Samþykkt þriðja orkupakkans felur í sér opið framtíðar-samþykki við raforku-sæstreng (með viðauka)

En talsmenn stjórnarflokkanna keppast hver um annan þveran um að af­neita þessari staðreynd, og ESB-hneigðir vinstri flokkar taka undir sama skræka söng hinna fáfróðu.

Stað­reynd­in liggur fyrir í orku­pakk­anum sjálf­um, mark­miðs­lýsingu hans í inn­gangs­orð­un­um, sem og í ákvæðum þar um, að ekki megi hindra raforku­flutning yfir landamæri. Vitaskuld er þar átt við raflínur milli landa, og þegar um þau lönd er að ræða, sem aðskilin eru með hafi, þá eru þær raflínur (eins og nú þegar er að finna hjá nágranna­þjóðum okkar) í formi sæstrengs.

Þetta má og þarf að rökstyðja miklu ýtar­legar, og það verður líka gert með viðauka við þennan pistil.

PS.  Óvænt er nú umræðu lokið um málið, "fleiri eru ekki á mælendaskrá," var þingforseti (WÞÞ) að tilkynna og boðaði atkvæðagreiðslu um málið nk. mánudag, um leið og hann sleit þingfundi rétt í þessu, kl. 19.35.

V I Ð A U K I

Skúli Magnússon, héraðsdóm­ari við Héraðs­dóm Rvíkur og fyrrv. skrif­stofu­stjóri EFTA-dóm­stóls­ins, hafn­ar rök­um um að lagn­ing sæ­strengs teng­ist þriðja orku­pakk­anum.

Bless­aður lög­fræð­ing­ur­inn gengur þarna fram hjá því, að strax í upp­hafi 1. gr. reglu­gerð­ar EVRÓPU­ÞINGS­INS OG RÁÐSINS (EB) nr. 714/2009 segir svo [feitletranir JVJ]:

"Efni og gildissvið

Markmiðið með þessari reglugerð er að:

a) setja sanngjarnar reglur um raforkuviðskipti yfir landamæri

og auka þannig samkeppni á innri markaðinum með raforku

að teknu tilliti til sérkenna landsbundinna markaða og

svæðismarkaða. Þetta felur í sér að komið verði á

fyrirkomulagi vegna jöfnunargreiðslna fyrir raforkuflæði

yfir landamæri og að settar verði samræmdar meginreglur

um gjöld vegna flutnings yfir landamæri og úthlutun

tiltækrar flutningsgetu samtengilína milli landsbundinna

flutningskerfa, ..."  

----Við sjáum vitaskuld fyrir okkur, að hafa megi raforkuviðskipti yfir landamæri t.d. Belgíu og Frakklands. Það verður ekki gert með því að flytja risa-rafgeyma í löngum flutningalestum yfir landamærin. Það þarf ekki að nefna það, að vitaskuld er þetta gert með RAFLÍNUM. En ef Ísland á að verða undirsett þessari reglugerð, þá verður rafmagn vitaskuld ekki flutt héðan með öðru móti en með þess háttar raflínum, sem eru í formi SÆSTRENGS. Lögfræðingur, sem þykist ekki skilja eða viðurkenna þetta, er eins og blindur á sinn lagalega texta. 

----Og ekki er þetta aðeins (orðrétt) "markmiðið með þessari reglugerð", heldur fylgja henni líka ákvæði 19.gr. um að "eftirlitsyfirvöld skulu vinna saman og með framkvæmdastjórninni og stofnuninni til að uppfylla markmið þessarar reglugerðar, eftir því sem við á, í samræmi við IX. kafla tilskipunar 2009/72/EB," og í 21. gr.: "Með fyrirvara um 2. mgr. skulu aðildarríkin setja reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum þessarar reglugerðar og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim ákvæðum sé beitt...."

----Ennfremur í almennum ákvæðum í I. viðauka við reglugerðina: "Flutningskerfisstjórar skulu leitast við að samþykkja öll viðskipti, þ.m.t. þau sem tengjast viðskiptum yfir landamæri."

----Ennfremur í 4.gr. reglugerðarinnar: "Allir flutningskerfisstjórar skulu starfa saman á vettvangi Bandalagsins í Evrópuneti raforkuflutningskerfisstjóra til að stuðla að tilkomu og starfsemi innri markaðarins á sviði raforku og viðskiptum yfir landamæri og til að tryggja bestu stjórn, samhæfðan rekstur og trausta tæknilega þróun evrópska raforkuflutningsnetsins."

----Kýs Skúli Magnússon að vera blindur á þessar staðreyndir í þeim afleita þingsályktunarpakka, sem nú er reynt að narra alþingismenn til að samþykkja? AUGLJÓSLEGA eru þarna ákvæði sem mæla fyrir um  raforkuviðskipti yfir landamæri, með RAFLÍNUM, sem í tilfelli eylandsins Íslands hlýtur að vera í formi SÆSTRENGS eða SÆSTRENGJA. Allar fullyrðingar um, að þriðji orkupakkinn feli EKKI í sér sæstrengi, eru því RAKIN LYGI, sem enginn lögfræðingur á að leggja nafn sitt við, hversu mikið sem honum kann að vera boðið í vel smurða þókknun fyrir sérálit sem gangi í þessa átt!

Í reglugerð Evrópusambandsins nr. 702/2009 frá 13. júlí 2009, um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, segir svo í 1. og 5. lið:

1) Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar frá 10. janúar 2007 sem ber yfirskriftina „Stefna í orkumálum fyrir Evrópu" er lögð áhersla á mikilvægi tilkomu innri markaðarins á sviði raforku og jarðgass. Það að bæta regluramma á vettvangi Bandalagsins var auðkennt sem lykilráðstöfun til að ná því markmiði. [...]

5) Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum Bandalagsins á sviði orku. Mat á áhrifum tilfanga, sem miðlæg stofnun þarf, leiddi í ljós að óháð, miðlæg stofnun hafði til langs tíma litið fjölmarga kosti umfram aðra valkosti. Stofna skal Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (stofnunin) til að bæta gloppur í löggjöfinni á vettvangi Bandalagsins og stuðla að skilvirkri starfsemi innri markaða fyrir raforku og jarðgas. Stofnunin skal einnig gera landsbundnum eftirlitsyfirvöldum kleift að auka samvinnu sína á vettvangi Bandalagsins og taka gagnkvæman þátt í Bandalagstengdri starfsemi.

Hér ber allt að sama brunni og ljóst, að með orkupakkanum er verið að gera öllum aðilum hans skylt fylgja eftir því aðal-markmiði að fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum Bandalagsins á sviði orku.

Í tilfelli Íslands merkir þetta ekki í sjálfu sér skyldu ríkisvaldsins að kosta og leggja héðan sæstreng, heldur einfaldlega, að engum leyfist að hindra viðskipti með raforku um slíkan sæstreng. Íslenzka ríkið mundi eiga aðild að þessum reglugerðum báðum, ef þriðji orkupakkinn verður samþykktur nk. mánudag 2. september, og stjórnvöld geta þá ekki undanþegið sjálf sig frá þeirri skyldu, skv. ofangreindu, að sjá til þess, að engar hindranir verði settar í veg fyrir lagningu og starfrækslu slíks sæstrengs eða sæstrengja.

Þeir stjórnmálamenn eru naumast læsir, sem sjá þetta ekki.

Jón Valur Jensson.


mbl.is „Ekki koma með enn eitt bullið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Samtök um rannsóknir á ESB ...

Í 7. kafla greinargerðar utanríkisráðherra (eða ráðuneytisins) með orkupakkanum er getið skýrslna starfshóps iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá júlí 2016, sem "fela meðal annars í sér heildstæða kostnaðar- og ábatagreiningu og mat á áhrifum sæstrengs á efnahag, heimili og atvinnulíf. Í skýrslunum kemur fram að sæstrengur myndi leiða til hækkunar á raforkuverði innanlands vegna tengingar við innri raforkumarkað ESB og þar með evrópskt raforkuverð." (Leturbr. hér, JVJ).

Ætlar einhver að afneita þessari staðreynd, sem vitni er borið um í skýrslu fyrir tvo af helztu ráðherrum Sjálfstæðisflokksins (Þórdísi Kolbrúnu og Bjarna Ben.) og síðan til vitnað í greinargerð þriðja ráðherrans (Guðlaugs Þórs) eins og frá greindi hér á undan?!

JVJ.

Samtök um rannsóknir á ESB ..., 29.8.2019 kl. 05:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband