Hafa þarf auga með því að stjórnarskrárvinna fari ekki á villugötur vinstri manna

Nú vill ríkisstjórnin endurskoða stjórnar­skrána í heild á þessu og næsta kjör­tímabili. Í 1. lagi er engin þörf á heildar­endur­skoðun. Í 2. lagi er vísað í fyrri vinnu, sem sum hver var ófarsæl. Í 3. lagi verður ekki séð, að gætt verði þess umfram allt að tryggja mikil­vægustu stoðir lýðveldisins með því að setja þetta fram sem markmiðið:

"Mark­miðið er að þegar yf­ir­ferðinni verði lokið end­ur­spegli ís­lenska stjórn­ar­skrá­in sem best sam­eig­in­leg grunn­gildi þjóðar­inn­ar og renni traust­um stoðum und­ir lýðræðis­legt rétt­ar­ríki þar sem vernd mann­rétt­inda er tryggð, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá Stjórn­ar­ráði Íslands."

Þessi mannréttindi eru þegar tryggð í gildandi stjórnarskrá! Hitt mætti raunar lagfæra: skekkjuna í lýðræðis­legum réttindum hreyfinga og flokka til að fá menn kjörna á Alþingi og að afnema forrétt­indi stóru flokkanna til að fá ómælt fé frá skatt­greiðendum til flokks­skrifstofa sinna.

Stærsta mál stjórnarskrárinnar (eins og jafnvel Þjóðfundurinn viðurkenndi) er að tryggja fullveldi og sjálfstæði lýðveldisins, en í hinu ólöglega skipaða "stjórn­laga­ráði" var unnið að því af undirferli að koma því svo fyrir að afnema ýmis trygg­inga­ákvæði núgildandi stjórnarskrár, en setja í staðinn inn nýtt ákvæði, 111. gr., sem bauð upp á snögga og billega aðferð til að afsala fullveldis­réttindum ríkisins í hendur erlends stórveldis (Evrópu­sambandsins); og þar að auki var í nýrri 67. gr. komið í veg fyrir, að þjóðin fengi að krefjast þjóðar­atkvæða­greiðslu um að segja upp því ósjálfstæða sambandi við stórveldið!

Snakk um, að unnið verði með opnum, gagnsæjum hætti verður ekki til bjargar nú fremur en fyrri daginn.

Í 22-fréttum Sjónvarpsins í kvöld var rætt um málið við Katrínu Jakobsdóttur. Skv. henni sé það fyrst og fremst auðlinda­ákvæði og annað um þjóðaratkvæða­greiðslur, sem flokkur hennar, Vinstri græn, leggi áherzlu á. Ekki er þó vitað til þess, að flokkur hennar hafi sett sig á móti hinni ófyrir­leitnu tillögu "stjórnlaga­ráðs" um að eftir innlimun landsins í Evrópusambandið fái þjóðin alls ekki að krefjast þjóðar­atkvæðagreiðslu til að fá færi á því að losa sig úr þessu stórveldi!

Eins og fyrr er full ástæða til að menn fylgist gjörla með því, hvað stjórnmála­flokkar landsins, sem lítt hefur verið treystandi, eru að bralla með þessi fullveldis­mál Íslands. Áróðrinum er ennfremur haldið sleitulaust áfram fyrir "nýrri stjórn­ar­skrá", ESB-vænni og landsölu-miðaðri, í greinum í Fréttablaðinu, manna eins og Þorvaldar Gylfasonar, Ole Bildvedt og sérlegra vina Þorvaldar í Vesturheimi, sem eiga að ljá þessari hreyfingu þeirra trúverðugleika!

Jón Valur Jensson.


mbl.is Stjórnarskráin verði endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Ólöglega skipaða stjórnlagaráði". Rangt. Ef svo hefði verið, hefði það verið kært, alveg eins og að kosning stjórnlagaþings var kærð. 

Hvað formlega skipun áhrærði var stjórnlagaráð skipað fyrir tilstuðlan Alþingis á sama hátt og allar stjórnarskrárnefndir hafa verið skipaðar. 

Eini munurinn var sá, að Alþingi skipaði þá 25 sem efstir urðu í í stjórnalagaþingkosnginunum, og hafði jafn mikinn rétt til þess og þegar fulltrúar í stjórnarskrárnefndir hafa verið valdir og skipaðir af þingflokkunum. 

Hæstiréttur bar ekki brigður á úrslit stjórnlagaþingkosninganna því að "misfellurnar" í framkvæmdinni, sem voru hlægilega litlar og hefðu hvergi erlendis verið taldar neinar, unnu hvor á móti annarri. 

Annars vegar að einhverjir hefðu getað lesið á löngu færi hvað skrifað væri á afspyrnuflókinn atkvæðaseðli, og hins vegar það, að enginn fulltrúi frambjóðenda hefði verið viðstaddur talninguna!  

En úr því að svo var, gat enginn haft áhrif á hana. 

Ómar Ragnarsson, 23.1.2018 kl. 00:18

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hér ferðu enn einu sinni með rangt mál, Ómar. 

Sérgæði eru það, þegar þú verð hér ólöglega skipan þessarar þingnefndar ("stjórnlagaráðs"). Sérgæðin eru fólgin hér í því, að þú áttir hér hagsmuna að gæta -- þáðir það, sem kallast "áhrifagæði" (annað orð um mútur) sem boðin voru til að reyna að fá hina 25 til að taka þátt í þessari afleitu hugmynd byltingarmannsins Illuga Jökulssonar um að fara fram hjá lögboðinni kosningu til stjórnlagaÞINGS. Múturnar fólust í tvöföldun kaups fyrir vikið. Þú getur lesið um þetta hér: http://www.dv.is/blogg/adsendar-greinar/2012/10/9/jon-valur-var-athaefi-stjornarlida-vid-skipan-stjornlagarads-verjanlegt/

Skipan "ráðsins" (sem var ekki annað en þingnefnd að sögn Valgerðar Bjarnadóttur, formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis) braut í bága við þágildandi lög um stjórnlagaþing. Það var stjórnlagaþing, sem ætlað var með löggjöf að endurskoða stjórnarskrána. Meðal þau lög um stjórnlagaþing voru enn í gildi, var ekki heimilt að skipa eitthvert ráð sem tæki yfir það lögboðna hlutverk stjórnlagaþings.

Með fáheyrðri skipan ráðsins á umboðslausu fólki, sem búið var að svipta kjörbréfum vegna ólöglegrar kosningar, var minnihluti fullskipaðs Alþingis að reyna að þvinga sínum vinstri-vilja til að "leysa" stjórnarskrármálið með ólögmætum hætti, til að gera svo árás á undirstöður ríkisins í fullveldismálum þess, og það gerði einmitt ESB-liðið, sem hafði laumað sér inn í þennan hóp manna, og þú tókst fullan þátt í því, Ómar Ragnarsson, vegna varaþjónustu þinnar við Samfylkinguna!

Jón Valur Jensson, 23.1.2018 kl. 06:24

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svo er rangt hjá þér, að ólögleg skipan "stjórnlagaráðs" hafi ekki verið kærð. Hún var einmitt kærð til nokkurra stofnana, m.a. Hæstaréttar Íslands. Ekki var kæran þó tekin fyrir af réttinum (sem þá hafði verið mjög hart sótt að í þjóðfélaginu vegna úrskurðarins um hina ólöglegu kosningu til stjórnlagaþings), heldur var kærunni einfaldlega svarað af Þorsteini Jónssyni, skrifstofustjóra Hæstaréttar!

Hér eru svo kaflar úr tilvísaðri grein minni (DV 9. október 2012):

Sköpun stjórnlagaráðs ólögmæt
Nefnd lög um stjórnlagaþing fólu í 15. gr. Hæstarétti Íslands að úrskurða um hugsanlegar kærur frá kjósendum vegna kosningarinnar o.fl. atriða, og það gerði hann 25. janúar 2011 í fullskipuðum rétti með samhljóða niðurstöðu um ógildingu kosningarinnar vegna annmarka (þ. á m. tveggja verulegra) á framkvæmd hennar.

Ennfremur vísuðu stjórnlagaþingslögin (ekki sízt í nefndri 15. gr.) til laga um kosningar til Alþingis nr. 24 / 16. maí 2000, en í samræmi við ákvæði 115. gr.  síðarnefndu laganna bar viðkomandi ráðuneyti að kveðja til nýrra kosninga í stað hinnar ógiltu kosningar til stjórnlagaþings. Það var hins vegar ekki gert, heldur vélað um það að fara að hvatningu Illuga Jökulssonar o.fl., sem hagsmuna áttu að gæta, um að fara einfaldlega "fram hjá" úrskurði Hæstaréttar.

Þetta var samt ekki jafn-einfalt og það virtist -- það var ekki aðeins "farið á svig við" hæstaréttarúrskurðinn, eins og próf. Róbert Spanó, forseti lagadeildar HÍ orðaði það í viðtali við Morgunblaðið 25.2. 2011, heldur var beinlínis brotið freklega gegn lögunum um stjórnlagaþing, og vel að merkja, takið eftir þessu: Þau lög voru í FULLU GILDI, þegar sá fáheyrði atburður átti sér stað á Alþingi 24. marz 2011, að 30 þingmenn greiddu atkvæði með því að bjóða hinum 25 kjörbréfasviptu frambjóðendum setu í "stjórnlagaráði" til að annast það verkefni, sem að gildandi lögum tilheyrði hinu fyrir fram ákveðna stjórnlagaþingi!

Frambjóðenda freistað
Vitað var, að efasemdir voru í margra hugum um þetta, enda var hér um margföld réttarbrot að ræða og fleiri en hér eru talin. En eins og til að bæla niður þær efasemdir kom allt í einu um þær mundir fram sú hugmynd að lengja setutíma "stjórnlagaráðs" upp í allt að tvöfalt miðað við þá tvo mánuði, sem stjórnlagaþingið átti að sitja. Launin áttu að verða fullt þingfararkaup alþingismanna (og hlunnindi), en sem sé boðið upp á fjóra mánuði, ekki tvo! Þetta losaði milljón í aukahlut hvers og eins hinna 25 og reyndist sem sé ekki koma í veg fyrir, að þeir tækju að sér "verkefnið" í umboði vinstri flokkanna og þriggja framsóknarmanna eða samtals 47,6% þingmanna! (heimild: http://www.althingi.is/dba-bin/atkvgr.pl?nnafnak=44294).

Að þessi fjögurra mánaða setutími hinna kjörbréfasviptu hafi verið siðlaust tilboð á þessum viðkvæma ákvörðunartíma hinna sömu 25 umboðslausu, getur naumast verið eitthvað sem mér einum flýgur í hug. Innanríkisráðherrann [Ögmundur Jónasson] ætti að grandskoða sitt eigið mútufrumvarp með þetta í huga, en taka ber fram, að eins og Jón Bjarnason studdi hann ekki hina dæmalausu þingsályktun 24. marz 2011, þótt níu þingmenn VG hafi látið sig hafa það að greiða atkvæði með ólögmætinu.

Jón Valur Jensson, 23.1.2018 kl. 06:35

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll Jón Valur! Ríkisstjórninni flökraði ekki við að brjóta lög á þessum tíma,íslensk lög til að þóknast valdi sem kæmi henni í hæstu hæðir yfir litla Alþingi Íslendinga og gæti þaðan lumbrað á óvinaflokknum sem skarað hafði framúr allan lýðræðistímann í kosningum;bestu ár Ísending. -- Á Steinöld réð sá mestu sem kunni að blása afli í eldinn; þannig hafa óvinir lýðræðis Íslands kunnað að nýta fjölmiðil þess til að þagga niður og flytja áróður sem dunið hefur yfir Íslendingum í áraraðir. Það er fyrst núna sem flestir eru að vakna til lífsins og skylja það takmark þeirra að hneppa Ísland í esb./fangelsið.-Vonandi endurnýja kraftarnir gegn Icesave sig,það er kominn tím til,hleypum þeim ekki lengra.Mb.Kv.   


Helga Kristjánsdóttir, 23.1.2018 kl. 17:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband