12.6.2013 | 17:41
Kvótahopp - arðurinn úr landi
Kæmi til aðildar að Evrópusambandinu yrðum við að laga lög okkar og reglur að lögum sambandsins, ekki öfugt. Þetta hafa Bretar t.d. fengið að reyna í baráttu sinni við svokallað kvótahopp, en það er eitt þeirra vandamála sem glímt er við innan sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Með kvótahoppi nýta útgerðir glufur í reglum til að skrá skip sín í öðrum löndum sambandsins en eigin heimalandi til þess að komast yfir aflaheimildir annars aðildarríkis.
Hér er verið að birta þriðja og síðasta skammtinn úr yfirlýstri afstöðu LÍÚ frá 2009 til Evrópusambandsins og sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar. Beint framhald af textanum hér ofar:
Mikilvægt er að tryggja að arður af nýtingu auðlinda verði eftir í íslensku samfélagi. Til að verja þá samfélagslegu hagsmuni eru lög sem heimila ekki að erlendir aðilar eignast meirihluta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Kæmi til aðildar að Evrópusambandinu héldu þessi lagaákvæði ekki. Þar með væri engin trygging fyrir því að arður af sjávarútvegi héldist í íslensku efnahagskerfi.
Neikvæður greiðslujöfnuður við ESB
Beinn fjárhagslegur ávinningur Íslands af aðild að Evrópusambandinu yrði enginn. Samkvæmt skýrslu Evrópunefndar forsætisráðuneytisins frá 2007 myndu beinar greiðslur Íslands til ESB umfram tekjur nema 2,5 - 5 milljörðum króna. Aðildarríki ESB hafa að jafnaði greitt 1,07% af vergum þjóðartekjum árlega til sambandsins. Að hámarki getur þetta hlutfall orðið 1,24%. Sé horft til ársins 2005 hefði Ísland greitt 10,5 milljarða króna til sambandsins.
Tollasamningar féllu úr gildi
LÍÚ aðhyllist viðskiptafrelsi og leggur áherslu á nauðsyn góðra samskipta við ríki Evrópusambandsins jafnt sem önnur, nú sem fyrr. Ef til aðildar að Evrópusambandinu kæmi féllu niður núgildandi tollar á útfluttar sjávarafurðir til aðildarríkja ESB en samtímis féllu úr gildi allir tvíhliða tollasamningar Íslands við ríki utan sambandsins.
Hér lýkur þessu LÍÚ-plaggi, fyrsti skammurinn var birtur HÉR og sá annar hér: Reglan um hlutfallslegan stöðugleika - Engar varanlegar undanþágur frá CFP.
Meginflokkur: Fiskveiðar, sjávarútvegur | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.