Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013
20.11.2013 | 23:58
Skúli Magnússon lögspekingur fer með fleipur um "almenna samstöðu" um heimild til framsals ríkisvalds
Hann á undarlega grein í Fréttablaðinu í dag hann Skúli, lagadósent við HÍ, héraðsdómari og nefndarmaður í nýrri stjórnarskrárnefnd -- undarlega fyrst og fremst fyrir tilhæfulaus orð hans um meinta almenna samstöðu til setningar stjórnarskrárákvæðis sem heimili "framsal ríkisvalds í þágu alþjóðlegrar og evrópskrar samvinnu".
ALDREI hefur farið fram nein atkvæðagreiðsla meðal almennings um slíkt ákvæði.
Um eða yfir 70% Íslendinga eru andvíg því að landið gangi í Evrópusambandið. Þeir, sem átta sig á þessu ákvæði, sem Skúli ræðir hér um, myndu flestir hafna því.
Hið ólöglega til stofnaða "stjórnlagaráð" lagði til heila nýja stjórnarskrá í 114 greinum. Grein 111 nefndist 'Framsal ríkisvalds' og er í takt við það sem Skúli gat um í grein sinni (þó er ekkert minnzt á "evrópska samvinnu" í 111. greininni).
Ekki var við það komandi hjá vinstri flokkunum að fá þjóðaratkvæðagreiðslu um þá 111. grein, þeir tvífelldu tillögu um það frá stjórnarandstöðunni, þannig að hvergi liggur fyrir, hvernig fólk hefði tekið á því ákvæði. Og hér má ekki gleyma því, að 1) mjög fáir munu hafa lesið allar stjórnarskrártillögurnar út í gegn, 2) þær -- og ekki sízt þessi grein -- fengu alls ófullnægjandi kynningu og umræðu í fjölmiðlum og 3) rúmur helmingur fólks með kosningarétt mætti ekki á kjörstað, og er vitað, að margir þar á meðal voru með því að tjá andstöðu sína við þessi frumvarpsdrög öll.
Þar að auki var 111. greinin samin, eins og vænta mátti af mörgum olnbogafrekum Evrópusambandssinnum í "ráðinu", á lymskulegan veg og jafnvel með áróðurskenndum hætti:
- "Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu ..." (feitletrun hér).
Þarna er strax verið að auglýsa fyrir fram meint ágæti nefnds framsals! Með slíku fororði er í greininni lagt til, að stofna megi til þjóðaratkvæðagreiðslu um slíkan þjóðréttarsamning um framsal ríkisvalds, þannig að allur umbúnaður slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu yrði þá þegar með áróðursblæ sem af sjálfum sér myndi mæla með framsalinu! Það er erfitt fyrir menn að hugsa: Ég er á móti friði og samvinnu! -- en málið snýst bara hreint ekki um það!
Svo yrði einfaldur meirihluti látinn ráða um útkomuna, í stað þess, að aukinn meirihluti kjósenda yrði látinn ráða, eins og ákvæði eru um í norskum lögum varðandi þingmeðferð slíks máls og í okkar eigin Sambandslagasáttmála frá 1. desember 1918 um uppsögn þess samnings (þar vargerð krafa til 75% kosningaþátttöku og 75% meirihluta atkvæða).
Þannig gætum við þá setið uppi með tvískipta þjóð, naumur meirihluti þeirra, sem mæta myndu á kjörstað (einna sízt aldraðir), fengi að ráða, en hinir engu og það um alla framtíð nánast! Og þetta gæti gerzt, jafnvel þó að vitað sé, að þeir, sem eru MJÖG andvígir inntöku landsins í Evrópusambandið, eru miklu stærra hlutfall slíkra andstæðinga heldur en hlutfall hina, sem eru MJÖG HLYNNTIR inngöngu í ESB, hefur reynzt vera meðal slíkra ESB-sinna. Ekki væri þetta uppskrift að mikilli þjóðarsátt og "samvinnu" þessara ólíku hópa!
Það er ennfremur fráleitt að kjósa að uppteikna inngöngu í Evrópusambandið sem fyrst og fremst eitthvað "í þágu friðar og efnahagssamvinnu." Evrópusambandið hefur nú þegar staðið fyrir stríðsaðgerðum í Norður-Afríku og á eftir að gera það víðar. "Efnahagssamvinnan" er heldur ekki svo að öllum þjóðum sambandsins líki.
Og svo er alls ekki minnzt á hitt, um hvað Evrópusambandið snýst að öðru leyti og í hve mörgum og alvarlegum atriðum þetta framsal ríkisvalds yrði, ef þjóðréttarsamningurinn yrði sá, sem fæli í sér inngöngu í þetta Evrópusamband. Hvergi er þarna minnzt á, að við yrðum þar með, strax við inntökusáttmálann ("aðildarsamninginn"), að afsala okkur æðstu og ráðandi löggjafarréttindum í hendur löggjafarsamkunda Evrópusambandsins, þ.e. ráðherraráðsins í Brussel, ESB-þingsins í Strassborg og Brussel og jafnvel framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (sem ein hefur rétt til að bera fram frumvörp í ESB-þinginu). Það stendur skýrum stöfum í hverjum slíkum "aðildarsamningi" (sem er reyndar rangnefni), að þegar lög einstakra svæða í Evrópusambandinu (þ.e. landslög) brjóti í bága við lög ESB, þá skuli lög ESB ein ráða, auk þess sem túlkunarvald í öllum ágreiningi, sem orðið gæti um þetta, er falið ESB-dómstólnum í Lúxemborg einum saman, en t.d. ekki gerðardómi viðkomandi lands og Evrópusambandsins. Þetta er að gera íslenzk lög að hornreku, þeim yrði kastað út í viðkomandi atriðum, um leið og Evrópusambandið setti lög um viðkomandi mál, þ.e.a.s. þar sem þetta tvennt rækist á. Æðsta löggjafarvaldið yfir okkur væri komið í hendur Brusselmanna. Í ráðherraráðinu, sem tekur sér meðal annars löggjafarvald yfir sjávarútvegsmálum, hefðum við 0,06% atkvæðavægi -- harla veika "rödd" til að standa gegn ásókn Breta, Spánverja og annarra í okkar fiskimið og útgerðir.
Og hér er aðeins verið að fjalla um löggjafarvaldið. En framkvæmdavaldið yrði líka æðst hjá Evrópusambandinu í mörgum málum, m.a. okkar eigin sjávarútvegsmálum, þ.m.t. um gerð veiðarfæra, lokun svæða, friðun fiskistofna o.fl.! Og dómsvaldið yrði æðst hjá áðurnefndum ESB-dómstóli, og hann er svo sannarlega enginn EFTA-dómstóll !
Allt þetta sniðgengur Skúli Magnússon að minnast á í grein sinni. Þetta gengur ekki, hr. lögspekingur!
Eftirmáli. Eins og við var að búast, var Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri hins ESB-sinnaða Fréttablaðs, ekki lengi að taka við sér og vitna til ummæla Skúla dósents Magnússonar, orðar þetta reyndar þannig í leiðara sínum í dag, fimmtud. 21. nóv.:
- "Þá séu flestir sammála um að bæta við ákvæði sem heimili framsal valds í þágu alþjóðasamvinnu."
Nú skal enginn efast um, að þetta er einhver heitasta ósk Ólafs ritstjóra, en það er óskhyggja einber hjá honum, að flestir séu sammála um þetta.
Í leiðaranum ('Já, það er hægt að breyta stjórnarskrá') kemur hins vegar fram viðurkenning á því, sem undirritaður hefur margítrekað bent á, um ólögmæti stjórnarráðskosningarinnar. Ólafur segir (feitletrun JVJ):
- "Endurskoðuninni sem stefnt var að á síðasta kjörtímabili var klúðrað af ýmsum orsökum. Mistök við framkvæmd stjórnlagaþingskosninganna leiddu til þess að Hæstiréttur ógilti þær. Þá voru gerð þau mistök að endurtaka ekki kosningarnar, sem var eina tæka leiðin, heldur skipa þá sem höfðu fengið flest atkvæði í stjórnlagaráð. Strax þá var búið að veikja umboð ráðsins. [Umboðið var raunar aðeins frá 30 þingmönnum, sem þar með brutu þágildandi lög um stjórnlagaþing; innskot JVJ.]
- Stjórnlagaráðið reyndist síðan ekki vandanum vaxið. Í stað þess að gera stjórnarskrána skýrari og reyna að tryggja betur festu í stjórnarfari gerði það tillögur um alltof víðtækar breytingar, sem sumar hverjar hefðu getað haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar og búið til alls konar stjórnskipulega óvissu. Tillögurnar fengu margvíslega gagnrýni, bæði frá innlendum og erlendum sérfræðingum.
- Þjóðaratkvæðagreiðslan var síðan líka gölluð; þar var spurt spurninga um sum mikilvæg atriði stjórnlaganna en ekki önnur, þannig að hún veitti heldur takmarkaða leiðsögn.
- Eftir þennan skelfilega málatilbúnað var gjörsamlega útilokað að ná samkomulagi um afgreiðslu breyttrar stjórnarskrár á Alþingi fyrir kosningar, enda er stjórnarskrá ekki plagg sem á að afgreiða í bullandi pólitískum ágreiningi."
Tilvitnun lýkur í leiðaraskrif Fréttablaðsins þennan fimmtudag.
Jón Valur Jensson.
Evrópumál | Breytt 21.11.2013 kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2013 | 17:36
Ólíkt betra er NAFTA Evrópusambandinu
Ragnheiður Elín Árnadóttir er með tillögu um tolla- og/eða vörugjalds-lækkun, sem myndi nýtast mörgum hér, þ.e. á innfluttum iðnaðarvörum frá Bandaríkjunum, en ofurtollar eru hér t.d. á innfluttum bílum. Og slík lækkun -- eða tollasamningur við Bandaríkin, jafnvel innganga í NAFTA -- myndi ekki kosta okkur snefil af löggjafarvalds-rétti Alþingis, ólíkt innlimun í Evrópusambandið.
Menn geta ekki þrætt fyrir þetta síðastnefnda, þ.e. að ESB heimtar æðstu löggjafarréttindi yfir hverju nýju meðlimaríki, þetta stendur í hverjum inntökusáttmála (accession treaty, sem ranglega er oftast kallaður hér "aðildarsamningur"). Og sá, sem gerir sér ekki grein fyrir þessari staðreynd og háskalegum afleiðingum hennar, heldur augljóslega ekki vöku sinni!
Eða lætur lesandinn sér detta í hug, að Kanada og Mexíkó myndu nokkurn tímann vilja veita Bandaríkjamönnum æðstu löggjafarréttindi yfir sér í krafti NAFTA-fríverzlunarbandalagsins?!
Jón Valur Jensson.
18.11.2013 | 17:54
Hvaða fullveldismál? spyrja sumir eins og álfar út úr hól
Ágætur maður taldi á Facebók, að gaman væri að heyra hvaða "fullveldismál" ýmsir væru "alltaf að tala um". Hér er svarið:
Það er öndverðan við ESB-innlimunaráráttu meirihluta (en ekki nærri allra) samfylkingarmanna. Eins og flestir eiga að vita, myndi sú stefna kosta það, að æðstu löggjafarréttindi yfir Íslandi yrðu þá komin í hendur Brusselbossa, og það væri nú nógu illt í sjálfu sér, en ekki batnaði það við, að þeir fengju líka í hendur æðsta stjórnvald og dómsvald á mörgum sviðum líka.
Allt tilheyrir þetta vald FULLVELDI Íslands, en evrókratar vilja í reynd stórskerða það, okkur til óbætanlegs skaða. Það er því ekkert undarlegt við hneykslan okkar fullveldissinna á landleysingjunum. Á 95 ára afmæli fullveldis og sjálfstæðis Íslands, eftir aðeins 13 daga, mættu þeir síðarnefndu iðrast í sekk og ösku, kafroðna og skammast sín.
Jón Valur Jensson.
Fullveldi og sjálfstæði Íslands | Breytt 19.11.2013 kl. 04:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2013 | 13:32
Fréttarbóla frá Brussel
Evrópusambandið reynir nú að slá því upp, að mikil aukning verði á framlagi þar til menningarmála, 1,46 milljörðum evra verði varið til þeirra 20142020, en í raun er þetta ekki nema 9% aukning og 34 milljarðar kr. árlega, samanlagt, til allra Evrópusambandslandanna 28 og EES-landanna þriggja. Sá litli hlutur Íslands, sem þarna yrði um að ræða, yrði líka fyrst og fremst fjármagnaður af okkur sjálfum.
Vissulega munar um 9% aukningu slíkra framlaga, og yfir því gleðjast eflaust margir listamenn og rithöfundar, á sama tíma og samdráttur er hjá ESB í flestum öðrum fjárveitingum. Þetta er samt alls ekki mál, sem vegið getur þungt í áróðrinum hjá fylgjendum innlimunar Íslands í evrópska stórveldið, það veldi sem nú stefnir hraðbyri í enn meiri valdsöfnun og miðstýringu, ef vilji ráðamanna bæði þar og í Þýzkalandi (nú síðast Gerhards Schröder, fyrrv. kanzlara) nær fram að ganga, eins og miklar líkur eru til.
Jón Valur Jensson.
Auknu fé varið til menningar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt 10.11.2013 kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2013 | 21:56
Æðstu bossar í Brussel stefna enn að pólitískt sameinuðu bandalagi (e. political union)
Og Evrópusambandið færist nær því, skref fyrir skref, segir José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á Twitter-síðu sinni í dag. "Fyrsta skrefið sé að ljúka þeirri vinnu að koma á bankabandalagi innan sambandsins," segir hann skv. Mbl.is (tengill neðar), og þar hafi Þýzkaland "ljóslega mikilvægu hlutverki að gegna í þeim efnum.
Og eins og segir á Mbl.is:
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem viðraðar eru slíkar hugmyndir af hálfu Barrosos en í stefnuræðu sinni í september á síðasta ári kallaði hann til að mynda eftir því að Evrópusambandið yrði þróað í að verða sambandsríki þjóðríkja (e. federation of nation states). Þá líkti hann sambandinu við heimsveldi á blaðamannafundi árið 2007.
Hér má rifja upp skrif undirritaðs um þær yfirlýsingar Barrosos, fyrst 19. maí 2009:
- Barroso forseti talar um heimsveldi sitt
- Af því að ýmsir virðast efins um stórveldisdrauma Evrópubandalagsins, þá er vert að vitna hér í sjálfan José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar EB, sem lét merkileg orð falla í þessa átt á blaðamannafundi hinn 17. júlí 2007. Þar kallaði hann bandalagið reyndar ekki stórveldi (Großmacht), eins og fyrirrennari hans Jacques Delors gerði, heldur heimsveldi (empire).
- Þetta kemur fram í frétt The Daily Telegraph: Barroso hails the European empire, hinn 18. júlí 2007, svohljóðandi:
- We are a very special construction unique in the history of mankind, said Mr Barroso yesterday. Sometimes I like to compare the EU as a creation to the organisation of empire. We have the dimension of empire. The commission president made his remarks on Europes historical mission while celebrating real progress on a new EU treaty deal to replace the constitution rejected by French and Dutch voters two years ago.
- Frá þessari frétt sagði Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, þann 25.7. 2007 með eftirfarandi hætti:
- Við erum mjög sérstök smíði sem er einstök í mannkynssögunni. Stundum líki ég Evrópusambandinu sem sköpunarverki við skipulag heimsveldis. Við búum yfir stærð heimsveldis. Þannig mælti José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á blaðamannafundi þann 17. júlí sl.
- Þannig tala tveir æðstu embættismenn Evrópubandalagsins. Vituð ér enn eða hvat?
Og einnig þetta 2012:
- Barroso krefst meira fullveldisframsals og SAMBANDSRÍKIS ESB
- 12. september 2012
- Á gersamlega ógagnrýninn hátt sagði Sjónvarpið í kvöld frá ræðu Barrosos í morgun, birti án athugasemda klígjulegt lýðræðis-áróðurshjal Barrosos til að réttlæta það stóraukna fullveldisframsal sem hann segir nauðsynlegt.
- Þessi æðsti maður Esb. boðaði í morgun, að Evrópusambandið ætti að fá til sín mun meira fullveldisvald (shared sovereignty) frá meðlimaríkjunum og verða SAMBANDSRÍKI. Þetta er raunar sama stefna og Esb-þingið í Strassborg mótaði fyrir nær 15 árum:
- Í samþykkt [Esb.]þingsins frá desember 1997 segir m.a.: Löndin sem sækja um aðild verða að sýna, að þau séu trú grundvallarmarkmiðum ríkjasambands sem stefnir í átt að sambandsríki (federal state). Í samþykktinni er hvatt til þess að afnema neitunarvald, minnka áhrif smáríkja og auka miðstjórnarvald.
(Ragnar Arnalds: Sjálfstæðið er sívirk auðlind, s. 103.).
- Þessu er m.a. framfylgt í krafti Lissabon-sáttmálans, sem eykur atkvæðahlut stærstu Esb-ríkjanna í leiðtogaráðinu og ráðherraráðinu í Brussel um 61% (tekur gildi 1.11. 2014) og skerðir neitunarvad einstakra ríkja verulega.
- Og ekki er við því að búast, að íslenzkir evrókratar gagnrýni þessa stefnu Barrosos.
- En að FELA fullveldisframsalið hrikalega, sem Ísland yrði að kyngja með aðild að þessu nýstórveldi (því sama sem í dag hótar Íslendingum viðskiptabanni vegna eðlilegra makrílveiða hér [12. september 2012]), það virðast þeir evrókratísku telja sjálfgefið hlutverk sitt og meginverkefni í kynningu á þessu valdfreka fyrirbæri.
Jón Valur Jensson.
ESB færist nær pólitísku bandalagi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)