1.1.2016 | 14:50
Brugðumst við forseta Íslands? (Með viðaukum)
Herra Ólafur gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Hann segir umsókn um aðild að ESB og áform um grundvallarbreytingar á fullveldinu "hafa verið lögð til hliðar," en ÓVISSA ríkir einmitt um þessi atriði bæði! Evrópusambandið hefur þverskallazt við að taka mark á bréfi Gunnars Braga utanríkisráðherra um að umsóknin sé dregin til baka, og hefur oft verið verðuglega gert gys að þeirri klaufalegu, illa frágengnu aðgerð ráðherrans, nú síðast í áramótaskaupi í gær.
Viljaleysi eða heigulsskapur stjórnarflokkanna við að standa við sínar stefnuskrár um að segja þessari umsókn formlega upp, sem bezt er gert í Alþingi, eltir enn þessa ríkisstjórn á röndum, og hennar er samábyrgðin á því, að foringjar stjórnarandstöðunnar hafa lýst því yfir, að þeir telji umsóknina enn í gangi og að þeir geti bara haldið áfram með hana, þar sem frá var horfið, ef þeir komist aftur að völdum!
Raunar er það svo við frekari umhugsun þessara mála, að jafnvel virðist sem þetta kunni að hafa verið skipulagt sem leikflétta af ESB-hlynntra ráðherra hálfu: að reyna að kljúfa raðir fullveldissinna, sem sumir a.m.k. myndu falla fyrir leið Gunnars Braga ("bænarskrá" hans, eins og sumir hafa kallað uppsagnarbréfið), enda fór það svo, að sumir ESB-andstæðingar fögnuðu þeirri aðgerð hans sem réttri og fullgildri og að hún losaði okkur við ESB fyrir fullt og allt, en aðrir fullveldissinnar sáu hins vegar í hendi sér, að þetta dugði ekki til og héldu áfram (þ.m.t. á þessum vef) að krefjast þess, að staðið yrði við að láta Alþingi segja upp Össurarumsókninni, sem með refslegum brögðum Össurar og ósvífnum svikum Steingríms J. & Co. var laumað þarna í gegn árið 2009. En málið er sem sé enn í þessum afleita farvegi núverandi utanríkisráðherra eða þeirra, sem véluðu hér um og gætu jafnvel staðið nær Brussel en Stjórnarráðinu.
Svo er ítrekað verið að reyna að skjóta inn í stjórnarskrána ákvæði um heimild til framsals ríkisvalds, en sá er draumur ESB-yfirráða-hlynntra manna eins og Þorvaldar Gylfasonar, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, Benedikts Jóhannessonar, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, Össurar Skarphéðinssonar, Árna Páls Árnasonar, Jóns Gnarr, Þóru Arnórsdóttur og trúlega Steingríms J. Sigfússonar, Svandísar Svavarsdóttur, Katrínar Jakobsdóttur, "Bjartrar framtíðar" og Pírata. Ekkert af þessu fólki er vert þess að treysta fyrir fullveldi Íslands.
Ákvæði um þessa framsals-heimild á fullveldisréttindum er að veltast fyrir starfandi stjórnarskrárnefnd, en ekki náðst full samstaða í nefndinni um fyrirliggjandi tillögur um stjórnarskrárbreytingar, en einmitt í þessu máli er tillagan allt of lík tillögu hins ólögmæta "stjórnlagaráðs" í 111. grein þess, tillögu sem gert hefði ESB-sinnum fært að hefja sókn í málinu, hvenær sem þeir sæju til þess bezt veðurútlit, en jafnframt bundið svo um hnútana (eins og í 67. grein tillagna "stjórnlagaráðs") að þjóðinni yrði meinað að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn úr Evrópusambandinu með jafn-auðveldum og fljótvirkum hætti.
Forsetinn hefði þurft mest á því að halda, að menn styddu hann almennt í því á virkan hátt að bjóða sig aftur fram, meðan þessi mál bæði eru í raun hangandi í lausu lofti.
Það er lítil huggun í því, sem forsetinn orðar svo, að "allir flokkar á Alþingi heita því nú, að aldrei verði aftur lagt í slíka vegferð, nema þjóðin heimili það fyrst í sérstakri atkvæðagreiðslu." Stefnuyfirlýsingar landsfunda Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vorið 2013 gengu EKKI út á slíka þjóðaratkvæðagreiðslu áður en umsóknin yrði formlega dregin til baka, heldur út á hitt, að ef síðar meir kæmi upp tillaga um að sækja aftur um, skyldi hún borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu, áður en Alþingi afgreiddi hana. En um þetta mál hafa margir, ekki sízt fjömiðlamenn á 365 miðlum og Rúv, reynt að villa um fyrir þjóðinni og herja um leið á þau heilbrigðu öfl í stjórnarflokkunum, sem vildu afgreiða málið sem fyrst á Alþingi eftir kosningarnar 2013.
Jón Valur Jensson.
Býður sig ekki fram til endurkjörs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 3.1.2016 kl. 14:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.