9% Svía vilja evru!

Ef við tökum mark á frændþjóðum með reynslu af Evrópusambandinu, ættu viðhorf Svía sízt að freista okkar til að stefna hér að upptöku evru. Einungis 9% Svía vilja taka upp evruna. Ekki hafa Danir heldur gert það, og eru sumar þjóðir jafnvel farnar að tala um að hverfa af evrusvæðinu, eftir að annmarkar þessa gjaldmiðils fóru að koma æ skýrar fram, eftir að hann komst yfir fermingaraldur.

Páll Vilhjálmsson blaðamaður ritar:

  • Evran eyðileggur samstöðuna í Evrópusambandinu þar sem hún gerir kröfur um að öll efnahagskerfin 17 sem nota gjaldmiðilinn taki upp þýska fjármálastjórn. Og það einfaldlega gerist ekki.
  • Eina leiðin til að bjarga evru er að smíða utan um hana Stór-Evrópu þar sem sameiginlegt ríkisvald þvingar þjóðfélög undir sameiginlega efnahagsstefnu.

Þetta telur Páll ekki munu gerast, og óneitanlega geta viðhorf Svía bent til þess, að hann hafi rétt fyrir sér, en einungis 11% Svía vilja, að Evrópusambandið verði að einu sambandsríki, skv. þeirri sömu skoðanakönnun, sem hér sagði frá og unnin var í tengslum við rannsókn prófessors í stjórnmálafræði við Gautaborgarháskóla og birt í sænska ríkisútvarpinu Sveriges Radio (sjá tengil hér neðar).

En okkur ber einnig að minnast hins, að harla litlu ráða Svíar í Evrópusambandinu, hafa t.d. 10 atkvæði nú af 345 í ráðherraráðinu í Brussel skv. Nice-samningnum, þ.e. 2,9%, en missa um 36% af atkvæðavægi sínu við gildistöku Lissabon-sáttmálans í þessu efni hinn 1. nóvember 2014 og verða þá með einungis 1,85% atkvæðavægi.

Vilji ráðamanna í Brussel, París og Bonn er alveg ljós: meiri samlögun og stefna á sambandsríki, enda var sú jafnvel stefna ESB-þingsins strax fyrir aldamótin. Joschka Fischer, fyrrv. utanríkisráðherra Þýzkalands, tjáir vel þennan vilja ESB-ráðamanna í grein, sem birtist eftir hann í Mbl. í dag, þar sem hann segir m.a.:

  • "Það hefur lengi verið ljóst hvað þarf að gera. Verðmiðinn á því að myntbandalagið komist af, og þar með Evrópuverkefnið, er nánara samstarf: bankabandalag, fjármálabandalag og stjórnmálalegt bandalag. Þeir, sem eru þessu mótfallnir vegna þess að þeir óttast sameiginlega ábyrgð, tilfærslu fjármuna frá ríkum til fátækra og að missa fullveldið, munu þurfa að sætta sig við endurkomu þjóðríkisins í Evrópu ..." o.s.frv. 

Íslendingum er það hins vegar fullljóst, að þeir vilja halda sínu þjóðríki. Að munztra okkur á björgunarskip evrunnar gæti hins vegar orðið okkur skeinuhætt. Tilraunin er í reynd líkleg til að mistakast, enda gæti evran sjálf staðið stórveldisdraumum ráðamanna ESB* fyrir þrifum, og því fáum við líka þessi viðbrögð frá Þýzkalandi (með orðum Páls Vilhjálmssonar):

Fjármálaráðherra Þýskalands, þegar evran varð að mynt Evrópusambandsins, Oskar Lafontaine, afneitar afkvæminu og vill gjaldmiðilinn feigan áður en sambandið splundrast. 

* Sbr. stórveldisyfirlýsingar tveggja forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jacques Delors (1985-1995) og Barrosos (2004-2013-).

Jón Valur Jensson. 


mbl.is 9% Svía vilja taka upp evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband