19.4.2014 | 12:10
Sigurður Oddsson verkfræðingur afhjúpar staðreyndir
Stjórnarskráin var það góð að ekki var hægt að framselja vald til ESB án þess að breyta henni. Eftir miklar æfingar gafst almenningi kostur að svara nokkrum spurningum um stjórnarskrá. Valdar voru spurningar, sem flestir gátu svarað játandi. Ekki var spurt um fullveldið. Samfylkingin kallaði svo skoðanakönnunina kosningu, sem hefði samþykkt breytta stjórnarskrá.
Allt kjörtímabilið fékk ESB forgang. Björgun heimila sat á hakanum.
Sigurður Oddsson
Þetta er úr sláandi góðri grein, Örlagavaldurinn ESB, eftir Sigurð Oddsson verkfræðing í Mbl. 16. apríl. Hann segir þar ennfremur:
Í kosningunum 2009 voru tveir sigurvegarar. Össur lofaði fyrir kosningar að koma þjóðinni í skjól ESB og Steingrímur að halda þjóðinni utan ESB. Steingrímur sveik strax loforðið og myndaði með Samfylkingunni stjórn sem hafði það að markmiði að ganga í ESB. Sveik allt fyrir ráðherrastól. Þau svik verða seint toppuð. Össur beitti öllum brögðum til að standa við sitt. Laug að þjóðin ætti von á pakka frá Brussel, sem borgaði sig að kíkja í. Það gekk þar til Jón og Gunna föttuðu, að ESB myndi ekki aðlaga regluverkið að hagsmunum Íslands. Þá sagði Össur að Ísland þyrfti engar undanþágur.
Jóhanna sást varla í stjórnarsamstarfinu. Steingrímur vann myrkranna á milli að eigin sögn jós út skattpeningum til að rétta af þjóðarskútuna. Össur tók við þar sem Halldór hætti og var mest í ESB sendiferðum. Icesave og stjórnarskráin stóðu í vegi fyrir ESB inngöngu. Í þrígang samdi Steingrímur um Icesave við þá, sem skipuðu okkur á bekk hryðjuverkamanna. Fyrsti samningurinn var svo góður, að hann krafðist þess að þingmenn samþykktu hann óséðan. Jóhanna birtist og tuktaði til þingmenn, sem hún kallaði villiketti. Ef þau frömdu ekki landráð þá veit ég ekki hvað landráð eru.
Margt fleira er í grein Sigurðar, t.d. um óhagræðið af af ýmsu sem komið hefur hingað með ESB-löggjöf (leturbr. hér):
"Í Brussel voru kaflar opnaðir hraðar eftir því sem á leið kjörtímabilið. Mér skilst, að það að opna kafla sé að samþykkja og undirgangast lög og reglugerðir ESB. Oft mörg hundruð eða þúsundir blaðsíðna í einu. Ýmislegt höfum við fengið, sem bendir til að kaflarnir séu ekki vel lesnir. Pósturinn bað mig t.d. að hækka bréfalúgu á útidyrahurð. Hún var of lágt skv. ESB reglugerð. Gefinn var frestur, að öðrum kosti yrði hætt að bera póst til mín. Ég hefi ekki heyrt frá póstinum eftir að ég lét álit mitt í ljós í Morgunblaðspistli. Við höfum líka samþykkt að nota dýrari mengandi Euro-perur. Ný byggingasamþykkt eykur byggingakostnað um 10-15%."
PS: Mjög athyglisverð grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í dag (hann er lesendum hér að góðu kunnur): Páskaegg aðildarsinna: Völd til ESB ekki afturkræf. Jafnvel Bretlandi er sagt að sætta sig við það!
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt 21.4.2014 kl. 20:30 | Facebook
Athugasemdir
Bara eitt: Núgildandi stjórnarskrá kom ekki í veg fyrir að Íslendingar gengju í EES án þjóðaratkvæðis. Nei, það var einmitt gert.
Ef stjórnarskrá stjórnlagaráðs hefði þá hins vegar verið í gildi hefði orðið þjóðaratkvæðagreiðsla.
Ómar Ragnarsson, 20.4.2014 kl. 09:40
Það er ekki til nein "stjórnarskrá stjórnlagaráðs", heldur tillögur þess ólöglega skipaða ráðs. Þær tillögur eru, í fullveldismálum, afleitar gagnvart Evrópusambandsmálum -- gera ráð fyrir möguleika á einfaldri atkvæðagreiðslu, undir áróðurslegum formerkjum* ESB-sinnanna í "ráðinu", þar sem landið gæti tapað sjálfstæði sínu og fullveldi nánast í einni svipan og komizt undir öll lög ESB sem þá væru til og ættu eftir að verða til og að þau myndu ryðja burt allri íslenzkri löggjöf sem væru í einhverju ósamræmi við þau lög.
Aðferðin byði m.a. upp á að Evrópusambandið hvolfdi hér yfir okkur sínum áróðri af öllum þunga sinna 433 milljóna króna sem hafa verið lagðar til "Evrópustofu" (325 millj.kr. 2011-2014 og áætlaðar 108 millj.kr. í viðbót til 2015, sjá Mbl. 31/3 sl., bls. 2).
Og ekki nóg með, að þetta gæti ráðizt með einföldum meirihluta (að vilja ESB-sinnanna mörgu í "stjórnlagaráðinu") í stað þess að krefjast verulega aukins meirihuta til svo afgerandi ákvörðunar, þá nægði þetta ekki innlimunarsinnunum í "ráðinu" og nytsömum fylgihnöttum þeirra eins og þér, Ómar, og Pétri Gunnlaugssyni á Útvarpi Sögu, heldur bjó "ráðið" svo um hnútana í sinni 67. grein, að ekki væri hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu eftir á um slík "lög til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum"!
* "... í þágu friðar og efnahagssamvinnu" (111. gr. ráðsins afvegaleidda).
Jón Valur Jensson, 20.4.2014 kl. 19:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.