29.10.2016 | 00:43
Nokkrar bábiljur ESB-innlimunarsinnaðra flokka og frambjóðenda
1) "Viðreisn" lætur sem eina leiðin til lækkunar vaxta sé í gegnum ESB. En hærri raunvextir hér en í nágrannaríkjum hafa ekkert með gjaldmiðil okkar að gera, upplýsir Már Wolfgang Mixa okkur um.*
2) Þeir vilja ekki takast á við að nýta okkar fullveldisréttindi til að beita valdi þingmeirihluta og ráðherra til að breyta vaxtastefnunni í landinu og setja t.d. 2% vaxtaþak á verðtryggða vexti. Annaðhvort kemur þetta til af pólitísku kjarkleysi (að ímynda sér þetta sem ómögulegt eða illfært) eða þeir hreinlega vilja þetta EKKI, af því að þeim (t.d. ESB-innlimunarflokknum "Viðreisn") er meira í mun að hafa hið sífellda umkvörtunarefni meirihluta þjóðarinnar: okurvexti Seðlabankans og bankanna, sem sitt tæki til að reyna að hræða menn og smala þeim til að aðhyllast ESB-inngöngu sem "einu lausnina" sem hún þó alls ekki er! En þetta er sá herkostnaður saklausrar þjóðarinnar sem óbilgjörn "Viðreisn" er til í: að neita fólki um íslenzka vaxtalækkun, af því að ESB-Benedikt og hans fylginautar vilja einfaldlega koma okkur undir klafa Evrópusambandsins. En þetta sýnir vitaskuld, að "Viðreisn" hin nýja stendur ekki undir nafni, hana skortir þor til að endurtaka gott framtak Viðreisnarstjórnar Ólafs Thors á 7. áratugnum að því að umbylta og endurbæta íslenzka stjórnarhætti í efnahagsmálum í krafti okkar fullveldisréttinda og aflétta fyrri haftastefnu með sínum eigin, innri starfstækjum, en til þess hafa stjórnvöld nú sem fyrr m.a. löggjafarþingið og vald ríkisstjórnar yfir stjórn Seðlabankans og peningastefnunefndar.
3) Þeir gefa kjósendum til kynna, að s.k. "aðildarviðræður" feli í sér samninga tveggja jafnrétthárra aðila um málamiðlanir í átt að einhverri sameiginlegri niðurstöðu, sem verði þó ekki í samræmi við "samninga" annarra ESB-ríkja. Til að mynda hafa menn eins og Össur Skarphéðinsson látið sem við gætum fengið "hagstæða" samninga við Evrópusambandið um okkar fiskveiðimál. Ekki fengu Norðmenn slík yfirráð yfir jafnvel parti af sinni fiskveiðilögsögu, í þeim viðræðum sem þeir áttu í við ESB og lyktaði með norsku NEI-i í þjóðaratkvæðagreiðslu 1994. Og á hreinu er það, skv. formanni sjávarútvegsnefndar Evrópusambandsþingsins, Gabriels Mato (19.9. 2012), að "Íslendingar verða að samþykkja og virða löggjöf Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum" - ekki boðið upp á annað í ESB! Samanber einnig skýr orð sjávarmálastjóra Spánar: auðlindir "evrópusambandsvæddar" þegar ríki gengur í ESB (5. sept. 2009). Í samræmi við þetta kallaði ráðherra Spánverja í ESB-málum fiskimið Íslands "fjársjóð" og ætlaði Spánverjum að tryggja sér fiskveiðiréttindi hér í aðildarviðræðunum (29. júlí 2009).
4) Þá hafa ESB-sinnar haldið því fram í umræðunni, að við Íslendingar tökum hvort sem er við meirihlutanum af ESB-löggöf gegnum EES-samninginn. En í reynd ná innan við 10% af lögum Evrópusambandsins hér í gegn með EES-samningnum.
5) Svo er látið sem við getum náð hér varanlegum undanþágum frá jafnvel meginreglum sáttmála Evrópusambandsins. En hitt er margstaðfest staðreynd, eins og Stefan Füle, þáv. stækkunarstjóri Evrópusambandsins, tók skýrt fram á blaðamannafundi í Brussel, að engar varanlegar undanþágur eru veittar frá lögum ESB.
6) Bábiljurnar um vaxtamálin (sem Jón Steinar Ragnarsson hefur varpað nýju ljósi á í ýmsum innleggjum sínum hér neðar) ná hámark sínu í lýðskrumi nokkurra frambjóðenda, sem allir eru ESB-sinnaðir, um himinháan mun á útlögðum kostnaði lántakenda vegna íbúðakaupa á Íslandi annars vegar og í ESB-löndum hins vegar, og er hér vísað til Ástu Guðrúnar og Óttars Proppé hjá "Bjartri framtíð" og Benedikt og Þorgerði Katrínu hjá "Viðreisn" í kosningabaráttunni að undanförnu. Þannig fullyrti Óttarr í kynningu á flokki sínum í Sjónvarpi 19. okt. sl.: "Það er náttúrlega alveg óþolandi að við hérna á Íslandi þurfum að kaupa íbúðirnar okkar þrisvar til fjórum sinnum á meðan fólk í nágrannalöndunum er að fjármagna íbúðir með jafnvel eins og tveggja prósenta vöxtum." Þetta um þrefalda til fjórfalda íbúðaverðið er uppspuni eða einber fáfræði þessa misreiknandi skýjaglóps. Við athugun mjög glöggs verkfræðings var íbúðarverð hér endurgreitt (ef tekið var 100% lán) með um 1520% meiri kostnaði en í Danmörku. Jafnvel fullyrðing Þorgerðar Katrínar um að við borgum fyrir eitt hús með andvirði tveggja húsa gegnum bankakerfið er líka rakið lýðskrum til að gylla fyrir okkur "kostinn" við að fara inn í Evrópusambandið. Síðast í gærkvöldi, daginn fyrir kosningarnar, staðhæfði Benedikt Jóhannesson, að Íslendingar væru að borga andvirði þriggja til fjögurra húsa við að kaupa sér eitt á lánum, á sama tíma og Danir væru að borga tæplega eitt og hálft andvirði húss í sínum kaupum. Í reynd eru samanburðartölurnar, að öllu útreiknuðu, um 1,35 hjá Dönum, en um 1,55 hjá okkur. Það er munur sem auðvelt er að ná niður með löggjöf um vaxtaþak á verðtryggð lán (sbr. 2. lið hér ofar) og eins á óverðtryggð lán, ásamt sérákvæðum vegna mikilla gengisfellinga eða holskefla í efnahagslífinu. Pólitískur vilji er allt, sem til þarf.
7) Því er haldið fram, að evran sé stöðugur og traustur gjaldmiðill í samanburði við óstöðuga krónu. Í þessu sambandi er því einnig haldið endalaust fram, að krónan hafi rýrnað um hartnær 100% frá upptöku hennar um 1922, ólíkt frammistöðu dönsku krónunnar, sem við klufum okkur þá frá. Þetta er hin mesta sýndarblekking; verðbólga og verðfall krónunnar hefur alls ekki komið í veg fyrir, að lífskjörum og verðmætasköpun í formi íbúðarhúsnæðis og atvinnufyrirtækja hafi fleygt hér fram í meira mæli en í flestum ef ekki öllum löndum Evrópu frá sama tíma, bæði í stórfelldum vexti og í gæðum húsnæðis, ennfremur bæði í kaupmætti og ótrúlegum framförum í velferðarkerfinu. Við vorum eitt fátækasta land álfunnar fyrir um 95 árum, sumir jafnvel enn búandi í moldarkofum, en erum nú meðal bezt stæðu Evrópuþjóða og jöfnuður hér, þrátt fyrir allt, meiri en annars staðar. En á grunni fengins sjálfstæðis og fullveldis höfum við frá 1918 sótt fram með aðdáunarverðum hætti í samfélagi þjóðanna, og það eru þessi fullveldisréttindi sem m.a. veittu okkur forsendurnar og réttinn til að stækka fiskveiðilögsöguna úr þremur mílum í 200 á einungis aldarfjórðungi, 1950-1975! Þetta var svo mikil blóðtaka fyrir brezkan sjávarútveg, að Sameinaða konungsríkið Stóra-Bretland fór þrívegis í þorskastríð, beitandi herskipaflota sínum og öðrum vígdrekum gegn okkur af mikilli hörku (og má benda á vel myndskreytta frásögn í Morgunblaðinu í dag, bls. 34 og 36, af ásiglingu þriggja brezkra dráttarbáta á varðskipið Þór í mynni Seyðisfjarðar 1975, en slíkar ásiglingar og tilraunir til þeirra voru margar og stórhættulegar sumar hverjar, og umtalsvert tjón hlauzt af þeim á skipum beggja aðila; sjá um það t.d. líflega sagða sögu þessara landhelgismála í fallega útgefinni bók eftir nýkjörinn forseta okkar, dr. Guðna Th. Jóhannesson: Þorskastríðin þrjú. Saga landhelgismálsins 19481976. Rvík: Hafréttarstofnun Íslands, 2006).
8) Því er haldið fram, að matvælaverð myndi lækka umtalsvert með a) upptöku evru sem lögeyris á Íslandi, b) við inntöku landsins í Evrópusambandið. Hvorugt stenzt neina skoðun. a) Strax við upptöku evru í ýmsum löndum Evrópusambandsins, t.d. á Spáni og Austurríki og ýmsum fyrrverandi austantjaldslöndum, hækkaði verðlag á margvíslegri þjónustu og vöruverði, þegar kaupmenn og aðrir aðilar færðu sitt verð í evrumynt. b) Þær fullyrðingar, að ESB-aðild fylgi sjálfkrafa lækkun matarverðs, komu m.a. fram í máli Evu Heiðu Önnudóttur, sem titluð var sem sérfræðingur við Háskólann á Bifröst í viðtali á Rúv 21. júní 2009, þar sem hún sagði:
"Það var talið að almennt mundi vöruverð lækka um 10-15% og matvara lækka sem því nemur og jafnvel meira. Ég vil samt taka fram þegar verið er að tala um verðlækkun á matvöru og á húsnæðislánum, þá er ekki víst að það komi fram í því að vöruverð lækki eingöngu heldur að það dragi saman á vöruverði á Íslandi og meginlandi Evrópu. Þannig að það dregur úr verðhækkunum, það er reynslan hjá Finnum og Svíum."
Og undirritaður jók þessu við þá umræðu (sjá einnig innlegg Guðbjörns Guðbjörnssonar tollgæzlumanns þar):
"Það er fráleitt að miða við "meðalverð í ESB", sem oft er talað um, heldur ætti miklu fremur að miða hér við meðalverð í Norðvestur-Evrópu, þar sem kauplag og verðlag á ýmissi þjónustu hefur verið miklu líkara okkar en kauplag og verðlag í Suður-, Mið- og Austur-Evrópu.
Það fólk, sem heldur því fram, að matarverð myndi almennt lækka jafnvel um 1015%!!! á að setja upp við vegg og láta það rökstyðja þessa fullyrðingu sína. Ætlar það að lækka flutningskostnað til landsins? Ætlar það að lækka kaup verzlunarfólks? Hvernig bætir það okkur upp smæð markaðarins og fjarlægð hans frá meginlandinu? Þó að sumar matvörur yrðu ódýrari (en aðrar alls ekki), þá yrði það í 1. lagi með þeim tjónakostnaði, að það yrði högg fyrir okkar landbúnað og ylli auknu atvinnuleysi, en í 2. lagi er þetta svo takmarkaður hluti matarkörfunnar (sem er sjálf í heild um 16% af útgjöldum meðalfjölskyldu), að það hefði ekki áhrif nema á sáralítinn hluta heildarútgjalda hverrar fjölskyldu. Til frádráttar kæmu svo meiri skattbyrðar vegna atvinnulausra."
Þá benti undirritaður á, að jafnvel hin ýkta 1015% lækkun matvælaútgjalda myndi ekki þýða lækkun heildarútgjalda fjölskyldu upp á meira en ca. 1,72,5%, ef satt væri fullyrt, sem það þó alls ekki var. "En jafnvel þótt þetta VÆRI satt (sem síðan ætti þó eftir að draga frá áðurnefndan tjónskostnað), myndi það vera þess virði að missa löggjafarvald okkar og yfirráð yfir auðlindunum þess vegna?!"
Samkeppnisaðilar á matvælamarkaði hafa staðið sig tiltölulega vel á seinni árum við að halda verðlagi hér í prýðilegu ásigkomulagi miðað við nágrannalönd okkar. Með nýlegri niðurfellingu og lækkun tolla og vörugjalda á ýmsar aðrar vörur eins og raftæki, skó og fatnað hefur ástandið enn batnað til mikilla muna og því dregið mjög úr þeim innkaupaferðum fólks, sem áður voru orðnar árviss viðburður um þetta leyti árs og fram á aðventuna, til Glasgow o.fl. borga Evrópu.
* Már Wolfgang Mixa er með PhD-próf í Business Administration og m.a. lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík; nánar um hann hér.
Jón Valur Jensson.
Fjallið tók jóðsótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fullveldi og sjálfstæði Íslands, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:16 | Facebook
Athugasemdir
Allt blaður um að vextir lækki hér við upptöku evru er hið mesta lýðskrum, vaxtastig á húsnæðislánum er mjög varíerandi hjá evrulöndum og er t.d. Nálægt 19% í lettlandi.
Menn geta skoðað þetta hér á samanburði vaxta í löndum heims.
http://europe.deposits.org/home-loan-rates.html
Alltaf skal miðað við herraþjöðirnar ríku eins og það sé sameiginlegt vaxtastig allra evrulanda. Það er einfaldlega lygi á lygi ofan.
Annað sem lægri vextir hafa í för með sér er hækkandi húsnæðisverð án undantekninga og geta menn kynnt sér sem vilja húsnæðisverð í þýskalandi og frakklandi sér til gamans. Einnig geta þeir týnt evrulöndin út úr ofangefnum lista og borið saman við ísland.
Ég mæli háum húsnæðisvöxtum ekki bót og mættu þeir lækka talsvert hér. Fólki býðst þó val um verðtryggð og óvertryggð lán, þar sem sveiflur eru mismiklar og áhættan varíerandi. Helsti munur er að greiðslubyrðin flyst til og er lægri í byrjun í öðru en meiri jöfnuður í hinu. Endanleg krónutala er þó það sem vegur mest.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.10.2016 kl. 09:21
Vsindavefurinn er varla hlutdrægur í þessu, en hér er svar hans við því hvaða áhrif lægri vextir hefðu við upptöku evru. Spurningin er gildishlaðin hjá þeim sem spyr, en í svarinu kemur fram að það,sé ekkert gefið að vextir verði lægri. Þar er einnig fjallað um áhrif og eðli verðtryggingar og áhrif lægri vaxta á hækkun húsnæðisverðs.
http://www.visindavefur.is/svar.php?id=60591
Ef einhver nennir að taka sér 10 mínútur í að skoða fyrri tengilinn um vaxtastigið og lesa síðan svarið á vísindavefnum þá sjá menn hverskonar himinhrópandi lýðskrum er á ferðinni hjá Benedikt og fleirum.
Þriðju breytuna þurfa menn svo að taka saman sjálfir og gera samanburð, en það er almennt húsnæðisverð í evrulöndunum.
Fjórðu breytuna utan við þetta mega svo menn athuga, en það er orku og hitunarkostnaður á evrusvæðinu og á hinum norðurlöndunum. Þar höfum við það náðugast allra og vel það.
Sölumenn ónýta Íslands ættu að skammast sín fyrir allar rangfærslurnar og lýðskrumið.
Ég er persónulega á því að stýrivöxtum hér sé haldið alltof háum og á röngum forsendum. Reynsla ætti að vera komin á það. Þeir voru með þeim hæstu í heimi hér fyrir hrun til að slá á þenslu samkvæmt hagfræði seðlabankans en urðu til þess að hingað hrúgaðist inn erlent fé í leit að náttstað í besta vaxtaumhverfi heims og þenslan fór úr öllum böndum. Semsagt þveröfug virkni.
Þeir sem sjá verðtryggingunni allt til foráttu muna ekki eða vilja ekki muna það ástand sem varð til þess að hún var tekin upp. Eilíf verkföll og órói á vinnumarkaði, verðbólga á heimsmælikvarða þar sem sparnaður brann upp og lánin sömuleiðis. Bankarnir í ríkiseigu veikir og spilltir og heilu kynslóðirnar runar öllu verðakyni því ekkert kostaði það sama frá degi til dags. Hér var fullkomin upplausn í allri hagstjórn.
Verðtryggingunni verður ekki kippt í burt sísvona án afleiðinga. Ef það verður reynt skal ég lofa ykkur kyndlum og heygöfflum á Austurvelli í stærra sniði en nokkru sinni hefur sest.
Staðreyndir þessara mála hafa verið skrumskældiar í eitthvað draumkennt sýrutripp um hinn eilífa fría dinner og alsæluríkið ókeypisland.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.10.2016 kl. 09:47
Menn gætu reynt að setja hér þak á vexti af húsnæðislánum í 5.5% eins og danir gerðu á sínu tíma, en þá verða þeir líka að sætta sig við 5-10% hærra markaðsvirði a.m.k. sem afleiðingu.
Annars er búið að fokka húsnæðismarkaðnum svo kyrfilega upp her með uppkaupum vafasamra felaga með vogunarsjóðatengsl og með dyggri aðstoð lífeyrissjöðanna að í framtíðinni verðum við líklega flest leiguþý hrægammanna. Ekki ósvipað hlutskipti og grænlendingar hafa gagnvart nýlenduherrum sínum, nema hvað hér verður engin málamyndaleiga. Engin hefur nefnt það á nafn að stöðva þessa þróun.
Kannski verðum við öll leigjendur hjá AirBnb áður en langt um líður. ;)
Jón Steinar Ragnarsson, 29.10.2016 kl. 10:00
Þakka þér, snillingur. ☺
Jón Valur Jensson, 29.10.2016 kl. 11:28
Þakka þér, snillingur!
Hér var rétt í þessu bætt við nýjum lið í greinina, nr. 6.
JVJ.
Samtök um rannsóknir á ESB ..., 29.10.2016 kl. 12:15
Kvatir klíkunnar eru það sterkar er varðar peninga að hún klofar yfir hvaða lög og stjórnarskrár sem er bara til að svala peningafíkninni og eins líka að láta undan hótunum, því kjarkminna fólk má lengi leita eftir.
Eyjólfur Jónsson, 29.10.2016 kl. 23:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.