Glæsileg málsvörn Vilhjálms Birgissonar og Mið­flokksmanna fyrir þjóðina, en Helga Vala fimbul­fambar "óhrædd", sæl með sitt fullveldis­framsal

Þúsundir manna sem starfa við stærstu verk­smiðjur landsins eiga á hættu að missa lífs­viður­væri sitt vegna stefnu Lands­virkj­unar og stjórn­valda sem kærulaus stefna að stór­hækkun raforku­verðs, bæði með verðstefnu LV og þriðja orku­pakkanum sem bundið gæti enda á starfsemi Álversins í Straums­vík, verk­smiðjanna á Grundar­tanga og jafnvel Fjarðaáls, sem verið hefur máttar­stólpi atvinnu­lífs og samgangna á Austfjörðum og skapað fjölda af­leiddra starfa í þjón­ustu, iðnaði og menningu, en að fjölskyldum þessara starfsmanna meðtöldum er þar um stóran hluta Austfirðinga að ræða.

Svo er komið fyrir álveri Rio Tinto í Straumsvík, að það hefur verið rekið með tapi í 8-9 ár (sjá viðtengda Mbl.is-frétt), og Vilhjálmur Birgisson, vara­forseti ASÍ og formaður Verkalýðsfélags Akraness, tel­ur "að litlu hafi munað, að því hefði verið lokað 2015." Á síðasta ári var fyrirtækið rekið með 42,1 milljón dala tapi, þ.e. upp á 5,2 milljarða króna, en árið áður, 2017, með 3,3 milljóna dala tapi [1], þannig að ljóst er, að þar hefur hallað mjög undan fæti.

Sú orkustefna stjórnvalda að láta skeika að sköpuðu um atvinnu­mál þessara verk­smiðju-kjarna­svæða og spá frekar í það að leyfa því að gerast, að rafmagn verði selt eins og hráefni úr landi (til að byggja upp atvinnulíf erlendis, ekki íslenzkra manna!), einfaldlega í þeirri von, að mikið verð fáist fyrir raforkuna, sú stefna er greini­lega ekki byggð á mikilli fyrirhyggju. Með því að tengjast orkukerfi ESB yrði allur almenningur að sætta sig við evrópskt verðlag á raforku, jafnvel allt að þreföldun þess, en hingað til hefur verð á rafmagni og hitaveituvatni verið meðal þeirra útgjaldapósta fjölskyldunnar, sem bezt koma út í samanburði við önnur lönd og haldið okkar lífskjörum nær meginlands­lífskjörum en oft er látið í veðri vaka.

Með þreföldun orkuverðs til álvera og annarra málmvinnslna á Íslandi væri verið að greiða þeim banahögg flestum hverjum eða öllum. Hvað ætlar ríkisstjórnin þá að gera fyrir það vel launaða starfsfólk, sem þar hafði vinnu? Kasta í það atvinnuleysisbótum eins og þessi úrræðalausa ríkisstjórn "gerði fyrir" starfsfólkið sem missti vinnuna hjá Wow?!

Það er ekki að undra, að glöggur Vilhjálmur Birgisson lætur til sín taka í þessu máli. Hann er traustur umboðsmaður verkafólks og verjandi hags­muna þess. Og það er alveg orðið ljóst af umræð­unni um orkupakka 3 og dýpkun hennar á síðustu viku til tíu dögum, að stjórnvöld hér hafa enga trúverðuga tryggingu fyrir því, að sá orkupakki mundi "ekki breyta hér neinu", eins og jafnvel hefur heyrzt af vörum fáfróðra þingmanna!

Uppskipting stór­fyrir­tækja í raforkuframleiðslu, Lands­virkjunar umfram allt, yrði meðal afleiðinga þess að staðfesta hér þriðja orku­pakkann undan­þágna­laust. Innlend gróðaöfl virðast nú þegar ágirnast þessa ríkiseign, sem þjóðin hefur í reynd byggt upp á mörgum áratugum og tekizt hefur að fjármagna og láta bera drjúgan arð eftir uppgreiðslur framkvæmda­lána. Þetta eru mjólk­ur­kýr samfélags okkar, LV skilaði 11 milljarða arði á síðasta ári og hann aðeins líklegur til að aukast. En bersýnileg fíkn leiðandi manna í Landvirkjun eftir sölutekjum af raforku­sölu til annarra landa á ekki að móta stefnu land­stjórnarinnar -- og heldur ekki augljós fjölskyldu­tengsl fjármála­ráðherrans við eigendur virkjana­réttinda á Norðausturlandi.

Vindmyllugarðar, sem víða gætu spillt fögru útsýni, ásamt fjöl­mörgum minni háttar virkjunum vatnsfalla, gætu spillt hér náttúru landsins, og er undarlegt að horfa upp á Vinstri græna styðja slíka stefnu. Áberandi er þar hin æpandi þögn umhverfisráðherra þeirra, hins umboðslausa utanþings­manns Guðmundar Inga Guðbrandssonar, sem hefur ekki sagt aukatekið orð um orku­pakkann, jafn-afdrifaríkt og inngrip hans yrði í íslenzka náttúru!

Raunalegt var að horfa á Helgu Völu Helgadóttur, sem fyrr í kvöld var nefnd skoppara­kringla Evrópu­sambandsins, réttlæta á eldhúsdegi á Alþingi og í stofum fólks augljósa andstöðu sína við allar tilraunir til að stöðva löggildingu þriðja orkupakkans. Paþetískan myndu sumir kalla þann fagurgala hennar um það fullveldis­framsal í orkumálum, sem felst í orkupakka flokks hennar, Samfylkingarinnar, ríkisstjórnarflokkanna þriggja, "Við­reisnar" og Pírata. Og ekki yrði það minna með fjórða orku­pakkanum, regluverki upp á þúsund blaðsíður, sem myndi flækja okkur enn meira í fjar­stýringuna frá Brussel og frá ACER-stofnun ESB, sem fær auknar valdheimildir í þeim fjórða pakka! Og merarhjörtun í Helgu Völu og öðrum ESB-sinnum myndu ekki standast þann þrýsting, að "halda verði áfram alþjóðlega sam­starf­inu" með evrópska stórveldinu, þegar að því drægi að innleiða þann pakka hér á Íslandi að frumkvæði þessara sex hugsanlegu landsölu­flokka!

Hér er aftur á móti sönn og góð þingræða hins augljóslega þreytta, en skarpa og skelegga Þorsteins Sæmundssonar, þing­manns Miðflokksins, í þessum eldhúsdags­umræðum Alþingis þetta miðvikudagskvöld (horfið og hlustið þegar 1 klst. og 50 og hálf mínúta er liðin af upptökunni):

https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/eldhusdagsumraedur-a-althingi/28615?ep=8gsjbh

Margsinnis er komið fram, að Steingrímur J. hefur sem forseti Alþingis fullt vald til að færa önnur dagskrármál þingsins fram fyrir það mál, sem þar hefur verið lengi rætt [2]. Makalaus er því sú hræsni hans og formanns þingflokks VG, Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, að kenna Miðflokknum um að "stöðva" störf Alþingis að öðrum málum! Steingrímur hefur það alveg í hendi sér að skipa dagskrá Alþingis með öðrum hætti, þannig að orku­pakka­málið verði ekki eitt rætt í ræðu­stóli Alþingis. Jafnvel kom  í gær fram tillaga fjögurra stjórnar­andstöðu­flokka (Samfylkingar, "Við­reisnar", Pírata og Flokks fólksins) um að gera nákvæm­lega þetta, og það viðurkenndi Steingrímur J. jafnvel í viðtali við Sjónvarpið í gærkvöldi, þ.e. að þetta væri í raun það sama sem Mið­flokk­urinn hefði lagt til! Samt þrjózkast hann enn við að breyta dagskránni, en ber þá líka mesta ábyrgð á þessum töfum á þingstörfum, meiri en nokkur annar þingmaður!

Já, þetta væl VG-manna (þ.m.t. Ara Trausta) yfir meintu málþófi Miðflokksins (þ.e. þingræðum sem eru reyndar einstak­lega fræðandi og málefna­legar) hefur innan­tóman hljóm hræsninnar.

[1] Markaður Fréttablaðsins 29. maí, frétt á baksíðu: Álver Rio Tinto tapaði ríflega fimm milljörðum.

[2] Sjá t.d. pistil Jóns Magnússonar, hrl. og fyrrverandi varaþingmanns: Blekkingar forseta Alþingis og málþófið.

Jón Valur Jensson.


mbl.is Fyrirtækjum „slátrað“ fyrir sæstreng?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Tek mjög undir þetta mál.

Hrólfur Þ Hraundal, 31.5.2019 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband