Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fjárkúgun með lokkandi evruskuldabréfum í þágu vaxandi fullveldisframsals?

Angela Merkel kanzlari virðist vilja "blackmaila" evruríkin: Evruskuldabréfin, sem hún hafði sagzt ALDREI myndu samþykkja, meðan hún lifði, er hún nú reiðubúin að opna á, EF Evrópusambandinu er látið í té fullnaðarvald yfir fjárlagagerð ESB-ríkjanna!!

Það var sjálfur Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýzkalands, einn voldugasti maður ESB, sem staðfesti þessa "stefnubreytingu" Merkel í viðtali við bandaríska blaðið Wall Street Journal í dag.

Eins og varaformaður samtakanna, sem standa að þessari vefsíðu (fullveldi.blog.is), sagði í bréfi til mín, er þetta reyndar "samningataktík, sem Þjóðverjar og Frakkar hafa beitt lengi: þeir hittast fyrst og semja tillögur og þá hafa þeir alltaf eitthvað með til að semja um og "gefa eftir". Þegar þau hafa gert það ná þau þeim markmiðum, sem þau í upphafi vildu ná." (Gústaf Adolf Skúlason, sem margir þekkja að góðu vegna snarpra Morgunblaðsgreina hans um efnahags- og sjávarútvegsmál.)

Ekkert lát virðist á þeim upptekna hætti ráðamanna í Berlín og París að ráðskast með minni ríkin í Evrópusambandinu, eins og sést af framangreindum tíðindum. Ekki mun það lægja í þeim rostann, þegar atkvæðavægi þeirra eykst stórum hinn 1. nóvember 2014, samkvæmt Lissabon-sáttmálanum, þegar Frakkland fer úr 8,41% atkvæðavægi í ráðherraráði og leiðtogaráði ESB í 12,88% og Þýzkaland úr 8,41% í 16,41%! Ef land okkar yrði þar eitt inntökulandið, fengjum við þar í mesta lagi 0,06% atkvæðavægi! Og þarna er um að ræða einhverjar voldugustu stofnanir Evrópusambandsins: ráðherraráðið er t.d. með æðsta löggjafarvald yfir sjávarútvegsmálunum!

Það er líklega yfir þessum dýrðarinnar ávinningi, 0,06% vægi, sem Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, ranghvolfir augunum í himneskri sýn í leiðara þar í dag. En BARA AUKNINGIN 1.11. 2014 hjá hinum nú þegar valdfreku Frökkum og Þjóðverjum (aukningin samtals 12,47% alls atkvæðavægis í ráðunum tveimur) er næstum 208 sinnum meiri en það litla atkvæðavægi sem Litla-Ísland fengi. Já, þá væri sannarlega orðin ástæða til að tala aftur um Litla-Ísland, sem þá væri komið upp á náð og miskunn þessara gömlu stórvelda og annarra aflóga nýlenduvelda, Spánar, Bretlands og Ítalíu, svo að þau helztu séu hér nefnd. Öll auka þau vægi sitt 1. nóv. 2014, samtals þessi fimm ríki úr núverandi 41,47% í 62,81%.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þýskaland tilbúið í evruskuldabréf?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frá Samtökum um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland

Samtök um rannsóknir á Evrópusambandinu (ESB) og tengslum þess við Ísland hafa opnað bankareikning í Arion banka, Bíldshöfða 20, 110 Reykjavík. Hann er nr. 0331-26-5208. Kennitala: 520811-9010. Stuðningsframlög eru vel þegin, þau munu hjálpa samtökunum í nauðsynlegum útgáfuverkefnum, sem bíða okkar.

Upplýsingar um samtökin og stjórn þeirra, sem vinnur sitt starf 100% í sjálfboðavinnu, er m.a. að finna HÉR!

Vilji menn kynnast betur afstöðu okkar til mála og íhuga framlag samtakanna til lifandi ESB-umræðu, er auðvelt að skoða greinar og færslur hér á vefsetrinu, alls 70 talsins frá 22. apríl sl. Þegar vefsíðan hefur verið lesin alveg niður úr, þ.e. 10 nýjustu greinar, geta menn smellt á neðstu orðin þar: Næsta síða, litið svo yfir næstu tíu pistla og síðan koll af kolli, allt til 22. apríl.

Verið velkomin á vefsetrið og til umræðna hér!

Jón Valur Jensson, form. stjórnar.


Norrænu ESB-þjóðirnar halda sig frá samrunahræringunum í Evrópusambandinu

Ekki aðeins Danir hafa lagt á hilluna að nálgast ESB meira - fjarlægjast það frekar! - heldur eru bæði SVÍAR og FINNAR að hiksta við eða fráskilja sig frá ýmsu sem uppi er á tengingnum til að auka vald ESB í fjármálum og á fleiri sviðum.

Frá Svíþjóð berast þær fréttir, að þar var "samþykkt á þingi í dag að neita að stuðla að nýju bankabandalagi ESB eða að meiri fjárhagsvöld yrðu færð til Brussel. Bæði stjórn og stjórnarandstaða voru sammála í ályktuninni." (Gústaf Adolf Skúlason, varaformaður Samtaka um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland, en hann er búsettur í Svíþjóð; tekið hér beint úr nýkomnu bréfi frá honum.)

Þá vilja Finnar fara "varlega þegar kemur að aðstoð við önnur Evrópuríki vegna fjármálakrísunnar" og hafa nú "óska[ð] eftir frekari tryggingum fyrir lánveitingum til Kýpur ef evrópsk aðstoð, sem Kýpur hefur óskað eftir, á að vera fengin úr evrópska fjármálastöðugleikasjóðnum (e. EFSF). Þetta sagði forsætisráðherrann Jyrki Katainen í ræðu til þingsins fyrr í dag" (Mbl.is).

  • Finnland, eitt af fáum ríkjum Evrópusambandsins sem er enn með AAA í lánshæfismat, hefur einnig sagt að ef það eigi að taka þátt í að aðstoða Spán vilji það fá auknar tryggingar og hlutabréf í spænskum bönkum. (Mbl.is)

Endilega lítið á greinina um Danmörku og ESB, sem er nánast nýbirt hér.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Finnar vilja frekari tryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danir leggja á hilluna að nálgast ESB meira, fjarlægjast það frekar!

Danska ríkisstjórnin, ársgömul, er nú hætt að spá í að falla frá fyrirvörum sem Danir settu vegna aðildar sinnar að stefnumörkun ESB í mynt- og varnarmálum, lögreglu- og dómsmálum. "Þessi áform hafa nú verið lögð til hliðar vegna óróans innan ESB og vanda ríkisstjórnarinnar" (Mbl.is).

  • Um er að ræða undanþágu frá þátttöku í myndbandalagi Evrópusambandsins og þar með evrunni, sameiginlegum ríkisborgararétti sambandsins, sameiginlegri varnarstefnu og samstarfi í dómsmálum. 

Þetta snýst um þessar undanþágur frá Maastricht-sáttmálanum, sem evrókratar í Danmörku vilja losna við, þ.e. undanþágur sem veittar voru, eftir að Danir höfnuðu Maastricht-sáttmálanum hráum í þjóðaratkvæðagreiðslu 1992, en samþykktu hann síðan með fyrirvörunum 1993.

Málið er, að fari þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu nú, eins og heitið hafði verið, þegar ríkisstjórnin tók við völdum vorið 2011, þá er talið líklegast, að stjórnin muni tapa þeirri atkvæðagreiðslu, þ.e.a.s.: tillaga um að fella niður undanþágu-fyrirvarana yrði trúlega felld.

  Helle, sláandi lík frúnni í Höllinni (Borgen).

"Ég held að Danir vilji helzt að meiri ró ríki í Evrópumálum áður en þeir ganga til atkvæða um þau," segir danski forsætisráðherrann Helle Thorning-Schmidt á dr.dk, vefsíðu danska ríkisútvarpsins, í viðleitni til að réttlæta sína nýju ákvörðun. Ekki minnir þetta tal hennar á gerólíkar hugmyndir Jóhönnu Sigurðardóttur um hina rósömu friðarhöfn Evrópusambandsins. Grin En eitt með öðru er raunsæi Helle vitaskuld til marks um, hve ótryggt allt er talið þar ytra um framtíð Evrópusambands-"samstarfsins" margrómaða nú um stundir.

Um þetta er nánar fjallað í grein á hinum einkar góða vef Evropuvaktin.is: Danmörk: Áform um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-fyrirvara lögð til hliðar - spáð að Danir fjarlægist ESB enn frekar.

  "Allt í eilífum vandræðum!" gætu þau verið að hugsa hér, Helle með langa nafnið og Martin með stutta nafnið Schulz, forseti ESB-þingsins í Strassborg og Brussel.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Ekki kosið í Danmörku næstu árin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bein íhlutun í innanríkismál - en ríkissaksóknari virðist neita að skilja það!

  • "Frá báðum hliðum var fast sótst eftir fylgi Rúmena [um 1914-15]. Rússar buðu stjórnmálamönnunum fje og útsendarar miðveldanna stofnuðu blöð og keyptu blöð í landinu til þess að halda fram sínum málstað ..." (Þorsteinn Gíslason: Heimsstyrjöldin 1914-1918 og eftirköst hennar, útg.: Steindór Gunnarsson og Þorst. Gíslason, Rv. 1924, bls. 270-1).

Þetta sjá allir sem íhlutun í innanríkismál, en þegar hliðstæða þess gerist hér á Íslandi, þar sem lög mæla gegn slíku athæfi, þá virðumst við sitja uppi með lamandi hræðslu ríkissaksóknara við að styggja okkar Evrópusambands-innlimunarsinnuðu stjórnvöld, sem mælt hafa bót ófyrirleitnum fjáraustri Evrópusambandsins í áróðursstarfsemi s.k. "Evrópustofu" hér á Íslandi. Jafnvel Steingrímur mælir athæfinu bót með 100% meðvirkum hætti, þannig ekki virðist flísin komast á milli hans og Jóhönnu í þessu efni.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hefur svarað fyrirspurn Umboðsmanns Alþingis vegna kæru samtakanna Samstöðu þjóðar, sem sættu sig ekki við það, að ríkissaksóknari hæfi ekki málssókn vegna ólöglegs framferðis sem stjórnvöld hér hafa leyft sendiráði og sendiherra Evrópusambandsins að komast upp með, þvert gegn Vínarsáttmálanum (sem Sigríður tekur ekkert tillit til, af því að hann tiltaki engin refsiákvæði!) og lögum hér.

Í svari Sigríðar virðist hún hengja sig í afar þröngan skilning lagagreina um þessi mál, telur t.a.m. "blöð" einungis geta vísað til reglubundinnar útgáfu dagblaða, vikublaða og tímarita (ekki t.d. bæklingaútgáfu). Hún horfir ennfremur alveg fram hjá því, að dómafordæmi eru komin fyrir því í meiðyrðamálum, að lögjöfnun sé beitt um meiðyrði á vefnum rétt eins og í blöðum eða á prenti, þótt einungis hið síðarnefnda sé tiltekið sérstaklega í meiðyrðalöggjöfinni.

Þá tekur Sigríður ekkert tillit til gígantískrar upphæðar ESB-áróðursfjár hingað, 230+ milljóna króna, eins og þetta gríðarlega umfang geri athæfið ekki hætishót alvarlegra!

Ef Upplýsingastofnun Bandaríkjanna hefði á um tveggja ára tímabili eytt hér jafnvirði 230 milljóna nýkróna til kynningar á sérlegu ágæti Bandaríkjanna og góðum kosti þess að Ísland gerðist þar 51. meðlimaríkið, þá hefði engum blandazt hugur um, að sá fjáraustur hefði falið í sér beina íhlutun í okkar innanríkismál. Hinn rauði Steingrímur J. Sigfússon hefði t.d. brugðizt afar hart við slíku, eins og eðlilegt hefði verið. En nú situr hann lúpulegur undir dagskipunum Jóhönnu Sigurðardóttur og talar þvert gegn áður þekktum eigin hug og eigin flokksmanna í þessum efnum.

Undirritaður fær ekki annað séð en að ríkissaksóknari bregðist með hliðstæðum hætti vonum þjóðhollra Íslendinga í þessu efni, með þröngsýnni, legalistískri túlkun laganna og með því að ætlast til þess að Vínarsáttmálinn sé gerður óvirkur vegna þess eins, að hann kveður ekki sérstaklega á um, hverja refsingu sendiherrann frá Brussel ætti að fá.

En skítt með refsinguna: Það er athæfi sendiherrans og framhald þess, sem átti að BANNA, af því að hann hafði ekkert leyfi til þess, heldur þvert á móti beina skyldu til að virða Vínarsáttmálann og friðhelgi síns gistilands.

Ríkissaksóknari á að starfa í þágu Lýðveldisins Íslands, ekki erlends stórveldis. (Er nokkur ósammála?!) 

Tveggja blaðsíðna svarbréf Sigríðar er opinbert plagg og verður væntanlega birt hér á síðunni ásamt frekari gagnrýni. 

Jón Valur Jensson. 


Ætli Samfylkingarmenn trúi yfirlýstum vilja leiðtoga Þjóðverja til að auka miðstýringu Evrópusambandsins og hraða samrunaferlinu?

Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schäuble.

Áhrifamikill fjármálaráðherrann í ríkisstjórn Þýzkalands, Wolfgang Schäuble, "vill að ríki Evrópusambandsins framselji aukið vald til sambandsins á "mikilvægum pólitískum sviðum án þess að ríkisstjórnir landanna geti stöðvað ákvarðanir"," skv. viðtali við hann í Der Spiegel í dag, AFP-fréttaveitunni og Mbl.is (tengill neðar).

"Til þessa hafa ríki ESB nær alltaf haft síðasta orðið. Það gengur ekki lengur," segir Schäuble og vill í staðinn "breyta framkvæmdastjórn ESB í raunverulega ríkisstjórn, styrkja Evrópuþingið í sessi og kjósa í almennri kosningu forseta sambandsins."

  • Í frétt AFP segir að ummæli Schäuble komi í kjölfar ítrekaðra yfirlýsinga Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, um að aukinn Evrópusamruna þurfi til þess að takast á við efnahagserfiðleikana innan ESB, en ekki minni."

Þetta ætti að vera deginum ljósara, hvert ráðamenn Þýzkalands vilja fara: í átt til sterkara ESB og veikari þjóðríkja innan þess, veikari hvað eigin fullveldisrétt og ákvörðunarvald þeirra varðar.

  • Schäuble varaði einnig við því ef evrusvæðið liðaðist í sundur. Hann sagði að ef það gerðist myndu koma fram efasemdir um margt annað sem sett hafi verið á laggirnar undir merkjum Evrópusamrunans eins og innri markað ESB og frjálsa för fólks um Evrópu. "En að ESB liðist í sundur er út í hött. Heimurinn er að færast saman og að hvert ríki í Evrópu stæði á eigin fótum? Það getur ekki gerst, má ekki gerast og skal ekki gerast." (Leturbr. JVJ.)

Þetta eru harla ákveðin iorð, og hér skulu menn hafa í huga, að vægi Þýzkalands í leiðtogaráði ESB og í ráðherraráði þess er nú 8,41%, en eykst hinn 1. nóvember árið 2014 í 16,41%, þ.e. nær tvöfaldast. Heldur einhver í alvöru, að Þýzkaland muni ekki nota þessa yfirvofandi sterku aðstöðu sína til að reyna að gera Evrópusambandið að enn valdfrekari einingu, stórríki raunar? Það er einmitt það, sem Jacques Delors og Barroso, sem báðir hafa gegnt æðstu valdastöðu þar, sem og Gordon Brown, meðan hann enn var við völd, hafa tjáð hver um sig: þ.e. drauminn um hið volduga heimsveldi. 

Ísland yrði í slíkri stórveldaeiningu nánast áhrifalaust með öllu og trampað á hagsmunum okkar, þegar voldugri þrýstiþjóðir innan ESB myndu telja sér henta. Þannig gerast kaupin á eyrinni í Brussel nú þegar, og sú þróun, sem frá greinir hér á undan, gerir ekki annað en að draga úr vonum flestra viti borinna manna um, að hægt yrði að viðhalda íslenzku sjálfstæði og fullveldi innan þessa stórveldabákns.

Jón Valur Jensson. 


mbl.is Vill að ESB fái ríkisstjórn og forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur Skarphéðinsson fer út fyrir öll mörk umboðs síns og valds í velþókknunarviðleitni í Brussel

Skyldi hinn umboðslausi Össur hafa borið "samningsmarkmið okkar" í sjávarútvegsmálum undir viðkomandi ráðherra, Steingrím? Nú flaggar Össur því að vera tilbúinn með samningsmarkmið, sem þó fara leynt, og segist reiðubúinn "að hefja viðræðurnar, takast á við vandamálin og þannig munum við ná samkomulagi sem Ísland mun fara eftir." (Sic, sjá fréttartengil Mbl.is neðar; leturbr. hér.)

Hefur Össur Skarphéðinsson eitthvað yfir því að segja, hvort Ísland eða íslenzka þjóðin muni "fara eftir" samkomulagi hans sjálfs við Evrópusambandið?! Er maðurinn kominn í algleymi á staðreyndir vegna eigin sjálfsálits?

  • Haft er eftir Össuri að hann telji að hægt verði að ná samkomulagi um sjávarútveginn í viðræðunum vegna góðs skilnings Evrópusambandsins á hagsmunum Íslendinga. (Mbl.is.)

Er þetta það, sem við höfum upplifað í samningaviðræðum við Evrópusambandið um makrílveiðar? Fjarri fer því. ESB hefur sýnt dæmafáa ófyrirleitni með kröfum sínum um, að við söxum makrílveiðar okkar niður í 3-4% af heildarveiði hans í NA-Atlantshafi, þó að makríllinn haldi sig hér 40% líftíma síns og éti hátt á aðra milljón tonna af átu í fiskveiðilögsögu Íslands.

Ekki nægir ESB þetta eitt, heldur hefur helzti málsvari þess á Íslandi, téður Össur Skarphéðinsson, úthýst helzta og bezta samningamanni landsins í hafréttarmálum, Tómasi H. Heiðar, úr samninganefnd Íslands í makrílviðræðunum! Hann fekk því svipaða útreið eins og sá eini ráðherra, sem hefur staðið sig við réttarstöðu Íslands gagnvart aðlögunarkröfum Evrópusambandsins, Jón Bjarnason, fyrrv. sjávarútvegsráðherra.

Blekkingarmeistarar eins og Össur verða ekki endalaust verðlaunaðir með umburðarlyndi almennings, hversu "jákvæðar" myndir sem þeir láta taka af sér með pótintátum erlendra stórvelda.

Sumir hafa heyrzt eða sézt halda því fram, að ólíku sé að jafna, samningsaðstöðu Íslands í makrílmálunum utan ESB og svo hins vegar eftir inngöngu í það -- sem sé: að innan Evrópusambandsins myndi hlutur okkar stórbatna. En þetta er rakalaus bjartsýnishyggja með öllu. Brussel er yfirfull af þrýstihópum ESB-ríkjanna, og eins og Skotar, Bretar og Írar hafa þrýst á um makrílveiðihagsmuni sína hingað til, þá myndu þeir halda því áfram, þótt Ísland færi inn í Evrópusambandið. Þar væri málið líka alfarið á valdsviði Brussel-manna, að engu leyti á okkar valdsviði lengur, ekki fremur en aðrir s.k. deilistofnar.

Við eigum að læra af reynslunni og átta okkur á því, að stórveldinu er það einfaldlega um megn að láta hlut sinn fyrir örríki og standa gegn voldugum þrýstihópum voldugra ríkja innan þess sjálfs. Í stað þess að gera okkur gyllivonir um, að allt gangi betur, þegar búið verði að handsala allt vald í þessum málum til Brussel-valdsins, þá ætti framferði ESB hingað til í makrílmálinu þvert á móti að koma okkur í skilning um, að þar er strax verið að sýna okkur, hvar valdið liggur: ekkert jafnræði milli stórveldis og örríkis. 

Það helzta, auk hafréttarreglna Sameinuðu þjóðanna, sem við höfum okkur hér til varnar í fiskveiðimálum, er nákvæmlega það sem stendur hér efst á síðunni: Fullveldi –– fullveldisréttur okkar á öllum sviðum ríkisvalds: löggjafar-, dóms- og framkvæmdavalds. Í krafti þess fullveldisréttar færðum við landhelgina út úr þremur í fjórar mílur, úr fjórum í tólf, úr 12 í 50 og loks í 200 mílur. Án sjálfstæðis okkar og fullveldis hefði verið tómt má að tala um að einu sinni reyna þetta.

"Evrópusambandið hefur alltaf lagt áherslu á að finna sérhannaðar lausnir fyrir hagsmuni umsóknarríkja án þess að troða á þeim meginreglum sem skipta þau ríki máli. Ég á von á frjóum lausnum," sagði Össur í fréttinni. Hann á þó að vita, að margar þúsundir brezkra og skozkra sjómanna misstu vinnu sína vegna Evrópusambands-úrskurðar um rétt Spánverja til veiða í Norðursjó.

  • "Við erum ólík Noregi sem hefur tvisvar sagt nei við Evrópusambandið," sagði Össur ennfremur.

Jæja, að hvaða leyti erum við ólíkir samkvæmt ráðherranum? Ætlum við að falla frá þeirri kröfu, sem norsk stjórnvöld lögðu þó fram, að s.k. "regla um hlutfallslegan stöðugleika" yrði tekin inn í aðildasamning þeirra sem ævarandi og bindandi? Þá kröfu neitaði Evrópusambandið með öllu að taka til greina. Jafnvel þótt regluna þá mætti toga og teygja, m.a. með lengingu "veiðireynslu"-viðmiðs, þá 

Orð Össurar gefa ekki frekar en fyrri daginn vonir um, að honum sé treystandi til að gæta hagsmuna Íslands. Hann ætti í reynd ekkert forræði að hafa yfir þessum málum, enda gersamlega umboðslaus, hvað þjóðarviljann snertir, og FELLDI það sjálfur með flokkssystkinum sínum, að þjóðin fengi (eins og hún vildi) að kjósa um umsókn hans um Evrópusambands-inngöngu, sbr. einnig þennan nýbirta pistil hér: Athyglisverðar skoðanakannanir á Vísi.is og Bylgjunni (Reykjavík síðdegis).

Jón Valur Jensson.


mbl.is Samningsmarkmiðin tilbúin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverðar skoðanakannanir á Vísi.is og Bylgjunni (Reykjavík síðdegis)

22. og 24. maí fóru þessar kannanir fram og niðurstaðan ótvíræð: tvöfalt fleiri sögðust vilja hætta við viðræður við ESB heldur en þeir, sem vildu áframhald þeirra, ef þjóðaratkvæðagreiðsla yrði um málið. Þá vildu 69% þjóðaratkvæði um það, hvort halda eigi aðildarviðræðum áfram, en einungis 29% vildu ekki slíka atkvæðagreiðslu. Þarna sátu 4% hjá um fyrrnefnda atriðið, 3% um það seinna. Nánar hér neðar.

Össur Skarphéðinsson og Jóhönnustjórnin hafa ALDREI fengið umboð þjóðarinnar til að sækja um inngöngu í erlent stórveldi, og allan tímann frá umsókn þeirra hafa allar skoðanakannanir sýnt andstöðu þjóðarinnar við að ganga í gímaldið. Þetta láta þau í ríkisstjórninni sig engu varða -- virða þjóðarviljann að vettugi, en hitt hikar utanríkisráðherrann ekki við: að fara um blaðskellandi í oflæti í sínar Brusselferðir, talandi um þessi mál eins og ætla mætti, að hann hefði til þess umboð þjóðarinnar!

Jón Valur Jensson.

 


Innan við 10% af lögum Evrópusambandsins ná hér í gegn með EES-samningnum

  • "Margir mjög stórir málaflokkar standa utan EES-samningsins, svo sem landbúnaður, sjávarútvegur, tollamál, viðskiptasamningar við önnur ríki og peningamál, og er EES innan við 10% af ESB-aðild, eins og segir á vef Heimssýnar:
  • "Á árunum 2000 til 2009 tóku gildi í Evrópusambandinu samtals 34.733 tilskipanir, reglur og aðrir löggjörningar. Aðeins rúmlega þrjú þúsund (3.119) af þessum löggjörningum fengu gildi í EES-samningnum, eða 8,9 prósent. Þessar upplýsingarnar eru sóttar úr gagnabönkum og gefa raunsanna mynd af hlutfalli ESB-löggjörninga sem teknir eru upp í EES-samningnum. 
  • Ef EES-samningnum yrði sagt upp myndu sjálfkrafa taka gildi fríverslunarsamningar sem voru í gildi áður en EES-samningurinn var gerður, sbr. 120. grein samningsins. Við getum því róleg sagt upp EES-samningnum og kvatt Evrópusambandið áður en það sekkur undan eigin þunga. 
  • Enginn áhugi er í Noregi að ganga í Evrópusambandið. Allar líkur eru á að EES-samningurinn muni halda gildi sínu um sinn þótt vaxandi krafa sé í norskri umræðu að endurskoða samninginn og færa hann í búning tvíhliða samkomulags."
  • Heimild: Heimssýn."

Tekið hér af ESB-málefnasíðu Hægri grænna, en sá flokkur, sem nýtur um 7% fylgis í nýlegri skoðanakönnun, "er alfarið á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið."

jvj.


Snilldarviðtal við Jón Bjarnason í ESB-þætti Útvarps Sögu - líkir IPA-styrkjum til aðlögunar við hermang á Miðnesheiði á kaldastríðsárunum

Þátturinn stendur yfir nú á 6. tímanum og verður endurtekinn öðrum hvorum megin við miðnættið. Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra, sem sviptur var embætti til þókknunar Brussel-valdinu að kröfu Samfylkingar, með samþykki Steingríms, fer á kostum í þessu mjög svo upplýsandi viðtali við þáttarstjórnendur, sem yfirleitt eru Frosti Sigurjónsson og Gunnlaugur Snær ...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband