Óvænt "lausn" sem brúar ólík sjónarmið eða tekin stór áhætta fyrir fullveldi Íslands?

Skv. Frétta­blaðinu verður þjóðar­at­kvæðagreiðsla á kjör­tíma­bil­inu um hvort hefja eigi að nýju við­ræður við ESB. Ætla má, að með því orða­lagi telji BB sig standa við fyrri stjórnar­stefnu, þá, að rík­is­stjórn Sigmundar Davíðs og hans ákvað að draga ESB-umsóknina formlega til baka með bréfi utanríkis­ráðherra til Evrópu­sambandsins; nú sé því ekki verið að móta þessa nýju stefnu að vild Samfylkingar­manna, sem vildu einfald­lega "halda áfram viðræðunum", heldur að setja málið þannig fram, að þjóðin taki ákvörðun, hvort hafnar verði nýjar viðræður, sem gerist þá með nýrri aðildar­umsókn.

Verði þetta ofan á, er það samt engin ástæða til að fara ofan af þeirri rök­studdu skoðun sem sett er m.a. fram hér í nýlegri grein: Aukinn meirihluti til framsals fullveldis er bæði eðlilegur og nauðsynlegur. Nærliggjandi stór­veldi, sem hefur um 1580 sinnum fleiri íbúa en Ísland, getur vitaskuld, að teknu tilliti til allrar sögulegrar reynslu, ásælzt nágrannalönd sín, og ein helzta aðferðin er með leyndum og ljósum áróðri, þar sem reynt er að neyta yfir­burða í mannafla og auði.

Augljóst er, að forsvarsmenn ríkisins stóðu sig ekki í hlutverki sínu gagnvart ásælni Evrópu­sambandsins á þessu sviði, meðan hin ESB-sinnaða Jóhönnustjórn sat hér að völdum. 

  1. Svokallaðri "Evrópustofu" var gefið hér frjálst skotleyfi til áróðurs og áhrifa og heimildir til að eyða hér yfir hálfum milljarði króna í þessu skyni.
  2. Sendiráð ESB á Íslandi var ennfremur misnotað í þessum sama tilgangi, ESB-sendi­herrann fór m.a. í "kynnisferðir" um Evrópu­sambandið víða um land. Hvort tveggja var harðlega gagnrýnt af einum okkar reyndustu sendiherrum, Tómasi Inga Olrich, í blaðagreinum hans og bók, enda telst þetta brot á s.k. Vínarsamningi um skyldur sendiráða.
  3. ESB-fjármagnaðir styrkir flæddu hér um samfélagið, til þess fallnir að mýkja hugsun þiggjendanna og fjölskyldna þeirra gagnvart þessu stór­veldi. Er enn eftir að upplýsa betur um allt það ágenga útþenslu-apparat, sem mun hafa dreift hér um fimm milljörðum króna til ýmissa fyrir­tækja, samtaka og einstaklinga. Um þetta ritaði t.d. Vigdís Hauksdóttir, þáv. formaður fjárlaga­nefndar, grein í Morgunblaðið.
  4. Þá var óspart verið að bjóða héðan fulltrúum ýmissa samtaka: verka­lýðs­félaga, pólitískra samtaka, lista­manna og fagfélaga, ungmenna­samtaka o.s.frv. til Brussel, til að "fræðast" í höfuð­stöðvum sambandsins, og þar var ekki sparað við þiggj­endurna í viðurgerningi, gistirými og dagpen­ingum! Hefur Jón Bjarnason, núv. formaður Heimssýnar, m.a. fjallað um það í blaðagrein í Fréttablaðinu.

Sporin hræða því nú þegar og ekki aðeins hér innanlands, heldur einnig vegna reynslunnar erlendis, þar sem ESB beitti sér miskunnarlaust við að ausa fé í ESB-innlimunar-áróður í löndum eins og Tékklandi, Svíþjóð og Noregi. 

Evrópusambandið hefur lengi stefnt á að verða stórveldi , vill að Evrópa öll verði þar inni* og VILL því komast yfir ný lönd og m.a. hernaðarlega mikilvæg svæði, enda hefur verið tekin ákvörðun um að hervæða sambandið með því að koma á fót ESB-her (en andstaða upp­lýstra Breta við að sjóher þeirra yrði settur undir ESB-stjórn átti m.a. sinn þátt í Brexit-málinu). Að Bretar hverfi úr ESB mun ekki minnka ásókn þess síðar­nefnda í efnahags­lega arðbær land- og hafsvæði, og muna skulum við, að þótt Ísland sé 103.000 ferkílómetrar, er fiskveiði­lögsagan 758.000 fkm. Það er eftir miklu að slægjast í þessari efna­hags­lögsögu okkar, og hernaðar­mikilvægi ("strategische Interesse", með orðum útþenslusinna í Berlín) bæði landsins og lögsögunnar hefur ekki minnkað!

* Sbr. hér: ESB ætlar sér ekkert minna en ALLA EVRÓPU, þ.e. sú athugasemd undirritaðs, sem er bein tilvitnun í samþykkt Evrópusambandsins, þar sem fram kemur, að "Our aim is One Europe."

Jón Valur Jensson.


mbl.is Þjóðaratkvæði um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þetta yrði mjög varhugavert og ef þessar kosningar yrðu að veruleika þá er ekki vafamál að ESB myndu planta launuðum áróðursmönnum.

Valdimar Samúelsson, 2.1.2017 kl. 12:05

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Valdimar. Slíkt væri brot á Vínarsáttmálanum.

Bestu vopnin gegn áróðursmönnum eru beinharðar staðreyndir, þar á meðal sú staðreynd að einungis einn svarmöguleiki er löglegur: Nei.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.1.2017 kl. 12:47

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sammála þér, Guðmundur. :)

En viðvörun Valdimars er hér ekki ófyrirsynju, enda hefur það margoft gerzt hér, að stjórnvöld framfylgi ekki lögum. En í þessu máli dugir bara harkan sex.

Jón Valur Jensson, 2.1.2017 kl. 14:49

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Við höfum nýlegt fordæmi fyrir því að Hæstiréttur Íslands dæmi kosningar ógildar (til stjórnlagaþings) vegna formgalla. Ef formgalli nægir til ógildingar hlýtur efnislegur annmarki að gera það líka.

Ef við berum þetta saman við Forsetakjör eða kosningar til Alþingis, þá er grundvallarforsenda þess að nafn einstaklings eða bókstafur lista megi vera á kjörseðli, að sá einstaklingur eða samtök hafi skilað inn löglegu framboði og séu þar með löglegir valkostir í viðkomandi kosningum.

Í þjóðaratkvæðagreiðslu líkt og þeirri sem hér um ræðir eru ekki frambjóðendur eða listar þeirra á kjörseðlinum, heldur svarmöguleikar sem eru þá í sömu stöðu og frambjóðendur hvað varðar "kjörgengi". Alveg eins og frambjóðendur þurfa að vera löglega kjörgengir til að komast á kjörseðil, hlýtur að þurfa að gera sömu kröfur til svarmöguleika í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem útilokar ólöglega svarmöguleika.

Svo dæmi sé tekið myndi ekki hvarfla að neinum heilvita manni að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort það ætti að vísa öllum með dökkan húðlit úr landi, þar sem "JÁ" væri meðal svarmöguleika. Einfaldlega vegna þess að slík niðurstaða er ekki leyfileg samkvæmt stjórnarskrá. Í slíku tilviki gæti því aldrei verið um að ræða nema einn löglegan svarmöguleika (NEI). Jafnvel þó einhverjum dytti í hug að setja hinn ólöglega svarmöguleika "JÁ" á kjörseðilinn gæti niðurstaða í þá veru aldrei bundið neinn.

Það sem skiptir öllu máli fyrir þá "Nei-hreyfingu" sem færi af stað í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild, er að útskýra það í málflutningi sínum að "NEI" sé eini löglegi svarmöguleikinn. Ég leyfi mér svo að treysta því að fæstir kjósendur vilji kjósa ólöglega. Mögulega munu samt einhverjir vilja sýna af sér einbeittan brotavilja með því að merkja við "JÁ" en þeir hljóta þá að verða í minnihluta.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.1.2017 kl. 15:23

5 Smámynd: Samtök um rannsóknir á ESB ...

Gott hjá þér, Guðmundur, mjög gott. smile --JVJ.

Samtök um rannsóknir á ESB ..., 2.1.2017 kl. 18:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband