6.7.2016 | 19:43
Draumur Brussel-bossa rætist um stofnun ESB-hers
Þeir vita sem er, að ekki er tekið mikið mark á herlausu stórveldi.
ESB-þingið samþykkti í dag að stofna nýjan landamæraher og á hann að taka á flóttamannavandanum: standa vaktina á landamærum landa á borð við Grikkland og Ítalíu frá og með september á þessu ári. Mbl.is segir frá í nýrri frétt.
Stofnun landamærahersins var samþykkt með 483 atkv. gegn 181. 48 sátu hjá.
Nokkur ríki Evrópusambandsins hafa á undanförnu misseri tekið upp landamæraeftirlit að nýju, en það hafði verið aflagt eftir að Schengen-samstarfið tók til starfa. Er það vegna flóttamannastraumsins, en rúmlega ein milljón flóttamanna og innflytjenda hefur komið til Evrópu frá því í ársbyrjun 2015.
Samþykkt Evrópuþingsins í dag felur í sér heimildir ríkja til þess að sjá áfram um eftirlit á landamærum sínum, en þau geta nú kallað eftir neyðaraðstoð úr landamærahernum sem mun telja a.m.k. 1.500 landamæraverði. (Mbl.is)
Greinilega hefur það haft mikil áhrif, að leiðtogar ESB-ríkja eins og Þýzkalands og Svíþjóðar buðu flóttamenn velkomna til landa sinna. Svíar sögðu alla sýrlenzka flóttamenn velkomna að vera til frambúðar, jafnvel þótt friður kæmist á í Sýrlandi, en svo neyddust sósíaldemókratar til að snúa við blaðinu, þegar þeir réðu ekki lengur við aðstreymið. Og ýmsar ESB-þjóðir kunna Angelu Merkel litla þökk fyrir að hafa átt sinn stóra þátt í að hleypa af stað flóttamannastraumnum yfir Eyjahaf og Miðjarðarhaf.
Og nú dugar ESB-ríkjum ekkert minna en 1500 manna ESB-landamæraher auk þeirra eigin löggæzumanna! Hafi þetta ekki verið skipulagt frá upphafi, ber það naumast vitni um mikla fyrirhyggju.
En hér hyggja eflaust ýmsir ESB-valdamenn gott til glóðarinnar að nýta sér í vaxandi mæli valdheimildir Lissabon-sáttmálans um stofnun og rekstur ESB-hers, á landi, lofti og legi.
Jón Valur Jensson.
ESB stofnar landamæragæslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Hermál, varnarmál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 19:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.