Kröfur ESB til Breta vegna Brexit sanna hve varasamt er að gefa þessu stórveldi nokkuð eftir af fullveldi. ÖLL veiðiréttindi, sem Bretar urðu nauðugir* jafnt sem viljugir** að gefa ESB-ríkjum, vill ESB halda í þrátt fyrir Brexit!
Þetta er ljóst af minnisblaði frá ESB-þinginu sem lekið var til fjölmiðla.
Vonir breskra sjómanna um að Bretland gæti endurheimt fiskimiðin í kringum landið í kjölfar útgöngu landsins úr Evrópusambandinu gætu orðið að engu í kjölfarið. (Mbl.is)
En þetta hafði einmitt verið eitt af því, sem mælti með úrsögn: að þá myndu brezkir sjómenn endurheimta miðin að fullu til sín, í stað þess að deila þeim með Spánverjum, Hollendingum o.fl. þjóðum.
Frá þessu er greint á fréttavef breska dagblaðsins Guardian en minnisblaðið, sem blaðið hefur undir höndum, inniheldur uppkast að sjö ákvæðum sem þingmenn á Evrópuþinginu vilja að verði í fyrirhuguðum samningi á milli Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu landsins. Stefnt er að því að viðræður um útgönguna hefjist síðar á þessu ári.
Fram kemur í minnisblaðinu ekki verði um að ræða aukningu í hlutdeild Bretlands í aflaheimildum í sameiginlegum fiskistofnum (núverandi skipting aflaheimilda verði óbreytt í lögsögu Evrópusambandsins og Bretlands). Ennfremur að með tilliti til skuldbindinga á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar veiðar sé erfitt að sjá nokkurn annan valkost en áframhaldandi notkun á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins. (Mbl.is)
Þetta eru stóralvarlegar fréttir fyrir brezkan sjávarútveg, ef Brusselmönnum tekst að þjösnast á Bretum í þessu efni. En hvaða trompspili getur Evrópusambandið spilað út í því reiptogi? Jú, samkvæmt minnisblaðinu vill sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins að aðgangur Bretlands að innri markaði sambandsins verði háður því skilyrði að Bretar "haldi áfram í heiðri réttindi og skyldur samkvæmt sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni"!
Þarna stendur sem sé til að nota aðgang að innri markaðnum sem þumalskrúfu á Breta að gefa áfram eftir fiskveiðiréttindi sem ESB-ríki höfðu fengið í brezkri fiskveiðilögsögu vegna ESB-aðildar Breta! Nú vill Evrópusambandið í ágirnd sinni múra það inn sem óbreytanlegt, en kannski meðfram til að fæla önnur meðlimaríki frá því að endurtaka Brexit-leikinn. Frexit yrði, fá Frakkar hér með að vita, þeim ekki að kostnaðarlausu né til að endurheimta frelsi sitt að fullu.
Svo eru sumir hér á Íslandi sem ímynda sér, að veiðiréttur hér við land sé eða öllu heldur yrði ekki mikils virði fyrir Evrópusambandsríki! Samt er árlegur afli hér við land margfaldur á við það sem veiðist í brezkri lögsögu! Og vitnisburður spænskra ráðherra*** var t.d. órækt vitni um það, hversu mikill ávinning Spánverjar sáu í Össurar-umsókninni 2009 fyrir sinn eigin sjávarútveg.
Breskir sjómenn hafa lengi verið gagnrýnir á sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. (Mbl.is) Ekki er við það komandi hjá sjávarútvegsnefnd ESB-þingsins að þessir brezku sjómenn hafi sitt fram; aðgangur að innri markaði sambandsins á áfram að vera háður þessu skilyrði: að Bretar beygi sig fyrir sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni, en ekki aðeins það, heldur þetta að auki:
Sjávarútvegsnefndin vill ennfremur að fiskiskip frá ríkjum Evrópusambandsins geti áfram siglt undir breskum fána, en greint hefur verið frá því að hollenska útgerðarfélagið Cornelis Vrolijk veiði 23% aflaheimilda í enskri lögsögu að því er segir í fréttinni. Ennfremur að fiskiskip frá Evrópusambandinu verði að njóta sömu réttinda í Bretlandi og bresk fiskiskip. Ekki verði heimilt að setja skilyrði sem gætu hindrað starfsemi þeirra innan Bretlands. (Sama frétt, leturbr. JVJ.)
Og það er hnykkt á öllu þessu í minnisblaði ESB-þingnefndarinnar, þ.e.
að framtíðartengsl Bretlands og Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegsmála verði að skoða í samhengi við vilja Breta til þess að halda nánum tengslum við samstarfsríki innan sambandsins og innri markað þess. Sérhver samningur sem tryggir aðgang Bretlands að innri markaði Evrópusambandsins verður að tryggja aðgang að fiskimiðum Bretlands fyrir fiskiskip sambandsins. (Mbl.is)
Og nú geta ESB-innlimunarsinnarnir barið sér á brjóst í hugmóði yfir því, hvílíkt sé sjálfstraust og stærilæti Brusselmanna gagnvart gamla brezka ljóninu, sem þeir vilja gjarnan að lyppist niður í búri sínu og hími þar áfram undirgefið við svipuhöggin frá Brussel og Strassborg. En brezkir sjómenn eiga örugglega eftir að láta í sér heyra vegna þessa yfirgangs.
Jón Valur Jensson.
ESB vill veiða áfram við Bretland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fiskveiðar, sjávarútvegur | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 16.2.2017 kl. 17:07 | Facebook
Athugasemdir
Skil ekki þessi sjónarmið. Ef bretar ganga úr ESB hljóta þeir að fá að halda sínum fiskimiðum eins og öll fullvalda ríki. En við höfum verið vöruð við þessu, svo þetta verður okkur víti til varnaðar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.2.2017 kl. 14:53
Straight from the horse´s mouth, Ásthildur!
Þannig hugsa þeir og haga sér. Það er líka svo freistandi að beita valdinu eða hóta ýmsu, eins og við höfum einmitt fengið að finna fyrir hjá þeim í Brussel, í Icesave- og makríl-málunum.
JVJ.
Samtök um rannsóknir á ESB ..., 16.2.2017 kl. 17:19
Þetta er ekki ágirni, þetta eru samningsmarkmið.
Bretar vilja aðgang að mörkuðum ESB ríkja á betri kjörum en þeir fá án samninga. Á móti vill ESB fá eitthvað sem það lítur á sem jafn verðmætt eða verðmætara en þessi aðgangur.
Ef samningarnir enda þannig að Bretar halda áfram að framselja lögsögu sína yfir fiskveiðimálum til ESB þá verður það ekki ESB að kenna heldur bresku ríkisstjórninni. Bretland er eftir allt sjálfstætt ríki og ræður því hvaða samningum það tekur.
En segjum að ESB geti neitt UK til að taka þessum samningum með því að gefa þeim annars ekki aðgengi að innri markaði sínum á sambærilegum kjörum og Bretar hafa í dag. Væri það ekki viðurkenning Breta á því að þeir geta ekki staðið utan markaðssvæðisins án þess að líða stór skaða og þetta var kannski frekar vitlaust af þeim í grunninn?
Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 16.2.2017 kl. 17:39
Ég vona hálfpartinn að Trump bjóði Bretum upp á tvíhliða viðskiptasamning og hverju einasta ESB-ríki sem hefur verið að gæla við úrsögn. Þannig gæti USA splundrað ESB.
Theódór Norðkvist, 16.2.2017 kl. 19:50
Já Theódór, og öll þau ríki mundu taka þeim samningi fagnandi vegna þess að þau vilja öll til dæmis eyðileggja landbúnað sinn með innfluttningi á mun ódýrari vöru frá USA.
Já auðvitað.
Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 16.2.2017 kl. 22:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.