Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2018
Nú vill ríkisstjórnin endurskoða stjórnarskrána í heild á þessu og næsta kjörtímabili. Í 1. lagi er engin þörf á heildarendurskoðun. Í 2. lagi er vísað í fyrri vinnu, sem sum hver var ófarsæl. Í 3. lagi verður ekki séð, að gætt verði þess umfram allt að tryggja mikilvægustu stoðir lýðveldisins með því að setja þetta fram sem markmiðið:
"Markmiðið er að þegar yfirferðinni verði lokið endurspegli íslenska stjórnarskráin sem best sameiginleg grunngildi þjóðarinnar og renni traustum stoðum undir lýðræðislegt réttarríki þar sem vernd mannréttinda er tryggð, að því er segir í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands."
Þessi mannréttindi eru þegar tryggð í gildandi stjórnarskrá! Hitt mætti raunar lagfæra: skekkjuna í lýðræðislegum réttindum hreyfinga og flokka til að fá menn kjörna á Alþingi og að afnema forréttindi stóru flokkanna til að fá ómælt fé frá skattgreiðendum til flokksskrifstofa sinna.
Stærsta mál stjórnarskrárinnar (eins og jafnvel Þjóðfundurinn viðurkenndi) er að tryggja fullveldi og sjálfstæði lýðveldisins, en í hinu ólöglega skipaða "stjórnlagaráði" var unnið að því af undirferli að koma því svo fyrir að afnema ýmis tryggingaákvæði núgildandi stjórnarskrár, en setja í staðinn inn nýtt ákvæði, 111. gr., sem bauð upp á snögga og billega aðferð til að afsala fullveldisréttindum ríkisins í hendur erlends stórveldis (Evrópusambandsins); og þar að auki var í nýrri 67. gr. komið í veg fyrir, að þjóðin fengi að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um að segja upp því ósjálfstæða sambandi við stórveldið!
Snakk um, að unnið verði með opnum, gagnsæjum hætti verður ekki til bjargar nú fremur en fyrri daginn.
Í 22-fréttum Sjónvarpsins í kvöld var rætt um málið við Katrínu Jakobsdóttur. Skv. henni sé það fyrst og fremst auðlindaákvæði og annað um þjóðaratkvæðagreiðslur, sem flokkur hennar, Vinstri græn, leggi áherzlu á. Ekki er þó vitað til þess, að flokkur hennar hafi sett sig á móti hinni ófyrirleitnu tillögu "stjórnlagaráðs" um að eftir innlimun landsins í Evrópusambandið fái þjóðin alls ekki að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu til að fá færi á því að losa sig úr þessu stórveldi!
Eins og fyrr er full ástæða til að menn fylgist gjörla með því, hvað stjórnmálaflokkar landsins, sem lítt hefur verið treystandi, eru að bralla með þessi fullveldismál Íslands. Áróðrinum er ennfremur haldið sleitulaust áfram fyrir "nýrri stjórnarskrá", ESB-vænni og landsölu-miðaðri, í greinum í Fréttablaðinu, manna eins og Þorvaldar Gylfasonar, Ole Bildvedt og sérlegra vina Þorvaldar í Vesturheimi, sem eiga að ljá þessari hreyfingu þeirra trúverðugleika!
Jón Valur Jensson.
Stjórnarskráin verði endurskoðuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 23.1.2018 kl. 07:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)