Á sama tíma og 52,2% manna eru á móti inngöngu í Evrópusambandið og aðeins 27,6% fylgjandi henni, skv. skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ,* stendur "tilvonandi ný stjórnmálastétt" í langri röð í Sjónvarpi (öll nema tveir) til að lýsa því yfir, að þau vilji EKKI loka 230 milljóna áróðursapparati "Evrópustofu"!!! En þvílík er reyndar "upplýsingin" í starfsemi þeirrar stofu, að henni er ekki einu sinni gefið eðlilegt nafn: Evrópusambandsstofa.
Svik stjórnmálastéttar við þjóðina hafa átt sér stað áður, bæði hér á landi í Icesave-málinu (m.a. fyrir tilstuðlan Bjarna Benediktssonar og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur) og í Noregi og víðar.
Í Noregi lagðist mestöll stjórnmálastéttin af öllu afli á ESB-árarnar 19934, ásamt atvinnurekendum, fjölmiðlum og verkalýðsforystunni. Grasrótarhreyfingar börðust gegn þessu, og þrátt fyrir ofurflæði ESB-áróðurs, sem fjármagnaður var frá Brussel, tókst með naumindum að afstýra því, að þjóðaratkvæðagreiðslan um inntöku landsins í ESB færi á versta veg. Þar var svo mjótt á mununum, að einungis 52,2% sögðu NEI við því að landið "gengi í" Evrópusambandið, en 47,8% sögðu "já". Svona litlu munaði, að landið glataði fullu forræði sínu.
Nú andar norska þjóðin léttar, að ekkert varð af "inngöngunni" að Noregur stendur sterkur og frjáls, laus undan yfirráðum ESB-risaveldanna í fiskveiðimálum landsins. Og fullvíst má telja, að ef Noregur væri þarna "inni", myndi Evrópusambandið þar að auki með tímanum fara að beita sínum valdheimildum** til að stýra olíunýtingunni þar, rétt eins og að koma á "jöfnum aðgangi" að fiskveiðiauðlindinni.
Þvílíkt siðferðisástand á þessum frambjóðendum að hafa ekki bein í nefi til að segja hreint og klárt JÁ við lokun "Evrópustofu". Einungis Bjarni Harðarson í Regnboganum hafði það hugrekki til að bera. Jafnvel þótt Frosta Sigurjónssyni mæltist um margt afar vel um það mál í þættinum, þá sprakk hann á limminu undir lokin í "einhverju lengsta svari við já/nei-spurningu" gat ekki fengið af sér að segja JÁ, heldur endaði á því að stynja upp: "Ég held að það þurfi að skoða"!!!
Bjarni hafði þarna hina þjóðhollustu afstöðu og hefði þó getað nýtt ræðutíma sinn um ESB-mál betur framan af; það hefði verið betra fyrir málstaðinn, því að þegar Bjarna tekst vel upp, er hann frábær ræðumaður og virðist fara létt með að standast samanburð við snilld Demosþenesar hins málhalta.
Ragnheiður Elín Árnadóttir lét sig hins vegar ekki muna um það að ganga þarna í fótspor Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og VERJA framhald á áróðursstarfsemi "Evrópustofu" þvert gegn eindregnum vilja yfirgnæfandi meirihluta landsfundar sjálfstæðismanna!! Þetta eru SVIK ráðamanna flokksins við vilja grasrótarinnar og vald landsfundar, sem á að vera það æðsta í málefnum flokksins hliðstæð svik og hið "ískalda mat" Bjarna Ben. í Icesave-málinu, sem losað hefur um flokkshollustu svo margra.
Þetta er sorglegt ástand á íslenzkri pólitík og "tilvonandi" stjórnmálastéttar, ef þetta á að verða andinn á nýju Alþingi! Sem betur fer er þarna meðfram um pólitískt illa áttað 101-lið úr smáflokkum að ræða, fólk eins og fulltrúa Pírata, sem treysta þó á stuðning anarkista og sósíalista sem andvígir eru auðhringum í ESB ekkert síður en í Bandaríkjunum (og samt talar Smári McCarthy eins og heilaþveginn ESB-sendill), "Lýðræðisvaktarinnar", Dögunar og jafnvel Flokks heimilanna.
Tókuð þið eftir því, í þessum umræðuþætti frambjóðenda um utanríkismál í Sjónvarpi í kvöld, hve viss í sinni sök Össur var, að Ísland myndi ganga í Evrópusambandið?! Hann vissi sem var, að þetta stórveldi og yfirstétt þess mun láta kné fylgja kviði, m.a. með gegndarlausum áróðri hér eins og í öðrum "umsóknarlöndum", við að framfylgja eindreginni stefnu sinni og ósk valdfrekustu landanna þar*** að innlima þetta land okkar og miðin. En látum þessum manni ekki verða að ósk sinni og hleypum honum aldrei í Brussel-elliheimilið, sem Bjarni Harðarson talaði um, í okkar boði!
Að lokum skulum við minnast þess, að stuðningur stjórnarsinna við 230 milljóna áróðursapparatið Evrópu[sambands]stofu virðist skýrt brot á 88. gr. landráðalaganna.
Athafnasemi Evrópusambandsins í áróðursmálum á trúlega eftir að stóraukast : mest orkan sett í lokabaráttuna, þegar dregið gæti að hugsanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu. En jafnvel þegar á liðnu ári voru réttarbrot ESB-manna í þessu efni orðin svo augljós og ófyrirleitin, að íslenzkur fyrrverandi sendiherra, Tómas Ingi Olrich, sá sig knúinn til þess að rita um það blaðagreinar til að afhjúpa, hvernig bæði "Evrópustofa" og framferði ESB-sendiherrans Timos Summa braut í bága við alþjóðlegar skyldur sendiráða samkvæmt bæði íslenzkum lögum og Vínarsáttmálanum. Sjá hér greinar hans: Summa diplómatískra lasta (eitilsnjöll grein í Mbl. 2. apr. 2012), sbr. pistil á þessu vefsetri: Lögleysu-athæfi sendiherra.
* Þetta er nýbirt könnun. Af þeim, sem afstöðu tóku, eru þannig 65,4% andvíg inngöngu í Evrópusambandið, en 34,6% hlynnt henni.
** Í orkumálabálki Lissabon-sáttmálans.
*** Sbr. að þýzkir ráðamenn, franskir, spænskir og brezkir hafa lýst yfir eindregnum ásetningi um að fá Ísland inn, talað um strategískan ávinning af því og lýst ágirnd sinni í fiskiauðlindir hér.
Jón Valur Jensson.
Meirihluti á móti inngöngu í ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fullveldi og sjálfstæði Íslands, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 24.4.2013 kl. 02:14 | Facebook
Athugasemdir
Ríkislögreglustjóri verður að stoppa þessa áróðursstofu ef kæra berst á forsendum 88. gr. Landráðalaga.
Eggert Guðmundsson, 24.4.2013 kl. 13:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.