Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2017

Formennska utanríkismálanefndar Alþingis komin í hendur ESB-baráttukonu!

Jóna Sólveig Elínar­dóttir heitir hún, þing­maður Við­reisn­ar! Um hana kom þetta fram í kryfj­andi grein:*

Jóna Sólveig Elínar­dóttir, nýkjör­inn 9. þing­maður Suður­kjör­dæmis, fyrir Við­reisn, en hún var sér­fræð­ingur hjá sendi­nefnd Evrópu­sam­bandsins á Íslandi og vefstjóri hjá Evrópu­stofu 2011-2013, skv. ævi­ágripi hennar á althingi.is, og flutti erindi á aðal­fundi "Já Ísland!" 4. sept. 2014. [En "Já Ísland" er um 4.600 manna félagsskapur undir stjórn hörðustu ESB-innlimunarsinna.]

Það er ekki góðs vísir um þessa nýju ríkis­stjórn Bjarna Bene­dikts­sonar, að hún beitir sér ekki gegn því að skipa and­stæð­ing fullveldis lýðveld­isins í svo áhrifa­mikla stöðu, mann­eskju sem með tví­þættum hætti var starfs­maður þessa stór­velda­bandalags! Jóna Sólveig er t.d. mun ein­dregn­ari fylgis­maður Evrópu­sambandsins en Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG (nú sendi­herra), var á sínum tíma, en hann var einmitt formaður utan­ríkis­mála­nefndar í stjórnar­tíð Jóhönnu­stjórnar.

Fullveldis­sinnar hafa hér sem í fleiri tilvikum fengið fullvissu fyrir því, að Sjálf­stæðis­flokknum undir stjórn Bjarna Bene­dikts­sonar er ekki treyst­andi gagnvart ESB-innlimunarsinnunum í "Viðreisn" og "Bjartri framtíð". 

* Sjá grein birta hér 28. nóv. sl.: Forsprakkar "Viðreisnar" eru upp til hópa ESB-innlimunar­sinnar - margir nafngreindir hér.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Jóna formaður utanríkismálanefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar strax komnir í fríverzl­un­ar­viðræður við 12 ríki um all­an heim

Brezka íhaldsstjórnin sýnir strax það sjálfstæði gagnvart Evrópu­sambandinu (enda á leið úr því) að virða að vett­ugi til­raun­ir ráða­manna í stór­veld­inu að fyr­ir­skipa Bret­um að standa ekki í nein­um form­leg­um við­ræð­um um við­skipti fyrr en Bret­land hef­ur yf­ir­gefið Evrópu­sam­bandið. Stefna Breta á þessar frí­verzl­unar­viðræður er skýr og skelegg í senn.

Þetta upp­lýsti Liam Fox, ráðherra alþjóðaviðskipta í rík­is­stjórn Bret­lands, í grein í breska dag­blaðinu Daily Tel­egraph fyrr í vik­unni. Mark­miðið sé að und­ir­búa fríversl­un­ar­samn­inga sem hægt verði að und­ir­rita um leið og Bret­ar segi sig form­lega úr Evr­ópu­sam­band­inu.

Fram kem­ur í frétt blaðsins að stefnt sé að því að Bret­land yf­ir­gefi Evr­ópu­sam­bandið árið 2019. Bresk stjórn­völd séu þegar í viðræðum við ríki eins og Kína, Ind­land, Ástr­al­íu, Suður-Kór­eu, Sádi-Ar­ab­íu og Óman. Th­eresa May, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, upp­lýsti í ræðu í fyrra­dag að Bret­land ætlaði að yf­ir­gefa innri markað Evr­ópu­sam­bands­ins enda væri það for­senda þess að landið gæti samið um sjálf­stæða fríversl­un­ar­samn­inga við önn­ur ríki. (Mbl.is)

Það verður ekkert tvínónað við hlutina. Ríkisstjórnin í Lundúnum ætlar ekki að láta landið gjalda neins vegna Brexit eða með því að bjóða heim refsiaðgerðum ESB í einhverri skelfingar-eftirvæntingu án sinna fyrir fram ákveðnu forvarna.

„Þegar við för­um [úr Evr­ópu­sam­band­inu] mun­um við koma á fót nýj­um tengsl­um við ríki eins og Ástr­al­íu, Nýja Sjá­land og Ind­land. Við erum að viðræðum um viðskipti við mörg ríki með það fyr­ir aug­um að kanna hvar hægt sé að fjar­lægja hind­arn­ir í vegi viðskipta og fjár­fest­inga með gagn­kvæma hags­muni í huga,“ seg­ir Fox í grein sinni og enn­frem­ur:

„Við þurf­um há­marks frelsi til þess að ná þess­um mark­miðum og fyr­ir vikið var það rétt hjá for­sæt­is­ráðherr­an­um að úti­loka fulla aðild að tolla­banda­lagi Evr­ópu­sam­bands­ins. Það er heill heim­ur sem við get­um átt í viðskipt­um við og það er ein­mitt það sem við ætl­um að gera.“

Glæsilegt, og þetta ryður jafnvel brautina fyrir fleiri ríki sem hugað gætu að því sama, hvort sem það verður undir vígorðinu Frexit eða einhverju öðru.

Þetta verður ennfremur aukin hvöt fyrir okkur Íslendinga til að halda okkur frá hinu valdfreka tollmúra-Evrópusambandi og beina fremur sjónum okkar að því að tengjast frjálsara fríverzlunarbandalagi sem gerir engar fullveldiskröfur til sinna aðildarríkja.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Viðræður hafnar við tólf ríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brezka ríkisútvarpið veit betur um ESB-stefnuna hjá ríkisstjórn BB heldur en ýmsir hér! - og af fleiri hættumerkjum

Vefsíða BBC grein­ir frá því að nýja rík­is­stjórn­in hér á landi ætli að setja spurn­ing­una um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu aft­ur á dag­skrá með því að láta þingið kjósa um hvort hald­in verði þjóðar­at­kvæðagreiðsla um aðild­ina. (Mbl.is)

Þessi frétt er mjög ólík fullyrðingum í fréttastöðvum hér í gær um að ESB-umræða hafi verið "sett á ís" og að "Björt framtíð" og "Viðreisn" hafi ekki náð neinum árangri með ESB-markmið sín í þessu stjórnarsamstarfi. En þær full­yrðingar standast ekki, og Bjarni Benediktsson hefur í viðræðum flokkanna gefið allt of mikið eftir (sjá hér neðst), því að með því að beita ekki neitunar­valdi (sem felst í ráðandi stöðu stærsta flokksins í ríkisstjórn) til að útiloka þjóðaratkvæði um "framhald ESB-viðræðna", þá er Bjarni að ganga á bak fyrri orða sinna um að ESB-umsóknin hafi verið formlega dregin til baka með bréfi Gunnars Braga utanríkisráðherra fyrir hönd þeirrar ríkisstjórnar þeirra.

Reu­ters seg­ir einnig frá því í fyr­ir­sögn að Íslend­ing­ar ætli að spyrja þingið hvort halda skuli þjóðar­at­kvæðagreiðslu um aðild að ESB.

Einkennilega að orði komizt (er Reuters með vanhæfan fréttaritara hér á landi?), en á þó líklega að ganga í sömu átt og ESB-fréttin.

En svona eru ákvæði stjórnarsáttmálans í raun í þessu efni:

Ríkisstjórnin mun byggja samstarf við Evrópusambandið á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Fylgjast þarf vel með þróun Evrópusambandsins á næstu árum og gæta í hvívetna hagsmuna Íslands í samræmi við aðstæður hverju sinni. Sérstakan gaum þarf að gefa mögulegri úrsögn Bretlands úr sambandinu.

Alþingi fylgist grannt með þróun mála í Evrópu og efli tengsl við systur­stofnanir í öðrum Evrópuríkjum.

Komi fram þingmál um þjóðaratkvæða­greiðslu um aðildar­viðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtíma­bilsins. Stjórnar­flokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan. (Auðk. hér, jvj)

Svo er bara að vona, að ríkisstjórnin springi fyrr á limminu en að ná þeim aldri að koma þessu í verk. En jafnframt þarf að hafa auga með uppátækjum þessara þriggja flokka í stjórnarskrármálum (sbr. stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar þar um) og að engin billeg heimild verði samþykkt sem auðveldar innlimun í Evrópusambandið (sbr. 111. gr. tillagna hins ólögmæta "stjórnlagaráðs") um leið og bundið er svo um hnútana, að þjóðin hafi ekkert færi á því að ógilda slíka innlimun (sbr. 67. gr. sömu tillagna hins ólögmæta "ráðs")!

Þar að auki þarf að koma í veg fyrir, að stofnað verði til embættis flokks­pólitísks varaforseta (eins staðgengils forseta Íslands, í persónu forseta Alþingis, sjá tillögur sama "ráðs", 82. gr.), og að 5/6 hlutum Alþingis verði gefið færi á því að snuða þjóðina um þjóðaratkvæða­greiðslu um stjórnarskrár­breytingar, skv. 113. gr. hinna dæmalausu tillagna hins ólögmæta "ráðs", sem allir eiga að vita (eins og Valgerður Bjarnadóttir, þáv. formaður eftirlits- og stjórnsýslunefndar Alþingis vissi upp á hár) að var ekkert annað en einber "ríkisskipuð nefnd", m.a.s. aðeins skipuð af 30 alþingismönnum (þvert gegn þágildandi lögum um stjórnlagaþing!) og ekki með neitt gilt þjóðarumboð að baki.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Fengu annan úr Panamaskjölum í staðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evr­óp­usambandsmálin fjarri því að vera tryggilega útilokuð. Viðaukar (2) um háskaleg ákvæði í stjórnarsáttmála!

Ef Evr­ópu­sambands-sinn­inn Jón Stein­dór Valdimars­son, "sem var um ára­bil for­maður Já Ísland sem er vett­vang­ur þeirra sem vinna að Evr­ópu­sam­bands­aðild, er ... nokkuð sátt­ur við lend­ing­una í þeim mála­flokki" í nýjum stjórnar­sáttmála, skv. Mbl.is-frétt, þá er það full ástæða til að hafa áhyggjur af því, hvað verða kunni ofan á í því máli.

„Við vit­um að ann­ar sam­starfs­flokk­ur­inn er mjög á önd­verðum meiði við það, þannig að miðað við það þá er ég þokka­lega sátt­ur við þessa niður­stöðu og held að það sé ekki endi­lega slæmt fyr­ir efni máls­ins að það drag­ist.“ (JSV, í viðtali við Mbl.is)

Þótt þetta sé viss viðurkenning þess, að ESB-innganga Íslands sé gersamlega ótímabær, enda afar óvinsælt málefni skv. nýlegum skoðanakönnunum og vegna bágs ástands ESB -- og er raunar í fullkominni mótsögn við stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands -- þá er vitað, hvernig þessir atlögumenn þjóðríkisins eru þenkjandi og við hverju megi búast af þeim.

Því skulum við enn vera á varðbergi og efla gengi þjóðríkisstefnunnar, sem nú styrkist einnig á alþjóðavettvangi, m.a. í Bretlandi, Danmörku, Hollandi, Frakklandi, Póllandi og Ungverjalandi.

VIÐAUKI I: Í hádegisfréttum Rúv kom meira fram um ákvæði hins nýja stjórnar­sáttmála um ESB-málin. Þar sagði, að ákvörðun um þau bíði seinni hluta kjörtímabilsins.

"Samkomulag stjórnarflokkanna gengur út á, að ríkisstjórnin taki ekki sameiginlega afstöðu gegn neinni tillögu sem fram komi á þinginu, t.d. um hvort greiða skuli atkvæði um framhald aðildar­viðræðna annars vegar eða einfaldlega inngöngu í Evrópu­sambandið hins vegar. Það verði síðan hverjum þingmanni í sjálfsvald sett, hvernig hann greiðir atkvæði, verði slík tillaga lögð fyrir þingið." (Einar Þorsteinsson sagði frá.)

Þetta sýnist undirrituðum alls ekki í góðu fari og að Sjálfstæðis­flokkurinn hafi hér fórnað þessu máli fremur en að tryggja fyrir fram fullveldi Íslands.

VIÐAUKI II: Hér eru textarnir um ESB-mál í Stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar:

Ríkisstjórnin mun byggja samstarf við Evrópusambandið á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Fylgjast þarf vel með þróun Evrópusambandsins á næstu árum og gæta í hvívetna hagsmuna Íslands í samræmi við aðstæður hverju sinni. Sérstakan gaum þarf að gefa mögulegri úrsögn Bretlands úr sambandinu.

Alþingi fylgist grannt með þróun mála í Evrópu og efli tengsl við systur­stofnanir í öðrum Evrópuríkjum.

Komi fram þingmál um þjóðaratkvæða­greiðslu um aðildar­viðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtíma­bilsins. Stjórnar­flokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan. (Auðk. hér, jvj)

 

Jón Valur Jensson.


mbl.is Pawel ekki á ráðherrastól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfum gát á ríkisstjórn með tvo ESB-innlimunarsinnaða flokka, þótt flestir sjálfstæðismenn standi með fullveldinu

Full ástæða er til að hafa auga með ESB-stefnu hins hvikula Bjarna Bene­dikts­sonar og nýs ráðuneytis hans, sem er í burðarliðnum. Þótt ESB-málið verði svæft þar til „und­ir lok kjör­tíma­bils­ins,“ er ekki allt á hreinu í raun, og við verðum enn að bíða beinna yfirlýsinga frá hinni nýju stjórn; ekki er unnt að treysta á óstaðfestar fregnir.

En staða málsins mun nú vera þessi skv. Mbl.is og tilgreindri heimild:

Ný rík­is­stjórn Sjálf­stæðis­flokks, Bjartr­ar framtíðar og Viðreisn­ar mun ekki leggja fram til­lögu á Alþingi varðandi mögu­lega um­sókn Íslands um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu á nú­ver­andi kjör­tíma­bili.

Þetta kem­ur fram í drög­um að stjórn­arsátt­mála sem for­menn flokk­anna þriggja hafa kynnt fyr­ir þing­flokk­um sín­um. Þó er með nokkuð al­mennu orðalagi opnað fyr­ir þann mögu­leika að þing­menn stjórn­ar­meiri­hlut­ans geti stutt þing­mál varðandi um­sókn­ar­ferli að Evr­ópu­sam­band­inu, komi slíkt mál fram „und­ir lok kjör­tíma­bils­ins,“ eins og það mun vera orðað í sátt­mála­drög­un­um. Ekki virðist þó liggja fyr­ir ná­kvæm skil­grein­ing á því við hvaða dag­setn­ingu skuli miðað með orðalag­inu und­ir lok kjör­tíma­bils­ins.

Samtök um rannsóknir á Evrópusambandinu og tengslum þess við Ísland óska landsmönnum öllum nær og fjær farsæls nýs árs.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Evrópumálin sett á ís
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill léttir að yfirlýsingu Bjarna Benediktssonar um að EKKI verði farið í ESB-viðræður

Hér er ný, frábær frétt af skyndi­lega mjög einarð­legri yfirlýs­ingu Bjarna um að flokk­ur hans ætli ekki að hvika frá því að fara EKKI í aðild­ar­viðræður við ESB, hags­mun­um lands­ins sé best borgið utan Evr­ópu­sam­bands­ins.

Spurður hvort til greina kæmi að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn setti málið á dag­skrá eða tæki þátt í því til að mynda með þjóðar­at­kvæðagreiðslu í ljósi stefnu sinn­ar sagði Bjarni: „Það er ekki okk­ar stefna að efna til slíkr­ar þjóðar­at­kvæðagreiðslu og við höf­um ekki verið til samn­inga um slíkt.“

Spurður áfram hvort málið yrði hugs­an­lega sett í hend­ur þings­ins sagði hann: „Það er auðvitað ein­hver veru­leiki sem all­ir sjá, að slík mál geta komið fram á þing­inu og það er ekki eitt­hvað sem ein­staka þing­flokk­ar geta komið í veg fyr­ir. Og það væri óskyn­sam­legt.“ (Mbl.is, í viðtali hans við mjög marktækan, vandaðan blaðamann, Evrópufræðinginn Hjört J. Guðmundsson)

Hins veg­ar skipti máli hvernig yrði brugðist við ef slík mál kæmu upp í þing­inu, segir hann.

Spurður hvernig Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn myndi bregðast við því ef til­laga um þjóðar­at­kvæðagreiðslu um um­sókn að Evr­ópu­sam­band­inu kæmi fram í þing­inu og yrði samþykkt sagðist Bjarni ekki geta tjáð sig um það. Hann ít­rekaði hins veg­ar aðspurður að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn myndi ekki standa að um­sókn­ar­ferli að sam­band­inu. „Það vona ég að komi eng­um á óvart.“ (Mbl.is)

Það má taka ofan fyrir þessum skorinorðu yfirlýsingum Bjarna.

Fréttir, sem landsmönnum bárust í morgun og gengu í allt aðra átt, komu allar úr ESB-Fréttablaðinu, sem hefur líklega treyst á einhverjar vonir vina sinna í "Viðreisn" (öfugmælasamtökum), vonir sem nú eru að engu gerðar, og húrra fyrir því.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þjóðaratkvæði ekki stefna flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvænt "lausn" sem brúar ólík sjónarmið eða tekin stór áhætta fyrir fullveldi Íslands?

Skv. Frétta­blaðinu verður þjóðar­at­kvæðagreiðsla á kjör­tíma­bil­inu um hvort hefja eigi að nýju við­ræður við ESB. Ætla má, að með því orða­lagi telji BB sig standa við fyrri stjórnar­stefnu, þá, að rík­is­stjórn Sigmundar Davíðs og hans ákvað að draga ESB-umsóknina formlega til baka með bréfi utanríkis­ráðherra til Evrópu­sambandsins; nú sé því ekki verið að móta þessa nýju stefnu að vild Samfylkingar­manna, sem vildu einfald­lega "halda áfram viðræðunum", heldur að setja málið þannig fram, að þjóðin taki ákvörðun, hvort hafnar verði nýjar viðræður, sem gerist þá með nýrri aðildar­umsókn.

Verði þetta ofan á, er það samt engin ástæða til að fara ofan af þeirri rök­studdu skoðun sem sett er m.a. fram hér í nýlegri grein: Aukinn meirihluti til framsals fullveldis er bæði eðlilegur og nauðsynlegur. Nærliggjandi stór­veldi, sem hefur um 1580 sinnum fleiri íbúa en Ísland, getur vitaskuld, að teknu tilliti til allrar sögulegrar reynslu, ásælzt nágrannalönd sín, og ein helzta aðferðin er með leyndum og ljósum áróðri, þar sem reynt er að neyta yfir­burða í mannafla og auði.

Augljóst er, að forsvarsmenn ríkisins stóðu sig ekki í hlutverki sínu gagnvart ásælni Evrópu­sambandsins á þessu sviði, meðan hin ESB-sinnaða Jóhönnustjórn sat hér að völdum. 

  1. Svokallaðri "Evrópustofu" var gefið hér frjálst skotleyfi til áróðurs og áhrifa og heimildir til að eyða hér yfir hálfum milljarði króna í þessu skyni.
  2. Sendiráð ESB á Íslandi var ennfremur misnotað í þessum sama tilgangi, ESB-sendi­herrann fór m.a. í "kynnisferðir" um Evrópu­sambandið víða um land. Hvort tveggja var harðlega gagnrýnt af einum okkar reyndustu sendiherrum, Tómasi Inga Olrich, í blaðagreinum hans og bók, enda telst þetta brot á s.k. Vínarsamningi um skyldur sendiráða.
  3. ESB-fjármagnaðir styrkir flæddu hér um samfélagið, til þess fallnir að mýkja hugsun þiggjendanna og fjölskyldna þeirra gagnvart þessu stór­veldi. Er enn eftir að upplýsa betur um allt það ágenga útþenslu-apparat, sem mun hafa dreift hér um fimm milljörðum króna til ýmissa fyrir­tækja, samtaka og einstaklinga. Um þetta ritaði t.d. Vigdís Hauksdóttir, þáv. formaður fjárlaga­nefndar, grein í Morgunblaðið.
  4. Þá var óspart verið að bjóða héðan fulltrúum ýmissa samtaka: verka­lýðs­félaga, pólitískra samtaka, lista­manna og fagfélaga, ungmenna­samtaka o.s.frv. til Brussel, til að "fræðast" í höfuð­stöðvum sambandsins, og þar var ekki sparað við þiggj­endurna í viðurgerningi, gistirými og dagpen­ingum! Hefur Jón Bjarnason, núv. formaður Heimssýnar, m.a. fjallað um það í blaðagrein í Fréttablaðinu.

Sporin hræða því nú þegar og ekki aðeins hér innanlands, heldur einnig vegna reynslunnar erlendis, þar sem ESB beitti sér miskunnarlaust við að ausa fé í ESB-innlimunar-áróður í löndum eins og Tékklandi, Svíþjóð og Noregi. 

Evrópusambandið hefur lengi stefnt á að verða stórveldi , vill að Evrópa öll verði þar inni* og VILL því komast yfir ný lönd og m.a. hernaðarlega mikilvæg svæði, enda hefur verið tekin ákvörðun um að hervæða sambandið með því að koma á fót ESB-her (en andstaða upp­lýstra Breta við að sjóher þeirra yrði settur undir ESB-stjórn átti m.a. sinn þátt í Brexit-málinu). Að Bretar hverfi úr ESB mun ekki minnka ásókn þess síðar­nefnda í efnahags­lega arðbær land- og hafsvæði, og muna skulum við, að þótt Ísland sé 103.000 ferkílómetrar, er fiskveiði­lögsagan 758.000 fkm. Það er eftir miklu að slægjast í þessari efna­hags­lögsögu okkar, og hernaðar­mikilvægi ("strategische Interesse", með orðum útþenslusinna í Berlín) bæði landsins og lögsögunnar hefur ekki minnkað!

* Sbr. hér: ESB ætlar sér ekkert minna en ALLA EVRÓPU, þ.e. sú athugasemd undirritaðs, sem er bein tilvitnun í samþykkt Evrópusambandsins, þar sem fram kemur, að "Our aim is One Europe."

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þjóðaratkvæði um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband