Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016
13.5.2016 | 12:37
Evrópusambandið tekur sér alræðisvald yfir fiskveiðilögsögu milli 12 og 200 mílna!
Auðskilin er viðvarandi andstaða þjóðarinnar gegn inntöku í evrópskt stórveldi.
"Lagasetningarvald á sviði sjávarútvegs er fyrst og fremst hjá stofnunum ESB og aðildarríkin hafa framselt vald til stefnumótunar á sviði sjávarútvegs til sambandsins.[nmgr.244] Afleidd löggjöf á þessu sviði þarf aukinn meirihluta atkvæða í ráðherraráðinu til að hljóta samþykki, en Evrópuþingið hefur eingöngu ráðgefandi hlutverk á þessu sviði.[nmgr.245]"
Hér er engin miskunn hjá Magnúsi, en vitnað var með þessu í opinberan texta: Tengsl Íslands og Evrópusambandsins, með undirtitlinum "Skýrsla Evrópunefndar um samstarfið á vettvangi EES og Schengen og um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu", forsætisráðuneytið, Rv. 2007, bls. 96 (allar feitletranir mínar, JVJ). Og áfram segir í textanum (og TAKIÐ VEL EFTIR FYRSTU SETNINGUNNI):
- "Samkvæmt meginreglunni um jafnan aðgang hafa öll aðildarríki ESB ótvíræðan rétt fyrir fiskiskip sín til veiða á öllum miðum aðildarríkjanna innan 200 mílna markanna.246
- Sá aðgangur er þó ekki ótakmarkaður því reglur sambandsins um ákvörðun hámarksafla og úthlutun aflaheimilda til aðildarríkjanna fela í sér veigamikla takmörkun á meginreglunni um jafnan aðgang þar sem fiskiskipum er einungis heimilt að veiða á þeim svæðum og úr þeim stofnum sem aflaheimildirnar eru bundnar við.[247]
- [Bls. 97:]
- Aðildarríkjunum er einnig heimilt að takmarka veiðar á svæðinu út að 12 mílum við eigin skip,[248] auk þess sem veiðar á nokkrum öðrum svæðum eru takmarkaðar vegna verndarsjónarmiða.[249] Þá er aðildarríkjum heimilt að grípa til neyðarráðstafana og setja reglur til verndar fiskistofnunum þegar ákveðnir fiskistofnar eða fiskimið eru í verulegri hættu og talið er að tafir myndu leiða til tjóns.[250] Loks ber að nefna að aðildarríkjum er heimilt að grípa til ráðstafana sem miða að verndun og stjórnun fiskistofna þegar um er að ræða fiskistofna sem eru staðbundnir og varða eingöngu skip frá viðkomandi aðildarríki. Þessar ráðstafanir verða þó að vera í samræmi við markmið sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar og mega ekki ganga lengra en löggjöf ESB segir til um."[251]
NEÐANMÁLSGREINAR við tilvitnaða textann hér fyrir ofan, í sama riti:
244 Sbr. m.a. 5. gr., 6. gr. og 7. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002.
245 Sbr. 2. mgr. 37. gr. Rómarsáttmálans. Hingað til hafa eingöngu verið settar reglugerðir á sviði sjávarútvegs, en ekki tilskipanir. Það er meginregla að stofnanir ESB hafa valdheimildir til að setja reglur á sviði sjávarútvegs. Í dómi gegn Bretlandi nr. 804/79 kom fram að þótt ráðið hefði ekki sett reglur á því sviði sem valdframsal aðildarríkjanna tekur til hefðu aðildarríkin ekki heimild til að setja reglur á viðkomandi sviði. Því var einnig slegið föstu að vald til þess að setja reglur um verndarráðstafanir á hafinu féllu að öllu leyti undir valdsvið stofnana ESB en ekki undir valdsvið aðildarríkjanna.
246 Sbr. 17. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002.
247 Óttar Pálsson og Stefán Már Stefánsson (2003), bls. 53-54.
248 Sbr. 1. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 17. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002.
249 Sérstakar reglur gilda t.d. í kringum Hjaltlandseyjar og Orkneyjar og um veiðar í Miðjarðarhafi og Eystrasalti.
250 Sbr. 8. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002. Þessar ráðstafanir mega ekki vara lengur en 3 mánuði og þarf aðildarríki m.a. að tilkynna þær til framkvæmdastjórnarinnar, sem þarf að samþykkja verndaraðgerðirnar, breyta þeim eða hafna innan 15 vinnudaga frá tilkynningu.
251 Sbr. 10. gr. reglugerðar ráðherraráðsins nr. 2371/2002." (Tengsl Íslands og Evrópusambandsins, með undirtitlinum "Skýrsla Evrópunefndar um samstarfið á vettvangi EES og Schengen og um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu", forsætisráðuneytið, Rv. 2007, bls. 96-97, allar feitletranir mínar, JVJ.)
Og hér er margt fyrir Esb-sinnana að læra og tileinka sér!
Svo mæta hér Esb-erindrekar frá Möltu sem reyna að "heilaþvo" fullveldis-sinnaðan alþingismann, Vigdísi Hauksdóttur, með þeim orðum, að "Íslendingar þyrftu ekki að óttast neitt; lausn myndi finnast á sjávarútvegsmálum"!!!
En það er í 1. lagi ljóst, að "samkvæmt meginreglunni um jafnan aðgang hafa öll aðildarríki ESB ótvíræðan rétt fyrir fiskiskip sín til veiða á öllum miðum aðildarríkjanna innan 200 mílna markanna," í 2. lagi, að sú hugmynd sumra, að fiskveiðilögsaga, sem snerti ekki lögsögu annarra Esb-ríkja, sé alveg sér á báti og falli ekki undir þessa meginreglu, er einfaldlega villuhugmynd, sem hvergi sér stað í lögum Esb., og í 3. lagi, að Malta fræðir okkur ekkert um að óhætt sé að sogast inn í Evrópusambandið.
VIÐAUKI
Í þessu mikilvæga plaggi: FISKVEIÐISTEFNA ESB OG KVÓTAHOPP (utanríkisráðuneytið, ágúst 2008), kom m.a. þetta fram (auðk. hér, jvj):
- "Jafn aðgangur að hafsvæðum og auðlindum hafsins er meginregla í fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Meginreglan um jafnan aðgang (equal access) hefur gilt frá árinu 1970 þegar fyrsta reglugerð ESB um sjávarútvegsmál var samþykkt, [Nmgr.1: Reglugerð 2141/70 um sameiginlega stefnu í uppbyggingu sjávarútvegsins, 5. gr.] en hún kemur nú fram í 1. mgr. 17. gr. grunnreglugerðar 2371/2002. [Nmgr.2: 1. mgr. 17. gr. grunnreglugerðar 2371/2002 segir: Fiskveiðiskip sambandsins skulu hafa jafnan aðgang að hafsvæðum og auðlindum á öllum hafsvæðum sambandsins öðrum en þeim sem vísað er til í 2. mgr. (sérregla sem gildir innan 12 sjómílna lögsögu aðildarríkjanna) að virtum þeim reglum sem settar eru samkvæmt 2. kafla (hér er vísað til hvers konar verndarráðstafana).] Eftir 1983 hefur meginreglan um jafnan aðgang sætt verulegum takmörkunum en það ár var heildarstefna í sjávarútvegsmálum lögfest með þremur reglugerðum ..." [Bls. 2, nánar þar, en þessar reglugerðir myndu ekki veita okkur neinn einkarétt hér, þær horfa aðeins til stofnverndunar og fiskveiðitakmarkana Esb. (innsk. JVJ)]
- "Við aðild Íslands að ESB yrðu fjárfestingar annarra ESB borgara og fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi heimilar. Ekki mætti mismuna erlendum aðilum í óhag, enda ættu allir að sitja við sama borð." (Bls. 9.)
- Með brezkri löggjöf árið 1983 var í varnarskyni fyrir sjómenn þar kveðið á um, að a.m.k. 75% hverrar fiskiskips-áhafnar "skyldi vera búsett í Bretlandi. Á þetta reyndi í Agegate-málinu," og var farið með það í Evrópudómstólinn, sem taldi "að með þessu væri brotið gegn ESB-rétti því þetta færi gegn tilgangi og markmiðum landskvótakerfisins." (Bls.5.)
- "Evrópudómstóllinn úrskurðaði í s.k. Factortame-máli að umrædd skilyrði bresku laganna [annarra brezkra laga, innsk. jvj] um búsetu eða ríkisfang væru andstæð lögum Evrópusambandsins, einkum 43. gr. Rs. (áður 52. gr.)[Rs. = Rómarsáttmálinn] um rétt þegns og fyrirtækja til að stofna og starfrækja sjálfstæðan atvinnurekstur í öðru aðildarríki og einnig 294. gr. Rs. (áður 221. gr.) sem varðar jafnan rétt til fjárfestinga í félögum. Dómstóllinn tók jafnframt fram að heimilt væri að setja reglur um fiskiskip sem gerð eru út frá aðildarríkjunum, en óheimilt væri að tengja þær á einhvern hátt lögheimili eða þjóðerni eigenda útgerðar." (Bls. 6.)
- "Rétturinn til að búa, starfa og fjárfesta hvar sem er í Evrópusambandinu er grundvöllur samstarfs aðildarríkjanna og því gefst lítið svigrúm til að banna einstaklingum og fyrirtækjum að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum annarra aðildarríkja." (Bls. 7.)
Um allt þetta má lesa mun nákvæmar og í fleiri atriðum í nefndri samantekt, sem er nú ekki nema tæplega 8 bls. texti + efnisyfirlit + heimildaskrá. Ég tel þó ekki nógu varlega ályktað þar sums staðar um áhættuna af því að Ísland láti sogast í Evrópusambandið.
Jón Valur Jensson.
Áður birt á Moggabloggi höfundar 13. marz 2012, en er í jafngóðu gildi og þá.
Varðandi könnun MMR (sjá fréttartengil á Mbl.is hér neðar) má geta þess, að MJÖG hlynntir "aðild" að Evrópusambandinu eru nú í maí 2016 einungis 9,5% landsmanna skv. þeirri skoðanakönnun, en MJÖG andvígir eru 31,7%, meira en þrefalt fleiri. Þess vegna er þeim mun furðulegra að forsetaframbjóðandinn Guðni Th. Jóhannesson ljái máls á því að Ísland verði partur af þessu stórveldi og nefni ranglega sem "kost", að þá getum við losnað við krónuna!* (Sjá hér: Guðni Th. Jóhannesson er ekki einarður verjandi landsréttinda.)
* Margir segjast hafa það á móti krónunni, að henni fylgi háir vextir, en það er ekkert lögmál, að svo hljóti að vera, heldur er bankastjórn Seðlabankans (og þar með ríkisstjórn og Alþingi) ábyrg fyrir okurvaxtastefnunni, sbr. einnig upplýsingar frá Má Wolfgang Mixa í þessari samantekt: Hærri raunvextir hér en í nágrannaríkjum hafa ekkert með gjaldmiðil okkar að gera. -JVJ.
Rúmur helmingur á móti inngöngu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2016 | 00:03
Guðni Th. Jóhannesson er ekki einarður verjandi landsréttinda
Það er ekkert hald í Guðna. Hann er ljúfmenni, en var kjarklaus í Icesave-málinu. Í stað skýrrar höfnunar ljær hann svo máls á því, að Ísland geti gengið í ESB og að því geti fylgt "kostir".
Hann talar um að hann sé ekki [principielt] á móti því að sækja um að Ísland fari inn í Evrópusambandið, ef allar kröfur okkar verði uppfylltar, en þær gætu nú verið harla vægar af hálfu Samfylkingar-stýrðrar ríkisstjórnar!
Í viðtali einn innhringjandann á Útvarpi Sögu síðdegis á mánudag nefndi Guðni það sem einn "kost" við að fara inn í ESB, að við fengjum eitthvað annað en óstyrka krónu með háum vöxtum; en með þessu afhjúpaði hann í senn vanþekkingu sína (því að vel er hægt að setja lög um hámarksvexti hér án þess að fara inn í ESB*) og birti veikleika sinn fyrir Evrópusambandinu og að hann kippi sér ekkert upp við, að löggjöf þess yrði á öllum sviðum æðri okkar löggjöf, en okkar eigin lög yrðu víkjandi í hverju einasta tilfelli þar sem íslenzk og ESB-lög rækju hornin hvor í önnur.
Í viðtali Guðna við undirritaðan í sama þætti kom fram, að hann greiddi atkvæði með Buchheit-samningnum um Icesave, samningi sem væri nú búinn að kosta þjóðina 80 milljarða króna útgjöld í vexti, en í erlendum gjaldeyri, auk þess að koma í veg fyrir EFTA-sýknudóminn!
Þetta var ekki bara spurning um atkvæði þessara 40% sem létu blekkjast af áróðri til að trúa að við hefðum ekki réttinn og gætum ekki unnið málið fyrir EFTA-dómstólnum, heldur gerðust þeir þar með þátttakendur í atlögu Breta og Hollendinga og þýja þeirra að ríkissjóði Íslands og orðstír þjóðarinnar.
Guðni kaus að að ganga ekki gegn straumi þeirra aðila sem voru hér olnbogafrekastir í málinu. En það gerði hins vegar Ólafur Ragnar Grímsson af alkunnri snilld og karlmennsku. Og það gerði reyndar Davíð Oddsson líka með glöggum leiðaraskrifum í Morgunblaðið og það jafnvel þótt mestallur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi greitt atkvæði með Buchheit-lögunum.
Forseti Íslands bjargaði málinu með grasrótinni og atfylgi þeirra 60% kjósenda, sem sýndu meira hugrekki og sjálfstæðishug en Guðni Th. Jóhannesson.
En umfram allt: Maðurinn er veikur fyrir Evrópusambandinu. Það er alger frágangssök fyrir forsetaframbjóðanda. Engin inngönguríki í ESB komast hjá því að framselja þangað æðsta og ráðandi löggjafarvald. Þeir menn eiga virkilega bágt sem skilja þetta ekki og hrikalegar afleiðingar slíks.
Það var þó síður en svo slæmt að fá þetta á hreint frá þessum frambjóðanda - þvert á móti nauðsynlegt að sjá, að við getum ekki kosið slíkan mann, því að forseta kjósum við fyrir hag og heill þjóðar okkar, ekki til að þókknast viðkomandi, þótt vel gefinn sé, eða til þess einfaldlega að svara brosi með brosi aulans.
* Sbr. ennfremur Má Wolfgang Mixa sem bendir á, að gæði lánveitinga á Íslandi hafa verið slök og að því hafi "stöðugt [þurft] að afskrifa allt of stóran hluta útlána. Slíkur kostnaður er dekkaður með því að hækka raunvexti fyrir alla hina." Nánar hér í grein: Hærri raunvextir hér en í nágrannaríkjum hafa ekkert með gjaldmiðil okkar að gera, sem byggist á upplýsingum frá Má Wolfgang Mixa.
Jón Valur Jensson.
Guðni Th. með afgerandi forystu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 13.5.2016 kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.5.2016 | 16:23
ESB-málpípur á Íslandi eru málpípur fortíðar, ekki farsællar framtíðar. En tekst BREXIT þrátt fyrir óhemju-áróður?
Aumt á Halla Tómasdóttir frambjóðandi að vita ekki af því, að Evrópusambandið heyrir til með fortíð gamalla, íhlutunarsamra stórvelda, ekki framtíð sjálfstæðra, vaxandi smáþjóða.
Það verður gaman að sjá svipinn á þessu ESB-liði, ef BREXIT tekst þrátt fyrir óheyrilegt áróðursfé sem Evrópusambandið eys í já-baráttu sína og Camerons í Bretlandi: 25 milljörðum evra, þ.e.a.s. um 3.500 milljörðum íslenzkra króna eða um 54.000 krónum íslenzkum á hvern íbúa Bretlands!
Ef naumt verður á mununum í atkvæðagreiðslunni, blasir við, að svo tröllaukinn áróður getur einmitt gert útslagið -- jafnvel hjá stórþjóð eins og Bretum!
Hvað verður þá um smærri þjóðir? -- Jú, það er þegar vitað, að Evrópusambandinu tókst einmitt slík áróðurs-atrenna að bæði Svíum og Tékkum, með naumum úrslitum, sem Svíar t.d. sáu fljótt eftir, en í sömu tilraun í Noregi rétt slapp sú þjóð við að láta innlimast.
Enn frekar þurfa Íslendingar að verða sér meðvitaðir um, að það gengur ekki, að við teflum fullveldinu í tvísýnu með því að láta bara nauman meirihluta ráða úrslitum, ef kosið yrði um inntöku Íslands í Evrópusambandið. Jafnvel til breytinga á Sambandslögunum þurfti 75% greiddra atkvæða. Að breyta frá sjálfstæðu, fullvalda lýðveldi til fullveldisskerts, lítt sjálfstæðs lands í meginmálum og opins fyrir erlendum útgerðum og fiskveiðum ESB-manna upp að 12 mílum a.m.k., það er engin smá-breyting, heldur risavaxin rétt eins og Gamli sáttmáli, þótt með öðrum hætti sé.
En einhver að minnsta kosti EIN stjórnarskrárbreyting þarf að verða hér á landi, þá er hún sú, að gerð verði lágmakskrafa um að 4/5 eða 3/4 atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi til að gera landið part af stórveldinu á meginlandinu.
Reyndar ætti hreinlega að banna slíka innlimun, enda eigum við ekki ein þetta land, heldur framtíðar-afkomendur okkar líka. Látum það ekki fara til spillis og verða verstöð erlendra fjármálafursta! Og höfnum TISA-samningnum, sem gerður er einmitt slíkum alþjóðlegum fjármálaöflum í hag!
PS. Annar pistill undirritaðs: Halla Tómasdóttir Icesave- og ESB-kona!
Jón Valur Jensson.
Val á milli fortíðar og framtíðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2016 | 12:41
Tyrkland, sem "færzt hefur nær alræðisstjórn", virðist ætla að fá sínu framgengt um frjálsan aðgang Tyrkja um Schengen-lönd
... og það án vegabréfsáritunar! Er þetta hluti af samningi um að Tyrkir taki aftur við flótta- og farandfólki sem hefur farið þaðan til Grikklands. Skilyrði fyrir samkomulaginu virðast af léttúðarástæðum ætla að hafa lítið vægi, "Realpolitik" látin ráða. Þar með fá 79 og hálf milljón Tyrkja þennan aðgang að Íslandi og Noregi rétt eins og að flestum ESB-löndum (þó ekki Bretlandi og Írlandi). Allstórt hlutfall tyrkneskra borgara er hlynnt hryðjuverkahreyfingum, og þar að auki er líklegt, að slíkir aðilar meðal Sýrlendinga og Íraka geti aflað sér falskra vegabréfa og komist þannig inn í Tyrkland og síðan um allt Schengen-svæðið.
Óháð afstöðu Ísendinga til Evrópusambandsins eru mörg gild rök gegn því, að við höldum áfram að vera aðilar að Schengen-samkomulaginu. Varnarhagsmunir Íslands og Norðurlanda ættu að vera hér augljóst umhugsunarefni. Meintri vörn í Schengen-kerfinu er nú þegar að stórum hluta kastað fyrir róða með því að fella niður kröfur þess kerfis um vegabréfaeftirlit, en Þýzkaland og Austurríki voru einmitt fyrir nokkrum dögum að leggja áherzlu á framlengingu undanþágna sinna frá því að framfylgja Schengen-skyldum sínum.
Evrópusambandið óttast, að án vegabréfasamkomulagsins muni Tyrkland ekki koma böndum á straum fólks inn í álfuna, segir í frétt BBC um málið. En það, hversu auðveldlega Tyrklandi hefur gengið þetta á allra síðustu vikum (um 80% árangur náðst við að stöðva fólk í för þess til Grikklands), hafa menn einmitt séð sem merki þess, að fram að því hafi stjórn Erdogans í raun verið að beita Evrópusambandið þumalskrúfu (að stoppa ekki flóttamenn af, sem vel var hægt) til þess að fá sínum kröfum framgengt í samningum, en þær kröfur Erdogan-stjórnarinnar ganga einkum út á þrennt: inntöku Tyrklands í Evrópusambandið (þ.e.a.s. að þeirra rykföllnu umsókn verði flýtt), sex milljarða evra greiðslu frá Brussel til Ankara (840 milljarða ísl. króna - og áframhald næstu ár!) og í 3. lagi, að tyrkneskir borgarar fái að leika lausum hala á Schengen-svæðinu!
Sjaldan hafa Evrópuríki gert jafnmikla undanláts- og uppgjafarsamninga sem þá, sem hér um ræðir, og minnir þetta óneitanlega á Münchenar-samkomulag Chamberlans og Daladiers við Hitler 1938!
Í frétt BBC er bent á, að Evrópuþingið og aðildarríki ESB þurfi að samþykkja þessa ráðstöfun, áður en Tyrkir geti byrjað að ferðast vegabréfslaust um Schengen-svæðið. Þá geri ESB ýmsar kröfur til ríkja: að þau standist kröfur um m.a. tjáningarfrelsi, sanngjörn réttarhöld og endurskoðun hryðjuverkalöggjafar til að tryggja réttindi minnihlutahópa, áður en það aflétti kvöðum um vegabréfsáritanir. Hætt er þó við, að í þeirri þýzku Realpolitik (hugtakið frá tíma Bismarcks) sem hér er greinilega á döfinni, verði svona "aukaatriði" annaðhvort sniðgengin eða beitt yfirborðslegum kattarþvotti til að láta líta svo út, sem Tyrkland sé farið að "standa sig betur". En Tyrkjastjórn er þarna í þeim mun sterkari málamiðlunarstöðu sem hún hefur á síðustu mánuðum fjölgað mjög handtökum blaðamanna og lögsóknum gegn þúsundum manna vegna meintra móðgana við forsetann Erdogan.
Uggvænleg er því hin sennilega niðurstaða þessa máls, sbr. niðurlag fréttar Mbl.is af málinu:
- Í umfjöllun BBC segir að ef framkvæmdastjórn ESB leggur til að Tyrkir fái að ferðast frjálsir innan Evrópu verði það með miklum trega. Erfitt sé að halda því fram að Tyrkland standist þessar kröfur, en stjórnvöld hafa fært sig nær alræðisstjórn síðustu misserin. Nauðsyn vegna flóttamannastraumsins til Evrópu knýi hins vegar á um að þetta verði látið eftir tyrkneskum stjórnvöldum.
En íslenzkum stjórnvöldum er frjálst að segja upp Schengen-samkomulaginu. Og nú þegar þessar fréttir allar eru í hámæli, m.a. fyrir stundu í hádegisfréttum Rúv, þar sem Þorvaldur Friðriksson fréttamaður var með afar upplýsandi frétt og fréttarskýringu í málinu, þá getur ríkisstjórn okkar naumast skotið sér undan því að svara spurningum fréttamanna um hvort við séum ekki nauðbeygð, þessara breytinga vegna, til að segja upp Schengen-samningnum.
Jón Valur Jensson.
Tyrkir ferðast frjálsir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)