofn­um (nú­ver­andi skipt­ing afla­heim­ilda verði óbreytt í lög­sögu Evr­ópu­sam­bands­ins og Bret­lands)“. Enn­frem­ur að með til­liti til skuld­bind­inga á vett­vangi Sam­einuðu þjóðanna um sjálf­bær­ar veiðar sé „erfitt að sjá nokk­urn ann­an val­kost en áfram­hald­andi notk­un á sam­eig­in­legri sjáv­ar­út­vegs­stefnu sam­bands­ins“. (Mbl.is)

Þetta eru stóralvarlegar fréttir fyrir brezkan sjávarútveg, ef Brussel­mönnum tekst að þjösnast á Bretum í þessu efni. En hvaða trompspili getur Evrópu­sam­bandið spilað út í því reiptogi? Jú, sam­kvæmt minn­is­blaðinu vill sjáv­ar­út­vegs­nefnd Evr­ópuþings­ins að aðgang­ur Bret­lands að innri markaði sam­bands­ins verði háður því skil­yrði að Bret­ar "haldi áfram í heiðri rétt­indi og skyld­ur sam­kvæmt sam­eig­in­legu sjáv­ar­út­vegs­stefn­unni"!

Þarna stendur sem sé til að nota aðgang að innri markaðnum sem þumal­skrúfu á Breta að gefa áfram eftir fisk­veiði­réttindi sem ESB-ríki höfðu fengið í brezkri fiskveiðilögsögu vegna ESB-aðildar Breta! Nú vill Evrópusambandið í ágirnd sinni múra það inn sem óbreytanlegt, en kannski meðfram til að fæla önnur meðlimaríki frá því að endurtaka Brexit-leikinn. Frexit yrði, fá Frakkar hér með að vita, þeim ekki að kostnaðarlausu né til að endurheimta frelsi sitt að fullu.

Svo eru sumir hér á Íslandi sem ímynda sér, að veiði­réttur hér við land sé eða öllu heldur yrði ekki mikils virði fyrir Evrópu­sambands­ríki! Samt er árlegur afli hér við land margfaldur á við það sem veiðist í brezkri lögsögu! Og vitnisburður spænskra ráðherra*** var t.d. órækt vitni um það, hversu mikill ávinning Spán­verjar sáu í Össurar-umsókninni 2009 fyrir sinn eigin sjávarútveg.

Bresk­ir sjó­menn hafa lengi verið gagn­rýn­ir á sam­eig­in­lega sjáv­ar­út­vegs­stefnu Evr­ópu­sam­bands­ins. (Mbl.is) Ekki er við það komandi hjá sjáv­ar­út­vegs­nefnd ESB-þings­ins að þessir brezku sjómenn hafi sitt fram; aðgang­ur að innri mark­aði sam­bands­ins á áfram að vera háður þessu skil­yrði: að Bret­ar beygi sig fyrir sam­eig­in­legu sjáv­ar­út­vegs­stefn­unni, en ekki aðeins það, heldur þetta að auki:

Sjáv­ar­út­vegs­nefnd­in vill enn­frem­ur að fiski­skip frá ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins geti áfram siglt und­ir bresk­um fána, en greint hef­ur verið frá því að hol­lenska út­gerðarfé­lagið Cornel­is Vr­olijk veiði 23% afla­heim­ilda í enskri lög­sögu að því er seg­ir í frétt­inni. Enn­frem­ur að fiski­skip frá Evr­ópu­sam­band­inu verði að njóta sömu rétt­inda í Bretlandi og bresk fiski­skip. Ekki verði heim­ilt að setja skil­yrði sem gætu hindrað starf­semi þeirra inn­an Bret­lands. (Sama frétt, leturbr. JVJ.)

Og það er hnykkt á öllu þessu í minn­is­blaði ESB-þingnefndarinnar, þ.e.

að framtíðartengsl Bret­lands og Evr­ópu­sam­bands­ins á sviði sjáv­ar­út­vegs­mála verði að skoða í sam­hengi við vilja Breta til þess að halda nán­um tengsl­um við sam­starfs­ríki inn­an sam­bands­ins og innri markað þess. „Sér­hver samn­ing­ur sem trygg­ir aðgang Bret­lands að innri mark­aði Evr­ópu­sam­bands­ins verður að tryggja aðgang að fiski­miðum Bret­lands fyr­ir fiski­skip sam­bands­ins. (Mbl.is)

Og nú geta ESB-innlimunarsinnarnir barið sér á brjóst í hugmóði yfir því, hvílíkt sé sjálfstraust og stærilæti Brusselmanna gagnvart gamla brezka ljóninu, sem þeir vilja gjarnan að lyppist niður í búri sínu og hími þar áfram undirgefið við svipuhöggin frá Brussel og Strassborg. En brezkir sjómenn eiga örugglega eftir að láta í sér heyra vegna þessa yfirgangs.

Jón Valur Jensson.

* Í dómsmálum, þar sem ESB-dómstóllinn í Lúxemborg hafði úrslitavaldið, ESB-ríkjum í hag. Sjá nánar: Tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Skýrsla Evrópunefndar. Forsætisráðuneytið, Rv. 2007, bls. 99-100, sbr. einnig hér: ESB tekur sér alræðisvald yfir fiskveiðilögsögu milli 12 og 200 mílna!
** Í inntökusáttmála Stóra-Bretlands.
LESIÐ ennfremur:

mbl.is ESB vill veiða áfram við Bretland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Skil ekki þessi sjónarmið. Ef bretar ganga úr ESB hljóta þeir að fá að halda sínum fiskimiðum eins og öll fullvalda ríki.  En við höfum verið vöruð við þessu, svo þetta verður okkur víti til varnaðar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.2.2017 kl. 14:53

2 Smámynd: Samtök um rannsóknir á ESB ...

Straight from the horse´s mouth, Ásthildur!

Þannig hugsa þeir og haga sér. Það er líka svo freistandi að beita valdinu eða hóta ýmsu, eins og við höfum einmitt fengið að finna fyrir hjá þeim í Brussel, í Icesave- og makríl-málunum.

JVJ.

Samtök um rannsóknir á ESB ..., 16.2.2017 kl. 17:19

3 identicon

Þetta er ekki ágirni, þetta eru samningsmarkmið.

Bretar vilja aðgang að mörkuðum ESB ríkja á betri kjörum en þeir fá án samninga. Á móti vill ESB fá eitthvað sem það lítur á sem jafn verðmætt eða verðmætara en þessi aðgangur.

Ef samningarnir enda þannig að Bretar halda áfram að framselja lögsögu sína yfir fiskveiðimálum til ESB þá verður það ekki ESB að kenna heldur bresku ríkisstjórninni. Bretland er eftir allt sjálfstætt ríki og ræður því hvaða samningum það tekur.

En segjum að ESB geti neitt UK til að taka þessum samningum með því að gefa þeim annars ekki aðgengi að innri markaði sínum á sambærilegum kjörum og Bretar hafa í dag. Væri það ekki viðurkenning Breta á því að þeir geta ekki staðið utan markaðssvæðisins án þess að líða stór skaða og þetta var kannski frekar vitlaust af þeim í grunninn?

Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 16.2.2017 kl. 17:39

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég vona hálfpartinn að Trump bjóði Bretum upp á tvíhliða viðskiptasamning og hverju einasta ESB-ríki sem hefur verið að gæla við úrsögn. Þannig gæti USA splundrað ESB.

Theódór Norðkvist, 16.2.2017 kl. 19:50

5 identicon

Já Theódór, og öll þau ríki mundu taka þeim samningi fagnandi vegna þess að þau vilja öll til dæmis eyðileggja landbúnað sinn með innfluttningi á mun ódýrari vöru frá USA.

Já auðvitað.

Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 16.2.2017 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband